25.11.1985
Neðri deild: 19. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 873 í B-deild Alþingistíðinda. (699)

134. mál, álbræðsla við Straumsvík

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég hafði rétt byrjað ræðu mína hér um daginn á síðasta fundi hv. Nd. þegar ég gerði á henni hlé og hæstv. forseti tók ákvörðun um að slíta þá fundi. Ástæðan fyrir þessu var sú, eins og hv. þdm. minnast, að hér voru ekki til staðar þeir ráðherrar sem fyrst og fremst bera pólitíska ábyrgð á því samkomulagi sem hér er leitað staðfestingar á af hálfu ríkisstjórnarinnar. Hæstv. iðnrh. var erlendis í skylduerindum og fyrir málinu mælti staðgengill hans. hæstv. samgrh., en hæstv. menntmrh., sem öðrum ráðherrum fremur ber pólitíska ábyrgð á þessu máli á undirbúningsstigi öllu og raunar fram undir lokaþátt þess, sá ekki ástæðu til þess að vera hér viðstaddur til að fylgjast með umræðu og svara fyrir sig í sambandi við sinn þátt í þessu máli. Hafði þó fram komið degi fyrr að eftir nærveru hans væri óskað. Það er því ekki sá sem hér stendur sem ber ábyrgð á því að ekki var fram haldið fundi til þess að áfram þokaði umræðu um þetta mál heldur þær ástæður sem ég hef hér greint.

Ég ætla ekki að orðlengja þetta frekar því að hæstv. iðnrh. er nú kominn og hæstv. menntmrh. er viðstaddur þingfund þannig að ekki þarf undan því að kvarta og hæstv. fjmrh., sem þetta mál varðar vissulega, er hér einnig viðstaddur.

Ég vil byrja á því að fara hér nokkrum orðum um málsmeðferð. Það er um þennan þátt álmálsins sem hér er lagður fram eins og með þann þátt sem var til umræðu í þinginu fyrir réttu ári að stjórnarandstaðan var í engu höfð með í ráðum og fékk lítið sem ekkert að fylgjast með gangi mála á undirbúningsstigi þessa máls frekar en þegar þriðji viðauki við álsamninginn var á undirbúningsstigi.

Núv. hæstv. ríkisstj. hefur tekið þann hátt upp í sambandi við viðræður við Alusuisse að útiloka stjórnarandstöðuna frá því að fylgjast með málum og frá því að eiga nokkurn þátt í eða geta átt þess kost að hafa áhrif á gang mála á undirbúningsstigi. Þessu mótmælti þingflokkur Alþh. sérstaklega þegar þriðji viðauki var til umræðu hér 28. nóvember 1984 með svofelldri bókun: „Þingflokkur Alþýðubandalagsins mótmælir því að haldið verði áfram samningaviðræðum við Alusuisse með þeim hætti sem verið hefur í tíð núv. ríkisstj. Gerir Alþýðubandalagið kröfu um að stjórnarandstaðan fái að þeim óskoraða aðild.“ Við þessari kröfu hefur í engu verið orðið og það var ekki fyrr en meginefni samkomulags Iágu fvrir þann 17. júlí s.l. að hæstv. þáv. iðnrh. kvaddi á sinn fund fulltrúa stjórnarandstöðuflokkanna og afhenti þeim sem trúnaðarmál efnislega lýsingu á því samkomulagi sem þá lá fyrir og undirritað var af honum og forstjóra Alusuisse degi síðar, þann 18. júlí. Í fjölmiðlum sáu hæstv. ráðherra og fleiri talsmenn ríkisstj. hins vegar ástæðu til þess að lýsa yfir sérstakri ánægju með þann þátt samkomulagsins sem þarna var undirritaður og láta þess getið að um væri að ræða lendingu í þessum þætti málsins sem væri Íslandi ótvírætt til hagsbóta og ástæða til þess að fagna.

Við þekkjum slíkar yfirlýsingar frá hæstv. fyrrv. iðnrh. í sambandi við samninga við Alusuisse. Hann taldi það samkomulag sem gert var á árinu 1984 mikinn ávinning. stórkostlegan sigur fyrir íslenskan málstað. En þegar málið var síðan lagt fyrir þingið var það ekki aðeins að stjórnarandstaðan lýsti yfir vanþóknun á þessari samningagjörð - BJ lenti málinu sín megin að vísu þannig að greiða atkvæði með þrátt fyrir efnislega óánægju með samninginn - aðrir stjórnarandstöðuflokkar voru þar á móti og það var nteð semingi að sumir stjórnarliðar tóku undir þennan samning ef marka mátti nefndarálit og ummæli í ræðum.

Þetta trúnaðarmál sem hæstv. fyrrv. iðnrh. kynnti í júlímánuði var hins vegar komið inn í ÍSAL-tíðindi, heimilisrit álbræðslunnar í Straumsvík, í síðasta mánuði, löngu áður en búið var að leggja málið fyrir þingið. Í 3. tbl. ÍSAL-tíðinda er þetta samkomulag rakið og lýst yfir ánægju þeirra ÍSAL-manna með þetta samkomulag. Og ég verð að vænta þess að ekki aðeins hæstv. núv. iðnrh. svari fyrir um þetta mál heldur einnig að sá sem ber á því sýnu meiri ábyrgð á undirbúningsstigi, hæstv. menntmrh., hann láti einnig í ljós sitt álit og svari fyrir um einstaka þætti eftir því sem ástæða er til í umræðum í þinginu. Raunar er full ástæða til þess að spyrja hver var afstaða ráðherra í ríkisstjórn til þessa máls, t.d. í júlímánuði þegar meginatriðin voru lögð fyrir. Hver var afstaða einstakra ráðherra til málsins? Var full samstaða í ríkisstjórninni um málið á því stigi? Og hver var afstaðan í ríkisstjórn á lokastigi þessa máls? Ég tel nauðsynlegt að inna eftir því þannig að það liggi fyrir hvort eða að hve miklu leyti einhugur var um þetta mál í ríkisstjórn landsins.

Eins og ég gat um er rétt um ár liðið, rétt tæplega ár, frá því Alþingi staðfesti þriðja viðauka við álsamningana. Meginatriði þess samkomulags var talið snúast um orkuverð, breytingu á rafmagnssamningi, og það var fyrirferðarmesti þátturinn í umræðu um málið. svo og sú sáttargerð, svokölluð, eða syndakvittun sem fylgdi með vegna skattadeilnanna við Alusuisse. Hins vegar er nauðsynlegt að rifja upp. þegar breytingar á skattareglum liggja fvrir í samningi frá ríkisstjórninni og Alusuisse, að í fyrra voru einnig önnur þýðingarmikil atriði með í samningnum, atriði sem snerta náið þann þátt málsins sem hér er lagður fyrir. breytingar á skattakerfi, breytingar á aðalsamningi og öðrum samningum um álverið í Straumsvík.

Í fyrra voru lagðar fram breytingar á skattaákvæðum aðalsamnings og það eru þær breytingar sem verður að hafa í huga einnig nú þegar rætt er um niðurstöðu í þessu máli. Einnig voru í samningnum í fyrra fleiri þættir eins og sá að búið var í haginn fyrir Alusuisse til að stækka álverið í Straumsvík. M.a. var Alusuisse veitt heimild til að selja þriðja aðila 50% hlutafjár í álverinu.

