21.11.1985
Sameinað þing: 19. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 820 í B-deild Alþingistíðinda. (663)

Okurmál

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vil taka fram hér í upphafi, vegna ummæla hv. 2. þm. Norðurl. v., að ég feilreiknaði mig um fáeinar mínútur og mætti örlítið of seint á fund í upphafi, en ég var þó í landinu og eigi fjarri. Annars vil ég svo þakka hv. þm. Páli Péturssyni fyrir hans skeleggu orð hér áðan. Það var ánægjulegt að heyra mann úr stjórnarliðinu, og það m.a.s. formann annars þingflokksins sem stendur að þessari ríkisstj., viðurkenna svo hreinskilnislega að hann væri á móti stefnu stjórnarinnar í vaxtamálum, ekki meira né minna. Sömuleiðis er ástæða til að þakka Haraldi Ólafssyni orð sem féllu mjög á sama veg.

Ég er sammála hæstv. fjmrh. að því leyti, sem hann vék að hér í upphafi síns máls, að það er ekki ástæða til og ekki til eftirbreytni að draga einstök sakamál eða einstök meint afbrotamál inn í umræður hér á hv. Alþingi um viðkvæm mál, enda hef ég ekki gert það, herra forseti, einungis vitnað til ákveðinna upplýsinga sem komið hafa fram í tengslum við rannsókn á því máli og það tel ég út af fyrir sig ekki óeðlilegt.

Það er einnig rétt að það er ekki sanngjarnt í garð hæstv. ríkisstj. að draga einstök afbrotamál beint inn í samhengi við stjórnarstefnuna eins og það líti þannig út að maður ákæri hæstv. ríkisstj. um leið og viðkomandi afbrot er til umfjöllunar. Hinu verður ekki neitað að hið almenna ástand í þessum málum er að verulegu leyti á ábyrgð ríkisstj. vegna þeirrar stefnu sem hún hefur í þessum málum. Undan því fær hún ekki flúið og ég vitna aftur til orða hv. þm. Páls Péturssonar og Haraldar Ólafssonar hér áðan, en þeir sáu þetta í glöggu samhengi.

Hæstv. fjmrh. endurflutti að hluta til með nokkrum þrótti reyndar, ánægjulegum og óvenjulegum þrótti, ræðu sem hv. þm. Halldór Blöndal flutti hér í fyrra um húsnæðismál. Það var ræðan um hið ofurmannlega afrek sem þessi ríkisstj. hafði unnið í húsnæðismálum. Þetta var efnislega mjög svipuð ræða hjá hæstv. fjmrh., ræða um hið ofurmannlega átak sem þessi stjórn hefði beitt sér fyrir í húsnæðismálum. Það virðist þó vera svo að þjóðin sé á öðru máli, að þjóðin hafi ekki áttað sig á þessu gífurlega átaki. Og það er óneitanlega nokkuð skrautlegt, herra forseti, að heyra talsmenn flokka sem lofuðu þjóðinni, lofuðu almennum húsbyggjendum í landinu 80% lánum til bygginga, koma hér í ræðustól og hælast um af því að lánin séu nú 29%, að lánin til einungis hluta þeirra sem byggja hús séu nú 29%. (Fjmrh.: Þorir þm. að svara fyrir stefnu Svavars Gestssonar í húsnæðismálum?) Ég þori að svara fyrir það hvernig þessi stjórn hefur leikið húsbyggjendur. Ég þori að ræða það. Ég þori einnig að viðurkenna það, hæstv. fjmrh., að ýmislegt hefði betur mátt fara í tíð fyrrv. ríkisstj. og næstu ríkisstj. þar á undan í húsnæðismálum og er ófeiminn við það. Við getum alveg farið út í þennan samanburð ef hæstv. fjmrh. óskar. Þá vil ég spyrja hæstv. fjmrh. t.d.: Hefur hann kynnt sér tölur af því að hann fór með slíkar hér - um greiðslubyrði almenns launamanns á Íslandi við það að afla sér íbúðarhúsnæðis í dag og borið hana saman við greiðslubyrðina í sama tilfelli fyrir nokkrum árum síðan? Það er nefnilega þannig, þrátt fyrir allt, þrátt fyrir hið ofurmannlega átak hæstv. ríkisstj. og þrátt fyrir lánshlutföll sem hæstv. fjmrh. stærir sig hér af, að það er miklu erfiðara fyrir venjulegan launamann að komast yfir íbúð í dag heldur en það var fyrir 3-4 árum síðan. Hann þarf að vinna mun lengur. Um þetta liggja fyrir óyggjandi tölur og ég hvet hæstv. fjmrh. til að kynna sér þær einnig úr því að hann er farinn að skoða tölur á annað borð. Hann á þá ekki að velja sér einungis þær tölur sem hann getur notað til að afsaka stöðu húsnæðismálanna og framgöngu hæstv. ríkisstj. í þeim efnum.

