21.11.1985
Sameinað þing: 19. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 812 í B-deild Alþingistíðinda. (662)

Okurmál

Fjmrh. (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég vil taka undir þau orð sem fram hafa komið í þessari umræðu. Hún er á margan hátt gagnleg og fyllilega þarft fyrir Alþingi að ræða þessi mál og jafnvel í svo víðu samhengi sem þessi umræða ber vitni um, ekki einungis afmarkað það brotamál sem varð kveikja þessarar umræðu, heldur líka ýmis önnur mál, og á þann veg hefur þessi umræða orðið eins konar almenn stjórnmálaumræða.

Ég vara hins vegar við því, sem tilhneiging hefur orðið til í þessari umræðu, að tengja saman afmarkað brotamál og margs konar erfiðleika og viðfangsefni sem við glímum við í stjórn landsins á ýmsum sviðum efnahags-, atvinnu- og félagsmála. Sannleikurinn er auðvitað sá að brotamál af þessu tagi geta átt sér stað og komið upp á yfirborðið hver svo sem stjórnarstefna er á hverjum tíma, eins og dæmin sanna, og auðvitað fjarri lagi að tengja þetta einstaka afbrot við stjórnarstefnu. Á það hef ég bent fyrr í þessari umræðu. Það er fráleitt að gera það. En hitt er auðvitað að hér hefur verið vakið máls á fjölmörgum atriðum, bæði í húsnæðismálum og almennri stjórn peningamála, sem þarft er að ræða.

Brotamál af því tagi sem er kveikja þessarar umræðu, okurlánastarfsemi sem verið hefur til rannsóknar, er mjög alvarlegt mál og býsna mikil ástæða til að taka það föstum tökum. Það hlýtur að grafa undan trausti og tiltrú almennings þegar upp kemst um slíkt mál og menn fá vissu fyrir því að starfsemi af slíku tagi á sér stað í okkar þjóðfélagi. Fyrir þá sök er mikilvægt að á málinu sé tekið af festu, bæði að því er varðar rannsókn málsins sjálfs og eins auðvitað af hinu, að við reynum með almennum aðgerðum að fyrirbyggja að slíkt gerist og slíkt grafi um sig í þjóðfélaginu. Það hlýtur að vera markmið okkar allra, hvaða stjórnmálahugmyndum sem við annars fylgjum. Þar hygg ég að við getum staðið saman því að starfsemi af þessu tagi kemur jafnilla við hvort sem menn fylgja einni stjórnmálastefnu eða annarri.

Ég ætlaði að víkja að nokkrum atriðum sem þegar hafa komið fram í þessum umræðum. Hv. 5. þm. Reykv. vék að því að þær ákvarðanir sem teknar voru fyrir skömmu varðandi sölu á spariskírteinum ríkisins hefðu leitt til þess að vextir hækkuðu og hann fullyrti beinlínis að bankarnir hefðu rökstutt óskir sínar um hækkun vaxta með tilvísun til þeirrar ákvörðunar sem tekin var um tímabundna aðgerð til þess að auka sölu þessara bréfa. Ég hef þegar rakið það mál við þessa umræðu og ætla ekki að endurtaka það hér og nú, en minna á að sú fullyrðing, sem ég færði fram fyrr við umræðuna, stenst, að þessi einstaka aðgerð hefur ekki haft nein áhrif til hækkunar almennt á vöxtum og hún hefur ekki verið grundvöllur að óskum banka um hækkun vaxta.

Ég hef óskað eftir vitneskju um það frá Seðlabankanum á hvern veg bankarnir hafa rökstutt óskir sínar um hækkun vaxta. Svarið er þetta: Almennar sparisjóðsbækur hafa verið með vöxtum upp á síðkastið langt fyrir neðan verðbólgustigið. Vextir á almennum sparisjóðsbókum voru ákveðnir 22% þegar verðbólgan var 20%. Það er m.ö.o. verið að ganga mjög á rétt hins almenna sparifjáreiganda í landinu þegar vextir af sparisjóðsbókum eru neikvæðir með þessum hætti. Þetta er meginrökstuðningur bankanna fyrir óskum um breytingar hér á og rétt að það komi hér skýrt fram. Hitt mun vera rétt að einn sparisjóður og samband sparisjóða vísuðu til þessarar sérstöku aðgerðar ríkissjóðs varðandi sölu á spariskírteinum í rökstuðningi sínum fyrir óskum um hækkun á vöxtum á almennum sparisjóðsbókum. En ég hygg að flestir geri sér ljósa grein fyrir því að þessi tímabundna aðgerð hafi engin almenn áhrif í þessu efni og óskir bankanna hér að lútandi voru komnar fram áður en þessi aðgerð varðandi spariskírteinin var ákveðin.

