26.11.1985
Sameinað þing: 21. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 889 í B-deild Alþingistíðinda. (702)

50. mál, rannsóknir við Mývatn

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Einarsson):

Herra forseti. Það kemur mjög á óvart þegar hæstv. ráðh. lýkur ræðu sinni með því að lýsa því yfir af tilefni fsp. sé aukaatriði í þessu sambandi. Hér er nefnilega alls ekki um neitt aukaatriði að ræða. Ég tel að menntmrh. sé skylt að leita eftir framkvæmd laganna frá 1974 á þann hátt að úrskurður fáist í þessu efni. Annaðhvort á að gera það með því að leita eftir lagaúrskurði, eins og ég lýsti hér að framan, þó tel ég að það sé raunar vondur kostur, eða að fara hina og betri leiðina, að það fengist viðurkenning iðnrh. á forræði Náttúruverndarráðs nú. Hún fengist þá með því að gefið yrði út nýtt námaleyfi sem yrði gefið út með leyfi og samþykki Náttúruverndarráðs. Á annan hvorn þennan háttinn tel ég að verði að fást niðurstaða í þessu máli. Og þetta er hreint ekki aukaatriði, hæstv. ráðh. Þó að menn berist kannske ekki á banaspjótum út af þessu núna og um málið ríki kyrrð er málið óútkljáð. Ég tel að það sé alvarlegt bæði fyrir þetta tiltekna mál og önnur þau mál sem upp kunna að rísa af svipuðu tilefni og á ég þá við lög um náttúru- og umhverfisvernd.

Hæstv. ráðh. gerði að umtalsefni rannsóknir við vatnið og taldi að þær væru á hinum besta rekspöl. Svo er ekki. (Gripið fram í: Jú, jú.) Rannsóknamálið er nefnilega, að því er ég tel, í sjálfheldu. Þar kemur tvennt til.

Í fyrsta lagi eru nú tveir húsbændur þar um. Það er í fyrsta lagi nefnd iðnrh., sem sett var upp með námaleyfinu sem var gefið út í janúar, og síðan er nefnd Náttúruverndarráðs og Rannsóknarstöðvarinnar við Mývatn sem starfar samkvæmt reglugerð frá 1978. Þessar tvær nefndir eru starfandi um þessi mál og það kann ekki góðri lukku að stýra þegar þannig er að málinu staðið, enda hefur lítið miðað í þessu máli. Það hefur verið lögð fram rannsóknaráætlun sem kostar líklega einar 6 millj. kr., iðnaðarráðuneytisnefndin hefur 2,5 millj., en Náttúruverndarráðsnefndin hefur 1,2 millj. og það er enn þá fjárvöntun upp á milli 2,5 og 3 millj. kr. til þess að viðunandi rannsóknir geti farið fram. Því er ekki rétt að rannsóknaþátturinn standi þannig að honum sé borgið. Ég vil þess vegna ítreka að ég tel óviðunandi annað en að niðurstaða fáist í málinu. Helst ætti það að gerast með því að núverandi hæstv. menntmrh. sannfæri iðnrh. um að það sé skynsamlegt og rétt að gefa út nýtt námaleyfi þar sem leyfi Náttúruverndarráðs verði fengið. Ef sú leið fæst ekki farin tel ég að það verði að leita úrskurðar dómstólanna í þessu efni.