En það sem ég túlkaði fyrir ári síðan sem mestu mistökin samningslega af Íslands hálfu í sambandi við meðferð málsins var að Alusuisse tókst þar að skipta málinu upp, skipta samningapakkanum sem rammi var dreginn um með bráðabirgðasamkomulagi 23. september 1983. Í því samkomulagi var gert ráð fyir að samið yrði um endurskoðun álsamningsins í heild sinni og jafnhliða voru deilurnar um skattana settar í sérstakan farveg. En Alusuisse tókst á þeim tíma sem síðan er liðinn að koma ár sinni vel fyrir borð, einnig hvað snerti samningsstöðuna gagnvart Íslandi og íslenskum aðilum. Þeim tókst að kljúfa málið upp, þeim tókst að flétta saman hluta af þeim breytingum sem til umræðu voru og skattadeiluna, losa sig undan þrýstingi skattadeilunnar, því mikilvæga tæki af Íslands hálfu til þess að knýja fram viðunandi samningsniðurstöðu, og skilja eftir þýðingarmikla þætti málsins sem nú koma til umræðu og verið hafa viðfangsefni samninganefnda ríkisstjórnarinnar og Alusuisse á því ári sem liðið er frá því að þriðji viðaukinn var samþykktur.

Alusuisse hafði sem sagt niðurstöðu bráðabirgðasamkomulagsins frá 23. september 1983 að engu í mikilsverðum atriðum og tókst að knýja ríkisstjórnina til þess að fallast á vilja sinn í því efni. Þeir byrjuðu á því að flétta saman endurskoðun aðalsamninga og kröfuna um lausn á skattadeilunni frá 1980. Eftir að íslenska ríkisstjórnin hafði fallist á það tókst þeim enn að skipta upp samningaþáttunum eins og ég hef getið um, láta syndakvittunina hafa forgang og tryggja sér forgjöf á mörgum atriðum skattamála með samkomulaginu frá 5. nóvember 1984, þ.e. áður en raunverulega efnislegar umræður hófust um endurskoðun á skattareglum aðalsamnings. Þeim tókst sumarið 1984 að tefla íslensku samninganefndinni og íslensku ríkisstjórninni í tímaþröng. Gert var ráð fyrir að samningsleg niðurstaða samkvæmt bráðabirgðasamningi lægi fyrir 1. apríl 1984 og það var eðlilega farið að spyrja, ekki bara af stjórnarandstöðu heldur líka í stjórnarherbúðum: Hvað líður samningagerðinni við Alusuisse? Ætla menn að láta þá hafa að engu þau tímamörk sem dregin höfðu verið í bráðabirgðasamningi? Þannig var ríkisstjórnin komin í tímaþröng þegar sumarið 1984. Og það er við þær aðstæður sem íslensku samninganefndinni var stillt upp gagnvart því að breytingar á skattareglum aðalsamnings yrðu út undan eða allt málið drægist mjög á langinn. Þeim tókst á þessum tíma að leika sér að íslenskum samningamönnum - nánast eins og köttur að mús - og hæstv. þáv. iðnrh. , allt til loka samningaviðræðnanna í fyrrahaust.

Ég ætla ekki að rifja upp efnisþætti sem gengið var frá hér með lögum í nóvember í fyrra, raforkuverðið og sáttargerðarsamninginn svokallaða, að öðru leyti en því sem það frv. og samningur sem hér liggur fyrir gera nauðsynlegt. En varðandi þær breytingar sem þá voru gerðar á skattamálunum voru þær afdrifaríkastar að Alusuisse knúði fram breytingar á aðstoðarsamningi um rekstur ÍSALs þannig að ákvæðið um að Alusuisse skuli tryggja ÍSAL bestu kjör á hráefnum var fellt út að því er varðar innkaup frá móðurfyrirtækinu en það tekur til um 98% af aðföngum miðað við reynslu liðinna ára. Þessi breyting, sem Alusuisse knúði fram aðeins fáeinum klukkustundum áður en Sverrir Hermannsson, hæstv. þáv. iðnrh., átti að stíga upp í flugvél til Zürich til að undirrita samkomulag þann 5. nóvember 1984, breytti taflstöðunni í framhaldsviðræðum um skattamál með afdrifaríkum hætti Alusuisse í vil. Það er m.a. sú niðurstaða sem endurspeglast í þeim samningi sem hér liggur fyrir og óskað er staðfestingar Alþingis á.

Fyrir iðnn. Nd. Alþingis í nóvember í fyrra, ég hygg að það hafi verið 23. nóvember, viðurkenndi hæstv. ráðh. Sverrir Hermannsson að um hafi verið að ræða „stóra veikingu á þessum ákvæðum“, eins og ég tók það niður orðrétt eftir honum, stóra veikingu á þessum ákvæðum skattalaga með þeirri breytingu sem hann þó lét hafa sig til að fallast á nóttina áður en hann flaug til Zurich til undirritunar á samkomulaginu. En það var fleira sem þarna var tekið inn sem forgjöf í þeim viðræðum um skattareglur sem fram hafa farið síðan og ég vil aðeins rifja hér upp í örstuttu máli. Alusuisse tryggði sér þar ýmsar mikilvægar breytingar á samningum til viðbótar í samningunum sem staðfestir voru í nóvember í fyrra og allar voru þær breytingar Alusuisse í vil.

Í fyrsta lagi voru það ákvæði um fyrningar. Þar var afskrift á mengunarvarnarbúnaði ÍSALs, afskriftatími, styttur - þar var hann ákveðinn 8 ár í stað 15 ára. Tekjutap eða tilfærsla á sköttum vegna þessara breytinga var að mati Ríkisendurskoðunar talin hafa numið, miðað við ársreikninga ÍSALs eins og þeir voru leiðréttir fyrir árið 1980, tæplega einni milljón bandaríkjadala - eða 900 þúsund bandaríkjadala - samkvæmt bréfi sem iðnn. barst frá Ríkisendurskoðun um þetta atriði.

Annað sem ég nefni hér er ákvæði um varasjóð og viðurlög. ÍSAL fékk með þeirri breytingu sem gerð var í fyrra fullt frelsi varðandi varasjóð upp að 20% markinu svipað og gerist hjá íslenskum fyrirtækjum. Notkun slíkrar heimildar hefði að mati ríkisendurskoðunar þýtt um einni milljón bandaríkjadala lægri skatta árið 1980 og þá að teknu tilliti til leiðréttinga endurskoðendanna Coopers & Lybrand. Jafnframt var ÍSAL fríað af því að sæta viðurlögum vegna óframtalins og ógreidds framleiðslugjalds og er eini skattþeginn hérlendis sem nýtur slíkra fríðinda. Með þessum breytingum fær ÍSAL og Alusuisse fríðindi samkvæmt íslenskum skattalögum þar sem það þeim hentar en hins vegar eru önnur mikilvæg atriði ekki samkvæmt íslenskum skattalögum og er skattalögsagan þar ljósasta dæmið.

Ég nefni í þriðja lagi ákvæði varðandi endurskoðun ársreikninga ÍSALs. Reynt var, og reynt er með afdráttarlausu orðalagi að útiloka að íslensk skattyfirvöld geti leiðrétt ársreikninga ÍSALs að því er varðar skattbyrði aftur í tímann miðað við 1. september á endurreikningsárinu, eins og segir í samkomulaginu í fyrra. Með þessu ákvæði afsalaði íslenska ríkið þeim rétti sem felst í skattmati en sá réttur verður að teljast hluti af fullveldisrétti hvers ríkis.

