26.11.1985
Sameinað þing: 21. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 907 í B-deild Alþingistíðinda. (730)

Veiðar smábáta

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Menn standa nú frammi fyrir því hér á Alþingi, sem átti að vera ljóst þegar mál þessi voru til umræðu í sambandi við lagasetningu í fyrra um stjórnun fiskveiða, að í hreint óefni gæti stefnt með veiðar smábáta sem ætlað var að veiða úr óskiptum kvóta. Ég spurðist fyrir um þessi mál og hvað fyrirhugað væri haustið 1984 og varaði þá þegar mjög við óbreyttri stefnu í þessum efnum. Við Alþýðubandalagsmenn lögðum mörg orð í belg í umræðum um þessi mál, ég hygg í báðum þingdeildum, til þess að koma í veg fyrir að lögbundið yrði það kerfi nánast óbreytt sem í gildi var árið 1984 um þessi efni. Hæstv. sjútvrh. varð þá ekki þokað og brtt. okkar Alþýðubandalagsmanna í báðum þingdeildum um að undanskilja handfæra- og línuveiðakvóta voru felldar af stjórnarliðinu sem tók þátt í því, ég held mestan partinn óskipt eða alveg óskipt.

Nú hefur komið í ljós að þetta kerfi hæstv. sjútvrh., sem hann vill ekki þoka neinu til um, hefur sprungið, það hefur reynst gersamlega ónothæft í reynd þrátt fyrir tilraunir ráðherrans til að stýra eftir þessu kerfi. Þeir eru fjölmargir í kringum landið sem hafa verið þolendur þessa allt þetta ár, bæði þá daga sem þeim hefur verið ætlað að geta stundað veiðar en verið hindraðir í því, m.a. vegna gæftaleysis, og þá daga sem þeir hafa verið stöðvaðir frá að stunda sinn rekstur sem nú er alfarið frá 15. nóv, til áramóta. Á þessu ber stjórnarliðið á Alþingi og hæstv, sjútvrh. ábyrgð. En hann hefur möguleika til að bæta enn ráð sitt og ég hlýt að taka eindregið undir þau orð, sem hér féllu hjá hv. síðasta ræðumanni, að það verði gert.

Mér er ekki fyllilega ljóst hvernig slíkt á að framkvæma á grundvelli samþykktar sjútvn. Ed. um að flytja þarna til aflamagn, til báta sem ekki hafa neinn tilgreindan kvóta. Þeir verða þá væntanlega að sameinast um að kaupa slíkan kvóta og mynda um það einhvers konar samtök. Mér líst sem það geti verið nokkuð umhendis á þeim skamma tíma sem raunar enginn er af því að nú er veiðibann í gildi. En hjá sjútvrn. liggja umsóknir þeirra sem líta á sig sem atvinnumenn í þessum efnum, þ.e. hafa þetta að lífsframfæri. Þær upplýsingar liggja fyrir hjá sjútvrn. Ég hvet hæstv. ráðh. til að taka þær upp úr skúffum sínum, fara yfir þær og heimila þeim mönnum sem um það sóttu að stunda áfram veiðar frá septembermánuði, sem þá var um að ræða, og heimili þeim það til áramóta. Þar mun ekki vera um stóra hluti að ræða í afla á þessum skammdegisdögum, en það væri þó bætt ögn úr því óréttlæti sem yfir þennan hóp manna var látinn ganga með lagasetningu hér á Alþingi á síðasta vetri.