26.11.1985
Sameinað þing: 21. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 911 í B-deild Alþingistíðinda. (738)

Veiðar smábáta

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Það er gleðilegt fyrir þá sem hafa mælt með kvótareglunni að andstæðingar hennar skuli nú ekki rífast um annað en trilluveiðar. Það er svo í þessu máli að menn hafa tekið mjög stórt upp í sig í ræðum og blaðagreinum og nota hin stóru orðin. Forustumenn stjórnmálaflokka hafa meira að segja sagt að með þessum reglum sé verið að rústa lífsafkomu trillukarla í landinu og þeir séu beittir gífurlegu óréttlæti, eins og heyrðist frá einum spekingnum áðan, og óskaplega illa með þá farið. Hvernig hefur verið farið með þá? Þeim var áætlaður kvóti upp á 11 þús. tonn, en þeir eru búnir að fiska 24 þús. tonn. Svo djöfullega er farið með þetta fólk. Ég er viss um að menn sem stunda aðrar veiðar hefðu verið ánægðir með að hækka kvóta sinn um 140% . Menn eru bara að reyna að nudda sér utan í væntanleg atkvæði úr trillukarlahópnum og annað ekki.

Og þegar menn fara að tala um varðskip og þorskastríð, nú sé varðskipaflotinn hafður til þess að leita eftir trillupungum inni á Hvalfirði! Svona lagaður málflutningur kemur hlutunum hreint ekkert við og er ósköp væminn og ekki sæmandi svo góðum manni sem hafði hann uppi áðan. Af hverju þurftu varðskipsmenn að hafa afskipti af þessum manni? Ósköp einfaldlega vegna þess að hann hafði brotið þær reglur sem settar höfðu verið. Erum við að hvetja til lögbrota hér á hinu háa Alþingi? Hversu mikið sem menn langar mega þeir ekki gera það.

Það finnst fleirum en þeim sem veiða á trillum að þeir búi við takmarkanir. Allir sjómenn á Íslandi hafa búið við takmarkanir og þurfa að sætta sig við það og þeir gera það. En þessi frekjuhundahópur sættir sig aldrei við nokkurn skapaðan hlut. (ÓÞÞ: Hvaða hundar eru það?) Ég á alls ekki við hv. þm. Ólaf Þórðarson. (Gripið fram í: Á ekki að senda þá í hreinsun?) Ég var ekki á þeim fundi sem hv. þm. vitnar til.

En ég vil að marggefnu tilefni mælast til þess að menn geri þessa hluti ekki að aðalatriðum. Þetta er tiltölulega lítið mál og menn eiga ekki að gera þetta að aðalatriði. Aðalatriðin sjálf eru nægilega erfið fyrir