21.11.1985
Sameinað þing: 19. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 803 í B-deild Alþingistíðinda. (658)

Okurmál

Páll Pétursson:

Herra forseti. Þegar ég kvaddi mér hljóðs á þriðjudaginn var vonaðist ég eftir því að geta þá komist að. Það er nokkuð umhendis að hefja þessa umræðu enn á ný en ég býst samt við og vona að mönnum séu í fersku minni þau orðaskipti sem urðu s.l. þriðjudag.

Ég held að hér sé nefnilega um mikilsvert málefni að ræða og þessi umræða hjá okkur sé tímabær og ég vil þakka það sem af henni komið er. Ég vil byrja á því að þakka málshefjanda, hv. þm. Steingrími Sigfússyni, sem ég sé að vísu ekki í salnum núna og þætti betra að heyrði mál mitt - ef forseti vildi gera ráðstafanir til að hv. þm. Steingrímur Sigfússon væri viðstaddur þessa umræðuna. (Forseti: Ég veit ekki annað en hv. þm. hafi ættað að vera viðstaddur umræðuna.) Þó að hv. þm. sé ekki orðinn ráðherra hlýtur honum að bera skylda til að fylgjast með hér í þinginu. (Forseti: Það er upplýst að hv. 4. þm. Norðurl. e. er ekki staddur í þinghúsinu.) Mér þykir leiðinlegt að heyra þetta og varla vansalaust af honum að hefja hér umræðu án þess að fylgja henni þá eftir og fylgjast með því sem skeður.

En allt um það, þá ætlaði ég að þakka málshefjanda fyrir að hefja umræðuna og fyrir að leggja fram afmarkaðar spurningar sem hæstv. ráðherrar gátu svarað með skilmerkilegum hætti. Ég vil líka þakka þeim fyrir sín svör sem mér þóttu vera skilmerkileg. Ekki það að ég sé að fullyrða að ég sé sammála öllu sem hæstv. ráðherrar sögðu eða þá að ég sé sammála þeim spurningum sem málshefjandi lagði fram. Mér fannst sem sagt það nást með þessari umræðu að málshefjandi setti sitt mál skipulega fram og ráðherrar lýstu skoðun sinni skipulega. Það er lofsvert þegar svo er hér í hv. sameinuðu þingi.

Ríkisstj. hefur flest tekist vel. Þó hefur orðið nokkur misbrestur á. Stjórn peningamála hefur farið úrskeiðis og vextir í landinu eru of háir. Hæstv. viðskrh. taldi í fyrradag að hinir háu vextir hefðu stuðlað að miklum peningalegum sparnaði. Það er að vissu leyti rétt. En það eru ekki braskararnir sem geyma fé í bönkum og háu vextirnir freista þeirra ekki til að leggja fé inn. Háu vextirnir í bönkunum eru stökkpallur fyrir okrarafélögin sem nota þá sem afsökun til að krefjast æ hærri vaxta af skuldunautum sínum. - Ég býð hv. þm. Steingrím Sigfússon velkominn í salinn þótt seint sé og átel það harðlega að hann skuli ekki fylgjast hér betur með þingstörfum, sérstaklega þar sem hann hefur hafið þessa umræðu.

Ég tel eðlilegt að það sé nokkur hvati til að fólk geymi fé í bönkum en ávöxtun svona langt umfram raunvexti er allt of há. Lánsfé er of dýrt í landinu, bæði fyrir atvinnureksturinn og fyrir einstaklinga, og okurlánastarfsemi blómstrar þegar fólk er komið í peningavandræði.

Komið hefur verið inn á það hér í þessari umræðu að okur hafi þrifist hér á landi áður en núverandi vaxtastefna var innleidd og það er sjálfsagt rétt. En ég held að okur sé almennara og þróaðra nú en það hefur verið nokkru sinni áður. Það gerist í kjölfar þeirrar stefnu sem fylgt hefur verið eða er m.ö.o. afleiðing vaxtastefnunnar. Okurlánarar blómstra vegna þess að fólk er komið í mikil peningavandræði. Það er ákaflega nauðsynlegt að koma á eftirliti með verðbréfaviðskiptum.

