26.11.1985
Sameinað þing: 21. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 898 í B-deild Alþingistíðinda. (719)

95. mál, rannsókn vímuefnamála

Fyrirspyrjandi (Kristín S. Kvaran):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. svörin þó að ég verði að segja að mér finnst þau heldur rýr og það verður að segjast eins og er að í mörgu tilliti hef ég aðrar upplýsingar en fram koma frá honum, en ég get víst ekki gengið til úrslita um það hvort rétt reynist hér. En í tengslum við það sem hv. 10. landsk. þm. sagði áðan er kannske rétt að vekja athygli á því að það virðist ekki vera mikið þegar talað er um það að t.d. árið 1983 voru tekin í vörslu yfirvalda hérlendis 0,3 grömm af heróíni. En jafnframt ber að hafa það í huga að eitt gramm af slíkum varningi er talið kosta á markaðinum um 40 þús. kr. íslenskar. Þess vegna finnst mér mjög mikils virði að fá að heyra eitthvað nánar um það í tengslum við þetta mál frá dómsmrh.

Það er gott að heyra að þetta sé á misskilningi byggt hjá mér. Um sé að ræða aukið samstarf þeirra aðila sem hafa með þessi mál að gera. En mér þykir leitt til þess að vita að ekki skuli vera á döfinni neinar sérstakar og jafnframt víðtækar heimildir til handa þeim sem hafa með þessi mál að gera í rannsókn. Vegna þess að það sem er verst af öllu saman er að það virðist vera að lögreglan geti orðið sökudólgur í málum af því að hana bráðvantar þessar rýmri heimildir til rannsókna. En skv. þeim upplýsingum sem ég hef frá Arnari Jenssyni rannsóknarlögreglumanni hefur sáttamálum fækkað þvert á það sem hæstv. dómsmrh sagði, þ.e. að þau væru mjög svipuð. En það ber að vekja athygli á því líka að þegar ég segi að sáttamálunum hafi fækkað þýðir það ekki að um sé að ræða færri mál. Það þýðir þvert á móti að um er að ræða mun stærri mál og meira umfang og málið því mun alvarlegra heldur en virðast mætti í fyrstu.