26.11.1985
Sameinað þing: 21. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 908 í B-deild Alþingistíðinda. (731)

Veiðar smábáta

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ábyrgð Alþingis er öll í því sem hér hefur átt sér stað og það má aðeins þakka furðulegri löghlýðni sjómanna hringinn í kringum landið að þeir atburðir sem gerðust uppi á Skaga hafa ekki almennt verið að gerast.

Ég undirstrika að ég tel það fráleita lagasetningu og taldi það fráleita lagasetningu að setja lög sem fyrst og fremst afhentu ráðherra vald til að framkvæma það sem honum dytti í hug. Hitt er svo annað mál hvort framkvæmdin stenst 69. gr. stjórnarskrár Íslands því að ráðherrar eins og aðrir eru eiðsvarnir menn að því að virða stjórnarskrána. Með leyfi forseta vil ég lesa 69. gr. stjórnarskrárinnar:

„Engin bönd má leggja á atvinnufrelsi manna nema almenningsheill krefji, enda þarf lagaboð til.“

Er svo illa komið fyrir þorskinum að sjötugir karlar á trillum séu líklegir til að útrýma honum við Íslandsstrendur? Er ástandið svo slæmt? Fær það staðist að ákvörðun um þau bönn sem sett hafa verið standist skv. 69. gr. stjórnarskrárinnar? Það fer aftur á móti ekki milli mála að það er heimilt samkvæmt stjórnarskránni að setja um það lög og framfylgja þeim að hráefnið sem veitt er sé ekki gert að skít. Hefur því verið framfylgt? Nei. Það þarf ekki annað en skoða hvernig útkoman hefur verið á hinum ýmsu stöðum á landinu gagnvart gæðum þess afla sem þar hefur verið unninn.

Ég undirstrika að ég tel að þetta mál eigi að fara fyrir Hæstarétt. Ég tel að það eigi að fást úr því skorið hvort almenningsheill á Íslandi séu þau að sjötugir trillukarlar skuli hætta sjósókn. Það er ekkert um það í 69. gr. stjórnarskrárinnar að það lið sem byggir lýðræðið á tonnalýðræði, eins og LÍÚ, eigi að hafa einhvern forgang í þessu þjóðfélagi. Það er ekki ein einasta grein um það, herra forseti, í allri stjórnarskránni.