Fullyrðing hv. 5. þm. Reykv. á því við engin rök að styðjast að þessu leyti. En við getum sjálfsagt verið sammála um það, ég og hv. 5. þm. Reykv., að almennt séð er óheppilegt að ríkissjóður sé háður mikilli lántöku á innlendum markaði þegar hann er þröngur. Það hlýtur að ýta frekar undir vexti og hafa áhrif til þess að hækka vaxtastig en hitt. Þessu verðum við hins vegar að gera okkur grein fyrir þegar við samþykkjum fjárlög, ákveðum útgjöld og tekjur ríkissjóðs. Um leið og við höfum gert það og ætlað ríkissjóði að afla tekna með þessum hætti er honum rétt og skylt að leita þeirra leiða sem Alþingi hefur ákveðið í þessu skyni. En ég vil fyrir mitt leyti leggja mikið af mörkum í þeirri baráttu að koma í veg fyrir að ríkissjóður þurfi að taka í of ríkum mæli lán á innlendum markaði og ég tala nú ekki um erlend lán, einmitt í því skyni að hafa áhrif í þá veru að lækka vexti. Það er ein af þeim leiðum sem við verðum að hafa í huga í baráttu okkar fyrir því að lækka vaxtastigið í landinu. Það væri hollt og rétt fyrir Alþingi að hafa það í huga við umræður um útgjöld og tekjuöflun til ríkissjóðs að of mikil sókn inn á lánamarkaðinn kyndir undir vaxtastiginu, kyndir undir vöxtum. Það er ekki of oft á það minnst að þessa verður að gæta við fjárlagagerðina.

Hv. 5. þm. Reykv. vék hér, eins og nokkrir fleiri hv. þm., að húsnæðismálum í tengslum við þessa umræðu. Hann sagði að ríkisstj. hefði lítið aðhafst í þeim efnum. Hann greindi frá því að að hans mati væri ástæðan fyrir þeim erfiðleikum sem nú er við að etja í húsnæðismálum í meginatriðum fólgin í fimm þáttum. Hann benti í fyrsta lagi á að eiginfjárstaða húsnæðislánasjóðanna hefði orðið fyrir hrottalegum áföllum, eins og hann orðaði það. Í annan stað minnti hann á að það hefðu verið tekin of mikil erlend lán til húsnæðislánakerfisins. Í þriðja lagi benti hann á það misgengi milli launa og lánskjara sem varð um tíma. Hann benti á of háa vexti í fjórða lagi og verðfall fasteigna í fimmta lagi.

Við skulum aðeins huga að þessum þáttum og við skulum fyrst víkja að því sem hv. þm. nefnir hrottaleg áföll sem byggingarsjóðirnir hafa orðið fyrir vegna rýrnandi eiginfjárstöðu. Það er rétt að hafa í huga í því sambandi ummæli hv. 3. þm. Reykv. í þessari umræðu sem sagði að hér kæmi fram og hefði komið fram „skilningsleysi stjórnvalda á hinum mannlegu vandamálum sem stjórnarstefnan hefði leitt yfir heimilin í landinu.“ Við skulum huga að þessu tvennu í sömu andránni.

Það er rétt að miklir erfiðleikar eru í húsnæðislánakerfinu, en við skulum huga að því hver ástæðan er og hvar ræturnar liggja, ekki síst í ljósi þess sem formaður Alþb., hv. 3. þm. Reykv., sagði í tilvitnuðum ummælum fyrr í þessari umræðu.

