26.11.1985
Neðri deild: 20. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 915 í B-deild Alþingistíðinda. (745)

134. mál, álbræðsla við Straumsvík

Gunnar G. Schram:

Herra forseti. Hér er á dagskrá frv. til l. um lagagildi viðaukasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og Swiss Aluminium um álbræðslu við Straumsvík. Hér er um mikið mál að ræða og er verið að hnýta endahnútinn í því máli með lagasetningu þess frv. sem hér er á dagskrá. Um er að ræða síðasta þátt málsins, þ.e. 4. viðaukasamning við aðalsamning milli Íslands og Swiss Aluminium, sem fjallar um framleiðslugjald og skattamál.

Það er rétt að rifja upp að þegar núv. ríkisstj. tók við sumarið 1983 skipaði hún samninganefnd um stóriðju, síðari hluta júnímánaðar það ár, og var verkefni hennar að fjalla um samninga við Alusuisse, fyrst og fremst vegna deilna sem staðið höfðu um framleiðslugjaldið, skattlagningu fyrirtækisins ÍSALs, og önnur tengd atriði. Mikil deila hafði staðið árin áður sem hafði valdið því að málinu hafði verið skotið til alþjóðlegs dómstóls. Sviguryrði gengu milli aðila og málið var raunar komið í hina verstu og mestu sjálfheldu. Niðurstaðan af starfi hinnar nýju samninganefndar um stóriðju, sem skipuð var í upphafi starfstímabils núv. ríkisstj., var að í september sama ár, þann 23. dag septembermánaðar 1983, var gerður bráðabirgðasamningur um leiðir til lausnar eins og það hét, „á yfirstandandi deilu milli ríkisstjórnar Íslands og Swiss Aluminium Ltd. um ráðstafanir (að hluta tímabundnar) varðandi starfsgrundvöll og framtíðarþróun álbræðslunnar í Straumsvík“.

Í þessu bráðabirgðasamkomulagi var orkuverðið, sem ÍSAL greiddi til Landsvirkjunar og íslenska ríkisins, hækkað verulega. Í öðru lagi var samið um á hvern hátt skyldi staðið að frekari samningaumleitunum um þau atriði sem á milli bar. Hér er nú á dagskrá í dag í deildinni síðasta ágreiningsefnið, þ.e. skattlagning og skattamál. Í bráðabirgðasamkomulaginu frá því í september 1983 var um það samið að fjalla skyldi síðar um ákvæði aðalsamningsins. - Ég les orðrétt: „ákvæði aðalsamningsins varðandi ákvörðun á framleiðslugjaldi ÍSALs í því skyni að gera þau skýrari og betur aðlögunarhæf að verðbólgukenndu efnahagsástandi í heiminum og til að stuðla að því að komast megi hjá deilum í framtíðinni er spillt geti góðri sambúð milli aðilanna.“

Það er niðurstaða samningaviðræðnanna um þetta atriði sem hér liggur fyrir.

Í hinum almennu endurskoðunarviðræðum við Alusuisse og fulltrúa ÍSALs voru það tvö atriði sem hæst bar. Í fyrsta lagi að ná fram verulegri hækkun orkuverðsins og í öðru lagi að setja niður deilur liðins tíma milli málsaðila. Þegar viðræður hófust sumarið 1983 við fulltrúa Alusuisse var orkuverðið til álversins tæplega 6,5 mill.

Með bráðabirgðasamkomulaginu sem náðist þann 23. september, eftir aðeins þriggja mánaða viðræður, fékkst þetta verð hækkað um tæplega 50% eða í 9,5 mill, en sú verðhækkun jafngilti um 140 millj. kr. tekjuauka fyrir Landsvirkjun á einu ári. Af hálfu íslenskra stjórnvalda var þessi orkuverðshækkn þó ekki talin fullnægjandi þrátt fyrir að hér hefði náðst fram svipað orkuverð og álver greiða í Noregi sem er eitt elsta samkeppnisland okkar á þessu sviði. Því var haldið áfram viðræðum og samningum. Eins og menn vita, og hér var til umræðu í þessari deild fyrir um það bil ári, náðist á öðru stigi þessara samningaviðræðna samkomulag um nýtt og miklum mun hærra orkuverð, þ.e. verð sem er á bilinu 12,5 mill til 18,5 mill, meðalverð 15 mill. Hér er bæði um lágmarksverð og hámarksverð að ræða sem er að meiri hluta til tengt álverði í heiminum. Þegar verðið á áli er lágt, eins og nú standa sakir, er orkuverðið nálægt neðri mörkunum, en fer síðan hækkandi með hækkuðu álverði.