Hæstv. fjmrh. vék einnig að lóðaframboði Davíðs konungs hér í borg og taldi það hafa verið til hins mesta framdráttar. Ég vil segja það eitt um það mál, þó að það sé kannske ofurlítið utan við efnið, að borgarstjórinn í Reykjavík hefur jú beitt sér fyrir því að auka framboð á einbýlishúsalóðum. Það hefur haft viss áhrif á fasteignamarkaðinn. Það er auðvitað alveg rétt. En það hefur ekki haft áhrif á hann þar sem mest var þörfin, þ.e. það hefur ekki leitt til þess að raunhæfara verð kæmist á minni íbúðir. Þar er verðið hvað hæst og hvað óraunhæfast og það er akkúrat þar sem vantar húsnæði. Það er akkúrat húsnæði af þeirri gerð sem sárlega vantar hér inn á húsnæðismarkaðinn til að koma á eðlilegu ástandi. Og hvað gerir Davíð konungur, frjálshyggjufélagi hæstv. fjmrh.? Hann sér um það að ekkert standi til reiðu nema einbýlishúsalóðir. Þegar svo samtök, frjáls félagasamtök, sem Sjálfstfl. hefur nú einhvern tíma þóst styðja, eins og Búseti koma fram og vilja auka framboð af íbúðarhúsnæði af hóflegri stærð, tveggja, þriggja og fjögurra herbergja íbúðum, þá er það kæft í fæðingunni en reynt að ýta undir það að menn byggi einbýlishús. Þetta hefur auðvitað þveröfug árif á markaðinn. Þetta hefur áhrif, en öfug áhrif. Ég vil að þetta komi hér fram úr því að hæstv. fjmrh. hóf hér nokkurn eldhúsdag um húsnæðismál.

Ég vil, herra forseti, þakka þeim hæstv. ráðh. sem hér svöruðu þeim spurningum sem ég bar upp í upphafi þó ég leyni því ekki að mín vegna hefðu þau svör gjarnan mátt vera svolítið efnismeiri. Ég ætla út af fyrir sig ekki að gera lítið úr því sem hæstv. forsrh., sem nú er erlendis, upplýsti að ýmis mál væru í skoðun, að ýmis lög væru í undirbúningi, að þetta og hitt væri í athugun og ef þetta allt saman, sem hann hefði nú hugsað sér að væri hægt að gera einhvern tíma í framtíðinni, kæmist til framkvæmda þá mundi það sennilega stórlega laga ástandið. Þetta getur út af fyrir sig allt saman verið rétt og ég ætla ekki að gera lítið úr því. En það gefur hverjum manni augaleið að þetta lagar ekki ástandið í dag og ekki á morgun. Hér eru framtíðarvangaveltur hæstv. forsrh. á ferðinni, en það voru því miður einu svörin sem hann treysti sér til að gefa fyrir hönd hæstv. ríkisstj. í þessum efnum. Það er ekki skörungsskapur, herra forseti, sem lýsir sér í þeim svörum. Þetta eru einfaldlega svör um það að hæstv. ríkisstj. ætlar ekki og það er nauðsynlegt að það liggi hér fyrir og það fari ekki fram hjá mönnum - að stjórnin ætlar ekki að grípa til neinna róttækra ráðstafana til þess að laga ástandið. Það er það sem liggur fyrir eftir svör hæstv. ráðh.

