25.11.1985
Efri deild: 17. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 862 í B-deild Alþingistíðinda. (679)

126. mál, fjáröflun til vegagerðar

Kolbrún Jónsdóttir:

Herra forseti. Ég ætla að byrja á að lýsa andstöðu við þessa skattahækkun. Við getum farið aðrar leiðir. Margar leiðir er hægt að fara í sparnaði í ríkisrekstri. Við þurfum ekki alltaf að fara þá leiðina að hækka skatta. Þrátt fyrir að nauðsynlegt sé að standa við áætlun um vegagerð verðum við líka að líta á að hækkun þungaskatts kemur misjafnlega niður á landsmenn. Með hækkun þessa skatts hækkum við verð á nauðsynjavöru út um landið og þykir nú þegar nægilegur munur á því. Ég vil spyrja hæstv. ráðh. hvort það hafi verið gerð einhver úttekt á því hvaða áhrif þessi 56,26% hækkun hefði á vöruverð á landsbyggðinni. Ég vil taka sem dæmi að ef 12 tonna bíl er ekið frá Reyðarfirði til Reykjavíkur mun það kosta rúmar 12 000 kr. bara í þungaskatt. Þetta hlýtur, það sér hver og einn, að leggjast ofan á vöruverð og hlýtur að hafa talsverð áhrif á lág laun í landinu.

Fleira vil ég spyrja hæstv. ráðh. um. Hvað mun þetta gjald skila miklu frá því það var sett á í september og fram til ársloka? Mun það sem það skilar í ríkissjóð renna óskipt til vegagerðar það sem eftir er þessa árs?

Og í annan stað: Það varð hækkun á bensíngjaldi og lækkun á tollum. Þetta hefur þau áhrif að það mun skila, ef ég man rétt, 350 millj. kr. í hreinar tekjur í ríkissjóð, en það gerir sama prósentustigið í hækkun á framfærsluvísitölu. Er þessu ekki hagað þannig að það sama komi út fyrir framfærsluvísitöluna svo að þetta mælist ekki í framfærslu en gefi meira af sér í ríkissjóð? Er þetta ekki reikningsfals til að halda vísitölunni í stað álíka og gert er varðandi niðurgreiðslur á landbúnaðarafurðum? Er ekki bara verið að finna fleiri leiðir til að falsa þessa blessuðu framfærsluvísitölu? Það kemur samt sem áður út í auknum útgjöldum fyrir einstaklingana því að einhver greiðir þær 350 millj. sem þarna er um að ræða.

Það hefur ekki mikið upp á sig að halda langar ræður um eitthvað sem er þegar komið í framkvæmd. En ég vil lýsa minni skoðun. Ég er mótfallin þessari hækkun. Ég tel þetta vera eina björgunaraðgerðina til að stoppa upp í þau margfrægu göt sem myndast á hverju ári. Veitir svo sem ekkert af að slaga eitthvað upp í þá gleði sem fyrrverandi ráðherra hafði af að veita aukafjárveitingar. Þetta fyllir kannske eitthvað upp í.