26.11.1985
Sameinað þing: 21. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 891 í B-deild Alþingistíðinda. (706)

50. mál, rannsóknir við Mývatn

Menntmrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Ég vil taka þessa sérkennilegu áskorun hv. fyrirspyrjanda til greina að athuga um að leggja slíkar brtt. fram, en ég vil síður en svo lofa neinu nú og strax um það efni.

Það kann vel að vera að lög um verndun Mývatns og Laxársvæðisins krefjist endurskoðunar, ég hef ekki leitt hugann að því nú, en vil sem sagt víkjast undir það að athuga málaleitan hv. fyrirspyrjanda þótt sérkennileg sé á þessu stigi máls og ég efist reyndar um að slíkar athafnir af hálfu ríkisvalds nú yrðu sérstaklega til þess að lægja öldur í málinu.