25.11.1985
Neðri deild: 19. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 870 í B-deild Alþingistíðinda. (693)

Um þingsköp

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forseta þessarar deildar fyrir þá yfirlýsingu sem hann gaf hér áðan með því að vísa til ákvæða þingskapa og taka það sérstaklega fram að á grundvelli nýrra ákvæða þingskapa mundi hann hafa eftirlit með því að hv. þm. Páll Pétursson breytti starfsháttum sínum í formennsku iðnn. þessarar hv. deildar. Ég tel að þessi yfirlýsing hæstv. forseta þessarar deildar um að beita nýjum ákvæðum þingskapa til að knýja formann iðnn. til að breyta starfsháttum sínum sé afar mikilvæg. Það hafa kannske verið starfshættir í iðnn. á undanförnum tveimur þingum sem m.a. hafa leitt til þess að talið var nauðsynlegt að setja inn ákvæði í þingsköp um það sérstaka hirtingarvald og eftirlitsvald sem hæstv. forseti var að vísa til.

Því miður voru svör hv. þm. Páls Péturssonar engan veginn nægilega skýr áðan. Sú talnaþula sem hann flutti um fundi í nefndinni sagði ósköp lítið. Auðvitað verður að dæma fjölda funda í nefnd í fyrsta lagi eftir fjölda þeirra mála sem til nefndarinnar er vísað, í öðru lagi eftir mikilvægi þeirra mála og í þriðja lagi eftir því hve títt og hvenær á þingtímanum málum er vísað til nefndarinnar. Það sem er verið að gagnrýna hér er að með viðamikil mál, mál sem snerta afdrifaríka þætti í efnahagskerfi þessa lands, mál sem eru meðal grundvallaratriða í meðferð orkumála og jarðhitamála og teljast þannig til einhverra stærstu mála sem þingið getur fjallað um, sé farið eins og reynslan sýnir að hv. þm. Páll Pétursson hefur farið með þau í nefndinni. Hann lætur líða upp undir hálft ár og heldur marga fundi í nefndinni án þess einu sinni að taka þau fyrir á dagskránni. Það sýnir að það er verið að nota formennskuna í nefndinni til þess að reyna að knýja fram pólitískan vilja, til að drepa mál sem er meiri hluti þjóðar og þings fyrir að samþykkja. Það er verið að gagnrýna að það sé verið að nýta formennskuna í iðnn. til að koma í veg fyrir að þjóðarviljinn varðandi þessi mál nái fram að ganga. Það eru menn sem eru hræddir við þjóðarviljann sem nota formennsku sína með þessum hætti.

Það er svo rétt að geta þess, vegna þess að hv. þm. gerði mikið úr því að á fyrsta árinu sem hann hafði formennsku í þessari nefnd, á þinginu 1983-1984, hefði hann haldið tólf fundi, að átta af þessum fundum voru haldnir á dögunum frá 3.-15. maí, í lok þingsins. Frá upphafi þings, 10. október og til 3. maí, tókst formanninum að halda fjóra fundi í nefndinni. Það er rétt að horfa á þessa tólf funda tölu í því ljósi. Þessir átta fundir, sem eru haldnir frá 3.-15. maí þingið 1983-1984, eru haldnir til að afgreiða minni háttar mál sem ríkisstjórnin var sein með að leggja fram og taldi nauðsynlegt að fá afgreidd. Þannig er t.d. stjfrv. um Iðnaðarbanka lagt fram 2. maí og þá hleypur formaðurinn til og heldur fund 3. maí. Sölu hlutabréfa ríkissjóðs í Iðnaðarbankanum er vísað til nefndarinnar 2. maí og formaðurinn hleypur aftur til og heldur fund 3. maí. Það er flutt stjfrv. um járnblendiverksmiðjuna í Hvalfirði og formaðurinn hleypur einnig til og heldur fund daginn eftir í nefndinni, 11. maí. Ég hefði í sporum formannsins ekki verið að þylja sérstaklega þessa talnaþulu áðan og einfaldlega tekið málinu þannig að lofa bót og betrun varðandi störf nefndarinnar.

Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson hefur rakið hér að hluta til með hvaða hætti með málin var farið í nefndinni. Það er rétt að fram komi að í bréfi frá Búnaðarfélagi Íslands var ekki talin ástæða til að taka afstöðu til frv. um breytingu á lögum um Landsvirkjun. Ekki hefði því andstaða Búnaðarfélagsins átt að standa í vegi fyrir því að það mál væri afgreitt.

Ég vil að lokum, herra forseti, ítreka þakkir mínar til hæstv. forseta fyrir það fyrirheit sem hann gaf um að beita nýju eftirlitsákvæði þingskapa og vænti þess svo að á þessu þingi muni ekki líða fimm mánuðir, eins og á síðasta þingi, frá því að frv. þessu er vísað lil hv. iðnn. og þar til formaðurinn sér ástæðu til að taka það fyrir í nefndinni.