21.11.1985
Sameinað þing: 19. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 828 í B-deild Alþingistíðinda. (664)

Okurmál

Einar Kr. Guðfinnsson:

Herra forseti. Þær umræður, sem hér hafa farið fram í dag, hafa farið fram af ærnu tilefni. Tilefnið er það að þau mál, sem nú hafa verið rædd hér í sölum Alþingis, hafa mjög verið til umræðu manna á meðal úti í þjóðfélaginu og mörgum spurningum er ósvarað. Það er því þess vegna mjög að gefnu tilefni að þessi mál eru tekin hér upp á hinu háa Alþingi og ég tek undir þakkir til hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar sem var upphafsmaður þessara umræðna.

Þessar umræður hafa líka verið á margan hátt athyglisverðar, ekki bara fyrir það að hér hefur verið flutt ljóð eftir Einar Benediktsson heldur líka fyrir það að þær hafa leitt ýmislegt í ljós sem ekki var kunnugt fyrir. Það sem mér hefur fundist einkar athyglisvert í þessum umræðum er að hlýða á málflutning fulltrúa Alþb. og hvað hann hefur haft að geyma. Það sem var sérstaklega eftirtektarvert var það þegar fulltrúar Alþb. lýstu afstöðu sinni til vaxtastefnunnar.

Það var einkanlega athyglisvert að heyra hv. 4. þm. Norðurl. e. taka hér af öll tvímæli um að Alþb. hefur snúið frá sinni fyrri stefnu í vaxtamálum, það er hætt að hafa í stöðugum hótunum við sparifjáreigendur í landinu, eins og var landlægt í málflutningi þessa flokks, og hefur nú snúist á sveif með nánast öllum öðrum í landinu í þeim efnum að styðja eðlilega ávöxtun sparifjár. Þetta eru mikil tíðindi og eru kannske afleiðing af þeirri pólitísku hundahreinsun sem átti sér stað í flokknum fyrir örfáum dögum, fólksins í landinu, en kom sér sérstaklega vel fyrir skuldara og stórskuldara þessa lands. eða vikum síðan. Kannske er þetta hin nýja lína Alþb., að hverfa frá sinni gömlu stefnu í vaxtamálum, þeirri stefnu sem lýst var hér áðan, sem gekk öndvert hagsmunum sparifjáreigenda

Þó ekki væri nema fyrir þessara hluta sakir eru þessar umræður merkar. Svo rækilega hafa verið tekin af tvímæli um það að Alþb. hefur skipt um stefnu í þessum málaflokki að það hljóta að teljast tíðindi. (Gripið fram í: Það er langt síðan.) Það er gripið hér fram í og sagt að það sé langt síðan, en þá verð ég að játa að það hefur gleymst að tilkynna þjóðinni um þessa stefnubreytingu. En það skiptir út af fyrir sig ekki máli. Aðalatriðið er að þessi stefnubreyting hefur átt sér stað.

Það leikur ekki á tveimur tungum að miklar breytingar hafa orðið á fjármagnsmarkaði hér innanlands. Mikilvægasta breytingin átti sér stað í kjölfarið á því skrefi sem stigið var í átt til frjálsræðis við ákvörðun vaxta og hefur skilað ótvíræðum árangri. Það var minnt á það hér fyrr í umræðunum að innlán í bönkum hafa á síðustu misserum vaxið mjög verulega. Þessu hefur ekki verið mótmælt.

Ljóst er að þegar innlán voru hvað lægst, á árinu 1983, námu þau, miðað við verðlag í október s.l., um 120 þús. kr. á mann. Um þessar mundir er talið að þessi innlán séu reiknuð á sama verðgildi u.þ.b. 150 þús. kr. á mann. Það er augljóst að þetta er mjög mikill og mikilvægur árangur, þetta þýðir um 25% hækkun. Það kom mér þess vegna nokkuð á óvart að hlýða á málflutning sumra þeirra ræðumanna sem hér töluðu áður og reyndu að gera lítið úr þessu máli, reyndu að draga fjöður yfir það að þessi mikli árangur hefði náðst. Ætti þó þingmönnum að vera ljóst að þessi mikli aukni sparnaður í bankakerfinu hlýtur að hafa og hefur komið mjög til góða.