Svo fáum við hér ræðuhöld um að gamla fólkið í landinu eigi peningana. Maður fékk það eiginlega á tilfinninguna að það væri af sérstakri greiðasemi við ekkjur og munaðarlausa og alla þá sem bágt eiga sem vextirnir væru hafðir svona háir. Það væri alveg með sérstöku tilliti til þessa fólks, gamla fólksins og ekknanna og munaðarlausra og annarra slíkra sem vextirnir væru svona háir til að það fengi nú eitthvað fyrir sinn snúð. Það væri nefnilega það sem ætti peningana í bönkunum. Það eru m.ö.o. ekki peningamennirnir, það eru ekki Íslenskir aðalverktakar eða aðrir slíkir sem græða á hinum háu vöxtum. Auðvitað er ekki um það deilt hér að það fólk sem leggur inn sparifé þarf að geta tryggt það fé og þarf að fá einhverja hóflega ávöxtun fyrir það. Það hefur enginn maður talað um annað hér, svo að ég hafi heyrt, í allri þessari umræðu en að það væri eðlilegt markmið í sjálfu sér að tryggja sparifé landsmanna og á því einhverja hóflega ávöxtun.

En hvernig er þá ástandið í dag? Er séð fyrir þessu með hinum háu vöxtum? Svarið er nei. Almenningur í landinu, sem á meginhlutann af því sparifé sem veltur inn í bankana í gegnum ávísanareikninga og sparisjóðsbækur, er akkúrat það fólk sem fær minnst fyrir sinn snúð, sem líður fyrir ástandið í dag, sem leggur bönkunum til fé undir raunvöxtum. En það eru peningamennirnir og grósserarnir og gróðapungarnir, eða hvað sem við viljum kalla þá, sem hafa frelsi og svigrúm og njóta góðs af og njóta hinna háu vaxta. Fyrst og fremst síðan húsbyggjendur, atvinnulífið, framleiðsluatvinnuvegirnir alveg sérstaklega, sem þurfa að hafa allt sitt rekstrarfé að láni, sem líða fyrir hina háu útlánsvexti, þannig að þessi vaxtastefna stjórnarinnar er svo glórulaus í öllu tilliti og ekkí síst því að hún tryggir engan veginn hag hins almenna launamanns, hag hins almenna sparifjáreiganda - eins og reyndar hv. talsmenn stjórnarinnar hafa sjálfir lýst hér úr þessum ræðustóli.

Herra forseti. Vegna þeirra smekklegu ummæla sem hæstv. viðskrh. hafði hér um gáfnafar ákveðinna einstaklinga sem hefðu ratað í mál í tengslum við okur, þá vil ég segja og endurtaka það að ég gerði mér ekki mat úr einstökum meintum afbrotamálum í þessum efnum. Ég vitnaði hins vegar til upplýsinga sem komið hafa fram við rannsókn þeirra eins og þess að það er staðhæft að lán hafi verið þar á ferðinni með um 300% ársávöxtun. Það voru þær upplýsingar sem ég leyfði mér að nota út úr þessari umræðu, aðrar ekki. Ég frábið mér ræðuhöld eins og þau að það sé vegna þess að þetta fólk sé svo heimskt og eigi ekki betra skilið sem það rati í þessa ógæfu.

Ég vil segja það, herra forseti, þótt það þyki kannske barnalegt að segja það hér, að þessir 2-3 síðustu sólarhringar, meðan þetta mál hefur verið á dagskrá, hafa verið mér mikil lífsreynsla vegna þess að til mín hefur leitað fjöldi fólks, bæði fórnarlömb, þeir sem lagt hafa fram féð, lögfræðingar og ýmsir aðrir sem hafa viljað koma sínum skoðunum á þessum málum á framfæri. Gjarnan hafa þeir þakkað fyrir það að Alþingi skyldi taka upp þessa umræðu. Að ræða við þetta fólk hefur verið mér mikil lífsreynsla. M.a. vegna þeirra samtala sem ég hef átt við fjölmörg fórnarlömb þessa ástands vil ég sérstaklega harðlega fordæma þau ummæli sem hæstv. viðskrh. lét sér um munn fara um það hvers vegna einstakar ógæfumanneskjur lenda inn í þennan vítahring.