Hæstv. viðskrh. sagðist ekki hafa samúð með mönnum sem taka lán með 300% vöxtum. Ég læt það liggja milli hluta. En ég hef samúð með mönnum sem gera fjárskuldbindingar sem þeir sannanlega ráða við við ríkjandi aðstæður en síðan breytast aðstæðurnar án tilverknaðar þeirra og án þess að þeir kannske hafi beinlínis getað gert ráð fyrir því. Þá hef ég samúð með lántakanda sem skyndilega einn góðan veðurdag stendur uppi sem vanskilamaður, hvort sem það er húsbyggjandi eða atvinnurekandi, og missir eignir sínar af því að lánsfé er orðið of dýrt. Hæstv. ríkisstj. var ekki mynduð til að reglusamir, vinnusamir og sæmilega skynsamir húsbyggjendur misstu hóflegar eignir sínar.

Margt hefur verið gert af hálfu ríkisstj. til að leysa vanda húsbyggjenda. Því gleyma menn oft í dagsins önn. En mjög erfitt er að finna viðhlítandi lausnir þegar fjármagnskostnaðurinn er svo hár sem raun ber vitni. Þegar fólkið er komið í vandræði sjá „gróðapungarnir“, sem hæstv. viðskrh. kallaði svo, sér leik á borði og nota sér neyð eða heimsku annarra.

Ég legg á það hina þyngstu áherslu að flett verði ofan af okrarahyskinu hvort sem þessi félög eru fleiri eða færri og ekkert til sparað. Það er alger krafa okkar framsóknarmanna að svo verði gert. Það er höfuðnauðsyn að setja lög um verðbréfaviðskipti og gefa verðbréf út á nafn þannig að eftirlit sé hægt að hafa með viðskiptunum. Ég tel líka að eðlilegt sé að hugleiða í peningavandræðum ríkissjóðs hvort þarna er ekki skattstofn sem eðlilegt er að nýta.

Það er hárrétt hjá hæstv. viðskrh. að peningar hafa vaxið í bönkum, þ.e. þeim hefur fjölgað. En það stoðar lítið að fjármagn í bönkunum vaxi ef atvinnulífið rekur í strand. Við rekum ekki þjóðfélagið á vaxtatekjum. Við lifum á því sem framleitt er í landinu. Lögmál samkeppninnar er tvíeggjað í okkar samfélagi og það hentar víða alls ekki og getur jafnvel orðið stórhættulegt. Þetta litla þjóðfélag þarfnast stjórnunar vegna þess að það stjórnar sér ekki sjálft. Stærð þjóðfélaga er sjálfsagt ekkert einhlít heldur. Hið frjálsa hagkerfi Bandaríkjanna á nú við verulega erfiðleika að etja og það er sjúkt. Þar eru ofboðslegir erfiðleikar fyrir stafni, erfiðleikar sem kunna að hafa veruleg áhrif um allan heim ef það hrynur, ekki bara hjá okkur og Bandaríkjamönnum og Vestur-Evrópubúum heldur um alla veröldina.

Það er alveg hárrétt hjá hæstv. fjmrh. að minnka þarf verðbólguna. Megi honum lukkast vel á sínum nýja glímuvelli. En það er ekki hægt að láta fara saman vaxtastig dagsins, þessa hávaxtastefnu eða frjálsvaxtastefnu, og að lækka verðbólgu.

Svo má líka geta þess að of margt fólk er komið í þessi peningaviðskipti. Það væri miklu betur komið í arðbærari störfum, margt af því fólki sem nú annast bankaviðskipti. Það eru engin eðlilegheit á því að bankamenn á Íslandi séu jafnmargir eða hér um bil jafnmargir og fiskimenn á Íslandi.

Það er sjálfsagt rétt að ekki er unnt að greiða vexti almennt niður. En það er sanngjarnt að reyna að greiða raunvexti, a.m.k. að mestu þegar til lengri tíma er litið. Það þarf að stjórna efnahagskerfinu, það þarf að stjórna peningamálum og samræma þau og átta sig á hvaða markmiðum á að ná. Ríkisstj. ætlar að draga úr verðbólguhraða og ríkisstj. ætlar að reka ríkissjóð hallalaust. Ríkisstj. ætlar að stöðva erlenda skuldasöfnun. Þetta eru allt saman verðug og mjög mikilvæg markmið. En þetta tekst ekki nema með hóflegri vaxtastefnu og mjög mikilli aðgát varðandi gengisbreytingar.