26.11.1985
Sameinað þing: 21. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 910 í B-deild Alþingistíðinda. (735)

Veiðar smábáta

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Jörundur hundadagakonungur lýsti því á sinni tíð að hann væri hæstráðandi til sjós og lands. (Gripið fram í: Afturkallaði hann það nokkuð?) Nei. samkvæmt kvótalögum er svo komið að það er hæstv. sjútvrh. sem er hæstráðandi til sjós.

Hér áður fyrr, þrátt fyrir lög og mannasetningar, var það almættið og skaparinn allra góðra hluta sem réði gæftum og fiskigengd. Spurningin er, út af ummælum hv. 5. þm. Vestf., sem telur veiðibann á trillukarla brot á stjórnarskránni og vill fara með málið fyrir Hæstarétt, gott ef ekki með ráðherrann fyrir landsdóm, hvort þetta sé ekki brot á guðs og manna lögum.

Forsendur fyrir kvótakerfi eru fiskifræðilegar forsendur, að fyrirbyggja of mikla sókn í nytjastofna þannig að hætta stafi af. Það eru engin fiskifræðileg rök fyrir því að leggja slíkar takmarkanir eða kvaðir á trillukarla. Af þeirri einföldu ástæðu að af þeim stafar fiskistofnum engin hætta. Hlutur þeirra í heildarafla réttlætir ekki slíka gjörninga. Skaparinn allra góðra hluta, sá sem stýrir veðri og vindum, þrátt fyrir mannasetningar, bindur þeim nægar takmarkanir um sókn. Það eru engin vandkvæði á því í raun og veru, ef vilji er fyrir hendi, að greina í sundur þá sem stunda þessa atvinnu sem aðalatvinnu og hina sem stunda þetta sem tómstundagaman. Svo ég ekki tali um þá sem stunda handfæraveiðar sér til heilsubótar - eða í megrunarskyni. Þess vegna eru engar forsendur fyrir því að setja mannalög um takmörkun á sókn trillukarla.

Það er eins og sagt hefur verið: Með því að gera það eru menn aðeins að búa sér til vandamál sem verða illskýranleg og óleysanleg. Þess vegna á að láta af því. Eg tek undir áskoranir sem hér hafa fram komið um að hæstv. ráðh., hæstráðandi til sjós, endurskoði hug sinn í þessu máli.