25.11.1985
Efri deild: 17. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 858 í B-deild Alþingistíðinda. (676)

126. mál, fjáröflun til vegagerðar

Fjmrh. (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um fjáröflun til vegagerðar sem lagt hefur verið fram á þskj. 139. Frv. þetta er flutt til staðfestingar á brbl. sem sett voru hinn 20. september s.l.

Eins og fjárlagafrv. fyrir áríð 1986 ber með sér er gert ráð fyrir verulegum samdrætti á nær öllum sviðum opinberra framkvæmda á næsta ári. Þessi almenni samdráttur er þó ekki látinn ná til framlaga til vegamála. Þvert á móti gerir fjárlagafrv. ráð fyrir aukningu á framlögum til þess málaflokks frá því sem er á þessu ári. Þetta er í samræmi við þá ákvörðun, sem ríkisstj. tók við fjárlagagerðina, er fól í sér að þrátt fyrir minni framlög til opinberra framkvæmda almennt skyldu framlög til vegamála ekki minnkuð að raungildi.

Að teknu tilliti til verðlagsbreytinga nemur aukning framlaga til vegamála um 6,8% á milli áranna 1985 og 1986, andstætt 2,4% samdrætti að meðaltali á öðrum sviðum opinberra framkvæmda. Þessi auknu framlög þýða að framkvæmdir í vegamálum munu að líkindum aukast um 15% frá því í ár. Framlög til vegamála skv. fjárlagafrv. eru áætluð rúmir 2 milljarðar kr. og nemur það því um 2% af vergri þjóðarframleiðslu eins og hún er áætluð á næsta ári skv. eldri grunni þjóðhagsreikninga. Þrátt fyrir þetta er ljóst að framlög til vegamála verða 400 millj. kr. lægri á næsta ári en vegáætlun gerði ráð fyrir.

Ríkisstj. gerði sér ljósa grein fyrir því að til þess að standa undir hinum auknu framlögum til vegamála kæmu aðeins tvær leiðir til greina, aukin erlend lántaka eða aukin tekjuöflun af umferð. Eins og margoft hefur komið fram að undanförnu er ríkisstj. staðráðin í að draga svo sem kostur er úr erlendum lántökum. Fyrirliggjandi fjárlagafrv. og lánsfjáráætlun bera þessari stefnu ríkisstj. glöggt vitni. Í ljósi þessa og stöðu ríkisfjármálanna að öðru leyti var síðari kosturinn valinn, þ.e. ákveðið var að hækka með brbl. skattheimtu af bifreiðanotkun með sérstakri hækkun markaðra tekjustofna Vegasjóðs, en þeir eru eins og kunnugt er bensíngjald og þungaskattur. Þessi leið var valin ekki síst með tilliti til þess að eðlilegast er að sá þjóðfélagshópur sem fyrst og fremst hefur hag af umbótum í vegamálum beri kostnaðinn af þeim. Á móti var engu að síður ákveðið að lækka tolla af fólksbifreiðum úr 90% í 70% og minnka þannig nokkuð þann útgjaldaauka sem fyrirsjáanlegt er að bifreiðaeigendur verða fyrir í kjölfar brbl.

Eins og áður sagði er reiknað með að framlög til vegamála á næsta ári nemi rúmum 2 milljörðum kr. Ljóst var að tekjustofnar Vegasjóðs mundu einungis skila 1550 millj. kr. á næsta ári ef ekki kæmi til sérstök hækkun þeirra. Því blasti við að afla þyrfti viðbótartekna að fjárhæð u.þ.b. 400 millj. kr. ætti ríkissjóður ekki að leggja sjálfur fram féð.