Í fjórða lagi var það niðurstaðan varðandi skuldjöfnun við skattainneign, en sáttagreiðslan vegna skattadeilunnar upp á 3 milljónir bandaríkjadala var dregin frá skattainneign sem ákveðin var á árinu 1975 með öðrum viðauka og síðan hafði safnað á sig hæstu dollaravöxtum. Þessa eftirgjöf í skattaákvæðum má meta á margar milljónir bandaríkjadala samanlagt og þá einnig breytinguna á aðstoðarsamningi um rekstur miðað við afkomu eins og hún var hjá ÍSAL t.d. á árinu 1980. Afdrifaríkust var breytingin, sem ég hef nefnt hér, breytingin um bestu kjör á aðföngum en hin atriðin voru að mati ríkisendurskoðunar talin nema nálægt 2 milljónum bandaríkjadala í lægri skatta eða tilfærslu á skattgreiðslum samkvæmt mati Ríkisendurskoðunar miðað við niðurstöðu ársins 1980.

Ég ætla þá, herra forseti, að víkja að því samkomulagi sem hér liggur fyrir, samkomulagi sem dagsett er 11. nóvember 1985, en grunnurinn var lagður í júlí s.l. með undirritun samkomulags um meginatriði endurskoðunar á skattareglum aðalsamnings um álbræðsluna í Straumsvík þann 18. júlí 1985. Þetta samkomulag var, eins og ég hef þegar getið, blásið út í fjölmiðlum á þeim tíma af fyrrv. hæstv. iðnrh. sem hagstæður gjörningur fyrir Ísland, sem tryggja muni ríkissjóði auknar skatttekjur af álverinu, verði hagnaður af rekstri, og aldrei minni skatta en nú gerist. Þessar staðhæfingar komu fram í sambandi við undirritun þessara meginatriða í júlí s.l. en ég túlkaði niðurstöðuna þá, eins og ég hafði séð í því trúnaðargagni sem ráðherra þá afhenti, að hér væri á ferðinni sýnd veiði en ekki gefin. Og ég mun rökstyðja að það álit mitt er enn óbreytt og mætti raunar fastar að orði kveða. Það kemur nefnilega á daginn nú, þegar samningurinn liggur fyrir í endanlegu formi, að innihaldið er allt annað og verra en gefið var í skyn í júlí s.l.

Yfirlýst markmið þessarar endurskoðunar á skattaákvæðum átti jú að vera það að tryggja betur en áður að Alusuisse stæði við gerða samninga og að hækka skatttekjur íslenska ríkisins af rekstri ÍSALs. Slíkt hlýtur að hafa verið meginmarkmið íslenskra samninganefndarmanna. Einnig var um það rætt að dregið yrði úr líkum á deilum um gjaldstofna með því að einfalda reglur og taka upp aðgengilegar viðmiðanir. Því miður eru ekki líkur á að breytingarnar í heild sem hér á að lögfesta tryggi þessi markmið með skárri hætti en eldri samningur sem enn er í gildi og í mörgum greinum horfir til verri vegar.

Ég tek hér eitt dæmi til að byrja með. Dæmi um rafskautin og hvaða ákvæði er að finna í sambandi við verðviðmiðun og verðlagningu rafskauta, þ.e. anóður eða forskaut, sem eru ein af mikilvægustu aðföngum til álbræðslunnar. Alusuisse hefur flutt rafskautin inn frá eigin rafskautaverksmiðju í Hollandi og svindlað á verði þeirra svo nemur háum fjárhæðum eins og ítrekað hefur komið fram við endurskoðun fyrirtækisins Coopers & Lybrand. Að mati þeirra endurskoðenda nam yfirverð á rafskautum til ÍSALs á árunum 1975-1981 um 14 milljónum bandaríkjadala eða nálægt 575 milljónum íslenskra króna á núverandi gengi. Á árinu 1980 einu saman var yfirverðið á rafskautum yfir 3 milljónir bandaríkjadala að mati sömu aðila. Þetta ásamt yfirverði á súráli lá raunar skjalfest fyrir í réttarhöldunum fyrir gerðardómi í New York, eða gerðardómsnefndinni í New York, á síðasta ári áður en ríkisstjórnin hopaði og féllst á sáttargerðina frægu gegn 3 mlllj. dollara greiðslu frá Alusuisse.

Hvernig á nú að búa um hnútana varðandi rafskautin? Um það geta menn lesið í greinum 27.04 og 29.04 í fyrirliggjandi samningi. Afhending rafskauta skal fara fram á grundvelli rafskautasamnings milli Alusuisse og ÍSALs og heildarkostnaðarverð þeirra á ári má ekki vera hærra en meðalverðið á rafskautum sem Alusuisse selur til óháðra viðskiptavina samkvæmt sölusamningum, öðrum en um einstakar sölur, eins og þar segir.Óháðir teljast viðskiptavinir í þessu sambandi þótt þeir eigi allt að 15% í rafskautaverksmiðju Alusuisse í Rotterdam, þá skulu þeir samt teljast óháðir viðskiptavinir. Samkvæmt þessari skilgreiningu væri Sumitomo, japanska fyrirtækið sem nú á 15% í íslenska Járnblendifélaginu, óháður aðili gagnvart íslenska Járnblendifélaginu.

Hvernig á að sannreyna verðið sem ÍSAL sýnir vegna rafskauta á ársreikningum sínum? Um það segir stutt og laggott í grein 27.04 c-lið: „Verð á rafskautum til óháðra viðskiptavina Alusuisse á viðkomandi ári skal fyrirtæki óháðra löggiltra endurskoðenda, sem Alusuisse tilnefnir og hefur aðgang að bókum Alusuisse, staðfesta gagnvart ríkisstjórninni eftir lok ársins.“ Þetta var tilvitnun í 27.04 c-lið.

Og hver er endurskoðunarréttur íslenskra stjórnvalda samkvæmt þessum nýja samningi? Um hann má lesa í grein 29.05 eftirfarandi:

„Ríkisstjórnin skal á eigin kostnað skipa alþjóðafyrirtæki óháðra löggiltra endurskoðenda til að yfirfara og sannprófa framleiðslugjaldsskýrsluna og slíka reikninga og ársreikninga ÍSAIs fyrir hvert ár. Heimilast endurskoðendum þessum að framkvæma þá athugun á bókum og skjölum ÍSALs, sem þeir kunna að telja nauðsynlega, í samræmi við alþjóðlegar venjur og íslensk lög.“

Hér er vandlega og ótvírætt búið um hnútana. Enginn íslenskur aðili, hvorki ráðherra né ríkisstjórn eða tilkvaddur trúnaðaraðili á vegum íslenskra stjórnvalda, fær að sjá þau gögn sem rafskautaverðið sem kostnaðarliður hjá ÍSAL byggir á. Með lagasetningu á Alþingi Íslendinga á samkvæmt þessu að samningsbinda ákvæði sem útiloka íslensk skattyfirvöld frá því að sannreyna mikilvæga útgjaldaliði hjá stærsta einstöku fyrirtæki í landinu. Ég vænti að hæstv. fjmrh. heyri þessi orð og bregðist við þeim ef hann túlkar það með öðrum hætti.

Slík tilhögun getur ekki tíðkast í löndum sem hafa stjórnarskrárbundinn rétt til skattlagningar. Ef þetta er ekki að afsala fullveldi sínu þá er verið að tala um fullveldi í allt annarri merkingu en við höfum gert hingað til. Ég hygg að lengi megi leita að því ríki á Vesturlöndum sem gert hefur samning af þessu tagi um langt árabil. Hér á að færa Ísland formlega niður á stig hálf-nýlendu, eins konar bananalýðveldis í skattalegu tilliti eins og gerðist hjá þriðja heims ríkjum fyrir nokkrum áratugum.