Ég spurði hæstv. viðskrh. hins vegar efnislegra spurninga, nákvæmra efnislegra spurninga. Þær hafa nú legið fyrir og birst í blöðum og hæstv. viðskrh. hefði getað fengið afrit af ræðu minni hér hjá ræðuritun Alþingis í gær og reynt að bæta um betur og svara því sem ég spurði hann um betur en hann gerði í fyrstu tilraun. Hann sýndi ekki lit á því, hæstv. viðskrh. Hann reyndi það ekki. Ég spurði hann t.d. efnislega um það hvernig hann liti á stöðu okurlaganna, þeirra laga, sem eru í gildi og helst er hægt að styðjast við í þessum efnum. Ég spurði hann út í textaskýringar á einstökum málsgreinum okurlaganna og hann svaraði því ekki einu orði. Hann hafði ekki uppi tilburði til að svara því, hæstv. viðskrh. Hefði hann þó, a.m.k. í dag, með samstarfi við sitt starfsfólk átt að geta skoðað þetta lítillega og komið því frá sér.

Það er nefnilega svo, herra forseti, að margir lögfræðingar telja að miklu meiri stoð felist í okurlögunum heldur en menn hafa viljað vera láta og það sé í raun og veru hægt að hafa miklu meiri hemil á þessari starfsemi á grundvelli okurlaganna en gert er í dag. Ég get ekki nafngreint einstaka lögfræðinga sem sett hafa fram þessa skoðun en ég fullyrði að þeir eru margir. Þeir eru margir, bæði löglærðir menn og lögfróðir menn, sem hafa kynni af þessum viðskiptum, sem fullyrða að á grundvelli okurlaganna sé hægt að ganga að þessum viðskiptum og hafa á þeim hemil. Í þessum okurlögum, lögum nr. 58/1960, eru ákvæði sem banna hærri ávöxtun á lánsfé heldur en þá sem nemur hæstu lögleyfðum vöxtum, eins og gefið er út af Seðlabanka.

Þessi lög gera meira. Þau tala einnig um annað endurgjald fyrir lán. Ekki aðeins vextir heldur hvert annað endurgjald sem fyrir lánið kemur heyrir einnig undir þessi lög. Og þar með vilja mjög margir lögfræðingar og lögskýrendur meina að þar undir sé hægt að flokka afföll eða önnur slík endurgjöld sem af bréfunum koma. Það er í öllu falli ljóst að skilningur manna er sá að eigi slík viðskipti sér stað milli tveggja aðila milliliðalaust þá sé um okur að ræða. Þetta getur hver og einn sannfært sig um, sem ekki trúir, með því að fara til verðbréfasölu og biðja þar um lán. Verðbréfasalinn kann að segja: ég get veitt þér lán. Þú, herra minn, - einstaklingur sem við getum kallað A - getur fengið hér lán á þessum kjörum, sem eru auðvitað langt yfir þessum lögleyfðu vöxtum Seðlabankans, en ég get ekki átt við þig viðskiptin milliliðalaust því þá er það okur. Hins vegar bendi ég þér á það - kann einhver verðbréfasali að segja - að fá til liðs við þig annan einstakling. Farðu til B og biddu hann að taka þitt skuldabréf, útgefið af þér, koma með það til mín en framselja mér það. Ég get átt viðskipti við B. Það er ekki okur, segir verðbréfasalinn.

Síðan gerist þetta gjarnan og það gerist þannig að þeir A og B, sem geta verið bræður, sem geta verið frændur eða eitthvað þar fram eftir götunum, þeir fara saman til verðbréfasalans. Þeir hafa ekki einu sinni fyrir því að fara hvor í sínu lagi, þeir fara gjarnan saman og A, þ.e. sá sem gaf út bréfið, stendur við hliðina á B þegar peningarnir koma yfir borðið og A tekur þá og stingur þeim í vasann. Og hvert er þá hlutverk milliliðarins? Hvaða tilgangi þjónar B í þessum viðskiptum?