Ætli það sé ekki forsenda þess að hægt sé að lengja lán, t.a.m. húsbyggjenda sem eru með lán í bönkum, að þar séu fyrir einhver innlán? Ætli það sé ekki forsenda þess að atvinnufyrirtækin í landinu geti fengið lán með eðlilegum kjörum til eðlilegs tíma að þar séu fyrir innlán?

Hv. 4. þm. Norðurl. e. varð tíðrætt um vanda framleiðsluatvinnuveganna. Hann talaði um þá vaxta- og fjármagnsbyrði sem þeir væru að kikna undan og kenndi þar um vaxtastefnu ríkisstj. Það vekur mikla athygli að hv. þm. skuli ekki gera sér ljóst að rekstrar-, fjárfestingar- og afurðalán framleiðsluatvinnuveganna eru í erlendri mynt, að þessi lán, t.a.m. sjávarútvegsins, eru að öllu leyti í erlendri mynt. Eða er hv. þm. ekki ljóst að það eru hin erlendu lán sem eru að kaffæra togara út um allt land? Það er ekki vaxtabyrði innlends lánsfjárkostnaðar, það eru hin erlendu lán. Það er ekki hin innlenda vaxtastefna ríkisstj. sem ræður þar neinu. Það er kjarni þessa máls.

75% afurðalán eru veitt í sjávarútvegi. Skyldu þau vera í innlendri mynt? Þau eru í erlendri mynt. Af hverju skyldu þau vera í erlendri mynt? Það er vegna þess að áður en Alþb. skipti um skoðun ríkti sú vaxtastefna sem olli því að hér brann upp bókstaflega allt sparifé landsmanna. Þetta gerði það að verkum að bankakerfið var þess vanmegnugt að lána fé út í innlendri mynt.

Hafi hv. þm. fylgst með því sem efst er á baugi nú meðal samtaka í sjávarútvegi ætti þeim að vera það mætavel kunnugt að það er grundvallarkrafa þessara samtaka nú að horfið verði frá því að binda öll afurðalán í erlendri mynt og sjávarútveginum veitt aukin hlutdeild í þeim innlenda lánsfjármarkaði sem er hér að myndast. Þetta er mjög mikilvægur árangur af vaxtastefnu og peningamálastefnu hæstv. ríkisstj.

Ef við berum þau lánakjör, sem ríkja hér innanlands og eru afleiðing af vaxtastefnu ríkisstj., saman við lánakjörin sem hafa verið á erlendum lánum upp á síðkastið kemur í ljós að langhagstæðustu lánin hafa þó verið hin innlendu lán. Ef skoðað er tímabilið frá upphafi árs 1980 og væntanleg þróun til ársloka þessa árs kemur í ljós - og þá er ég að tala um meðalvexti verðtryggðra lána sem eðlilegt er að miða við - að raunvextir þessara lána í innlendri mynt voru að meðaltali 3,63%. Ef hin alræmdu dollaralán eru hins vegar tekin sem dæmi, þá voru raunvextir þeirra 16,52%. Ætli það sé ekki dálítill munur þarna á? Ætli það sé ekki eftir nokkru að slægjast að reyna að auka þann innlenda fjármagnsmarkað, sem er hér að byrja að myndast, til að fleiri geti notið þó þessara ávöxtunarkjara sem ýmsum þykja allt of þung?

Það er að vísu rétt, sem fram kom í máli nokkurra þeirra hv. þm. sem hér töluðu, að sparnaður þjóðarinnar sem hlutfall af þjóðarframleiðslu í heild sinni hefði ekki aukist heldur minnkað. Þessi þróun er að vísu ekki að byrja að gerast nú heldur hefur hún verið að eiga sér stað á mörgum undangengnum árum. En ég held að nú væri kominn tími til að við færum okkur ögn gætilega og gættum aðeins að hvað við værum í rauninni að tala hér um. Það er einatt þannig að mörgum hefur orðið hált á því að fara með hugtök án þess að skoða dálítið hvað þau þýða.

