26.11.1985
Sameinað þing: 21. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 905 í B-deild Alþingistíðinda. (728)

Veiðar smábáta

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Í reglugerð um stjórn botnfiskveiða fyrir árið 1985 er gert ráð fyrir því að heildaralli þessarar bátastærðar sé 11 120 lestir.

Á fyrsta tímabili var gert ráð fyrir 1630 lestum en veiðar voru samtals 5253 lestir. Var það mjög gagnrýnt, sérstaklega á þeim svæðum á landinu þar sem veiðar eru tiltölulega litlar á þessum tíma, á Vestfjörðum og norðanverðu landinu, að veiðar skyldu ekki hafa verið stöðvaðar mun fyrr á þessu tímabili.

Á næsta tímabili voru veiðar 7272,7 lestir en gert var ráð fyrir í reglugerð 2910.

Á tímabilinu júlí-ágúst, þ.e. þriðja tímabili, voru veiðar 8126 lestir en gert ráð fyrir að veiðar væru 3800 lestir.

Á síðasta tímabilinu var gert ráð fyrir því að veiðar væru 1780 lestir en þær veiðar eru nú orðnar u.þ.b. 3500 tonn.

Á s.l. vori var í samráði við smábátaeigendur farið út í það að auglýsa eftir umsóknum um veiðar á síðasta tímabilinu og þar með gerð tilraun til þess að skilja að annars vegar atvinnumenn og hins vegar þá sem stunda þessar veiðar sem áhugamenn. Þá var einnig hafið verulegt samráð við smábátaeigendur og þeir hvattir af sjútvrn. til þess að stofna samtök, þannig að við gætum haft við þá eðlileg samráð um þessi mál eins og aðra sem eiga hagsmuna að gæta. Það var hafinn undirbúningur að því af þeirra hálfu. Þegar umsóknarfrestur var útrunninn 15. ágúst var kallaður saman fundur með fulltrúum þessara aðila. Það sem þeir voru allir sammála um á þeim fundi - menn voru nú ekki sammála um allt á þeim fundi - en menn voru þó sammála um að það væri algjörlega útilokað að skilja á milli áhugamanna og atvinnumanna, en borist höfðu rúmlega 800 umsóknir, ef ég man rétt. Í framhaldi af því var ákveðið að veiðar væru stöðvaðar í tiltekinn tíma í september og tiltekinn tíma í október og síðan stöðvaðar eftir 15. nóvember.

Út af fyrir sig má ávallt um það deila með hvaða hætti þessar takmarkanir skuli vera, en aðalatriðið er að það verður að vera jafnræði milli skipa og skipaflokka. Næsti flokkur fyrir ofan eru bátar af stærðinni 10-20 tonn sem hafa einnig búið við verulegar takmarkanir. Það má segja að þessir bátar veiða í heildarkvóta og það er erfitt að taka tillit til hvers og eins eða nánast ekki hægt vegna þess. Þar er samkeppni um ákveðið magn, en við það hefur ekki verið staðið af ýmsum ástæðum. En það má gera ráð fyrir að veiðar þessara báta séu um 24 þús. tonn á þessu ári. Margir þessara aðila hafa gert það mjög gott og hafa haft ágætar tekjur. Aðrir hafa orðið fyrir óhöppum eins og gengur. En þegar veiðar eru úr heildarkvóta leyfir kerfið ekki að tekið sé tillit til einstakra manna og einstakra aðstæðna.

Af þeim ástæðum, sem ég hef hér áður greint, að ekki var talið mögulegt að skilja á milli annars vegar atvinnumanna og hins vegar þeirra sem stunda þetta í sínum frístundum, var ákveðið í ágúst að nýta ekki þessa heimild, heldur láta hana renna inn í heildina. enda má segja að þetta magn hafi þegar verið veitt því að veiðar á síðasta tímabilinu eru um það bil 3500 lestir, en áætlað var að veiða 1780.

Í því frv. sem nú hefur verið lagt fram er gert ráð fyrir að ráðherra hafi heimild til að heimila línuveiðar þessara báta á því tímabili sem þar er tilgreint. Ef það verður samþykkt og sú heimild veitt hef ég gert ráð fyrir að þessir bátar geti hafið línuveiðar strax eftir áramót.