26.11.1985
Sameinað þing: 21. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 897 í B-deild Alþingistíðinda. (716)

95. mál, rannsókn vímuefnamála

Fyrirspyrjandi (Kristín S. Kvaran):

Hæstv. forseti. Ég hef leyft mér að bera fram á þskj. 105 fsp. til hæstv. dómsmrh. um rannsókn og úrslit vímuefnamála. Af yfirvöldum í Noregi er talið að það sem lagt er hald á af vímuefnum sé um það bil 5% af heildarmagni þeirra efna sem eru í umferð. Varðandi það hvort ástæða er til þess að ætla að við getum borið okkur saman við frændþjóð okkar að þessu leyti er þess að geta að ekki er til nein athugun hér sem sannar eða afsannar neitt í því sambandi. En það er þó mjög líklegt að við liggjum ekki svo órafjarri þeim hvað þetta varðar.

Við þyrftum ekki frekar vitnanna við þegar það magn sem fundist hefur fram að 1. nóv. 1985 er af hassi 8000 grömm, af amfetamíni 660 grömm, kókaíni 27 grömm og 2216 stk. af LSD. Ef staðreyndin er hins vegar sú að þetta magn er aðeins 5% af því sem er í umferð getum við rétt ímyndað okkur hvernig ástandið er í raun og veru.

Hvernig er búið að hinni íslensku fíkniefnalögreglu? Að því er ég best veit býr hún við mikinn fjármagnsskort og manneklu. Og ég hygg að samvinna við lögreglu og hina ýmsu aðila sem við meðferð fást sé nánast engin. Það hefði verið fróðlegt að hafa lagt þá spurningu fyrir hvaða úrræði lögreglan í raun hafi og hvort hún geti tryggt öryggi hugsanlegra uppljóstrara. Vissulega lesum við oft um fund á smygluðum fíkniefnum og gerast þær fregnir nokkuð algengar á síðum dagblaðanna og í fréttum annarra fjölmiðla. En það er spurningin hvort hér sé um að ræða aukið smygl eða hvort aðferðir tollgæslunnar séu farnar að reynast árangursríkari. Það er þess vegna alveg ljóst að rannsóknarvald það sem til þarf til rannsóknar á umfangsmiklum málaflokki, sem rannsókn vímuefnamála er, þarf auðvitað að vera afar sveigjanleg og í senn yfirgripsmikil. Það er auðvitað óþolandi að rannsóknarlögreglan þurfi að hlusta á sögur þess eðlis að hér og þar sé svo og svo mikið magn af efnum í gangi án þess að geta nokkuð að gert. Í fyrsta lagi vegna þess að það vantar rýmri túlkanir og heimildir til rannsóknar vímuefnamála og svo þar að auki hamlar mannekla og fjárskortur því að nokkuð sé aðhafst.

Þess vegna spyr ég hæstv. dómsmrh.: „Hefur ríkisstj. í hyggju að rýmka heimildir til rannsóknar vímuefnamála?" Í öðru lagi spyr ég: „Hefur svokölluðum sáttamálum (þ.e. að málum Ijúki með sektum) vegna vímuefna fækkað?"