Þeim einum að gera þau að nafninu til lögleg. Eða ég vil orða það svo, herra forseti, að gera þau ekki alveg eins augljóslega lögbrot eins og þau annars væru.

Ég vil, herra forseti, til að skýra mál mitt nánar skipta um nöfn á A og B og taka hér annað dæmi. Ég ætla að setja Mjólkursamsöluna í Reykjavík í staðinn fyrir A og ég ætla að setja Mjólkurbú Flóamanna í staðinn fyrir B og ég get sett Landsbankann í staðinn fyrir verðbréfasalann. Það gerist, og gerðist í haust, að Mjólkursamsalan í Reykjavík gaf út verðbréf, 100 þús. kr. hvert stykki. Mjólkursamsalan í Reykjavík endurseldi eða framseldi ekki þessi bréf. Hvers vegna ekki? Ég tel að það hafi verið vegna þess að það hefði ekki verið löglegt ef hún hefði gert það sjálf með þeim kjörum sem þau voru auglýst á, þ.e. hæstu lögleyfðum vöxtum, sem skv. pappírum frá Seðlabanka Íslands, dags. 1. okt., voru 4% á verðtryggðum skuldabréfum með lánstíma allt að 21/2 ári eða 5% á verðtryggðum lánum til lengri tíma. Það var auglýst að þessi lánskjör væru langt, langt, langt þarna fyrir ofan, 12-13-14% eða svo, ef ég man rétt. Og hvað gerist svo? Það gerist að Mjólkurbú Flóamanna framselur þessi bréf. Landsbankinn tekur þau í umboðssölu fyrir umboðsþóknun 1,5% og síðan eru þau seld einstaklingum á vegum fjármáladeildar Landsbanka Íslands. Landsbankinn gerir reyndar meira. Hann skuldbindur sig til að kaupa þessi bréf aftur af viðkomandi og áskilur sér þó til þess eins mánaðar frest, ef þeir vilja innleysa þau á hvaða tíma sem er.

Þetta er fróðlegt dæmi, herra forseti, vegna þess að ég talaði hér í ræðu minni fyrr í þessari umræðu um grá svæði í þessum viðskiptum og mjög margir lögskýrendur telja þetta vera á hinum gráu svæðum. Og þetta er ekkert leyndarmál lengur þegar stórir aðilar eins og Mjólkursamsalan í Reykjavík og Mjólkurbú Flóamanna setja nöfnin sín í staðinn fyrir A og B frammi fyrir augum alþjóðar.

Við skulum aðeins hugleiða þetta lengur. Hver ætlar að taka á sig afföllin í þessu dæmi? Hver ætlar að taka á sig afföllin? Ætlar Mjólkurbú Flóamanna að gera það? Hvers vegna er það að því? Það er Mjólkursamsalan sem er að ná sér í pening. Hvaða skyldu ber Mjólkurbúi Flóamanna til að vera að taka á sig þarna gífurleg afföll? Ætla þeir að telja þetta þannig fram til skatts? En ef það gerist ekki, ef Mjólkursamsalan tekur á sig afföllin, er þá Mjólkurbú Flóamanna að okra á Mjólkursamsölunni? Þetta er fróðlegt dæmi, herra forseti. Ég held að það væri ástæða til þess að ríkissaksóknari færi ofan á saumana á svona málum og það yrði fengið á hreint í eitt skipti fyrir öll: Er þetta löglegt eða er þetta ekki löglegt? ég vona að menn taki mig ekki svo að ég sé að ráðast sérstaklega á þessi tvö fyrirtæki eða þessa aðila því það væri hægt að taka fjöldamörg slík dæmi, fjöldamörg, en ég tók þau einungis hér vegna þess að stutt er síðan að þau hafa staðið í þessum verkum.

