20.11.1985
Neðri deild: 17. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 787 í B-deild Alþingistíðinda. (641)

67. mál, orkulög

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður tók nú af mér ómakið að mestu leyti. En ég get ekki orða bundist vegna þeirra röksemda sem hér hafa verið færðar fram. Hjá þeim sem hafa talað fyrir því að þetta mál færi til allshn. hefur það sérstaklega verið fært fram að það séu efnisatriði málsins sem kalli á það að málið fari þangað. Nú er allt í einu komin fram beiðni um frestun á málinu frá hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni og röksemdafærslan er sú að hv. formaður iðnn. hafi staðið sig svo illa á síðasta þingi í að afgreiða hliðstæð mál sem þá voru fyrir nefndinni að það sé ástæða fyrir hæstv. forseta að kanna hvernig vinnubrögð hv. formanns hafi verið þá. Og ef sú yrði niðurstaðan að hann hafi unnið frekar slælega þá séu komin upp allt í einu rök fyrir því að málið skuli fara til einhverrar allt annarrar nefndar. Þá eru efnisatriði frv. sem sagt einskis virði. Ég vek athygli á þessu.

Mér sýnist málið hins vegar vera komið á að stig að það hljóti að vera spurning fyrir okkur þm. hvort við eigum yfirleitt að vera að vísa þessu máli til nefndar. Það er búið að fella að vísa málinu til sérnefndar. Og nú eru menn í deilu um það hvort eigi að vísa því til hv. iðnn. eða allshn. Ég er alveg tilbúinn að ræða það hvort það eigi yfirleitt að fara til nefndar og greiða bara atkvæði um málið nú þegar, ef umræðan er komin á svo lágt stig sem mér finnst hún vera. En ég ætla nú samt að greiða atkvæði með því að málið fari til hv. iðnn.