Þegar við erum að tala um að sparnaður þjóðarinnar í heild hafi aukist, þá erum við að tala um sparnað sem þann hluta tekna þjóðarinnar sem ekki rennur til samneyslu eða einkaneyslu. Þegar við erum nú að tala um að þessi sparnaður hafi minnkað, þá erum við að tala um að annað tveggja hafi gerst, að samneysla og einkaneysla í heild sinni eða annaðhvort einkaneysla eða samneysla hafi aukist umfram það sem nemur aukningu sparnaðar í innlánsstofnunum.

Ég fékk ekki skilið af ræðum hv. 4. þm. Norðurl. e. og hv. 3. landsk. þm. hvort þau teldu hér um að ræða háskalega þróun, að þessi heildarsparnaður væri að minnka, eður ei. Það var ekki hægt að ráða það af orðum þeirra hver skoðun þeirra væri. En sé svo að þau telji þetta alvarlega þróun og að við henni þurfi að sporna hlýtur sú spurning að vakna: Á hvern hátt á að standa að þessu, með því að auka sparnaðinn enn, t.d. með því að hækka vexti? Eða er það skoðun þeirra að draga þurfi úr samneyslunni í landinu? Munu þau þá ekki í samræmi við það flytja hér brtt. til lækkunar á fjárlögum og lánsfjárlögum? Eða munu þau vilja keppa að því að einkaneyslan í landinu, lífskjörin, dragist saman? Þetta eru knýjandi spurningar sem við þurfum að fá svör við ef það er skoðun þessara hv. þm. að það sé áhyggjuefni að sparnaður í landinu sé að dragast saman.

Sannleikurinn er sá að skýringin á því að sparnaður sem hlutfall af þjóðarframleiðslu í heild sinni er að dragast saman er fyrst og fremst sá að neyslan hefur verið að aukast. Sá hluti af vergri þjóðarframleiðslu okkar, sem nú fer til neyslu, er einfaldlega meiri en hann var t.d. á árinu 1982. Sá hluti var 80,1% árið 1982 en er nú talinn 82,6%. Þetta er skýringin, hv. þm.

Sparifjáreigendur, þeir sem leggja fé á bók, þeir sem leggja fé fyrir, þeir sem kjósa að spara og geta það með einhverjum hætti, eru, hvað sem öðru líður, fyrst og fremst almenningur í landinu. Skv. upplýsingum frá innlánsstofnunum liggur það fyrir að 75% innlána eru í eigu einstaklinga. Það er því ótvírætt þeirra hagur að þannig sé um hnútana búið að ávöxtunarkjör sparifjár séu með eðlilegum hætti. Þess vegna vil ég ítrekað fagna því að hv. 4. þm. Norðurl. e. hefur lýst yfir stuðningi við þessa sjálfsögðu og eðlilegu stefnu.

Á hitt er svo einnig að líta að þegar við skoðum aftur á móti útlánin liggur það líka fyrir skv. upplýsingum útlánastofnana að u.þ.b. fimmtungur til fjórðungur útlána fer til einstaklinga. Afgangurinn, 75-80%, fer til fyrirtækja. Það eru því fyrirtækin fyrst og fremst sem hafa verið að bera byrðarnar af hærri fjármagnskostnaði í landinu. Þetta er kjarni þessa máls. (JBH: Við höfum misjafna aðstöðu til að velta því út í verðlagið.) Rétt er það. Ég geri síst af öllu lítið úr því að hækkandi raunvextir hafi valdið vandræðum. Það er staðreynd að á ákveðnu tímabili hækkuðu raunvextir hér í landinu, þeir hækkuðu stanslaust á árunum 1980 fram til ársloka 1984. Hér var um að ræða samfellda þróun sem hófst í tíð hv. fyrrv. ríkisstjórnar. Hvenær skyldi það hafa gerst aftur að þessir raunvextir hafi farið að lækka? - Hér er ég enn að tala um meðalvexti verðtryggðra lána. - Jú, það gerðist á þessu ári. Raunvextir eru núna 1,26 prósentustigum lægri en þeir voru að meðaltali á árinu 1984.

