26.11.1985
Sameinað þing: 21. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 903 í B-deild Alþingistíðinda. (726)

147. mál, þjóðminjalög

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. upplýsingarnar. Ég vona að það verði ekki sá dráttur á þessu máli eins og orðið hefur frá því ég síðast bar fram fyrirspurn um þetta efni.

Staða okkar þjóðminjaverndar er alls ekki í því horfi sem skyldi og skortir þar bæði á lagafyrirmæli og fjármagn til þessara mála. Við erum þarna miklir eftirbátar grannþjóða okkar, hinna Norðurlandaþjóðanna, í þessum efnum og er mjög illt til þess að vita í landi þjóðar sem öðru fremur vill láta kenna sig við sögu sína og uppruna og er hreykin af.

Ég get út af fyrir sig skilið það að ráðuneyti vilji athuga álitsgerð sem berst frá nefnd áður en frv. er fram lagt. Hinn hátturinn er þó stundum á hafður að flytja frv., þó ekki væri nema til kynningar á Alþingi, senda það ýmsum til umsagnar er málið varðar, og þingnefnd gerir síðan upp hvað samstaða getur orðið um hér í þinginu. Ég vil ekki hafa neinar hrakspár uppi um endurskoðun þessa máls frá upphaflegum tillögum en vænti þess að þær berist okkur sem fyrst.

Ég nefndi fjárskort fyrir þjóðminjavernd í landinu. Það hefur nýlega komið fram að höfuðsafn þjóðminja okkar, Þjóðminjasafn Íslands, er mjög illa statt hvað snertir aðbúnað og húsnæði. Þar er húsleki mikill að því okkur er tjáð og er það vandamál sem auðvitað verður að glíma við. En hér er hins vegar um að ræða lagaramma um þjóðminjavernd um land allt. Eins og ég frétti af þessum tillögum á sínum tíma þá leist mér vel á þær, m.a. vegna þess að þar var stefnt að valddreifingu yfirstjórnar. Ég vænti þess að sú breyting eða breytingarhugmyndir, sem formaður stjórnar Sambands sveitarfélaga hefur í huga, stefni ekki að því að þjappa yfirstjórn þessara mála saman í einn punkt hér á höfuðborgarsvæðinu eins og allt of mikið hefur verið um á liðinni tíð. Þetta er verkefni sem þarf að leysa í öllum landshlutum með skynsamlegu fyrirkomulagi og á ekki út af fyrir sig að hljótast af óeðlilegur kostnaðarauki.