Hv. 3. þm. Reykv. var fyrir fáum árum félmrh. og á sama tíma var fyrrv. formaður Alþb. fjmrh. Þá námu framlög ríkisins sem hlutfall af heildarlánveitingum Byggingarsjóðs ríkisins 17%. Framlög ríkisins voru 17% af lánveitingum Byggingarsjóðs ríkisins. Á þessu ári er áætlað að framlög ríkisins til byggingarsjóðsins séu 45% og það er ráðgert, miðað við þá áætlun sem gengið er út frá í dag, að þetta hlutfall fari yfir 60% á næsta ári. Hvernig fer þetta saman við fullyrðingu hv. 5. þm. Reykv. um að lítið hafi verið að gert? Og hvernig fer þetta saman við þá fullyrðingu hv. 3. þm. Reykv. að stjórnarstefnan hafi leitt ógæfu yfir heimilin í landinu og sýni skilningsleysi á hagsmunum heimilanna? Hvernig getur maður, sem bar ábyrgð á því að framlög til byggingarsjóðsins námu aðeins 17% af útlánunum, sagt þetta þegar þessari ríkisstjórn hefur á jafnskömmum tíma og raun ber vitni tekist að snúa því þannig við að horfur eru á að þetta hlutfall geti farið yfir 60% á næsta ári? Hvaða tilgangi þjónar að tala með þessum hætti og reyna að blekkja fólkið í landinu á þennan veg? Hvernig geta þeir menn sem öðrum fremur bera ábyrgð á þeim miklu erfiðleikum sem húsnæðismálin eru í og það fólk sem er að byggja og koma sér þaki yfir höfuðið á nú við að stríða? Það eru fyrst og fremst þeir menn sem komu húsnæðislánakerfinu í þá aðstöðu að það fékk ekki meira eigin fjármagn út úr ríkissjóði en raun ber vitni um.

Og við skulum horfa á fleiri tölur í þessu sambandi. Hvert var lánahluttall til staðalíbúðar meðan hv. 3. þm. Reykv. var félmrh. og hv. þm. Ragnar Arnalds var fjmrh.? Þá var hlutfall lána úr byggingarsjóði til staðalíbúðar 19% af kostnaðarverði, en það er nú komið í 29% eða þar um bil. Það hefur sennilega farið neðar en í 19%. Það hefur sem sagt hækkað um 50%. Svo standa þessir menn upp á hinu háa Alþingi og fullyrða að það sé stjórnarstefnan sem hafi leitt þessa erfiðleika yfir þjóðina - stjórnarstefna sem hefur breytt útlánahlutfalli úr 14 eða 19% í 30%, hefur aukið útlánin um 50% eða hækkað útlánin til einstakra aðila um 50%.

Og við skulum horfa á þriðju tölulegu staðreyndina í þessu sambandi. Árið 1980 voru útlán byggingarsjóðsins sem hlutfall af þjóðarframleiðslu 1,6%. Útlán byggingarsjóðsins voru 1,6% af þjóðarframleiðslu. Þegar hv. 3. þm. Reykv. og hv. þm. Ragnar Arnalds höfðu setið í tvö ár í ríkisstjórn var þetta hlutfall komið niður í 1,3%, en á þessu ári er það komið í 2,8%. Það hefur verið meira en tvöfaldað á þeim skamma tíma sem þessi stjórn hefur setið við völd. Og svo koma þessir hv. þm. og halda því fram að það sé þessi stjórnarstefna, sem hefur meira en tvöfaldað útlán byggingarsjóðanna sem hlutfall af þjóðarframleiðslu, sem hafi leitt ógæfu yfir húsbyggjendur! Það tekur auðvitað engu tali að hlusta á fullyrðingar af þessu tagi. Það tekur engu tali að hlusta á slíkar fullyrðingar.

En við skulum gera okkur alveg fulla grein fyrir því að eins og þetta kerfi hafði verið brotið niður í stjórnartíð þeirra tveggja þm., sem ég hef hér nefnt til, er enn við mikla erfiðleika að etja og margir þeir sem standa í húsbyggingum í dag og margir þeirra sem réðust í þær framkvæmdir meðan þeir félagar voru við völd eiga enn í miklum erfiðleikum. Það getur tekið nokkurn tíma að leysa þau vandamál þó að svo myndarlega hafi verið tekið á málum sem þessar tölulegu staðreyndir bera vitni um. Við þurfum enn að bæta um betur, fyrst og fremst fyrir þá sök hvernig forusta Alþb. í ríkisstjórn fór með Byggingarsjóð ríkisins. Það er meginástæðan og það skulum við hafa í huga í allri þessari umræðu.