Það verð sem álverið í Straumsvík hefur greitt samkvæmt þessum nýja samningi er lágmarksverðið, um 12,5 mill, en engu að síður, og á það er rétt að leggja áherslu, er þar um að ræða nær 100% hækkun frá því verði sem í gildi var áður. Ef litið er á allt árið 1984 hefði nýi samningurinn gefið orkuverð að upphæð 13,8 mill. Af þessu sést að það lágmarksverð, sem samið var um af hálfu ríkisstj. í fyrra, felur í sér a.m.k. tvöföldun orkuverðsins frá því sem verið hafði. Jafnframt getur orkuverðið allt að því þrefaldast, ef álverð fer hækkandi í heiminum eins og spár standa reyndar til, en eins og menn vita hefur álverðið verið í lágmarki. Raunar er ekki gerlegt að spá hvenær, í hvaða mánuði eða á hvaða misseri, á því verður breyting, enda skal ekki gerð tilraun til þess hér.

Hér var vitanlega um allmikil tíðindi að ræða og þessi 3. viðauki við samninginn, sem um orkuverðshækkunina fjallaði, var lögfestur hér á Alþingi á síðasta ári eins og ég vék að og alkunna er.

Það fer vitanlega ekki milli mála að það var meginatriðið í endurskoðun álsamningsins að ná fram verulegri hækkun á orkuverðinu, helmings hækkun að lágmarki til, sem getur orðið með hækkandi álverði allt að þreföldun. Að því hafði verið unnið af fyrrv. ríkisstj. og fyrrv. iðnrh., hv. 5. þm. Austurl. Hjörleifi Guttormssyni, ötullega og ósleitilega í allt að fimm ár að reyna að ná fram slíkri hækkun á orkuverðinu. Það er ekki að efa að menn lögðu sig í líma við þá vinnu, en því miður tókst það ekki á öllum þeim tíma. Það var enn sama verðið þegar af þeim tilraunum var látið 1983 og í upphafi þegar þær tilraunir hófust. En nú brá til betri vegar eins og ég hef þegar lýst.

Þar sem hér er um annað meginatriðið að ræða, þ.e. hækkun orkuverðsins, (hitt var að setja niður deilur) virðist kannske ekki úr vegi á þessum stað og þessari stundu að rifja upp í örstuttu máli hver hagurinn var af hinum nýja samningi fyrir íslenskan þjóðarbúskap, fyrir Landsvirkjun, íslenska ríkið og raunar landsmenn alla.

Þessi nýi samningur felur í sér að reiknað er með að viðbótartekjur Landsvirkjunar vegna nýja samningsins verði á næstu fimm árum, til 1989 frá 1984, þegar samningurinn var gerður, 2 milljarðar 750 millj. kr. Þetta kom fram í frv. því til staðfestingar á þessum viðaukasamningi sem lagt var fyrir Alþingi á síðasta ári. Það eru um það bil 550 millj. kr. á ári. Hér er m.ö.o. um þann aukalega hagnað að ræða sem hinn nýi samningur getur fært íslensku þjóðinni á þessum árum fram að 1989 og líklegt er að hann geri.

