21.11.1985
Sameinað þing: 19. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 808 í B-deild Alþingistíðinda. (660)

Okurmál

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Ég þakka hv. 4. þm. Norðurl. e. fyrir að taka þetta mál til umræðu hér á hv. Alþingi. Það var kominn tími til að Alþingi léti sig þessi mál nokkru skipta því að það er mikil nauðsyn að upplýsa frekar og uppræta okurlánastarfsemi. Ég undrast þó hve litlu hæstv. ráðherrar svöruðu þeim spurningum sem fyrir þá voru lagðar og hve auðveldlega þeir varpa því frá sér, sem hv. þm. Páll Pétursson hefur séð og viðurkennt, að sú efnahagsstefna sem ríkisstjórn þeirra rekur hafi einmitt hvatt til þess að okurlánastarfsemi dafnar betur en áður. Vitanlega varð hún ekki til í tíð þessarar stjórnar. En hitt er jafnvíst að slík starfsemi færist í aukana eftir því sem neyð manna og þörf fyrir fjármagn eykst.

ÖII vitum við hver fjárhagsstaða húsbyggjenda er svo mikið sem um hana hefur verið rætt. Auglýst nauðungaruppboð fleiri en nokkur man eftir og háværari kröfur húsbyggjenda og íbúðarkaupenda um leiðréttingu sinna mála, leiðréttingu á þeim okurlánum sem ríkisstj. hefur varpað á þá með því að verðbinda laun en ekki lán og hækka jafnframt vexti.

„Hvað er okur?" var spurt hér fyrr í umræðunni. Það mætti segja margar daprar sögur af reynslu fólks sem tók lán miðað við greiðslugetu án þess að reisa sér hurðarás um öxl, án þess að renna grun í fyrirætlanir ríkisstj. í efnahagsmálum. En það örlaði lítið á samúuð hæstv. ráðherra með þessu fólki.

Það er rétt sem hæstv. viðskrh. og fjmrh. sögðu. Okurlánastarfsemi hefur alltaf verið til. En hæstv. viðskrh. sagði líka að það væri ekki stjórnenda að koma í veg fyrir að hún þrífist. Hvað er hæstv. ráðherra að meina? Hlýtur það ekki að vera hlutverk stjórnenda að reyna að koma í veg fyrir að það ástand myndist í þjóðfélaginu sem hvetji til okurlánastarfsemi? Hver er ábyrgð þeirra sem fara með stjórn gagnvart þeim sem þá velja inn á löggjafarsamkomuna? Það er afleitt að ekki skuli enn hafa verið sett eftirlit eða lög með starfsemi eins og verðbréfasölu, ekki síst vegna þess hve umsvifamikil hún er orðin. Allur opni verðbréfamarkaðurinn er talinn vera með seld skuldabréf upp á 1,5-2 milljarða. Það er óeðlilegt að svo mikið fé skuli hringla eftirlitslaust, ekki síst þegar tekið er tillit til þess að stór hluti þess er skattfrjáls, svikinn undan skatti. Það er rétt sem hér var sagt áðan. Þetta er í raun ein tegund skattsvika. Það er því löngu tímabært að lagt verði fram frv. til l. um verðbréfaviðskipti.

Bæði hæstv. fjmrh. og hæstv. forsrh. segjast vilja vaxtalækkun, en hvorugur þeirra né heldur hæstv. viðskrh. virðist skilja eða vilja viðurkenna að efnahagsaðgerðir þeirra hafa leitt til þess að vaxtaútreikningar eru orðnir svo flóknir að almenningur er vanmáttugur, botnar hvorki upp né niður og borgar þegjandi. Þess vegna dugar ekki minna en kennari í bókfærslu til þess að koma auga á mistökin sem verða. Þar dugar tæplega venjulegt fólk eins og kom fram í umræðum. Þetta minnir á bónusútreikningana sem eru svo flóknir að þær konur sem eftir þeim vinna þurfa að fara á námskeið til að skilja þá svo að þær séu ekki hlunnfarnar.

En það var fleira sem hæstv. ráðherrar virtust heldur ekki skilja. Það er örvænting þeirra sem eru að reyna að bjarga húsnæði sínu, húsnæði sem oftast er eina eign þeirra. Örvænting getur brenglað skynsemi manna og örvænting þeirra sem nú eru að missa eigur sínar er ekki síst að kenna efnahagsstefnu þessarar ríkisstjórnar. En hæstv. viðskrh. virtist hvorki hafa skilning né samúð með þeim sem haldnir eru örvæntingu og grípa til örþrifaráða né heldur með þeim sem eru ekki nógu vel gefnir. Mér skildist á honum að þeir ættu ekki skilið að eiga sér þak yfir höfuðið.

Bæði hæstv. fjmrh. og hæstv. forsrh. héldu því fram að sparifé landsmanna hefði aukist og hæstv. forsrh. gaf upp tölur upp á 31% af landsframleiðslu og ekki verið hærri síðan 1973. En heildarsparnaður hefur ekki aukist og það er sýnu mikilvægara og alvarlegra.

Það brenglaða verðmætamat sem hér hefur ríkt vegna langvarandi verðbólgu hefur getið af sér siðleysi sem nú opinberast t.d. í því okurlánamáli sem hér er til umræðu, siðleysi sem stýrist af sterkri og tillitslausri sjálfsbjargarhvöt og virðist eiga litla samfélagskennd. Sá okurlánamarkaður sem okkur hefur opinberast nú er líklega aðeins hluti þeirrar starfsemi sem þrífst hér, en hann hefur þegar sýnt sig að hafa svipuð tengsl og okurlánamarkaðir hafa erlendis, þ.e. tengsl við fíkniefnasölu þar sem menn þurfa að komast yfir mikið fjármagn á stuttum tíma. Vaxandi umsvif fíkniefnasölu og aukin neysla slíkra efna hefur vakið ugg meðal alls þorra almennings. Það er alvörumál fyrir ríkisstjórn ef stefna hennar hvetur og rekur venjulega borgara með viðskipti sín til okurlánara og þannig heldur þeim gangandi svo að þeir dafni, en það er ekki síður alvarlegt ef fíkniefnasala dafnar í því neðanjarðarhagkerfi sem stefna ríkisstj. hvetur til. Það er eins og þeim sem stjórna gleymist að stefna þeirra svífur ekki laus og hrein í tómarúmi þar sem hagfræðikenningar einar rætast og dafna. Stefna stjórnenda bitnar á fólki, lifandi fólki af holdi og blóði sem finnur til, og það finnur ekki síst til núna vegna skammsýni og tillitsleysis þeirra sem móta og framkvæma stefnuna.

Efnahagsráðstafanir þessarar stjórnar hafa leitt öngþveiti og örvæntingu yfir talsverðan hóp manna í þessu þjóðfélagi. Kannske eru þeir 20% okkar, öreigarnir sem bankastjórinn, viðmælandi hv. þm. Haraldar Ólafssonar, nefndi. Ég vil spyrja: Er það ætlun ríkisstj. að strika yfir þetta fólk eins og truflandi tölur í dæmi, dæmi sem hún vill láta ganga upp á blaði? Er það ætlun ríkisstj. að fórna þessu fólki eða ætlar þessi ríkisstj. að sýna þann manndóm að axla ábyrgð af eigin stefnu?