26.11.1985
Sameinað þing: 21. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 908 í B-deild Alþingistíðinda. (732)

Veiðar smábáta

Stefán Benediktsson:

Herra forseti. Ég tala að vísu ekki af sömu þekkingu um þessi mál og margir aðrir sem hér koma í stól, en þó veit ég að sé litið yfir aflatölur s.l. ára hefur afli handfæra- og línubáta aldrei farið yfir 15% af heildarafla sem veiddur hefur verið. Sama er hvernig aflinn sveiflaðist. Hlutfall veiða á þessi veiðarfæri var alltaf það sama. Það þýðir að þessum veiðum þarf alls ekki að stjórna.

Hér erum við eingöngu að upplifa það gamla dæmi að þm. búa sér til vandamál til að leysa. Lögin búa til vandamál handa stjórnmálamönnum til að leysa. Síðan geta menn rifist um hvort eigi að heimila svo og svo mörgum eða svo og svo fáum að veiða svo og svo marga fiska. Það er verið að ræða um þann hluta heildaraflans sem breytist ekki og litlu sem engu máli skiptir því að mestur hluti aflans er veiddur á önnur veiðarfæri.

Ég tek hjartanlega undir orð hv. síðasta ræðumanns. Mér finnst að þetta mál, eins og kannske mörg fleiri, sé vel þess virði að menn láti reyna á það fyrir dómstólum hvort stjórnmálamenn raunverulega hafa rétt til að leika sér með hagsmuni manna.