Vissulega er hér um að ræða árangur. Hér er einmitt að koma fram árangur þeirrar peningamálastefnu sem núv. ríkisstj. hefur fylgt. Þessi árangur kemur reyndar víðar í ljós. Það hefur komið fram í blaðaskrifum í málgagni hæstv. forsrh., NT, fyrir nokkrum dögum að vextir á verðbréfamörkuðum hefðu farið hríðlækkandi upp á síðkastið. Í frétt þessa blaðs segir svo, með leyfi forseta:

„Vextir á verðbréfamarkaðinum hafa stöðugt verið á niðurleið allt frá síðustu áramótum að því er fram kom í samtali við forstjóra Kaupþings, Pétur Blöndal. Hann kvaðst ekkert sjá sem mælti á móti því að þeir lækki enn frekar. Vextir á þessum markaði séu háðir framboði og eftirspurn og enn þá sé mikið framboð á peningum en fremur lítið á bréfum. Viðskiptin séu að færast meira yfir í bréf sem bæði séu öruggari og með lægri vöxtum.“

Hér hef ég m.ö.o. sýnt fram á með ótvíræðum hætti að raunvextir í landinu eru að lækka fyrir tilstilli peningamálastefnu núv. ríkisstj. (JBH: Það liggur fyrir krafa um hækkun.) Það liggur fyrir krafa, rétt er það, um hækkun til að mynda á sparisjóðsbókum. Það liggur líka fyrir sérstök traustsyfirlýsing og stuðningsyfirlýsing hæstv. málshefjanda þessa máls, 4. þm. Norðurl. e., við það að vextir á tilteknum bókum í innlánsstofnunum séu hækkaðir. Ég tek undir það með hv. þm. að óeðlilegt er að fólk, sem þarf einhverra hluta vegna að ráðstafa fé sínu og ávaxta það til skamms tíma, hafi ekki til þess eðlilegar aðstæður. Vitaskuld er þetta eðlileg krafa.

Það leikur enginn vafi á því að margt er það sem betur má fara varðandi ýmislegt í peningamálum okkar þjóðar. Það kom fram í ræðum hæstv. ráðherra að ýmislegt er á döfinni til að bæta hér úr. Þess vegna er það óneitanlega furðulegt að hlýða á þann málflutning sem gengur út á það að í ræðum hæstv. ráðherra hefði ekkert komið fram sem benti til að þeir höfðu nokkrar minnstu áhyggjur af ástandi mála.

Það kom fram t.d. í ræðum hæstv. ráðherra að væntanlegt er frv. varðandi verðbréfamarkað, frv. varðandi Seðlabanka Íslands. Það kom fram og var rifjað upp að á síðasta Alþingi voru samþykkt lög um sparisjóði og banka og ég vek athygli á því að lögin um sparisjóði t.d. fengu stuðningsyfirlýsingu hér úr ræðustóli frá hv. formanni Alþb. Það kom jafnframt fram að unnið sé að frv. um bann við okri og frv. um dráttarvexti. Það kom m.ö.o. fram í þessari umræðu að að mjög mörgu er hugað nú varðandi þessi mál. Það veltur væntanlega á viðtökum hv. þm. hversu vel gengur að koma þessum málum fram.

Meginatriði varðandi peningamálastjórnunina er að skapa hér jafnvægi á lánamarkaðinum þannig að fólk geti fengið með viðunandi og eðlilegum ávöxtunarkjörum að leggja fé sitt fyrir og geti fengið fé að láni með viðunandi og eðlilegum ávöxtunarkjörum til langs tíma. Það tekur vitaskuld tíma að byggja upp þennan lánamarkað úr þeim rústum sem hann var kominn í að undangengnu því stjórnleysisástandi sem hér hafði ríkt í þessum efnum. Þetta tekur tíma og því fylgja erfiðleikar. Á þessum tíma, sem verið er að byggja upp, gefur það auga leið að ekki verður hægt að gera allt í einu. En það leikur ekki á tveimur tungum að árangur hefur orðið umtalsverður hvað varðar innlánaaukningu og þessi árangur hlýtur að skila sér.

Það hefur líka komið ótvírætt í ljós að meðalraunvextir af verðtryggðum lánum hafa verið að lækka á þessu ári. Það liggur líka fyrir að vextir á verðbréfum hafa verið að lækka. Þetta er að sjálfsögðu árangur sem meta ber þó að vitaskuld megi margt betur fara.

