21.10.1985
Neðri deild: 5. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 99 í B-deild Alþingistíðinda. (66)

5. mál, jarðhitaréttindi

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég vil lýsa ánægju minni yfir þeirri umræðu sem nú verður um þetta mál. Ég man ekki til þess að það hafi í rauninni fengið neina umræðu hér í hv. þd. þegar fyrir því var mælt á tveimur síðustu þingum. En það bregður til hins betra að menn skuli tjá sig um málið og hér skuli koma fram stuðningur, að nokkru leyti a.m.k., við efni þessa frv. frá hæstv. núv. menntmrh., og ég tek undir þær óskir sem fram komu frá hv. 3. þm. Reykv. um að það frv., sem hann kveður hafa verið tekið saman á vegum iðnrn. í þeirri tíð sem hann starfaði þar, verði aðgengilegt þingnefnd sem fær þetta mál til meðferðar.

Hér kom Ólafur Þ. Þórðarson, hv. 5. þm. Vestf., með þá ábendingu að skynsamlegt gæti verið að mál þetta færi til allshn. Ég met vissulega þann vilja sem felst í hans orðum um að málið komi fyrir þingið til afgreiðslu, treysti því að hann stuðli að því þó að hafður verði sami háttur og verið hefur að mál þetta fari til iðnn. Ég vil ekki trúa því að væntanleg forusta í iðnn. þessarar deildar leggist gegn því að málið komi út úr nefnd og til afgreiðslu í þd. Ég vænti þess m.a. að hæstv. forseti þessarar deildar, sem ég hygg að hafi hlotið endurkjör í iðnn., eigi eftir að stuðla að því að svo geti orðið, svo og aðrir sem þar starfa.

Það liggja fyrir allmargar umsagnir um þetta frv. eftir meðferð þess tvívegis í iðnn. því að það var sent til umsagnar í hitteðfyrra og aftur í fyrra og umsagnir liggja fyrir frá ýmsum aðilum. Það ætti að greiða fyrir því að unnt væri að taka á málinu efnislega af nefndinni fyrr en seinna.

Hér hefur komið fram að mál þetta hefur lengi verið að velkjast fyrir Alþingi. En það er alltaf að verða stærra í sniðum, upphæðirnar að vinda upp á sig sem verið er að greiða úr almannasjóðum, hvort sem um er að ræða sveitarsjóði eða ríkissjóð, vegna jarðhitaréttinda fyrir eign sem að margra mati er óeðlilegt og reyndar ekki kveðið upp úr um af löggjafanum hvort telja skuli almannaeign eða einkaeign. Og ég nefni það í þessu sambandi, vegna þess að rætt hefur verið um afstöðu Framsfl. í þessu máli og að þar muni vera andstaða við þau sjónarmið sem ég mæli hér fyrir, að inn í stjórnarsáttmálann 1. sept. 1978 var tekið ákvæði um að sett yrði löggjöf um að djúphiti í jörð og orka fallvatna teljist þjóðareign. Þetta var í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Ólafs heitins Jóhannessonar. Ég vil ekki alveg staðhæfa orðalagið í stjórnarsáttmálanum, en það var efnislega í þessa átt og í framhaldi af því hófst einmitt vinna að þessum málum á vegum iðnrn. á nýjan leik og það má segja að þetta frv., sem ég hér mæli fyrir, sé ákveðin uppskera af þeim þræði sem upp var tekinn haustið 1978.

Ég hverf ekki, virðulegi forseti, frá tillögu minni um að mál þetta fari til iðnn., en þakka stuðning hv. 5. þm. Vestf. og vænti að hann beiti þeim stuðningi og áhrifum í sínum flokki til að málið komi út úr nefnd og til afgreiðslu hér í þingdeildinni.