26.11.1985
Sameinað þing: 21. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 894 í B-deild Alþingistíðinda. (710)

60. mál, alþjóðasamningur um afnám mismununar gagnvart konum

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég vil vekja athygli á því í tengslum við þessa fsp. að ég hef ásamt hv. 10. þm. Reykv. flutt þáltill. um að félmrh. og Jafnréttisráði verði falið að gera sérstaka úttekt á jafnréttisstöðu kvenna hérlendis með tilliti til alþjóðasamningsins sem samþykktur var og staðfestur á liðnu sumri.

Gert er ráð fyrir því skv. till., sem hefur verið vísað til félmn. Sþ., að ráðherrar skili álitsgerð, greinargerð til þingsins og tillögum sínum til að bæta úr því sem á vantar að Ísland uppfylli þennan samning fyrir lok næsta árs. Ég vona að þessi tillaga nái fram að ganga. Ég tek skýrt fram að hún er ekki til þess ætluð að binda hendur eins eða neins að kippa því í liðinn sem augljóslega vantar á í þessum málum, t.d. lögum samkvæmt, en hitt er ljóst að það er nauðsynlegt að vita hvað greinir á milli samnings og framkvæmdar hér. Þar kunna að vera matsatriði og úr því verður væntanlega skorið með athugun mjög fljótlega á vegum Jafnréttisráðs og félmrn.