Hv. 5. þm. Reykv. nefndi einnig til að vandi byggingarsjóðsins stafaði af því að til hans hefði verið tekið of mikið af erlendum lánum. Undir það skal ég taka og að svo miklu leyti sem það hefur verið gert í tíð núverandi ríkisstjórnar og núverandi stjórnarflokka skal fyllilega viðurkennt að það er óhyggileg stefna. Við getum ekki fjármagnað Byggingarsjóð ríkisins með erlendum lántökum og frá því hefur nú verið horfið. Við verðum að byggja þennan sjóð upp af innlendum sparnaði og framlögum ríkissjóðs svo sem nú er stefnt að og verið að gera.

Hv. þm. minntist einnig á misgengi milli launa og lánskjara. Það hefur margsinnis verið á það bent hversu mikla erfiðleika það hefur haft í för með sér þegar þetta misgengi átti sér stað, en staðreyndin er auðvitað sú að meginhlutinn af þessu misgengi átti sér stað á óðaverðbólgutímanum á síðustu misserum fyrri ríkisstj. Nú um allnokkurt skeið hefur verið jafnvægi á milli launaþróunar og lánskjaravísitölu og það er auðvitað mjög mikilvægt atriði. Vegna breyttrar stjórnarstefnu tókst að ná þessu jafnvægi, en því miður eru margir enn að glíma við þá erfiðleika sem forusta Alþb. í síðustu ríkisstjórn í þessum málum hefur leitt yfir marga húsbyggjendur í þessu landi. Sem betur fer hefur okkur þó tekist að ná jafnvægi á milli launa og lánskjara og það er auðvitað höfuðatriði. Við höfum enn fremur sett löggjöf sem á að koma í veg fyrir að hugsanlegar sveiflur af þessu tagi íþyngi greiðslubyrði þeirra sem greiða þurfa reglulega af húsnæðislánum.

Fjórða atriðið sem hv. þm. minnti á voru of háir vextir. Nú skulum við hafa í huga að vextir af lánum húsnæðismálastjórnar eru niðurgreiddir í raun og veru miðað við hið almenna vaxtastig í landinu. Ég tel það vera eðlilegt og rétt. Hér er um félagslegt verkefni að ræða og það er eðlilegt að umtalsverðir fjármunir komi úr ríkissjóði, eins og nú á sér stað, til þess að vextir af þessum lánum geti verið nokkru lægri en almennir vextir í landinu. Og sú er líka raunin á. Það tel ég vera eðlilegt og skynsamlegt félagslegt verkefni.

Í fimmta lagi minntist þm. á verðfall fasteigna. Það er að sönnu rétt að verð á fasteignum hefur farið nokkuð lækkandi. Það er ekki langt síðan menn kvörtuðu mikið yfir of háu fasteignaverði á notuðum íbúðum, ekki síst hér í Reykjavík. Ein af ástæðunum fyrir því að verð á fasteignum var svo hátt að menn settu á langar ræður til að gagnrýna það var lóðaskortur, ekki síst hér í höfuðborginni, um langt árabil, en keyrði þó um þverbak á síðasta kjörtímabili. Í upphafi þessa kjörtímabils sveitastjórna í landinu var gert verulegt átak hér í höfuðborginni til að breyta þeirri stefnu sem fylgt hafði verið og með stórátaki var lóðaeftirspurn fullnægt. Framboð af lóðum var aukið þannig að eftirspurninni var fullnægt. Það var vitað mál að þetta hlaut að vera ein leið til að lækka óhóflega hátt verð á fasteignum sem menn höfðu áður kvartað undan. Ég lít svo á að að því leyti sem þessi aðgerð hefur haft áhrif til þess að ná betra jafnvægi á fasteignamarkaðinum hafi hún verið skynsamleg. Auðvitað er það svo í þessum efnum að vandséð er hvar jafnvægi skapast, en flestir hygg ég að geti verið sammála um að fasteignaverð var orðið óhóflega hátt og eðlilegt var að reyna að ná þar betra jafnvægi með auknu framboði á lóðum.