Ég ætlaði reyndar, herra forseti, að fá ljósrit eða staðfestar upplýsingar um þessi bréf frá fjármálasviði Landsbanka Íslands, en þá brá svo við að það fannst ekki einn einasti snepill. Hvers vegna? Jú, vegna þess að bréfin höfðu öll selst á augabragði og voru ekki til lengur. Þau finnast ekki í Landsbankanum. Þau voru svo vinsæl. En í öllu falli var það staðfest - og ég hef það reyndar eftir fleiri heimildum - að Mjólkurbú Flóamanna hafi verið framsalsaðili í þessu tilfelli þannig að ég leyfi mér að fullyrða að ég fari hér með rétt mál. Ég átti engar 100 þús. kr., herra forseti, þannig að þó ég hefði viljað og þó að einhver bréf hefðu verið til, þá hefði ég ekki getað keypt þau til þess að leggja þau hér fram sem gögn í þessu máli. En svona eru nú þessi viðskipti. Fjöldamargir sem nálægt þeim koma eða til þeirra þekkja segja að þeir eigi í raun og veru enga ósk heitari en að úr þessum málum verði skorið; því verði komið á hreint hvort þessi viðskipti séu lögleg eða ólög eða hvar þau liggi þar á milli. Og lög eru nú einu sinni lög, herra forseti, og meðan lög um okur frá 1960 eru í gildi á annaðhvort að fara eftir þeim eða breyta þeim þá ef menn treysta sér ekki til að framfylgja þeim lengur. Þess vegna spurði ég hæstv. viðskrh., sem nú gengur í salinn - okkur öllum til mikillar ánægju efalaust, að því hvernig hann skildi þessi lög, hvernig hann kysi að túlka þau, hvort hann teldi að ekkert hald fælist í þessum ákvæðum okurlaganna.

Það er ekki nema rétt og skylt, herra forseti, að ég lesi hérna viðkomandi greinar úr okurlögunum fyrir hæstv. viðskrh. til þess að það liggi nú alveg á hreinu hvað er til umfjöllunar. Í 1. gr., með leyfi forseta, segir:

„Þegar samið er um vexti af skuld, en ekki tiltekin upphæð þeirra, skulu þeir vera jafnháir vöxtum af almennum sparifjárreikningum hjá bönkum og sparisjóðum.

2. gr. Ef skuld er tryggð í veði með fasteign eða í handveði, er heimilt að taka af henni ársvexti, sem séu jafnháir þeim vöxtum, er stjórn Seðlabankans leyfir bönkum og sparisjóðum að taka hæsta fyrir þannig tryggð lán á þeim tíma, er til skuldar er stofnað.“

Og síðan segir í 4. gr.:

„Nú er áskilið annað endurgjald fyrir lánveitingu eða umlíðun skuldar en vextir af henni, og má það aldrei vera hærra en svo, að endurgjaldið alls svari til þeirrar vaxtahæðar af höfuðstól skuldarinnar, er getur um í 2. og 3. gr."

Og ég vil lesa lengra vegna þess m.a. að hv. 2. þm. Reykv. hristi sinn dökka koll þegar ég spurði um afföllin, hvar þau stæðu í þessu sambandi. Þá vil ég lesa 6. gr., með leyfi forseta. Þar segir:

„Ef samið er um vexti eða annað endurgjald fyrir lánveitingu eða umlíðun skuldar eða dráttarvexti fram yfir það, sem leyfilegt er skv. lögum þessum, eru þeir samningar ógildir“. Síðan kemur ákvæði um hvernig það skuli uppgert og segir svo enn fremur í 2. málsgr.: „Sá, sem áskilur sér vexti eða annað endurgjald fyrir lánveitingu eða umlíðun skuldar, eða dráttarvexti fram yfir það, sem leyfilegt er skv. lögum þessum, svo og sá, sem er milligöngumaður við slíka samninga, skal sæta sektum.“ Ég ætla að fá að endurtaka þetta, herra forseti: „svo og sá sem er milligöngumaður við slíka samninga.“

Og ég spyr hæstv. viðskrh.: Hvað er t.d. Mjólkurbú Flóamanna annað en milligöngumaður um ákveðna samninga þegar það tekur að sér að framselja skuldabréf Mjólkursamsölunnar í Reykjavík? Er það þessi milligöngumaður sem okurlögin kveða á um eða er það hann ekki? Hver er skilningur hæstv. ráðh. á því?