Ef þetta nýja samkomulag, sem staðfest var í lok síðasta árs, hefði verið í gildi 1979-1984 hefði orkuverðið verið á bilinu 12,5 mill til 16,5 mill. Það er einfalt að reikna. Viðbótartekjur Landsvirkjunar frá ÍSAL á þessum sex árum hefðu numið 55 millj. dollara eða um 3 milljörðum 200 millj. kr. með vöxtum eða u.þ.b. 530 millj. kr. á ári. Þetta er raunverulega sú fjárhæð sem ekki rann til íslenska þjóðarbúsins en hefði getað komið í þess hlut ef sambærilegur samningur hefði náðst árið 1979 og náðist fyrir forustu og atbeina núv. ríkisstj. 1984. Þetta er mikið fé sem hefði verið unnt að nota til að lækka raforkuverðið í landinu til hins almenna neytanda eða greiða niður hinar miklu fjárfestingarskuldir Landsvirkjunar sem stefnir að sama markmiði.

Þegar bent er á hvaða tekjur samningurinn hefði sannanlega gefið aukalega frá 1979 er þó ekki verið að kasta neinni rýrð á þá sem með samningamálin við Alusuisse fóru á þessu árabili. Eins og ég sagði áðan lögðu þeir sig tvímælalaust alla fram en höfðu ekki árangur sem erfiði. Í sjálfu sér sýnir það ekki annað en það hve erfitt er að ná hagstæðum samningum við erlent fjölþjóðafyrirtæki. Þar er kálið ekki sopið þó í ausuna sé komið. En eins og ég hef rakið tókst núv. ríkisstj. það og þessi áfangi var staðfestur hér á síðasta ári.

Nú liggur hins vegar fyrir Alþingi lokaþáttur þessa máls. Hinn meginþátturinn hefur verið farsællega til lykta leiddur með hinni svokölluðu dómssátt sem gerð var á síðasta ári og ég vík örlítið frekar að á eftir. En það eru skattamálin sem hér eru nú á dagskrá og um þau fjallar það frv. sem hér liggur fyrir.

Eins og fram kom í orðalagi bráðabirgðasamkomulagsins og eins og alkunna er hafa staðið illvígar deilur vegna framleiðslugjaldsins og reyndar ekki að ósekju. Það er alveg ljóst að Alusuisse fór þar ekki að réttum ákvæðum og varð brotlegt á einn og annan hátt. Um það er ekki að efast eins og ítarlega hefur fram komið bæði innan og utan þings. Þess vegna var brýn nauðsyn á því að settar yrðu skýrar reglur sem tækju af allan vafa í þessum efnum og kæmu í veg fyrir að slíkar deilur gætu haldið áfram á komandi árum. Það er meginmarkmið þessa frv., þessa nýja viðaukasamnings sem hér liggur nú fyrir.

Þegar litið er á efni þeirra samningsákvæða sem hér eru í frumvarpsformi er í meginatriðum þar um þrjú atriði að ræða. Það fyrsta er það að í stað þess að deilur stóðu sífellt milli aðila um heimsmarkaðsverð á áli sem grundvöll skattlagningar á fyrirtækið ÍSAL er nú í hinum nýja viðaukasamningi tekin upp ný skilgreining á heimsmarkaðsverði á áli þannig að um það þurfi ekki að standa deila milli aðila í framtíðinni. Hér er þetta nýja heimsmarkaðsverð byggt á sams konar formúlu, ef svo má kalla, og nú gildir varðandi orkuverðið skv. hinum breytta rafmagnssamningi frá liðnu ári. Þar verður málum svo háttað að allt ál, sem ÍSAL selur til Alusuisse, skal vera verðlagt til skatts skv. þessari nýju formúlu. Það veitir tvímælalaust mikið öryggi þar sem þessi forskrift styðst við markaðsverð á áli, sannreynanlegt markaðsverð bæði austanhafs og vestan, í frjálsri sölu og einnig við kaup frá framleiðendum. Þessi forskrift samanstendur af fjórum mismunandi álverðum, helstu markaðsálverðum í heiminum. Með því að taka upp slíka fasta viðmiðun er því gerð tilraun til að útiloka deilur um heimsmarkaðsverð á áli sem skattlagningargrunn.