Hv. 3. þm. Reykv. flutti í fyrri hluta umræðunnar á marga lund mjög kynlega ræðu sem var laus við að koma nálægt efni þessa máls, laus við það að víkja nokkurs staðar að staðreyndum. Hún var hins vegar uppfull af slagorðum og innantómum fullyrðingum. Ein fullyrðingin var sú að núv. ríkisstj. vildi ekki skerða hár á höfði markaðsveldisins, eins og hann komst að orði, vegna þess að hún lifði samkvæmt ofstækisfullum hagstjórnarkenningum og átti hann þá við það takmarkaða sjálfstæði sem bankar hafa fengið til að ákveða vexti. Nú er það svo að það sjálfstæði sem bankarnir fengu til að ákveða vexti er mjög takmarkað, háð eftirliti Seðlabanka, og sannleikurinn er sá að vextir til að mynda á almennum sparisjóðsbókum, eins og hér hefur verið vitnað til, eru nú verulega neikvæðir þrátt fyrir það sjálfstæði sem bankarnir fengu í þessum efnum. Sannleikurinn er sá að það ákvörðunarkerfi, ef svo má að orði komast, sem unnið hefur verið að í þessum efnum, er mjög á sama veg og til að mynda sósíaldemókratar á Norðurlöndum beittu sér fyrir fyrir áratugum, eins og margsinnis hefur verið vakin athygli á. Er það þetta sem Alþb. kallar ofstækisfullar efnahagskenningar, það sem sósíaldemókratar á Norðurlöndum hafa talið sjálfsagðan hlut í áratugi? Ég furða mig á ummælum eins og þessum og það eru fleiri sem gera það. Það eru ekki bara andstæðingar Alþb. sem furða sig á slíkum slagorðum, á slíkri umræðu um þau viðfangsefni sem við erum að fjalla um og þau vandamál sem við er að glíma. Það eru ekki bara andstæðingar Alþb. sem furða sig á slagorðum forustumanna Alþb. í þessari umfjöllun. Það eru býsna margir fleiri sem hafa komið fram í opinberri umræðu upp á síðkastið og vakið á því athygli að forustumenn Alþb. geta ekki fjallað málefnalega og hreinskilnislega og með hliðsjón af staðreyndum um þessi mál. Allur þeirra málflutningur byggist á slagorðum og innantómum fullyrðingum.

Ég ætla að vitna, eins og ég hef stundum gert áður, í gamla kennarann minn, Hörð Bergmann, með leyfi hæstv. forseta. Fyrir ekki löngu skrifaði hann grein í Þjóðviljann. Greinin hefst á tilvitnun í formann Alþb. þar sem formaðurinn segir: „Lífskjörin eru léleg, kaupið lágt og erfitt að lifa vegna þess hvernig fólkið kaus í síðustu kosningum.“ Og hvað segir þessi óbreytti liðsmaður í Alþb. um þetta meginstef flokksforustunnar? Hann segir svo:

„Boðskapur sem þessi þjónar greinilega ekki þeim tilgangi að skýra raunverulegt samhengi hlutanna fyrir fólki, bæta lífskjör þess í raun og vekja þannig tiltrú þess og traust. Hann ruglar fólk og leiðir hugsun þess til hæpinna ályktana. Í honum birtist einnig hættulegt vanmat á upplýstu fólki.“

Þetta eru ummæli flokksmannanna í Alþb. um málflutning forustunnar. Og ef ég má, með leyfi forseta, halda áfram að vitna í þessa athyglisverðu grein segir þar:

„Samhengið er þetta: Lántaka í offjárfestingu sem leiðir til sóunar og lakari lífskjara. Lífskjaraskerðingin birtist í hækkun raforkuverðs heimilanna, hærra vöruverði í vissum tilvikum.“ Og hann heldur áfram: „Það er ekkert leyndarmál að Alþýðubandalagið átti sinn þátt í að rýra lífskjör fólksins í landinu með þessum hætti.“

Það er ekkert leyndarmál að Alþýðubandalagið átti sinn þátt í að rýra lífskjör fólksins í landinu með þessum hætti! Þetta eru nú hugsanir hins óbreytta flokksmanns í Alþb., mat hins óbreytta flokksmanns á þeim málflutningi sem hv. 3. þm. Reykv. hafði í fyrri hluta þessarar umræðu.

Það er hins vegar vert að hafa í huga að þau mál sem hér hafa verið til umræðu koma umróti af stað í þjóðfélaginu og hljóta að skapa og leiða til nokkurrar lausungar og það er áhyggjuefni. Fyrir því er ástæða til að taka þau föstum tökum, leiða hugann að því hvernig spyrnt verði við fótum og gera allt sem unnt er, ekki bara að taka á þeim sem brotlegir eru og upp hefur komist um, heldur að freista þess að girða fyrir að slík starfsemi geti grafið um sig í þjóðfélaginu.