Vondur var fyrri samningur um þessi efni en verri er sá sem hér er lagður fyrir í þessu tilliti. Fram til þessa var þó á grundvelli samninga, m.a. ákvæðisins um bestu kjör á hráefnum, hægt fyrir alþjóðlega endurskoðendur á vegum íslenskra stjórnvalda að krefjast upplýsinga frá Alusuisse um kostnað á aðföngum til ÍSALs og grafast fyrir um slíkan kostnað í viðskiptum annarra aðila í álframleiðslu. Nú er ákvæðið um bestu kjör úti og skilja menn nú kannske betur en fyrir ári það ofurkapp sem Alusuisse lagði á að koma því fyrir kattarnef.

Rétt er að minna hér á þá miklu sérstöðu sem Alusuisse hefur tryggt sér í skattalegu tilliti samkvæmt upphaflegum samningi og ákvæðum sem enn eru í gildi. Í stað þess að lúta íslenskum skattalögum og lögsögu eins og eðlilegt væri hefur auðhringurinn tryggt sér hér margháttuð sérréttindi. Þannig eru engin viðurlög áskilin vegna skattsvika eins og gildir um íslensk fyrirtæki t.d. gagnvart söluskattssvikum. Þannig þurfa þeir sem svíkja undan söluskatti að reikna með að þurfa að greiða margfalda þá upphæð sem upp kann að komast um. Um ekkert slíkt er að ræða hjá ÍSAL. Þannig er boðið upp á það að fyrirtækið reyni að hlunnfara stjórnvöld í skattgreiðslum og nánast vís vegur til fjár eins og glöggt kom fram í niðurstöðu skattadeilunnar með sáttargerðinni sem ríkisstjórnin stóð að í fyrra.

Með þessum samningi er verið að selja Alusuisse nánast sjálfdæmi um verðlagningu á rafskautaaðföngum sem þeir hafa sannarlega hagrætt verði á stórlega til þessa sér í hag. Þeir hafa jafnframt beitt íslensk stjórnvöld svikum og prettum varðandi verðlagningu á þessari afurð og lagt fram rangar upplýsingar um það árum saman, að líkindum allt frá því að rekstur álversins hófst, fyrir rúmum 15 árum. Alþingi er hér boðið upp á það eitt að samþykkja þennan samning í heild eða synja honum. Þó ekki væri nema vegna ákvæðanna um verðlagningu á rafskautum og það sem þeim tengist ber að hafna þessum gjörningi.

Ég vil spyrja þá hæstv. ráðherra sem hér eru og fallist hafa á þennan samning í ríkisstj.: Gerðu þeir sér ljóst hvað hér var á ferðinni um verðlagningu rafskauta eða yfirsást þeim hvernig þetta er í pottinn búið af þeim Jóhannesi Nordal, Guðmundi G. Þórarinssyni og Gunnari G. Schram, samninganefndarmönnum íslensku ríkisstjórnarinnar eða skilja þeir, hæstv. ráðherrar, þessi ákvæði með allt öðrum hætti en ég hef hér túlkað? Þá væri gott að heyra þær útlistanir hér á eftir áður en málið fer til nefndar.

Þá vík ég að verðlagningu á súráli. Um það gegnir á margan hátt öðru máli en varðandi rafskautin. Það verðhlutfall sem upp er tekið, 12,5% af heimsmarkaðsverði á áli að viðbættum löndunarkostnaði á álhleifum í Rotterdam, ætti að tryggja skaplegri verðlagningu á súráli í reikningum ÍSAls en Alusuisse hefur ástundað á liðinni tíð. Hins vegar er þetta hluttall sem hér um ræðir mun lægra en það hlutfall sem löndin í International Bauxit Association eru að sækjast eftir. Gífurlegt yfirverð á súráli á árunum 1975-1980 frá Alusuisse til ÍSALs var það sem sýnt var fram á og sannað með hækkun í hafi á leiðinni frá Gove í Ástralíu til Straumsvíkur samtals að upphæð 47,5 millj. bandaríkjadala á þessu tímabili. Rétt er hins vegar að hafa í huga að fast ál/súráls skiptahlutfall dregur mjög úr líkum á miklum hagnaði hjá álverinu og þar með á háum skatttekjum til ÍSALs þegar söluverð á áli er hátt, þannig að ekki er þetta einhlítt sem hér er sett inn í samninga. Líkur benda til að þessi tilhögun dragi úr skatttekjum af rekstri ÍSALs þegar litið er til lengri tíma. Þetta á bæði við um núgildandi skattkerfi og það sem felst í samkomulaginu sem hér liggur fyrir en þó enn frekar samkvæmt þeim breytingum sem hér er stefnt að að lögfesta.

Svipuð breyting var gerð varðandi verðlagningu á áli, skv. 26. gr., í tengslum við útreikninga á nettóhagnaði ÍSALs. Í staðinn fyrir þau tengsl á milli framleiðslugjalds og álverðs sem giltu í gamla samningnum er hér búin til sérstök formúla til að skilgreina heimsmarkaðsverð á áli ársfjórðungslega eftir á, þ.e. vegið meðaltal úr mánaðarlegum verðskráningum hjá London Metals Exchange, Metals Week í Bandaríkjunum og hjá pechiney í Frakklandi, svo og úr sölu hjá Alusuisse og tveimur þýskum álbræðslum í eigu Alusuisse til óháðra viðskiptavina. Hér er á ferðinni sama formúlan og tekin var upp til viðmiðunar vegna orkuverðs til álversins á bilinu 12,5 til 18,5 mill, skv. rafmagnssamningi við Landsvirkjun í fyrra, þar sem stigið var ákvarðandi skref í að tengja raforkuverðið við afkomu í áliðnaði með þeim afleiðingum að raforkuverðið hefur síðan verið í algjöru lágmarki miðað við þennan samning.

Álverðið hjá Alusuisse er það sem óvissa mun ríkja um inni í þessari nýju verðviðmiðun um ál og er í grein 26.02 fjallað um hvernig sannprófa eigi þann þátt álversins sem að Alusuisse snýr.

Ég vek athygli á því fyrirkomulagi sem þar á að taka upp. Í stað alþjóðlegs endurskoðanda, sem ríkisstjórnin hefur verið einráð um að velja hingað til og greitt kostnað af, á nú að fá samþykki Alusuisse fyrir því hvaða endurskoðandi er ráðinn. Það er ekki lengur ríkisstjórnarinnar að ákvarða það, heldur þarf samþykki Alusuisse. Hins vegar á íslenska ríkið að sitja uppi með kostnaðinn í öllum tilvikum nema þegar athugasemdir eru gerðar. Þá skal - eins og segir í samningi - Alusuisse bera þann hluta kostnaðarins af þeirri endurskoðun sem heimfæra má til þess ársfjórðungs er mismunurinn varð á. Orðrétt tilvitnun í samkomulagið.

Með því að taka upp það viðmiðunarverð á afurðum og mikilvægustu aðföngum sem í samningnum felast og ég hef hér gert að umtalsefni er hér í raun horfið frá þeim skilyrðum fyrri samninga að Alusuisse beri skylda til að selja afurðir ÍSALs á svokölluðu „armslengdarverði“ og að útvega ÍSAL aðföng með bestu fáanlegum kjörum, a.m.k. að því er snertir skattskyldan hagnað.

Hér er í raun fallið frá einu helsta undirstöðuatriði upphaflegu samninganna. Þótt „armslengdarákvæðunum“ sé haldið að nafninu til í texta sem meginviðmiðun þá er þetta bundið hér í fastar verðviðmiðanir. Rauði þráðurinn í samningunum á sínum tíma var að vegna stærðar sinnar, þekkingar og ítaka á markaðnum væri Alusuisse sérstaklega vel í stakk búið að tryggja ÍSAL mikinn skattskyldan hagnað með hagkvæmum innkaupum og háu söluverði afurða. Fyrir þessa væntanlegu þjónustu var Alusuisse veitt sérstök sölu- og tækniþóknun, sem nemur föstu hlutfalli af veltu ÍSALs, samtals 3,7% af veltu.