Með hliðsjón af því hvernig innheimtu bensíngjalds og þungaskatts er háttað varð ekki komist hjá því að grípa þegar í september s.l. til nauðsynlegra ráðstafana með brbl. svo tryggt væri að hækkun skattteknanna skilaði sér að fullu á næsta ári. Hér á eftir mun ég víkja nánar að þessu atriði:

Skv. 1. gr. brbl. hækkaði bensíngjald úr 6,80 kr. í 9,54 kr. af hverjum lítra frá og með 1. október s.l. Þessi hækkun bensíngjaldsins leiddi til þess að tekjur ríkissjóðs af söluskatti vegna bensínsölu hækkuðu úr 6,28 kr. í 7,00 kr. af hverjum seldum lítra. Samtals hækkuðu tekjur ríkissjóðs vegna brbl. af hverjum seldum bensínlítra úr 13,08 kr. í 16,54 kr. eða um 26,45%. Áætlaður tekjuauki Vegasjóðs vegna þessara hækkunar nemur 230 millj. kr. á næsta ári.

Bensíngjald er innflutningsgjald að formi til, en það skilar sér þó í ríkissjóð með svipuðum hætti og söluskattur, þ.e. olíufélögunum er heimilt að gera það upp miðað við sölu hvers mánaðar og skila því innan mánaðar frá lokum sölumánaðar. Af þessu leiðir að hið hækkaða gjald byrjar ekki að skila sér í ríkissjóð fyrr en í desember.

Á sama hátt var nauðsynlegt að hækka þungaskatt. Þungaskattur er aðeins innheimtur af dísilbifreiðum, enda verður innheimtu bensíngjaldsins eðli máls samkvæmt ekki komið við af dísilbifreiðum.

Skv. 2. og 3. gr. brbl. hækkar þungaskattur mun meira en bensíngjaldið eða um 56,25% frá áður gildandi gjaldskrá. Til þess að glöggva sig á ástæðunum fyrir þessum mun verða menn að gera sér grein fyrir þeim eðlismun sem er á innheimtu þessara gjalda. Eins og áður segir innheimtist bensíngjald með svipuðum hætti og söluskattur. Það er því staðgreiðsluskattur ef svo má að orði komast. Bensíngjald hækkar samkvæmt heimildum í gildandi lögum að jafnaði ársfjórðungslega í samræmi við hækkun byggingarvísitölu. Þungaskattur er hins vegar í tvenns konar mynd. Annars vegar er um að ræða árgjald, þ.e. fast gjald sem greiðist einu sinni á ári. Þetta gjald er einungis greitt af bifreiðum sem eru léttari en 4 tonn að eigin þyngd. Hins vegar er um að ræða kílómetragjald, þ.e. sérstakt gjald fyrir hvern ekinn kílómetra, sem greiða skal vegna allra dísilbifreiða sem eru 4 tonn eða þyngri. Eigendur bifreiða sem eru léttari en 4 tonn geta þó valið að greiða kílómetragjald í stað árgjalds. Árgjaldið greiðist fyrir fram fyrir hvert ár í ársbyrjun. Kílómetragjaldið greiðist hins vegar þrisvar á ári. Gjaldtímabilin þrjú eru febrúar- maí, júní-september og október-janúar. Skatturinn er ákvarðaður í samræmi við ekinn kílómetrafjölda á hverju gjaldtímabili og skal hann greiddur í síðasta lagi einum og hálfum mánuði eftir að því lýkur.

Þungaskatt er heimilt að hækka í samræmi við byggingarvísitölu eins og bensíngjald. Hins vegar verður þessi heimild að jafnaði aðeins nýtt einu sinni á ári og þá í ársbyrjun, andstætt því sem gildir um bensíngjaldið, sem hækkar að jafnaði ársfjórðungslega í samræmi við verðþróun.

Síðast hækkaði þungaskattur í byrjun þessa árs og þá sem nam hækkun byggingarvísitölu á árinu 1984. Við setningu brbl. varð því að hækka grunn þungaskatts upp í samræmi við verðlagsþróun áður en hin sérstaka hækkun var reiknuð út. Því var þungaskattur fyrst hækkaður um 23,57% eða sem nam hækkum byggingarvísitölu frá 1. janúar til 1. október s.l. Hér var því aðeins um verðlagsuppfærslu að ræða. Henni til viðbótar var skatturinn síðan hækkaður um jafnmikið og bensíngjaldið, þ.e. 26,45%.