En allar þessar umræður leiða til lausungar á ýmsum sviðum og það hefur komið fram upp á síðkastið að menn eru orðnir býsna kærulausir, ekki bara í því ljósi sem fram hefur komið í því máli sem hér er til umfjöllunar, heldur ýmsum öðrum efnum. Mér sýnist til að mynda að sumir blaðamenn fari býsna ógætilega í allri þessari umræðu. Það er auðvitað mikil hætta á ferðum þegar mál af þessu tagi eru til meðferðar og menn geta misstigið sig og það er hægt að skaða réttaröryggið í landinu ef menn gæta sín ekki í umræðum um þau mál sem hér hafa verið til umfjöllunar, bæði þetta og eins annað alvarlegt mál sem hér hefur líka komið til umræðu á hinu háa Alþingi og tengist fjárhagserfiðleikum eins skipafélagsins og erfiðleikum eins ríkisbankanna af þeim sökum. Ég ætla vegna þessa að draga fram í umræðunni blaðafrétt sem birtist ekki alls fyrir löngu sem fimm dálka frétt á forsíðu eins dagblaðanna. Hún kom í dagblaðinu Þjóðviljanum og með leyfi forseta ætla ég að fá að lesa þessa frétt, hún er ekki löng. Þar segir:

„Samkvæmt heimildum sem Þjóðviljinn telur áreiðanlegar hefur tekist samkomulag á milli stjórnarflokkanna um að ríkissjóður hlaupi undir bagga með Útvegsbanka Íslands og greiði að hluta skuldir Hafskips hf., en á móti verði kaffibaunamál SÍS látið eyðast út. Skuldir Hafskips umfram veð nema nú fast að 500 millj. kr. Mun Þorsteinn Pálsson fjármálaráðherra hafa knúið framsóknarráðherrana til þessa gjörnings gegn því að sjálfstæðismenn sæju til þess að SÍS yrði bjargað út úr kaffibaunamálinu.

Fyrir rúmu ári fór fram hlutabréfaútboð hjá Hafskip hf. til að reyna að bjarga fyrirtækinu frá gjaldþroti. Aðeins 80 millj. kr. söfnuðust frá nokkrum fjármálamönnum. Staða Hafskips nú var því orðin slík að allt útlit var fyrir að þetta fé svo og lán Útvegsbankans væri tapað. Sjálfstæðismenn lögðu allt kapp á að ríkissjóður hlypi undir bagga, en framsóknarmenn stóðu í veginum. Þá voru þeir minntir á kaffibaunamál SÍS og þar með voru hrossakaup stjórnarflokkanna ráðin.

Innan Sjálfstæðisflokksins hafa verið uppi tvenns konar hópar í þessu máli. Annars vegar þeir sem vildu að ríkissjóður hlypi undir bagga, en hins vegar Eimskipafélagsmenn sem vildu hirða Hafskip fyrir lítið fé. Þessa tvo hópa hefur Þorsteini Pálssyni tekist að sameina með fyrrgreindum hætti. Eimskip mun í staðinn að öllum líkindum fá í sinn hlut Íslandssiglingar Hafskips. Fléttan snýst því um það að fjármálamennirnir sem lögðu fram 80 milljóna hlutaféð í fyrra fái sitt til baka. Útvegsbanki Íslands taki á sig skuldir Hafskips sem svo ríkissjóður greiði til baka. Eimskip fái einokun í Íslandssiglingum, en framsóknarmenn mýldir með því að lofa þeim stuðningi við að þagga niður hið óþægilega kaffibaunamál.“

Ég vek athygli á þessu hér vegna þess að þetta er eitt af dagblöðum þjóðarinnar sem birtir fimm dálka fyrirsögn. Í henni felst í raun og veru þetta: Fjmrh. þjóðarinnar er sakaður um að hafa gert hrossakaupasamning við annan stjórnarflokkinn um að greiða fé úr ríkissjóði til að bjarga tilteknum hluthöfum í Hafskip gegn því að tryggja það að tiltekið sakamál verði látið niður falla. Hér er um býsna grófar ásakanir að ræða. Ég hafði tal af viðkomandi blaðamanni og benti honum á að þetta væri tilhæfulaust með öllu og óskaði eftir að hann bæðist afsökunar eða drægi fullyrðingar sínar til baka. Því var neitað af hans hálfu og blaðsins.

Nú er það svo að það er orðinn nokkuð alvarlegur hlutur ef það er orðin regla í þessu þjóðfélagi að dagblöð geti birt upplýsingar og ásakanir, svo grófar ásakanir á menn sem gegna opinberum trúnaðarstörfum, í því trausti að það réttarkerfi eða réttarfar ríki orðið á Íslandi að þeir sem þannig eru bornir sökum í blöðum verði að sanna sakleysi sitt.

