26.11.1985
Sameinað þing: 21. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 898 í B-deild Alþingistíðinda. (718)

95. mál, rannsókn vímuefnamála

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Hér var nýlega á hinu háa Alþingi mikil umræða um eitt umsvifamesta okurlánamál sem upp hefur komið á síðustu árum. Um það lesum við í blöðum að það fé sem rænt hefur verið af íslenskri alþýðu og nú er í gangi hjá okurkörlum sé að verulegu leyti notað til fíkniefnakaupa. Ég vil því leyfa mér að spyrja hæstv. dómsmrh.: Hefur hann í hyggju að leggja ofurkapp á að upplýsa það mál með tilliti til allra annarra þátta en ekki síst þess hvort þetta fé sé notað til fíkniefnakaupa erlendis? Og ætlar hann þess vegna að leggja sitt af mörkum til þess að stöðva slíkt, að leggja allt kapp á að þetta mál upplýsist sem allra, allra fyrst svo að það liggi ljóst fyrir hverjir það eru sem fjármagna eyðileggingu á íslenskum ungmennum?