26.11.1985
Sameinað þing: 21. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 894 í B-deild Alþingistíðinda. (711)

60. mál, alþjóðasamningur um afnám mismununar gagnvart konum

Fyrirspyrjandi (Sigríður Dúna Kristmundsdóttir):

Ég þakka hæstv. forsrh. svörin, en heldur þóttu mér þau rýr. Ég lagði fram þessa fsp. vegna þess að okkur Kvennalistakonum er ákaflega umhugað um að þessi alþjóðasamningur verði ekki látinn rykfalla eða daga uppi í eilífðarathugun einhvers staðar í kerfinu. Við viljum sjá þessum samningi fylgt eftir með aðgerðum en ekki með eilífum og endalausum athugunum.

Hæstv. forsrh. vísaði til framkvæmdaáætlunar Jafnréttisráðs og heyrðist mér á honum að þessari framkvæmdaáætlun væri ætlað að leysa þann vanda að gera tillögur um hvernig uppræta megi kynbundið misrétti hér á landi. Eins og fram kom í máli hæstv. ráðherra er Jafnréttisráð ekki einu sinni fullskipað í dag, hvað þá heldur að það sé byrjað að vinna að þessari áætlun. Nú sé ég að hæstv. félmrh. biður um orðið og kann að vera að Jafnréttisráð sé þá loksins fullskipað, en í svari hæstv. félmrh. til hv. þm. Salome Þorkelsdóttur á Alþingi 5. nóv. sa. kom fram að Jafnréttisráð var þá ekki fullskipað.

Auk þess sem ekki er byrjað á þessari framkvæmdaáætlun leysir hún í sjálfu sér ekki vandann, enda var ekki spurt um þessa framkvæmdaáætlun. Það var spurt um pólitískan vilja til að leiðrétta þá mismunun gagnvart konum sem við blasir hér á landi. Sú mismunun er augljós og okkur er ekkert að vanbúnaði að hefja framkvæmdir nú þegar til að taka á þessu misrétti. Sá pólitíski vilji kom ekki fram í svari hæstv. ráðherra. Það kom ekki fram að til stæði að hefjast þegar handa og gera eitthvað í þessum málum. Hæstv. forsrh. talaði um ný jafnréttislög sem sett voru hér 19. júní s.l. og vil ég benda honum á að slík lög afnema í sjálfu sér ekki það kynbundna launamisrétti sem hér ríkir. Þau endurmeta ekki störf kvenna. Þau byggja ekki dagvistarheimili og þau lengja ekki fæðingarorlof svo að eitthvað sé nefnt. Þetta og margt fleira er hins vegar nauðsynlegt ef jafnréttislögin og þessi alþjóðasamningur um afnám allrar mismununar gegn konum eiga að vera eitthvað annað og meira en orðin tóm. Þess vegna þykir mér einsýnt að ef ekki verður strax gripið í taumana verði þessi plögg ekkert annað en fögur en innantóm orð í höndum þessarar ríkisstj.