Í öðru lagi fjallar þetta samkomulag um súrálið, en þar er um að ræða eitt megindeiluatriðið. Þar komum víð að „hækkun í hafi“ og þarf ekki að fara frekari orðum um það. Þær deilur, sem um það efni stóðu, eru alkunna, þ.e. vantreyst var upplýsingum Alusuisse um það verð sem Alusuisse seldi ÍSAL súrálið á erlendis frá. Þar stóðu fullyrðingar gegn fullyrðingu og það var eitt meginefni dómsmálsins sem ég gat um hér áðan. Til að koma í veg fyrir slíkar deilur og til að tryggja að ekki geti eða þurfi til ágreinings um það að koma í framtíðinni og jafnframt til að tryggja réttar upplýsingar frá söluaðila verður nú kostnaðarverð ÍSALs á súráli metið til skatts eftir ákveðnu vöruskiptahlutfalli milli súráls og áls. Álið verður þá reiknað á því heimsmarkaðsverði, sem ég vék að, eins og það er á hverjum tíma og er fastsett, og, súrálsverðið einfaldlega ákveðið tiltekið hlutfall af heimsmarkaðsverði á áli. Það hlutfall er ákveðið í samningnum, sem hér liggur fyrir, sem 8:1. Verð hverrar einingar á súráli verður 12.5% af sömu einingu af áli á heimsmarkaðsverði. Þessi fasta ákvörðun verðs súráls á þar af leiðandi að geta útilokað deilur og undanbrögð í þessu efni á komandi árum.

Í þriðja lagi verður kostnaðarverð ÍSALs á rafskautum ákveðið til skatts skv. samningsbundnu verði milli Alusuisse og ÍSALs á viðkomandi ári með þeim fyrirvara að það verð sé ekki hærra en meðalverð í sölum Alusuisse af rafskautum til þriðja aðila á sama ári. Fram til þessa hefur hvað rafskautin varðar verið miðað við framleiðslukostnaðarverð. Hér er tekin upp ný viðmiðun, þ.e. verðið sem gildir í viðskiptum milli óháðra aðila, en það er meginregla í öllum samningnum að hér er miðað við viðskipti milli óháðra aðila. Nú verður miðað við viðskipti milli óháðra aðila, þ.e. það verð sem Alusuisse selur á til þriðja aðila.

Þetta eru meginreglurnar sem er ætlað að tryggja það - eftir er að sjá hvernig framkvæmdin reynist - að ekki þurfi til slíkra deilna að koma sem við höfum fyrir okkur í fortíðinni.

Þá má nefna að samið er um nýjar reglur varðandi fyrningar á fastafjármunum ÍSALs og loks er ákvæði um lágmarksskatt til ÍSALs en jafnframt um nýtt skattakerfi, þ.e. horfið er frá tonnaskattinum en tekinn upp skattur á hagnað.

Ég sé ekki ástæðu til að orðlengja hér mjög um efnisatriði þessa frv. Það liggur hér fyrir. En ég vil víkja lítillega að nokkrum þeim atriðum sem komu fram í máli hv. 5. þm. Austurl. hér í deildinni í gær. Þar var málið eftir mætti afflutt og út úr því snúið á ýmsan veg. Þó svo að sá hafi e.t.v. ekki verið ásetningur hv. þm. er engu að síður óhjákvæmilegt að fara nokkrum orðum um málflutning hans og gera við hann athugasemdir eins og þar var í stakk búið.

Það er kannske rétt að byrja á því að nefna rafskautin sem ég vék hér lauslega að. Þar var því haldið fram að réttur til eftirlits með aðföngum væri brott felldur og ákvæði um bestu kjör á aðföngum felld niður. Hér er það að segja að upp er tekin ný aðferð við að meta þessi aðföng til skatts, sem eru fyrir utan súrálið meginaðföng álbræðslunnar, þ.e. rafskautin. Það er alveg rétt að verðlagning rafskauta er vandasamt mál. Viðskipti með rafskaut til álframleiðslu voru til skamms tíma mjög takmörkuð.

