26.11.1985
Sameinað þing: 21. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 911 í B-deild Alþingistíðinda. (737)

Veiðar smábáta

Kolbrún Jónsdóttir:

Herra forseti. Ég kem hingað til að mótmæla þessari aðgerð gegn smábátaeigendum. Það er sérkennilegt að hæstv. ráðh. skuli koma hér í stól og gefa yfirlýsingu um hvernig þessu verði háttað á næsta ári. Ég hélt að einmitt ætti að fara að ræða frv. til l. um hvernig fiskveiðistjórnun skuli vera háttað á næsta ári. Þar sem ég hlustaði ekki sjálf á þessi ummæli hans, en margir hv. þm. vitnuðu í þessi orð, gat ég ekki orða bundist og hlaut að gera athugasemd við slíka yfirlýsingu.

Ég vil líka ítreka það, sem kom fram hjá Stefáni Benediktssyni, að þetta er mjög lítill hluti af þeim heildarafla sem við erum að veiða við Ísland. Það eru í kringum 9% af aflanum veidd á línu og í kringum 3% á handfæri. Ég tel að það sé alveg óhætt að gefa þessi veiðarfæri algerlega frjáls. Ég tel að afli sem veiðist á þessi veiðarfæri skipti engu í heildaraflanum. Lítum til ársins 1983. Þá mátti veiða 320 þús. tonn, en veiddust ekki nema 290 þús. tonn. Þá var allt frjálst. 1984 átti að veiða 220 þús. tonn, en fór upp í 270 eða 290 þús. Ég er ekki með þessar tölur hjá mér, en ég held að ég fari nálægt þeim. Við erum alltaf með ansi mikil skekkjumörk. Þetta, sem er aðeins um 12% af heildaraflanum, getur ekki hleypt þessu upp nema sem nemur 1-2% af öllum veiðum.