25.11.1985
Sameinað þing: 20. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 857 í B-deild Alþingistíðinda. (675)

Minnst látins fyrrverandi þingmanns

Forseti (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Jón Kjartansson, forstjóri og fyrrv. alþingismaður, varð bráðkvaddur s.l. fimmtudag, 21. nóvember, 68 ára að aldri. Hann var þá staddur á heimili sonar síns í Hamborg.

Jón Kjartansson var fæddur í Siglufirði 5. júní 1917. Foreldrar hans voru Kjartan byggingarmeistari þar Jónsson, síðast prófasts að Hofi í Vopnafirði, og kona hans Jónína Tómasdóttir prests á Hvanneyri í Siglufirði, síðar að Barði í Fljótum, Bjarnarsonar. Hann lauk prófi frá Samvinnuskólanum vorið 1935 og fór náms- og kynnisför til Danmerkur og Noregs 1938. Verkstjóri við Síldarverksmiðjur ríkisins á Siglufirði var hann 1935 - 942. Hann var 1943 - 1946 skrifstofustjóri Þormóðs Eyjólfssonar, hlutafélags sem annaðist skipaafgreiðslu og hafði umboð tryggingafélaga. Þá var hann umboðsmaður Samvinnutrygginga, Flugfélags Íslands og fleiri félaga 1947-1949 og rak jafnframt eigin söltunarstöð og útgerð í félagi við annan Siglfirðing 1947-1948. Hann var bæjarstjóri á Siglufirði 1949-1958, forstjóri Áfengisverslunar ríkisins 1957-1961 og síðan forstjóri Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins frá 1961 til dánardags.

Jón Kjartansson var í stjórn Síldarverksmiðja ríkisins, ýmist sem aðalmaður eða varamaður frá 1947. Hann var vararæðismaður Finnlands á Norðurlandi 1953 - 1958 og aðalræðismaður Finnlands á Íslandi 1965 - 1968. Formaður stjórnarnefndar Hjálparstofnunar kirkjunnar var hann 1969-1979, í stjórn stofnunarinnar Aðstoðar Íslands við þróunarlöndin frá 1971 og kjörinn endurskoðandi Útvegsbanka Íslands árið 1971. Frá 1977 var hann í fulltrúaráði sjálfseignarstofnunarinnar umr rekstur Landakotsspítala.

Hann var 1. varamaður þingmanna Framsfl. í Norðurlandskjördæmi vestra frá 1959 og tók sæti á Alþingi tímabundið í fjarveru aðalmanna á öllum þingum nema einu til vorsins 1969, á níu þingum alls. Við fráfall Skúla Guðmundssonar skömmu fyrir þingsetningu haustið 1969 hlaut hann fast sæti á Alþingi það sem eftir var kjörtímabilsins og sat þá á tveimur þingum til vorsins 1971.

Jón Kjartansson átti heima á Siglufirði fjóra fyrstu áratugi ævi sinnar. Hann hóf störf sem sendisveinn hjá Síldarverksmiðju ríkisins, var verkstjóri þar innan tvítugs og síðast lengi í stjórn verksmiðjanna. Í störfum sínum þar og margs konar umboðsstörfum og félagsstarfsemi hlaut hann náin kynni af málum bæjarfélags og bæjarbúa. Hann var ráðinn bæjarstjóri á tíma síldarleysis og erfiðleika bæjarfélagsins af þeim sökum. Í störfum sínum þar sýndi hann dugnað, árvekni og fyrirhyggju og hafði forgöngu af hálfu bæjarfélagsins um nýjar atvinnugreinar, togararekstur og fiskvinnslu.

Bæjarfélagið á Siglufirði átti löngum hug hans þótt hann flytti brott þaðan til nýrra starfa. Hann sinnti ekki síst málefnum þess þann tíma sem hann sat á Alþingi og hann var árum saman formaður Siglfirðingafélagsins í Reykjavík. Hér syðra stjórnaði hann lengi og vel viðamikilli ríkisstofnun.

Við skyndilegt fráfall hans er á bak að sjá mikilhæfum manni sem um ævidagana var kvaddur til forustu á ýmsum sviðum þjóðmála og félagsmála og skilaði giftudrjúgu ævistarfi.

Ég vil biðja hv. alþm. að minnast Jóns Kjartanssonar með því að rísa úr sætum. - [Þingmenn risu úr sætum.]