Það er einnig vandasamt að meta framleiðslukostnað á rafskautum en sú aðferð hefur verið notuð hingað til. Ef við lítum á alþjóðlegar réttarreglur um mat á verðlagningu aðfanga eða afurða á milli skyldra aðila þá eru þær í stuttu máli þannig að ef finna má verð í frjálsum sölum milli óskyldra aðila í svipaðri aðstöðu ber að leggja slíkt verð til grundvallar. Ekki er gerð athugasemd við verð sem er innan algengra efri og neðri marka í slíkum viðskiptum.

Í öðru lagi, ef sambærilegar óháðar tölur eru ekki tiltækar, og aðeins í því tilviki, er gripið til þeirrar nálgunar að reikna út framleiðslukostnað og bæta við eðlilegum hagnaði. Það er síðari leiðin sem hér hefur gilt.

Viðskipti með rafskaut voru á árunum 1975-1980 lítil eða engin og var verðlagning rafskauta í skattarannsókn Coopers & Lybrand á því tímabili grundvölluð á athugun á framleiðslukostnaði rafskauta í rafskautaverksmiðju Alusuisse í Hollandi. Á þessu hefur orðið breyting. Frá árinu 1980 hafa viðskipti með rafskaut aukist svo að nú er svo komið að allmargir aðilar, meðal þeirra álfyrirtækin norsku og stærri bandarísku álfyrirtækin, kaupa rafskaut af Alusuisse vegna álbræðslna sinna í Evrópu.

Coopers & Lybrand hafa vegna endurskoðunar á ársreikningum ÍSALs 1981, 1982, 1983 og 1984 í auknum mæli stuðst við verðlagningu í þessum sölum vegna viðmiðunar til skatts. Eftir athugun Coopers & Lybrand á gildandi viðskiptasamningum um sölu á rafskautum Alusuisse á næstu fimm árum lögðu endurskoðendurnir til að þessi viðmiðun yrði tekin upp. Studdust þeir í því efni við leiðbeiningarreglur OECD um „transfer pricing“ svokallað, þar sem sú regla er orðuð að aðeins beri að miða við framleiðslukostnað ef upplýsingar um sambærilegar óháðar sölur eru ekki tiltækar, en slíkar upplýsingar fyrirfinnast nú.

Hér hefur því verið farið inn á þá braut sem á að gefa betri raun að ráði endurskoðunarfirmans Coopers 8c Lybrand þar sem nú tíðkast viðskipti við þriðja aðila. Þeir samningar eru ekkert leyndarmál, þeir eru í vörslu Coopers & Lybrand sem gerðir hafa verið og hafa verið grandskoðaðir.

Það þýðir ekki að bera því við, eins og gert var hér í deildinni í gær, að Alusuisse loki sínum bókum í þessu efni. Það er ekki rétt vegna þess að hér er samið við þriðja aðila. Þeir samningar og þau verð liggja fyrir og eru á lausu.

Þar að auki er rétt að undirstrika það að ríkisstj. getur vitanlega endurskoðað verðlagninguna á rafskautum, það söluverð sem ákveðið er, skv. þeim almennu endurskoðunarákvæðum sem er að finna í þessum samningi í lið 29.05 en þar er fjallað um árlega endurskoðun þar sem ríkisstjórn Íslands skipar „alþjóðafyrirtæki óháðra löggiltra endurskoðenda til að yfirfara og sannprófa framleiðslugjaldsskýrsluna og slíka reikninga og ársreikninga ÍSALs fyrir hvert ár.“ Þessari endurskoðunarheimild er því jafnan og ætíð hægt að beita komi upp einhver vafi að verðið á rafskautunum frá Alusuisse til ÍSALs sé óeðlilega hátt. Allar vangaveltur um að hér sé ekki nægilega vel um hnútana búið eru því á sandi byggðar, en þær heyrðust hér í gær.

Það má einnig nefna að hér var gagnrýnt að í þessu samkomulagi væri um breytt ákvæði um varasjóð að ræða. Það er rangt. Í þessu samkomulagi er engin breyting gerð á varasjóðsákvæðum fyrri samnings nema sú ein að nú er varasjóðurinn verðtryggður. Og á það má benda að vitanlega greiðist af honum skattur ef og þegar hann er leystur upp.

