26.11.1985
Sameinað þing: 21. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 912 í B-deild Alþingistíðinda. (740)

Veiðar smábáta

Árni Johnsen:

Herra forseti. Það kom fram í ræðu hæstv. sjútvrh. að þarna væri miðað við að svo fremi að tillögur næðu fram að ganga um frv. um stjórn fiskveiða á næsta ári hefjist línuveiðar eftir áramót. Nú er stöðvun frá 15. nóvember. Það var takmörkuð veiðisókn vegna veðurs fyrir þann tíma. Við vitum ekkert hvernig veðrið verður eftir áramót. Það er einmitt þetta óvissuástand sem stöðugt reynir á hjá smábátaflotanum og við erum að tala um og er kjarni málsins sem blasir við.

Það er að mínu mati stórhættulegt að smábátum sé ætlað að stunda veiðar eftir dagatali, burtséð frá veðri og veiðihorfum. Þeir menn verða að fá svigrúm til að gá til veðurs. Annað er stórhættulegt og verður að koma í veg fyrir að slík þróun geti átt sér stað.

Það má benda á að ýmsar fisktegundir eru utan kvóta í almennu reglunni, en hjá smábátum er allt í einum potti. Þannig mætti lengi telja upp mörg atriði þar sem er misræmi milli smábátanna annars vegar og hinna bátaflokkanna sem hæstv. sjútvrh. vék einmitt að. Hann talaði um að það ætti að vera jafnræði milli báta og bátaflokka og það er rétt, en það er ekki milli smábátanna. Það má nefna að netabátar, netatrillur, voru með allt að 400 tonna afla meðan aðrar kannske eru með 10-20 tonn. Þetta gengur ekki og er misræmi sem skapar þetta ástand.

Hitt er annað að sjútvrh. hefur stjórnað lipurlega að mörgu leyti, hvað svo sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson sagði, og það sýnir aflamarkið í þessu, en nú erum við að ræða vanda sem blasir við, sem er staðreynd og er stöðvun hjá fólki á erfiðum árstíma. Það er með tilliti til þess sem ég tel að eigi að taka á þessu máli og sveigja aðeins til.

Þarna er um að ræða menn sem stunda sjálfstæðan atvinnurekstur með mikilli áhættu. Þúsundir landsmanna hafa afkomu sína af smábátaútgerð. Þarna er líka einn þáttur sem hefur ekki verið ræddur. Grunnskóli sjómennskunnar í landinu er smábátaútvegurinn um allt land, að maður tali nú ekki um að að mörgu leyti eru trillumiðin „heiðmörk“ þeirra plássa sem eru víða um landið og menn vilja nota þau og hafa aðgang að.

En ég vil undirstrika og árétta að þarna sé reynt að sveigja til, endurskoða það sem hefur verið ákveðið og stefnt að. Ég veit að hæstv. ráðh. er tilbúinn að skoða það af velvild og takast á við þann vanda sem við blasir.