26.11.1985
Sameinað þing: 21. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 896 í B-deild Alþingistíðinda. (715)

60. mál, alþjóðasamningur um afnám mismununar gagnvart konum

Fyrirspyrjandi (Sigríður Dúna Kristmundsdóttir):

Herra forseti. Hæstv. forsrh. kom hér í stólinn aftur og endurtók það að hann hefði fullan hug á að framfylgja þessum samningi og nýsamþykktum jafnréttislögum. En það er ekki nóg að segjast hafa fullan hug á að gera slíkt, hafa fullan hug á að kanna, rannsaka og láta gera tillögur. Það þarf að framkvæma. Hæstv. forsrh. sagði að sér fyndist gæta óþolinmæði í málflutningi þar sem fram hefði komið að menn vildu strax láta framkvæma það sem hefði verið samþykkt 19. júní s.l.

Ég vil benda hæstv. forsrh. á að misrétti kynjanna varð ekki til á s.l. vori. Það hefur verið við lýði hér í langan aldur og það hefur verið bent á það ekki árum heldur áratugum saman að þetta þurfi að leiðrétta. Það er því ekki undarlegt þótt konur knýi fast á um það nú að þessum málum verði fylgt eftir. Ég vil að lokum uppfræða hæstv. forsrh. á því að þolinmæði kvenna er að bresta. Við viljum ekki fleiri kannanir, ekki fleiri athuganir, heldur viljum við framkvæmdir og aðgerðir í þessum málum.