Ég hygg að þessi frétt og sú afstaða sem hún skapar hljóti að verða okkur umhugsunarefni í öllum þessum umræðum. Hvers konar réttarfar er það sem borgarar, þeir sem starfa í opinberum trúnaðarstörfum, þurfa að búa við ef þetta á að viðgangast? Ég hef orðið var við það að enginn af forustumönnum Alþb. hefur tekið þetta mál upp. Ef einhver fótur væri fyrir frétt af þessu tagi þá hefði verið eðlilegt að taka það upp hér á hinu háa Alþingi með býsna alvarlegum hætti. Enginn af forustumönnum Alþb. hefur gert það. Það er í fullu samræmi við það sem ég hef fundið, að fæstir taka mark á skrifum sem þessum. Kannske er þetta bara lína lýðveldiskynslóðarinnar, sem hefur tekið völdin í Alþb., en ekki flokksforustunnar. Um það skal ég ekki dæma. En ég vildi vekja á þessu athygli hér vegna þess að þetta tengist allri þessari umræðu.

Um leið og lausung skapast í þjóðfélaginu sjá menn tækifæri til þess að koma hér á því réttarfari að blöð geti með þessum hætti borið sakir á menn í því trausti að mál séu komin í þann farveg að menn verði að sanna sakleysi sitt. Þá væri illa komið, ef við misstum stjórn á okkar þjóðfélagsmálum með þeim hætti.

Það eru ýmis fleiri atriði sem við þurfum að huga að. Það hefur oft verið að því vikið að skattkerfi landsins sé ekki nógu traust. Hvorki tekjuskattur né söluskattur sé með þeim hætti að fólkið í landinu geti treyst því að byrðar séu lagðar á landsmenn með réttilegum hætti og á sanngjarnan hátt eins og málum er komið. Ég hef tekið undir þá skoðun að bæði þessi kerfi séu orðin meingölluð og það verði með öllum tiltækum ráðum að byggja upp tekjuöflunarkerfi ríkisins þannig að við getum lagt gjöld á þá sem greiða eiga til ríkisins á sem sanngjarnastan og réttlátastan hátt og þannig að fólkið í landinu, þeir sem skattana eiga að greiða, geti treyst því að það kerfi sem við styðjumst við deili þessum byrðum nokkuð réttlátlega. Að þessu er unnið á ýmsan hátt. Við höfum unnið að því að lækka tekjuskatt af almennum launatekjum og erum nú að vinna að því að byggja upp nýtt kerfi í staðinn fyrir söluskattskerfið.

Ég vil í þessu sambandi minna á það að fyrir ári síðan var samkvæmt ályktun frá Alþingi skipuð sérstök nefnd sem fékk það verkefni að gera úttekt á umfangi skattsvika; kanna umfang þeirra hér; kanna sérstaklega hvort rekja megi skattsvik til ákveðinna starfsstétta og starfsgreina og helstu ástæður fyrir skattsvikum og hvaða leiðir séu vænlegastar til úrbóta. Ég hafði fyrir skömmu samband við formann þessarar nefndar, Þröst Ólafsson hagfræðing. Hann tjáði mér að þess væri að vænta að nefndin gæti lokið störfum nú um næstu áramót, öðru hvoru megin við næstu áramót.

Ég hef eins og fyrirrennari minn, sem skipaði þessa nefnd, lagt á það áherslu að hún flýti störfum sínum. Ég held að þetta verkefni sé eitt af þeim sem við þurfum að huga að og taka á og ég vænti þess að umræður um þau efni geti skýrst og geti byggst á haldbetri upplýsingum til frekari ákvarðanatöku þegar niðurstöður þessarar nefndar liggja fyrir. Meginatriðið er að allt það sem við segjum og ákveðum til þess að koma hér á meiri festu, skapa hér meira öryggi og meiri trú á það sem við erum að gera, uppræta þær meinsemdir sem grafið hafa um sig og kunna að hafa grafið um sig, bæði umræður og ákvarðanir þurfum við að byggja á haldgóðum upplýsingum og styðja þær skýrum rökum.

Þetta vildi ég að fram kæmi hér í þessari umræðu, herra forseti, og hef ekki að sinni meira um það að segja.