Því var einnig haldið hér fram af hv. 5. þm. Austurl. í umræðunum í gær - og reyndar er það ekki í fyrsta skipti sem það heyrist - að Alusuisse hefði verið bjargað á flóttanum af íslensku ríkisstj. Því hefði verið forðað frá dómi, og þá var náttúrlega ekki vafi á því að mati ræðumanns að Alusuisse hefði verið sakfellt í þeim dómi. (Gripið fram í: Ekki að mati þingmannsins?) Ég hafði ekki orð um það, ég var að tala um hv. 5. þm. Austurl. (Gripið fram í: Ég var að spyrja þig að því.) Ég er ekki forspár.

Það er undarlegt að sjá þessa afturgöngu enn hér á ferðinni í þingsölum. Svo oft hefur verið á það bent og fram tekið að sú dómsátt, sem gerð var á síðasta ári, m.a. gegn greiðslu 3 millj. dollara af hálfu Alusuisse, var til komin fyrst og fremst skv. tillögu og að ráði Charles Liptons, hins bandaríska lögfræðings sem fyrrv. iðnrh. réði sem sérstakan ráðunaut í álmálinu, málsókninni gegn Alusuisse, og var aðallögfræðingur í gerðardómsmálinu sem þá var alllöngu áður hafið. Þessi meginráðunautur fyrrv. iðnrh. í álmálinu gerði það að eindreginni tillögu sinni í bréfi til fyrrv. iðnrh. Sverris Hermannssonar að gerð yrði dómsátt eins og málið hafði fram gengið. Þar að auki bárust einnig tillögur í bréfi frá endurskoðunarfirmanu Coopers & Lybrand þar sem þeir lögðu einnig eindregið til að dómsátt yrði gerð í málinu. Bæði þessi bréf - (Gripið fram í: Hvenær var það dagsett?) Ég hef ekki þessi bréf hér fyrir framan mig á ræðupúltinu. Bæði þessi bréf voru kynnt hér í deildinni á síðasta ári í umræðunum um síðasta viðbótarsamninginn. Það ætti því ekki að þurfa að endurtaka það en ég neyðist til þess í ljósi þeirra ummæla sem féllu hér í gær af hálfu hv. 5. þm. Austurl.

Því var einnig haldið fram að ákvæðin um bestu kjör á aðföngum væru felld niður. Það var ákvæði sem var að finna um bestukjarameðferð í aðstoðarsamningnum og það var einmitt það ákvæði sem umdeildast var í gerðardómsmálinu. Það er nú ekki lengur í texta samningsins en hins vegar breytir það því ekki að meginregluna er þar að finna, þ.e. um viðskipti milli óháðra aðila. Á því hefur engin breyting orðið og það er meginatriði og kjarni málsins.

Bestukjaraákvæðið var eitt megintilefni gerðardómsmálsins. Það hefur einnig orðið tilefni dómsmáls í Ástralíu, vegna þess að mjög umdeilt er hvernig því ákvæði skuli beita. Segja má að kjarni þess felist í ákvæðunum um viðskipti óháðra aðila sem áfram er grundvallarreglan í öllum viðskiptum okkar við Alusuisse. Hér er um það að ræða að frá öndverðu hefur verið byggt á almennri viðmiðun skv. meginreglunni um þessi viðskipti, eða svokölluðum „arm's length dealings“, og hún er áfram meginreglan. Það þýðir að öll aðföng og önnur viðskipti verða að eiga sér stað eins og um viðskipti óskyldra eða óháðra aðila sé að ræða. Það út af fyrir sig er hér nægileg trygging eftir að unnt hefur verið að sannreyna á hvaða grundvelli ber að beita þeirri reglu, en það er einmitt gert með þeim föstu viðmiðunum sem upp eru teknar í samkomulaginu, bæði varðandi heimsmarkaðsverð á áli og einnig að því er varðar súrálsverðið. Hér er því engu tapað þótt þm., sem ég nefndi, hafi viljað láta svo líta út. Reglan um viðskipti óháðra aðila er sú regla sem hér skiptir máli en ekki hin umdeilda bestukjararegla sem reyndar aldrei hafði á reynt í þessu efni.