Með hinum nýju samningum er ofangreindum skyldum að mestu velt af Alusuisse með því að fella niður bestukjaraákvæðin og binda þetta í fastar verðviðmiðanir. Var það raunar gert strax í fyrra þegar fallist var á að fella út bestukjaraákvæðin. Þrátt fyrir þetta er ekki hróflað hið minnsta við þeirri þóknun sem Alusuisse fær áfram og sem á sínum tíma var réttlætt m.a. út á þá kvöð að útvega aðföng á sem bestu verði og tryggja sem hagkvæmasta sölu á áli. Það verður að teljast óhæfa að greiða áfram þessar þóknanir upp á 3,7% af veltu ÍSALs eftir að samningum hefur verið breytt að öðru leyti.

Rétt er að vekja á því athygli að því fer fjarri að með samkomulaginu hafi verið sett viðmiðunarverð fyrir öll aðföng ÍSALs þótt það gildi um verð á hrááli, súráli og rafskautum að verulegu leyti.

Önnur mikilvæg efnisleg aðföng sem Alusuisse hefur auðvitað milligöngu um að útvega eru t.d. flúoríð, bakskaut, eða katóður, og efni til þurrhreinsibúnaðar. Um þau er ekkert fjallað í samkomulaginu og falla þau væntanlega undir gr. 27.01 um armslengdarviðmiðun.

Eitt af þýðingarmestu aðföngum ÍSALs miðað við útgjöld er lánsfé. Það er allt útvegað fyrir milligöngu Alusuisse, oftast frá dótturfyrirtækjum þess eða hluthöfum. Í samkomulaginu er hins vegar ekkert fjallað um armslengdarverð eða magn á lánsfé í þessum mikilvæga þætti í afkomu ÍSALs; það er utan við slíkar viðmiðanir. Jafnvel þótt gert væri ráð fyrir verðlagningu á súráli og rafskautum með eðlilegum hætti er langt frá því að það nægði til að tryggja sanngjarnt verð á aðföngum í heild. Alusuisse hefði eftir sem áður næg tækifæri til að haga afkomu ÍSALs eftir eigin þörfum.

Ég kemst ekki hjá því að nefna að í þessu samkomulagi er raunar gengið fram hjá öðrum þáttum aðfanga en þeim sem tími vannst til í tíð ríkisstjórnar Gunnars Thoroddsens að fara í saumana á, þ.e. súrál og rafskaut. Og ég hlýt líka að vekja athygli á því að um raforkuverðið eru ekki teknar inn viðmiðanir af því tagi sem hér er gert um aðföngin að öðru leyti. Það er ekki Alusuisse í hag að taka upp slíkar viðmiðanir við heimsmarkaðsverð á raforku til áliðnaðar, því það hefði gefið aðrar niðurstöður en lögfestar voru hér í fyrra.

Ég kem þá að ákvæðunum um varasjóð sem fjallað er um í grein 27.01. Á núgildandi varasjóðsákvæðum er gerð sú mikilsverða breyting að ÍSAL er nú heimilt að ráðstafa hagnaði í skattfrjálsan varasjóð eftir að viðkomandi rekstrarári er lokið, eða allt til þess tíma er ríkisstjórnin og Alusuisse hafa náð endanlegu samkomulagi um skattskyldar tekjur viðkomandi árs. Jafnframt er ÍSAL heimilt að eyða þessum varasjóði - ég bið ykkur um að veita því athygli sérstaklega - á hvaða ári sem er, að því einu tilskildu að hann bætist við skattskyldan hagnað á því ári. Þar sem rekstrarafkoma jafnvel best reknu álvera er tíðum verulega neikvæð í vissum árum getur ÍSAL auðveldlega flutt varasjóðinn til móðurfyrirtækisins á þeim árum sem svo háttar til um að rekstur er neikvæður, eða tap er á rekstri, án þess að greiða af honum skatt.

Hin nýju varasjóðsákvæði eru þess eðlis að fullvíst má telja að ÍSAL muni notfæra sér þau. ÍSAL hefur hins vegar aldrei notað núgildandi ákvæði um varasjóð. Hin nýju varasjóðsákvæði munu e.t.v. lækka skatttekjur ríkisins af rekstri ÍSALs verulega miðað við það sem að öðrum kosti hefði orðið.

Um afskriftir vil ég nefna þetta. Samkomulagsdrögin fela í sér veruleg afskriftafríðindi ÍSAL til handa. Skv., samkomulaginu fær ÍSAL leyfi til viðbótarafskrifta upp á 25 millj. bandaríkjadala. Þetta er í raun leyfi til tvöfaldra afskrifta því að umræddir fjármunir hafa verið afskrifaðir áður skv. sérstökum afskriftafríðindum ÍSALs í upphaflegum samningi. Auk þess er afskriftatíminn nú lengdur sem er einnig í samræmi við hagsmuni Alusuisse því ólíklegt verður að teljast eins og nú horfir að hagnaður ÍSALs á allra næstu árum, þegar afskriftum ætti að Ijúka skv. gildandi samningi, verði mikill. Í gildandi samningum eru afskriftir ÍSALs bundnar við tiltekna áfanga í byggingu verksmiðjunnar. Í fyrirliggjandi viðauka virðist hins vegar gert ráð fyrir margvíslegum auknum afskriftaheimildum eins og í grein 27.02 b-lið, sem gætu hæglega lækkað skattskyldan hagnað ÍSALs á komandi árum.

Um endurfjármögnun, skv. 3. gr. frv., vil ég segja að mikið er gert úr því í aths. með frv. að Alusuisse er gert að leggja ÍSAL til eigið fé að upphæð 40 millj. bandaríkjadala og lækka skuldir álbræðslunnar sem því nemur. Hér er um að ræða aðgerð sem Alusuisse var skylt að framkvæma skv. gildandi samningum, en á undanförnum árum hefur rækilega verið vakin athygli á vanefndum varðandi eiginfjárstöðu, sem hefur beinlínis verið gerð af hálfu móðurfyrirtækisins til að útiloka hagnað og þar með skattgreiðslur umfram samningsbundið lágmark. Hér er því verið að setja inn í samning ákvæði sem Alusuisse bar að standa við skv. gildandi samningi og er að því leyti ekki mikið gefandi fyrir þó að vissulega sé það í rétta átt að herða að framkvæmd þessa ákvæðis.

Telja verður að Alusuisse hafi orðið að bæta úr í þessu efni án nýrra ákvæða í samningi. Þá skulum við varast að leggja of mikið upp úr þessari aðgerð sem nú hefur verið framkvæmd í eitt skipti fyrir öll þar eð Alusuisse er í lófa lagið að endurheimta þetta fé sem lagt hefur verið til ÍSALs a.m.k. að verulegu leyti með fjármálalegum aðgerðum, svo sem lántökum og greiðslufresti eftir því sem fyrirtækinu býður við að horfa. Ef breyttar afskriftareglur eru vegnar á móti aukningu hlutafjár kemur í Ijós að ekki er um stórvægilega breytingu að ræða á heildina litið úr þessum tveimur þáttum. Bætt afkoma vegna hlutafjáraukningar gæti verið á bilinu 2-4 millj. bandaríkjadala eftir því við hvaða vexti er miðað en afkomurýrnun vegna aukinna afskrifta er hins vegar nálægt 2,5 millj. bandaríkjadala, þannig að þessir þættir gætu auðveldlega vegið hvor annan upp.