Félmrh. (Alexander Stefánsson): Herra forseti. Ég tel ástæðu til að koma hér aðeins inn í þessar umræður, var raunar búinn að biðja um orðið síðast þegar hér var opnuð mælendaskrá.

Mér finnst ástæða til að taka undir það sem hér hefur komið fram í sambandi við efni þessara umræðna sem er fyrst og fremst sú okurlánastarfsemi sem er augljóslega hér í þjóðfélaginu. Nú er m.a. einn angi af henni í fullri rannsókn. Þetta er að mínu mati þjóðarmein sem verður að uppræta. Ég tel því að ekkert megi til spara til að herða aðgerðir á þessu sviði, herða viðurlög.

Eitt vil ég segja strax sem ég vil láta koma fram í þessum umræðum: Ég tel ástæðu til að vara við því að þeir aðilar, sem verða uppvísir að slíkri starfsemi og væntanlega dæmdir, verði verðlaunaðir með því að fá að starfa áfram að opinberum málum og ábyrgðarstörfum í þjóðfélaginu. Mér finnst ástæða til að það sé undirstrikað hér til að gera þetta mál enn þá fyrirferðarmeira.

Ég verð að segja það sem mína skoðun að ég tel að það þurfi einnig að taka miklu harðar á þeim glæpalýð sem dreifir fíkniefnum hér á landi. Að mínu mati á að gera þetta á þann hátt - við erum það fámenn þjóð að það á hiklaust að birta á eftirminnilegan hátt nöfn og myndir af slíkum óþurftarmönnum í þjóðfélaginu.

Ég þarf ekki að ræða meira um þetta mál sérstaklega því að við erum öll væntanlega sammála um það hér á hv. Alþingi að hér er um slíkt vandamál að ræða í okkar þjóðfélagi, bæði að því er varðar okurlánastarfsemina og eiturlyfjadreifinguna, að ekki er hægt lengur að horfa fram hjá því að hér þarf raunhæfar aðgerðir og ekki á að hika við að birta nöfn og leggja dóm á þá aðila sem að þessu standa. Þetta er það alvarlegt fyrir okkar þjóðfélag, ekki síst vegna smæðar okkar.

Það sem kom mér til að biðja hér um orðið var að mig langar til að fara nokkrum orðum um húsnæðismálin. Þau hafa nokkuð spunnist inn í þessar umræður þó að ekki hafi komið fram beinar fyrirspurnir í sambandi við þau mál. Það vita allir hv. þm. að húsnæðismálin eru í sérstakri meðferð. Milliþinganefnd er að störfum sem á eftir að vinna í samráði við ríkisstj. frekar að þessum málum.

Ég verð að segja það hér af þessu tilefni að það er ákaflega leiðigjarnt hvað hin opinbera fréttamiðlun í sambandi við húsnæðismálin er neikvæð. Reynt er að velta sér upp úr erfiðleikum fólks á þessu sviði og telja fólki trú um að ekkert sé reynt til að greiða úr erfiðleikunum hjá hinum ýmsu aðilum í þjóðfélaginu sem öllum er kunnugt um.

Hæstv. fjmrh. fór nokkrum orðum um þetta mál hér áðan og rakti rækilega nokkrar tölulegar staðreyndir. Ég get því sparað mér það. Við vitum að sá áróður, sem hafður hefur verið í frammi, hefur verið einstrengingslegur og ekki stuðst við nein eðlileg rök. Það vita allir sem vilja vita - hv. alþm. hafa haft þau gögn fyrir framan sig á hverjum degi - að útlán byggingarsjóðanna hafa aukist gífurlega. Ef við tökum Byggingarsjóð verkamanna með, sem hefur þó haft meira jafnræði á þessu árabili, frá 1980-1985, var hlutfallið 1980 1,7% af þjóðarframleiðslu til beggja sjóðanna, 1985, þ.e. í ár, 3,6% og verður yfir 4% á næsta ári miðað við framlagt fjárlagafrv.

Sú erlenda lántaka, sem vitnað var til að þurfti að grípa til, ekki síst á síðasta ári og þessu ári, var eingöngu neyðarráðstöfun sem varð að gera til að leysa brýnasta vanda fyrir húsbyggjendur sjálfa. Þetta var gert til að styrkja stöðu sjóðanna sem þurfa lengri tíma til að byggja sig upp miðað við þá stefnu sem farið hefur verið eftir síðan 1980.