Ég teldi það ekki óeðlilegt, eins og ég sagði hér í upphafi, að fram færi opinber rannsókn á þessum málum. Það er í raun og veru furðulegt að öll þjóðin skuli hafa talað um það mánuðum saman að þessir hlutir séu að eiga sér stað og annar hver lögfræðingur í bænum liggur andvaka yfir því á nóttunni að velta því fyrir sér hvort þetta sé löglegt eða ekki, en ekkert skuli hafa gerst, að ríkissaksóknari skuli hafa það svona náðugt og aðrir þeir aðilar sem hér gætu til komið skuli ekki lyfta litla fingri. Svör hæstv. ráðherra hér eru enn þá kostulegri í þessu ljósi.

Herra forseti. Ég vonast til að hæstv. viðskrh. eða þeir hæstv. ráðherrar aðrir sem kjósa reyni að svara þó ekki væri nema þessari spurningu sérstaklega, þ.e. um stöðu okurlaganna. Ég spurði reyndar efnislega um ákvæði fleiri laga, t.d. Ólafslaga, og hvers vegna sífellt væru brotin ákvæðin um nafnskráningu verðtryggðra gjörninga, en Ólafslög fjalla einmitt um það. Ég á svo sem ekki frekar von á því að þeir reyni aftur að svara því. En þessa einu spurningu endurtek ég hér og ítreka. Það sætir nokkurri furðu, finnst mér, herra forseti, að þeir reyni ekki að gera betur en þeir gerðu síðast við að svara henni.

Ég veit ekki hvað maður á eiginlega að segja um svör hæstv. ráðherra almennt. Mér fundust nú röksemdir hæstv. fjmrh. ekki mjög miklar þegar hann var nánast farinn að segja að vegna þess að okur hefði þekkst áður, væri ekkert nýtt af nálinni, væri þetta allt í lagi núna. Einhvern tíma ætlaði einhver hæstv. ráðherra að fara að rökstyðja ákveðin lögbrot hér í bænum fyrir eins og ári síðan með því að aðrir menn hefðu framið lögbrot, það væru svo mörg lög brotin þessa dagana að það væri allt í lagi. Þetta er svipaður málflutningur.

Auðvitað hefur okur alltaf viðgengist í einhverjum mæli. Hver hefur borið á móti því? Ég man ekki betur en að það sé eitthvað um okur í Biblíunni og sjálfsagt í enn þá eldri ritum. En það er ekki þar með sagt að það sé eitthvað betra fyrir það. Það sem liggur á borðinu er að okur hefur farið stórkostlega vaxandi, það er okurvertíð, það er okurveisla, þetta liggur fyrir. Þetta er a.m.k. skoðun hv. þm. Framsfl., Haraldar Ólafssonar og Páls Péturssonar. Ég tel að hún sé alveg rétt, ég er þeim alveg sammála. Þetta eru því heldur léleg svör og lélegar röksemdafærslur, að ætla að bjarga hæstv. ríkisstj. á þurrt í málinu með því að segja að það hafi einhvern tíma áður verið okrað.

Herra forseti. Það mun liggja fyrir innan tíðar að Alþb. mun ekki una því að Alþingi taki ekki á þessum málum með einhverjum markvissum hætti. Eftir þau svör, sem hér liggja fyrir frá hæstv. ríkisstj., er ekki annað að gera en að stjórnarandstaðan eða aðrir þeir sem vilja taka á þessum málum sýni það í verki. Þess vegna hefur þingflokkur Alþb. samþykkt á fundi sínum í gær drög að frv. um að stöðva okurlánastarfsemi. Þetta frv. verður lagt hér fram í þinginu á allra næstu dögum. Um efni þess vil ég vísa til ræðu sem hv. 3. þm. Reykv., formaður Alþb., flutti hér í umræðunum á þriðjudaginn var þar sem hann vék að nokkrum meginhlutum sem gera þyrfti til að koma böndum yfir þessa starfsemi. En þetta frv. mun, eins og ég áður sagði, liggja hér frammi á Alþingi innan tíðar. Það reynir þá á það, herra forseti, hverjir eru tilbúnir til að grípa til aðgerða og það skjótt og tafarlaust til að stöðva þessa okurlánastarfsemi, til að koma eðlilegum böndum á verðbréfaviðskipti og til að taka upp eftirlit, sem greinilega er orðið nauðsynlegt, með þessum viðskiptum. Það er mat þeirra sem til þekkja að slíkt sé hægt og auðvitað er það hægt. Það er gert í nálægum löndum og hefur verið gert lengi.