Ég kem þá að endurskoðunarákvæði samningsins og styttingu á endurskoðunartíma fyrir íslensk stjórnvöld. Heimild er til endurskoðunar á vissum ákvæðum samningsins á 5 ára fresti og er það góðra gjalda vert svo langt sem það nær. Vert er að hafa í huga að endurskoðunarrétturinn byggist einvörðungu á breytingu á aðstæðum í áliðnaði, en þau ákvæði snúa þannig einvörðungu að þeim heimi sem annar aðilinn, þ.e. Alusuisse, hrærist í og hljóta því frekar að vera þeim aðila hagstæð.

Varðandi endurskoðun á liðnum tíma var réttur Íslands stórlega þrengdur með samkomulaginu fyrir ári síðan og nú bætast við enn frekari takmarkanir í þessum samningi. Svigrúm Íslands til endurskoðunar á ársreikningum liggur nú aðeins innan fjögurra mánaða, þ.e. frá 1. júní til 1. október ár hvert vegna næsta árs á undan. Allur réttur til endurskoðunar eða upptöku mála aftur í tímann, eins og gert var á grundvelli ítarlegra athugana á árinu 1980 vegna áranna 1975-1979, er gefin eftir án þess nokkuð komi á móti. Öll aðstaða Íslands til að sannreyna upplýsingar er þannig takmörkuð enn frekar en áður.

Virðulegi forseti. Eitt helsta yfirlýst markmið með þeirri endurskoðun samninga, sem birtist í þessum fjórða viðauka við álsamningana upphaflegu, er, skv. aths. með þessu frv., að tryggja eðlilegar skatttekjur af starfsemi ÍSALs. eins og þar segir.

Þegar meginatriði þessarar endurskoðunar lágu fyrir með undirritun samkomulags 18. júlí s.l. var staðhæft af þáv. hæstv. iðnrh. að samkomulag þetta fæli í sér skattalegar hagsbætur fyrir Ísland og að skatttekjur skv. þessu nýja samkomulagi geti aldrei orðið lægri en skv. gildandi samningum-geti aldrei orðið lægri. Á þessari staðhæfingu er enn hnykkt í lok aths. með þessu frv. þar sem segir, með leyfi forseta, á bls. 36:

„Niðurstaðan af þessari breytingu á skattstiga er því sú að tekjur af framleiðslugjaldi geta ekki lækkað, en ef afkoma fyrirtækisins batnar með bata í áliðnaðinum, þá verða tekjur af framleiðslugjaldinu hærri en verið hefði með hinu gamla tonnagjaldi.“

Þetta segir í aths. með sjálfu frv.

Illur fengur illa fram gengur, segir gamalt máltæki og það ætlar að sannast á þessu afkvæmi ríkisstj. Steingríms Hermannssonar. Núv. forsrh. hæstv. hefur fylgt samningagerð við Alusuisse eins og skuggi í full 20 ár og sama máli gegnir um formann samninganefndar ríkisstj., Jóhannes Nordal. Forsrh. hæstv. er orðinn vanur því að vera plataður sem kunnugt er, og seðlabankastjórann munar ekki um það að ljá nafn sitt við enn einn gjafasamninginn við Alusuisse. Saman stóðu þeir að öðrum viðauka við álsamningana árið 1975, sem menn þá hældu sér af sem ávinningi en reyndist að athuguðu máli sex árum síðar hafa verið verra, minna en slétt skipti, þar sem hallaði verulega á íslenska hagsmuni þegar allt var saman lagt. Því miður stefnir í það sama með fyrirliggjandi þriðja og nú fjórða viðauka sem hér liggur fyrir.

Sá talnalegi samanburður sem birtur er í töflu á öftustu síðu þessa þskj. er bæði villandi og rangur. Með honum er reynt að sanna það í tölum, sem staðhæft er í orðum og ég hef vitnað til, að tekjur af framleiðslugjaldi geti ekki lækkað frá núverandi fyrirkomulagi. Staðreyndirnar eru aðrar.

Ég hef fengið útreiknaðan samanburð núgildandi og nýrra reglna miðað við 85 000 tonna ársframleiðslu, annars vegar miðað við að ÍSAL hagnýti sér 20% varasjóðsheimild í báðum tilvikum. Það er dregið saman í sérstakri töflu 1 sem ég dreifði hér í hv. þingdeild á miðvikudaginn var. Einnig hef ég fengið samanburð þar sem miðað er við að ekkert sé lagt í varasjóð eins og verið hefur í reynd hingað til, skv. þeim samningi sem enn er í gildi, og hins vegar 20% skv. nýjum reglum. Yfir þessa útreikninga sem hv. þingdeild fékk í hendur hefur Ríkisendurskoðun farið og segir í bréfi hennar til mín frá 19. nóvember, með leyfi forseta:

„Að beiðni yðar, herra alþm., hefur Ríkisendurskoðunin yfirreiknað tvær töflur varðandi skattgreiðslur ÍSALs, samanburður á þeim reglum sem gilt hafa og þeim sem nýlega hefur verið samið um að gilda eigi frá og með 1. janúar 1985. Ekki verður annað séð en að útreikningur í nefndum töflum sé réttur. Mismunur sá sem er á þessum útreikningum og á útreikningi sem fylgdi minnisblaði ríkisstj. frá 17. júlí í sumar er ekki skýrður, nema verið geti um mismunandi upphækkanir á aukastöfum að ræða.“ Undir þetta rita fyrir hönd ráðherra Halldór V. Sigurðsson og Sveinn Arason.

Þetta var bréf Ríkisendurskoðunar vegna þeirra útreikninga sem ég lagði hér fram og gerði hv. deild aðgengilega í síðustu viku, og ég vil aðeins tæpa þar á helstu þáttum.

Ef litið er á töflu 1 og miðað er við afkomu á bilinu frá því að vera óhagstæð um mínus 2,5 millj. bandaríkjadala upp í það að vera jákvæð svo nemur 17,5 millj. bandaríkjadala og mismunandi álverð, sem þarna er miðað við, frá 50 sentum á pund og upp í 70, 100 og 200 sent á pund. - Það gildir raunar um báðar töflurnar að þar er miðað við mismunandi verð á áli. - Í fyrra tilvikinu, töflu 1, sést að skattgreiðslur eru hinar sömu miðað við gildandi kerfi og þá breytingu sem hér er lögð til, á afkomubilinu frá mínus 2,5 millj. bandaríkjadala upp í plús 2,5 millj. bandaríkjadala, þ.e. um 1,7 millj, dala í skattgreiðslu skv. núgildandi og því kerfi sem hér er lagt til að innleitt verði. Miðað við hins vegar 5 millj. bandaríkjadala hagnað gefur það kerfi sem gilt hefur í öllum tilvikum hærri skatta, hvort sem miðað er við álverð frá 50 sentum á pund eða upp í 200, eða 2,1- 2,2 millj. bandaríkjadala í stað 1,7 millj. dala.

Með vaxandi hagnaði og háu álverði frá 70 til 200 sent á pund fást einnig hærri skattar skv. núgildandi samningi eins og lesa má út úr töflu 1, sem ég nefndi hér áðan og hv. þm. hafa aðgang að. Þessir útreikningar sem Ríkisendurskoðun staðfestir að séu rétt reiknaðir, séu réttir útreikningar miðað við þær forsendur sem fyrir lágu 17. júlí s.l., liggja hér fyrir og í töflu 2, þar sem dregið er fram tilvikið að ekkert sé lagt í varasjóð skv. núgildandi reglum en hins vegar 20% samkvæmt nýjum reglum, fást alltaf hærri, og oftast verulega hærri skattar skv. núgildandi kerfi þegar hagnaður hefur náð 5 millj. bandaríkjadala eða meira. Þetta er hér lagt fyrir sem athugasemd, svo ekki sé fastar að orði kveðið, við þá staðhæfingu þeirra sem leggja þetta frv. fyrir að tekjur af framleiðslugjaldi geti ekki lækkað við þessa breytingu á skattkerfi en verði oftast hærri að henni gerðri. Sá mismunur, sem er að finna í síðasta dálki í nefndum töflum í frv. og hins vegar í þeim útreikningi sem ég lagði fyrir, er ekki verulegur en á að vera réttur í þeim töflum sem ég lagði hér fram.

