25.11.1985
Efri deild: 17. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 861 í B-deild Alþingistíðinda. (677)

126. mál, fjáröflun til vegagerðar

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Þetta frv., sem hér er til umræðu, er til staðfestingar á brbl. sem gefin voru út í haust og heita því góða nafni: Frv. til laga um breyting á lögum nr. 79/1974, um fjáröflun til vegagerðar.

Þegar ríkissjóður hugsar sér að ná í aukna peninga eru slíkum sköttum oft og tíðum gefin skemmtileg nöfn. Þetta frv. er einmitt tengt vegagerð og hæstv. fjmrh. sagði í ræðustólnum áðan að með því ætti að fjármagna vegaframkvæmdir til þess að niðurskurður sá er ríkisstj. stendur nú fyrir á ýmsum opinberum framkvæmdum næði ekki til framkvæmda í vegamálum. Síðar í ræðu hæstv. fjmrh. kom reyndar í ljós að þrátt fyrir þessa skattlagningu mundi framlag til vegagerðar lækka um 400 millj. kr. frá því sem samþykkt var í lok þings í vor með vegáætlun. Og ekki eingöngu það. Í sömu andránni nefndi hæstv. fjmrh. að miðað við þá skattlagningu sem er ætlað að standa straum af vegagerð mundu framlög til vegagerðar hækka um 15% miðað við árið í ár.

Þegar verið var að ræða um vegáætlun í vor og hún var samþykkt, að sumu leyti kannske með glæsibrag, var því heitið að í framkvæmdum ársins 1986 og 1987 yrði staðið við loforð langtímaáætlunar um að fjármagn til vegagerðar skyldi vera 0,2% af þjóðarframleiðslu, en aðeins í ár skyldi þetta verða á annan veg. Út frá því var fé til vegaframkvæmda lækkað að því mig minnir um 500 millj. kr. frá því sem verið hefði ef átt hefði að standa við fyrirheit langtímaáætlunar.

Ég vildi koma hér upp og benda á að það er langt frá því að verið sé að auka framlög til vegagerðar frá því sem áættað hefur verið. Það er mikið frekar á hinn veginn. Það er verið að skerða þau.

Fulltrúi Alþb. í fjh.- og viðskn. mun sjálfsagt fjalla frekar um þetta við 2. umr., en því miður var hann forfallaður og gat ekki mætt á þessum fundi. Umræðan er því sjálfsagt nokkuð öðruvísi en ef hann hefði verið hér mættur.

Ég vil einnig benda á að með þessari skattlagningu er verið að leggja ákveðinn skatt á atvinnuvegina, færa til og gefa eftir gjöld í sambandi við fólksbílakaup, skatta á fólksbílum, en leggja þau á atvinnufyrirtæki eins og vörubifreiðir og tæki sem notuð eru beint við atvinnuvegina. Ekki léttir þessi skattlagning, þó að hún geri lítið í sambandi við útreikning vísitölu, byrðar sjávarútvegsins eða annarra atvinnuvega í landinu. Þar mun hún þyngja og mun meira en það sem útreiknaðar tölur um verðlagsþróun gefa tilefni til.