Þegar þessi starfsemi tekur jafnmiklum stakkaskiptum og hún hefur gert núna á síðustu mánuðum og í tíð þessarar ríkisstj. er óhjákvæmilegt að setja um hana lög og reglur og leyfisbinda slíka starfsemi. Það gengur ekki að einhverjir einstaklingar í einni skrifstofukompu úti í bæ velti hundruðum milljónum króna handa á milli í hverjum mánuði án þess að þurfa til þess nokkurt einasta leyfi og jafnvel vera dæmdir afbrotamenn á sama tíma. Það ætti hverjum manni að vera ljóst að svoleiðis ástand gengur ekki.

Herra forseti. Ég vil í lokin áður en ég lýk máli mínu þakka virðulegum forseta fyrir að hafa leyft þessa umræðu síðustu dægur. Þátttaka hv. þm. hefur sannfært mig um að hún var orðin tímabær og margir væntu þess að Alþingi léti þessi mál með einhverjum hætti til sín taka. Það er að vísu mín tilfinning að mörgum þyki svör hæstv. ráðherra rýr, að margir hefðu vænst þess að meira væri í sekknum hjá hæstv. ríkisstj., að hún væri tilbúin til að taka á þessum málum, að hún yppti ekki öxlum eins og ég tel að hún hafi gert. Í raun og veru mundu krakkar lýsa því svo að ríkisstj. hefði yppt öxlum þegar vaxtaokrið og vaxtaokurlánastarfsemin kom til umræðu á Alþingi. Það eru ekki merkileg viðbrögð að mínu mati, herra forseti, í slíkum alvörumálum. Þetta er alvörumál.

Ég tek undir orð hæstv. fjmrh. um að aðgát skal höfð í nærveru sálar. Það á ekki að fjalla um mál, sem valda jafnmiklum örlögum með almenningi og þessi, af lausung. Ég held að það eigi sæmilega við, herra forseti, að vitna hér í nokkuð gamlan kveðskap, eða brot úr kveðskap eftir Einar Benediktsson. Hann átti nú sinn feril, hann Einar Benediktsson, eins og allir vita og eitthvað gæti hann hafa komist í kynni við okurlánastarfsemi með einhverju móti. Alla vega varð honum það að yrkisefni á einni tíð og þó að þetta kvæði beri kannske merki síns tíma finnst mér það eiga býsna vel við. Þeir munu að vísu vera fáir í dag sem veðsetja hörpur, eins og hér er ort um, en við getum sett eitthvað í staðinn fyrir hörpuna og þá á það kannske betur við. Með leyfi forseta ætla ég að ljúka máli mínu með því að lesa brot úr Skriflabúðinni eftir Einar Benediktsson:

Okrarans höfuð, hrokkið og grátt,

hvimaði um syllur og snaga.

Melrakka-augað var flóttaflátt,

flærðin rist í hvern andlitsdrátt

og glottið ein glæpasaga. -

Hann hafði ævinnar löngu leið

leikið sér frjáls að tárum og neyð

og óheftur ginið við gróðans veið,

geymdur helvítis aga.

Í horninu einu harpa stóð

með hangandi, slaka strengi, -

svo drúpandi hljóð með sín dánu ljóð

Við dyrnar hikaði unglegt fljóð

og horfði til hörpunnar lengi. -

Inni var prangarans auður og glys,

úti var strætisins glaumur og þys

með léttúðarsælu, sorgir og slys,

með syndir og stundargengi.

Kvöldljósin tendruðust eitt og eitt,

frá erfiði dagsins reis borgin,

lauguð og smurð og skrauti skreytt,

í skuggana flúði allt töfrað og þreytt,

í barmana byrgði sig sorgin.

Enn leit hún í refsaugað hart og hvasst.

Hönd hennar kreppti einn skilding fast.

Harpan var veðsett, er hamingjan brast,

en hjartað ei sett á torgin. -