Þrátt fyrir það að ég ætla ekki að ræða fjárlagafrv. nú í sambandi við húsnæðismálin vil ég láta það koma hér fram að í fjárlagafrv. er framlag ríkisins 1,6 milljarðar kr. í beinu ríkisframlagi sem er langt umfram það sem nokkurn tíma áður hefur verið og mun eðlilega styrkja mjög hlutfall byggingarsjóðanna og starfsemi þeirra.

Um vaxtamálin mætti að sjálfsögðu tala langt mál hér. Ég ætla ekki að gera það en í sambandi við byggingarsjóðina vil ég undirstrika það sem raunar hv. alþm. vita: Ekki hefur verið hreyft við vöxtum byggingarsjóðanna í sambandi við húsnæðislánin, þeir eru óbreyttir 1985 frá því sem þeir voru 1984 og síðari hluta árs 1983, þ.e. niðurgreiddir vextir, 1% af lánum Byggingarsjóðs verkamanna, og 31/2% af lánum Byggingarsjóðs ríkisins.

Auðvitað væri æskilegt að geta komið þeirri stöðu á í okkar þjófélagi að lán til húsnæðismála, a.m.k. til þeirra sem mest þurfa á slíkum lánum að halda, væru niðurgreidd meira en þetta. En ég vil vekja athygli á því að þetta eru engar smáupphæðir. Eftir nokkra daga liggur fyrir ítarlegur útreikningur frá Þjóðhagsstofnun um það hvaða gildi þetta hefur í raun og veru fyrir þá sem njóta þessara lána. Það verður fróðlegt að birta þá töflu og það verður gert.

Mér finnst ástæða til að kenna hér inn á annað mál í sambandi við húsnæðismálin, þ.e. að lýsa því að nokkru hvað hefur verið gert til að aðstoða það fólk sem hefur verið í vanda, ekki síst á þessu ári. Í byrjun þessa árs var sett við stofnunina sérstök ráðgjafarþjónusta sem hefur það hlutverk að fjalla um þessi mál og reyna að greiða götu fólks. Í byrjun þessa árs var stofnaður sérstakur lánaflokkur til að fylgja þessu eftir. Í sambandi við þessa ráðgjafarþjónustu hafa verið afgreidd yfir 2000 lán að fjárhæð rúmlega 250 millj. kr.

En það sem er þó jákvæðast við þessa starfsemi, sem er ný í húsnæðismálum, er að tekið var upp virkt samstarf við viðskiptabanka og sparisjóði um að vera þátttakendur í þessari ráðgjafarstarfsemi. Það hefur komið fram áður að viðskiptabankar og sparisjóðir tóku þessu mjög jákvætt og voru aðilar að úthlutun aðstoðarlána og aðstoðarfyrirgreiðslu sem var veitt á þennan hátt. Ég tel að þetta hafi verið mjög jákvæð starfsemi í sambandi við húsnæðismálin og hefur örugglega orðið til þess að fjöldi fólks hefur vegna þessarar fyrirgreiðslu komist hjá því að lenda í miklum vandræðum.

Það er einnig athyglisvert að í könnun, sem sérstök nefnd sem hefur verið að störfum um úttekt á fasteignaviðskiptum og fasteignamarkaði gerði í samvinnu við félagsvísindadeild Háskóla Íslands, svöruðu tveir af hverjum þremur, sem spurðir voru, að aðalatriði í sambandi við húsnæðismálin og þennan vanda og það ráðleysi sem grípur fólk í sambandi við þau mál væri að geta leitað til slíkrar ráðgjafarþjónustu.

Þessi ráðgjafarþjónusta er nú orðin fastur liður í starfsemi Húsnæðisstofnunar. Það er orðin sérstök ráðgjafarstofnun sem hóf starfsemi að nýju með skipulögðum hætti í byrjun októbermánuðar s.l. Henni er ætlað mjög stórt hlutverk. Henni er í fyrsta lagi ætlað að veita ráðgjöf þeim sem hyggjast kaupa eða byggja húsnæði. Ráðgjafarþjónustan hefur þegar skipulagt sig þannig að hún á að geta veitt fólki upplýsingar, ekki aðeins um gerð húsnæðis og lánamöguleika heldur einnig reiknað út fyrir fólk greiðslubyrði af væntanlegum lánum. Hefur hún sett upp sérstakt reiknilíkan í því skyni.

