20.11.1985
Neðri deild: 17. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 803 í B-deild Alþingistíðinda. (656)

134. mál, álbræðsla við Straumsvík

Hjörleifur Guttormsson:

Ég held, hæstv. forseti, að við verðum að fá úr því skorið hvort þessir hæstv. ráðherrar koma hingað í þingsal og legg ég sérstaklega áherslu á að hæstv. fráfarandi iðnrh. sjái sér fært að vera viðstaddur þessa umræðu. Mér finnst algerlega óviðunandi fyrir okkur, sem er ætlað að taka þátt í þessum framhaldsfundi nú, að ræða málið án þess að þessir aðilar séu viðstaddir, og ég hafði sérstaklega gert grein fyrir ósk minni um nærveru hæstv. menntmrh. þegar rætt var um þessa umræðu við mig í gær og taldi tryggt að hann yrði hér viðstaddur.

Ég tek það fram að í þessu felst ekkert vanmat af minni hálfu á hæstv. starfandi iðnrh. En ég held að ég kjósi að gera hlé á máli mínu á meðan úr því fæst skorið hvort hæstv. menntmrh. kemur hér. (Forseti: Ég vil upplýsa að ég hef þegar sent hæstv. menntmrh. boð um að sækja fundinn og ég bíð svars núna.) Ég geri hlé á máli mínu, hæstv. forseti, þangað til úr því fæst skorið hvort hæstv. ráðh. kemur til að vera viðstaddur þessa umræðu. (Forseti: Ég vænti að hv. 5. þm. Austurl. bíði andartak. Ég vona að ég fái svar við þessari spurningu, sem á okkur brennur núna, innan mjög stutts tíma.) Já, virðulegur forseti. Mér er ekkert að vanbúnaði að hinkra við um stund og sjá hvort úr rætist. (Forseti: Það er upplýst að hæstv. menntmrh. er ekki í húsinu og það hefur ekki náðst til hans enn þá, en það verður gert fundarhlé um það bil 5 mínútur.). - [Fundarhlé.]