Eins og áður segir er kílómetragjaldið greitt eftir á. Akstur sem á sér stað á tímabilinu október til janúar greiðist ekki fyrr en í mars. Af þessum sökum var talið nauðsynlegt að hækka gjaldið strax í september þannig að hækkunin tæki til komandi gjaldatímabils og skilaði sér þannig að fullu á næsta ári. Árgjaldið sem minni bílarnir greiða hækkar svo jafnframt frá og með næstu áramótum samkvæmt lögum.

Vegna brbl. aukast tekjur Vegasjóðs á næsta ári vegna hækkunar kílómetragjalds um 100 millj. kr., vegna hækkunar árgjalds þungaskatts um 25 millj. kr. Samtals aukast tekjur Vegasjóðs að meðtaldri bensíngjaldshækkuninni um 355 millj. kr. á næsta ári. Rétt er að vekja sérstaka athygli á því að með brbl. er kílómetragjald loks lögbundið, sbr. 3. gr. þeirra. Til þessa hefur ákvörðun þessi alfarið verið í höndum ráðherra samkvæmt ákvæðum þar að lútandi í lögum um fjáröflun til vegagerðar.

Telja verður að jafnvíðtækt framsal löggjafans á ákvörðun um gjaldskrá sem þessari sé óeðlilegt. Í ljósi þessa voru ákvæði reglugerðar um innheimtu gjaldsins, sem gilt hafa óbreytt í áraraðir, lögfest og hækkunarheimildir ráðherra jafnframt takmarkaðar við hækkun byggingarvísitölu með sama hætti og gilt hefur varðandi bensíngjald og árgjald þungaskatts.

Annað nýmæli er að tekið er af skarið um að útsöluverð á bensíni skuli hækka sem nemur bensíngjaldi. Ákvæði þetta er sambærilegt við ákvæði söluskattslaga og er ætlað að tryggja að seljendum sé heimilt að breyta útsöluverði til samræmis við breytingar sem verða kunna á bensíngjaldi.

Að lokum vil ég láta í ljós þá skoðun mína að nokkuð brýnt sé að endurskoða gildandi reglur um innheimtu þungaskatts. Að mínu mati er æskilegra að skattleggja orkugjafa dísilbifreiða fremur en að innheimta skattinn með þeim hætti sem nú er gert, þ.e. sem gjald fyrir hvern ekinn kílómetra samkvæmt sérstökum ökumæli sem þessar bifreiðar eru búnar. Bæði er að kerfi þetta er þungt í vöfum og dýrt fyrir báða aðila, auk þess sem það er ótryggt þar sem það stendur og fellur með virkni ökumælanna. Þeir vilja bila eins og annað og eftirlit með því að þeir verki eins og til er ætlast er oft og tíðum erfitt. Þá fylgir því verulegur kostnaður fyrir gjaldendur að koma til álesturs af þeim hjá innheimtuaðilum og eftirlitsaðilum, auk þess sem viðhaldskostnaður getur verið verulegur. Af þessum sökum hef ég ákveðið að láta gera athugun á því hvort skattlagning á orkugjafa þessara bifreiða sé ekki fýsilegri kostur en núverandi skattheimtuaðferð.

Til greina kemur að leggja sérstakt gjald á gasolíu, sem ökutæki nota, með sama hætti og tíðkast varðandi bensín. Til þess að aðgreina þessa olíu frá annarri kemur til greina að lita annaðhvort gjaldfrjálsa eða gjaldskylda olíu. Með þessum hætti ætti að vera hægt að hafa eftirlit með réttri notkun hennar. Ljóst er að endurskoða þyrfti dreifikerfið á gasolíu í kjölfar breytinga sem þessara.

Tekið skal fram að ýmsir talsmenn hagsmunasamtaka bifreiðaeigenda hafa lýst yfir áhuga á breytingum í þessa veru.

Að svo mæltu, herra forseti, tel ég ekki ástæðu til að fara frekari orðum um efni þessa frv., en legg til að því verði vísað að lokinni þessari umræðu til hv. fjh.- og viðskn.