Í öðru lagi er reiknað með því að þessi ráðgjafarstofnun aðstoði fólk með ráðgjöf um það hvernig það á að reyna að leysa þennan greiðsluvanda sem það er komið í.

Það sem er einnig mikilvægt er að þegar fyrir liggur að bankakerfið, þ.e. viðskiptabankar og sparisjóðir, er reiðubúið til samstarfs um að gera þessa starfsemi þannig úr garði að það komi hinum almenna borgara í landinu, sem þessi mál snerta, að verulegum notum. Meiningin er að móta þetta starf þannig að það geti stuðlað að skynsamlegum aðgerðum bæði til að ráðleggja fólki sem ætlar að fara að hefjast handa og einnig að veita þá ráðgjöf sem er nauðsynleg til að leiðbeina fólki sem lendir í erfiðleikum með sína fjárfestingu.

Ég tel ástæðu til að nota þetta tækifæri til að leggja hér fram þessar upplýsingar og jafnframt að benda mönnum á að hvetja fólk til að hafa beint samband við þessa ráðgjafarstofnun sem er að mínu mati starfsemi sem er með því jákvæðasta og árangursríkasta í þessum málum eins og ástandið er yfirleitt í þjóðmálum.

Til að undirstrika hvað verið er að gera vil ég minna á það, sem ekki hefur verið getið um í þessum umræðum, að sett voru ný lög hér á hv. Alþingi í vor um greiðslujöfnun vegna lána til húsnæðismála. Þetta er komið í framkvæmd. Þó að lögin hafi verið þannig að þau ná ekki nema til hinna opinberu sjóða þ.e. byggingarsjóðanna, hafa lífeyrissjóðirnir tjáð sig fúsa til samkomulags eða samninga um að beita þessu atriði í sambandi við lán lífeyrissjóðanna. Þetta er ákaflega mikilvægt mál og ég hef vissu fyrir því að þetta skiptir verulegu máli fyrir það fólk sem þarf að standa í skilum með þessi opinberu lán.

Æskilegast væri ef hægt væri að vinna þannig í framhaldi af þessari ákvörðun Alþingis að hið almenna bankakerfi yrði einnig fúst til samninga um þessi mál. Þetta er miklu jákvæðara mál en menn gera sér grein fyrir og það er furðulegt að í allri umræðu um húsnæðismál er eins og menn vilji ekki vita af þessum þætti. Þetta er tilraun gerð að mjög vandlega yfirveguðu ráði í samráði við verkalýðshreyfinguna um það að finna leið til að jafna greiðslubyrði fólks.

Ég get ekki heldur látið hjá líða í þessari umræðu að vitna til þeirrar úttektar á fasteignaviðskiptum og fasteignamarkaði sem er búin að vera í gangi núna í tvö ár. Aðaltilgangurinn með þeirrar nefndar sem það verk var falið var að finna leið til að lækka útborgun í fasteignaviðskiptum. Í þeirri könnun, sem ég vitnaði í fyrr og félagsvísindadeild Háskólans annaðist, kemur í ljós að flestir, sem spurðir voru og tóku þátt í þessari könnun, telja að lækkun útborgunar á fasteignum væri mest aðkallandi mál. Það hefur miklu meiri áhrif en menn gera sér grein fyrir.

Ég vil geta þess að frv. um fasteignasölu, sem setur þeim viðskiptum strangar skorður og stuðlar að aðhaldi, er væntanlegt inn á Alþingi næstu daga. Ég vil taka undir það sem hér hefur komið fram að það verður að hraða hér á hv. Alþingilagasetningu um verðbréfaviðskipti, skuldabréfaviðskipti, verðtryggingamál og eins vaxtamál. Þetta hefur komið hér skýrt fram í ræðum þeirra hæstv. ráðh. sem hafa tekið þátt í þessari umræðu. En þetta er miklu þýðingarmeira mál þegar farið er að skoða það í samhengi við þær umræður sem hér hafa farið fram um okkar viðskiptamarkað en menn hafa almennt gert sér grein fyrir áður.