Ég vil biðja hv. þingdeild og hv. nefnd sem væntanlega fær þetta mál til umræðu að skoða þessar tölur vandlega í ljósi staðhæfinga sem fylgja þessu frv. um að tekjur af framleiðslugjaldi geti ekki lækkað við breytinguna frá því sem er skv. núgildandi samningi og reglum um útreikning.

Menn hljóta að spyrja hér á Alþingi: Hvað veldur þeim firnum að slíkar staðhæfingar eru lagðar hér fram til stuðnings þessu frv. og samningi sem ríkisstjórn hefur undirritað? Telur ríkisstj. nauðsynlegt að reyna að gylla þetta mál fyrir Alþingi með röngum upplýsingum og með því að fela staðreyndir um grundvallaratriði eins og væntanlegar skatttekjur af ÍSAL? Það er hins vegar annað og fleira en þessi neikvæðu áhrif á skatttekjur til íslenska ríkisins sem ég hef dregið fram í gagnrýni minni á þennan endemis samning sem Albert Guðmundsson, hæstv. iðnrh., undirritaði 11. nóvember s.l. en sem hæstv. fyrrv. iðnrh., nú menntmrh., verður að teljast bera meginábyrgð á umfram aðra ráðherra í ríkisstjórn Íslands.

Ég vil árétta nokkur slík atriði, herra forseti. Ábyrgðarmenn þessa frv., þar á meðal hv. 2. þm. Reykn. Gunnar G. Schram, töldu sig hafa að leiðarljósi að gera reglur um skatta af álverinu skýrari og öruggari í framkvæmd, þannig að síður verði hætta á deilum í því efni, eins og lesa má í aths. með frv. Hverjum er slíkt öryggi í hag og hvaða verði er það keypt af hálfu íslenska ríkisins að komast hjá deilum við þennan skattþega ÍSALs, alias Alusuisse? Svarið blasir við í grein eftir grein í samningnum sem fylgir þessu frv. og í samningsákvæðunum er varða skattamál og sem fylgdu frv. um þriðja viðauka fyrir réttu ári. Það felst í eftirgjöf á eftirgjöf ofan fyrir kröfum gagnaðilans. Bestukjaraákvæðin burt í fyrra; rétturinn til lágmarkseftirlits með aðfangaverði til bræðslunnar er saminn af okkur í ár, þannig að Ísland setur sig hér á bekk með bananalýðveldum eins og þau voru leikin fyrir nokkrum áratugum. Er mönnum sem bera slíkt fram í raun sjálfrátt? Ætlast Sverrir Hermannsson, hæstv. menntmrh., til þess að nokkur taki hann lengur alvarlega ef einhverjir finnast enn sem ekki hafa þegar séð í gegnum galgopann og skynjað tómið á bak við stóryrtar fullyrðingar og yfirlýsingar þessa hæstv. ráðh., m.a. um samningagerð við Alusuisse? Við þurftum sannarlega á endurbótum að halda í skattalegu tilliti en ekki afturför eins og hér blasir við sem heildarniðurstaða.

Það er sérstaklega athyglisvert hvernig Alusuisse hefur tekist að tína út úr gildandi samningum þau atriði sem auðhringnum reyndust skeinuhættust víð gerðardómsmeðferðina í New York á síðasta ári, þar sem þetta fjölþjóðafyrirtæki stóð uppi berstrípað, sannað að sök um stórfellt yfirverð, „transfer pricing“, á aðföngum til ÍSALs og tilheyrandi skattsvik. Þá hlupu íslenskir stjórnmálamenn undir bagga og forðuðu Alusuisse mildilega frá dómi. Alusuisse vill ekki taka slíka áhættu aftur og þá er bara að hreinsa út agnúana í samningnum sjálfum svo að fyrirtækið sé úr allri hættu þótt það kosti íslenska ríkið ómældar upphæðir og lítillækkun í ofaníbót þar sem fullveldisrétturinn er boðinn falur, sbr. ákvæði um verðlagningu á rafskautum. Öryggi fyrir Alusuisse er viðlag þessa samnings sem hér á að hespa í gegn á Alþingi í trausti þess að þm. hafi ekki ráðrúm til að setja sig inn í málavöxtu.

En er ekki sá sem hér talar tortrygginn úr hófi, kann einhver að spyrja, jafnvel haldinn ofsóknartilhneigingum í garð þessa fyrirtækis í Straumsvík og þeirra er að baki standa í Sviss og víðar? Slíkum ásökunum, sem ég hef raunar heyrt, vísa ég á bug. Hér stendur spurningin einvörðungu um eðlilega hagsmunagæslu, kröfu um að samningar séu haldnir og réttur tryggður til eftirlits og ákvarðana af hálfu fullvalda ríkis gagnvart fjölþjóðafyrirtæki. Ég geri ekki upp á milli slíkra fyrirtækja né heldur þótt í hlut ættu Rússar eða Kínverjar, en þeir síðast töldu eru nú helsta haldreipi stóriðjupostulanna í Sjálfstfl.

Deilur ríkja við slík erlend fyrirtæki vegna skatta og skattsvika eru langt frá því að vera nýlunda eins og reynt er að telja fólki trú um hérlendis. Alusuisse á t.d. í hörkudeilum um skatta, skattgreiðslur við stjórnvöld í Ástralíu um þessar mundir og þau mál hafa m.a. verið til umræðu í ástralska þinginu síðustu vikur og raunar á síðustu árum. Bakgrunnur þessara átaka er um margt svipaður því sem við höfum mátt reyna í samskiptum við Alusuisse hérlendis. Þetta er raunar hinn endinn á vinnslurásinni, arðurinn af báxítnámunni og súrálsvinnslunni í Gove í Norður-Ástralíu, sem leggur til hráefnið í bræðsluna í Straumsvík. Það er þetta hráefni sem Alusuisse þóknaðist að hækka í hafi svo um munaði hér á árum áður en lækkaði á sama tíma landmegin í Ástralíu til að draga úr bókhaldslegum hagnaði og skattgreiðslum í báðum ríkjunum, Íslandi og Ástralíu. Í Ástralíu standa nú spjótin á þessum ómaga, kröfur um skatta upp á milljónir dollara allt aftur til áranna 1978-1979, en skattyfirvöld í Ástralíu hafa sent Alusuisse, eða dótturfyrirtæki þess Austrasuisse í Ástralíu, bakreikning upp á 15 millj. dollara vegna vangoldinna skatta á þessum tveimur árum. Og auðvitað ber Alusuisse sig illa undan óbilgirni þeirra áströlsku ekki síður en undan vondum ráðherrum á Íslandi hér á árum áður. Ég get vísað til blaðaummæla og skrifa um þessi mál og umræðna í ástralska þinginu sem ég gerði hv. þingdeild aðgengileg hér í síðustu viku í ljósriti. En hver veit nema að einnig í Ástralíu berist þeim svissnesku bjarghringur með sáttargerð og þriðja og fjórða viðauka við aðalsamning svipað og kastað hefur verið út hér við ystu höf.

