20.11.1985
Neðri deild: 17. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 788 í B-deild Alþingistíðinda. (642)

67. mál, orkulög

Forseti (Ingvar Gíslason):

Ég vil minna á að það er tillaga um það að vísa þessu máli til allshn. og um það á atkvæðagreiðsla að fara fram um 3. dagskrármálið. Ég vona að menn séu ekki orðnir svo ruglaðir í sínum eigin ræðum hér að menn átti sig ekki á því.

En út af því sem hér hefur verið talað og ekki síst vegna þess sem hv. 7. þm. Reykv. hefur sagt hér og farið fram á, að frestun fari fram á þessu máli, þá vill forseti minna á að þessi mál hafa mjög lengi verið til umræðu hér og menn hafa haft nægan tíma til að taka afstöðu til málsins efnislega, til hvaða nefndar þetta mál og mörg önnur fari. Af þeim ástæðum sér forseti enga ástæðu til þess að fresta þessu máli nú.

Ég vil líka minna á að þó að þetta mál kunni að hafa verið fyrir iðnn. í fyrra og ekki verið afgreitt þar þá er það út af fyrir sig engin sönnun þess að slælega hafi verið unnið í málinu eða í nefndinni yfirleitt. Einnig vill forseti minna á að það hefur engu máli enn verið vísað til hv. iðnn. (Gripið fram í.) Að því leyti til hefur naumast gefist tækifæri til þess fyrr en nú í dag, rétt er það, þannig að það hefur varla gefist tími til þess að nefndin kæmi saman nema til allra fyrsta fundar. Þannig að ég vona nú að það geti orðið gott samkomulag um það að við ljúkum þessu nú, þessum atkvæðagreiðslum, og ég ber upp tillögu um að vísa málinu til iðnn.