Ég vil geta þess hér að eins og allir vita er starfandi milliþinganefnd sem hefur tvíþætt verkefni. Eins og kom fram hér í umræðum á síðasta vetri kom fram tilboð frá stjórnarandstöðunni sem var í því fólgið að menn vildu lyfta húsnæðismálunum yfir hið pólitíska þras, taka höndum saman um að finna skynsamlegar leiðir í þeim málum til að gera þennan málaflokk aðgengilegri fyrir fólkið í landinu. Það var sjálfsagt að grípa þessa viljayfirlýsingu flokkanna um samstöðu um stefnumótun í húsnæðismálum til frambúðar. Ég vil aðeins geta þess að í því bréfi, sem ég skrifaði stjórnmálaflokkunum í júnímánuði s.l., tók ég fram að þegar núgildandi húsnæðislög voru sett árið 1984 voru opnaðir ýmsir nýir möguleikar í húsnæðismálum sem hafa verið að mótast hjá Húsnæðisstofnun. Hins vegar er ljóst að aðkallandi er að skapa sterkari grundvöll hvað varðar fjármögnun húsnæðislánakerfisins. Ýmsar nýjar hugmyndir hafa komið fram í umræðum og samþykktum allra stjórnmálaflokkanna í húsnæðismálum og er því hægt að draga þá ályktun að allir flokkar virðast sammála um að bæta húsnæðislánakerfið með það meginmarkmið að tryggja fólki húsnæði við hóflegu verði án þess að einstaklingar og fjölskyldur þurfi að leggja á sig varanlegt ok vinnu og skuldaklafa til að komast yfir húsnæði umfram það sem þekkist í nágrannalöndum okkar.

Með tilliti til þessa hafði ég með samþykki ríkisstj. skipað níu manna nefnd frá öllum stjórnmálaflokkunum sem hafi það hlutverk að gera tillögur um nýtt húsnæðislánakerfi. Jafnframt þessu fékk nefndin það hlutverk að gera ákveðnar tillögur um ráðstöfun á því sérstaka fjármagni sem Alþingi ákvað með 1% söluskattsstigi og eignarskattsauka á síðasta Alþingi. Tilgangurinn með öllu þessu er að reyna að ná samkomulagi um skynsamlega leið í þessum málum. Ég vænti þess að núna næstu daga komi frá þessari milliþinganefnd ákveðnar tillögur sem ríkisstj. mun áreiðanlega taka til athugunar í sambandi við endanlega mótun útlánastefnunnar í húsnæðismálum fyrir næsta ár.

Ég vil leggja áherslu á að við eigum að hefja húsnæðismálin upp úr pólitísku þrasi og ásökunum sem ganga gjarnan í gegnum fjölmiðla vítt og breitt um að þessir og þessir séu óvinir fólksins o.s.frv. Ég held að ástæða sé til að vekja athygli á því að núna hefur alþm. verið boðið að mæta uppi í Háskóla Íslands til að hlýða þar á niðurstöður könnunar sem félmrn. og Húsnæðisstofnun lét félagsvísindadeild Háskólans framkvæma hjá ungu fólki í landinu um það hvað það vill gera í húsnæðismálum og hvernig það lítur á nútíð og framtíð í þeim málum.

Ég held að það sé mjög æskilegt að þátttaka hv. alþm. verði góð í þessari fundarboðun og menn taki þær niðurstöður, sem þar koma fram, alvarlega. Hvað sem við segjum um daginn í dag er framtíðin í þessum málum aðalatriðið, hvernig við ætlum að byggja ungu fólki framtíðina í sambandi við húsnæðismál og ekki síður hvernig við ætlum að búa að eldra fólki í sambandi við lausn þessara mála. Þetta tengist að sjálfsögðu saman og ég á von á því að þegar hv. alþm. eru búnir að átta sig á þessum málum og fara að tala um það með rólegri íhygli finnist betri flötur á að leysa þessi mál. En um það hljótum við öll að vera sammála.