Herra forseti. Í samningnum í fyrra sem lögfestur var hér fylgdi sáttargerðarsamningur, sérstakur sáttargerðarsamningur. Eitt ákvæði í þeim sáttargerðarsamningi varðaði túlkun á sáttargerðinni. Um það var fjallað í 9. tölusettum lið þessa sáttargerðarsamnings með þessum hætti: „Hvorugur aðila skal gefa út neina fréttatilkynningu eða aðra svipaða tilkynningu varðandi sáttargerðarsamning þennan án samþykkis hins aðilans“, segir þar. Nú hefur það gerst að forstjóri Austrasuisse í Ástralíu hefur í skriflegri orðsendingu til ástralska þingsins túlkað þennan samning sem gerður var við íslensk stjórnvöld í fyrra með svofelldum hætti - hv. þdm. hafa fengið aðgang að ummælum hans, en í minni þýðingu er það svo, punktur átta í skjali sem sent var öllum þingmönnum á ástralska þinginu:

„Vísað er til skattakröfu íslensku ríkisstjórnarinnar á árinu 1980 á hendur móðurfélagi okkar, Alusuisse. Sú staðreynd að íslenska ríkisstjórnin samdi um þessa kröfu á hendur Alusuisse með því að taka við 3 millj. bandaríkjadala greiðslu út í hönd fremur en að halda við kröfur sínar er vísbending um að ekki var hægt að rökstyðja kröfurnar. Alusuisse greiddi þessa upphæð út í hönd vegna þess að lögfræðikostnaður fyrirtækisins var að fara yfir 3 millj. bandaríkjadala og sættir voru skynsamlegar út frá viðskiptalegu sjónarmiði.“

Þetta er í bréfi undirrituðu af forstjóra dótturfyrirtækis Alusuisse í Ástralíu, orðsending til ástralska þingsins, útlegging og túlkun á þeim sáttargerðarsamningi sem gerður var við íslensku ríkisstjórnina þar sem sérstaklega var kveðið á um að aðilar skuli forðast að túlka þennan samning með fréttatilkynningum eða öðrum svipuðum tilkynningum. Hér hafa menn það. Hér sjá menn hvers virði Alusuisse metur íslenska ráðamenn, núverandi íslenska valdhafa sem samið var við í fyrra. Menn hafa það hér svart á hvítu. Ég þarf ekki að eyða fleiri orðum að því í bili.

Herra forseti. Ég ætla senn að ljúka máli mínu. Ég vil hér að lokum ítreka fram komnar fyrirspurnir til hæstv. ráðh. varðandi þennan samning og bæta nokkrum við sem hæstv. ráðh. geta þá tekið heim með sér. en ég vænti að fá svör við þegar umræðu heldur hér fram.

1. Hafa þm. Framsóknar- og Sjálfstfl. skuldbundið sig til að styðja þennan samning? Hver var afstaða ráðherra þessara flokka í ríkisstjórn til þessa samnings í júlí 1985 og nú í nóvembermánuði?

2. Hvað veldur því að settar eru fram villandi upplýsingar og rangar staðhæfingar um áhrif þessa samnings á skatttekjur af álverinu á komandi árum og reynt er að styðja það með tölum sem eru rangar og villandi?

3. Hafa ráðherrar gert sér ljóst að stigin eru afdrifarík skref til baka varðandi endurskoðunarrétt Íslands á aðföngum til álversins, svo sem rafskautum, þar sem Alusuisse er selt sjálfdæmi um verðlagningu?

4. Hvert er það rafskautaverð sem gert er ráð fyrir að komi út úr samningsákvæðum skv. gr. 27.04? Er það verð hærra eða lægra en það rafskautaverð sem upplýst var sem kostnaðarverð frá rafskautaverksmiðju Alusuisse í Rotterdam fyrir gerðardómi í New York sumarið 1984, og raunar áður í endurskoðun fyrirtækisins Coopers & Lybrand?

5. Hvernig má það gerast að felldar eru niður kvaðir gagnvart Alusuisse um bestu kjör á aðföngum til ÍSALs og um sölu afurða, en Alusuisse heldur áfram óskertri sölu- og tækniþóknun, samtals 3,7% af veltu ÍSALs, sem dregið er frá hagnaði fyrir skatta?

6. Hvernig stendur á því að skattalögsagan gagnvart ÍSAL er enn ekki í íslenskum höndum? Hvaða tilraunir voru gerðar til þess að breyta því ákvæði við þessa samningsgerð?

7. Hvernig dettur ráðherrum og ríkisstj. í hug að leggja nú fyrir þingið samning sem að líkindum á eftir að færa Íslandi verulega minni skatttekjur af ÍSAL en var skv. þeim ákvæðum sem í gildi voru fyrir samþykkt þriðja viðauka og með þeim breytingum sem felast í því samkomulagi sem hér er leitað eftir staðfestingu Alþingis á? Ber að skoða þetta sem sérstök verðlaun til Alusuisse vegna samskipta í skattamálum á liðinni tíð?

8. Til hvaða aðgerða mun hæstv. iðnrh. grípa í ljósi einhliða túlkana starfsmanna Alusuisse og dótturfélaga þess á sáttargerðarsamningnum frá 5. nóvember 1984?

9. Má vænta þess að breyting verði af hálfu Alusuisse á færslu ársreikninga ÍSALs þannig að þar komi fram hvað raunverulega er greitt fyrir aðföng og afurðir, þannig að trúnaðarmenn íslensku ríkisstj. í stjórn ÍSALs fái aðgang að slíkum reikningslegum niðurstöðum?

10. Hvernig stendur á því að lágmarksskatturinn 20 dollarar á tonn er óverðtryggður skv. samkomulaginu? Hvert er raungildið á þeim lágmarksskatti nú miðað við það sem var fyrir 10 árum þegar um sömu upphæð var samið í dollurum sem lágmarksskatt þegar annar viðauki við aðalsamninginn gekk í gildi? Hvernig lítur það raunverð út?

Herra forseti. Ég er að ljúka máli mínu. Ég rifjaði það upp í umræðum um þriðja viðaukann við álsamninginn í fyrra hér í hv. þingdeild að í tengslum við aðalfund ÍSALs sumarið 1983 hafi forsrh. landsins, Steingrímur Hermannsson, sem þá var nýlega búinn að mynda ríkisstj., boðið til veislu. Þar voru auk forráðamanna Alusuisse mættir ekki færri en fjórir íslenskir ráðherrar ásamt fleiri fyrirmönnum íslenskum. Hermt er að framan af borðhaldi hafi dr. Muller, sem enn var þá í forsvari fyrir Alusuisse, verið nokkuð hugsi enda orðinn óvanur slíkri tilbreytingu af hálfu íslenskra stjórnvalda næstliðin þrjú ár. Eftir að hafa hlýtt á hjartnæma skálaræðu íslenska forsætisráðherrans hóf dr. Muller sig úr sæti til þess að þakka fyrir sig og sína. Það var inntak ræðu hans að Alusuisse fagnaði mjög myndun nýrrar ríkisstjórnar á Íslandi og taldi fyrirtæki hans tilkomu hennar vera sér til augljósra hagsbóta - „very much to the benefit of Alusuisse.“ Eitthvað sló þögn á veislusalinn eftir þessar yfirlýsingar. Síðan eru liðin rúm tvö ár. Mér virðist að sá tími hafi rennt ótvíræðum stoðum undir orð hins aldna forstjóra Alusuisse sem nú hefur snúið sér að því að vísa Kínverjum veginn í gullkistuna hér í útnorðri.

Umr. frestað.