Jafnframt því sem hv. þm. gagnrýndi að hinar föstu viðmiðanir skyldu hafa verið teknar upp á heimsmarkaðsverði á áli og á súrálinu gagnrýndi hann að að því er önnur atriði snerti væri ekki um fasta viðmiðun að ræða og var þar í rauninni kominn í algera mótsögn við sjálfan sig. M.a. fannst honum það aðfinnsluvert að lánsfé væri utan við viðmiðunarverð. Þetta er rangt vegna þess að ákveðnar reglur er að finna í samkomulaginu um lánsfé. Þær er að finna í gr. 27.01. Í c-lið þeirrar greinar segir:

„Vaxtakjör gefi til kynna fyrsta flokks lánstraust og fjármögnunarkostnaður og skuldagreiðsluáætlanir af hálfu ÍSALs séu með eðlilegum hætti.“

Hér er beinlínis gerð krafa um að vaxtakjör gefi til kynna fyrsta flokks lánstraust. Ég veit því ekki hvaða viðmiðun menn vilja fremur hafa en þetta skýra orðalag um lánsféð sem er hér að finna í samningnum.

Einnig var því haldið fram að enga viðmiðun væri að finna um raforkuverðið. Það er ekkert fjallað um raforkuverðið í þessum viðaukasamningi. Hins vegar er vitanlega föst viðmiðun um raforkuverðið í þeim samningi sem þessi deild samþykkti hér í nóvember í fyrra, þ.e. sú forskrift byggð á fjórum heimsmarkaðsverðum áls sem ég vék að hér áðan. Það er því út í hött að halda öðru fram.

Þá var því haldið fram að ekki væri um nein viðurlög að ræða varðandi ÍSAL og Alusuisse vegna skattsvika af hálfu ÍSALs. Ég vil aðeins rifja það upp hér enn einu sinni - og reyndar las ég þá grein áðan - að ríkisstj. hefur rétt til þess að láta endurskoða reikninga ÍSALs árlega. Það er nú nýmæli að „það skal gert árlega“. Áður var ekki ákvæði um slíka árlega endurskoðun enda fórst það því miður fyrir hjá hv. fyrrv. iðnrh., 5. þm. Austurl., að láta endurskoða reikninga ÍSALs 1978 og 1979 með þeim afleiðingum sem menn þekkja hér í deildinni.

Það endurskoðunarákvæði, sem ég nefndi, er hér í fullu gildi. Ef í ljós kemur að um refsiverðan undandrátt er að ræða af hálfu ÍSALs að því er varðar skattamál er bein og greið leið skv. íslenskum lögum til að höfða refsimál gegn ÍSAL og fá forustumenn þess fyrirtækis dæmda fyrir skattsvik. Ef ekki er um refsivert athæfi að ræða er unnt að leggja málið fyrir gerðardóm ef mönnum sýnist svo, endurskoðunarákvæðið býður upp á það.

Það er ástæðulaust að teygja hér allt of lengi lopann. En því var einnig haldið fram af hv. þm. að í þessum viðaukasamningi fælist afsal á fullveldisrétti Íslendinga. Ég veit ekki hvert menn þurfa að teygja sig til að finna slíka lögskýringu bak við ákvæði þessa samnings. Ég hefði einmitt haldið að hann sýndi hið gagnstæða, að hér er sjálfstætt ríki beinlínis að beita fullveldisrétti sínum með því að semja við erlendan aðila. Fullvalda ríki hefur fullan rétt til þess, það er kjarni fullveldisréttarins að semja, hvort heldur er við erlend ríki eða erlendar lögpersónur, um mál á þann veg sem því ríki sýnist að best gagnist hag sínum. Það er einmitt það sem hér hefur gerst. Það er ekki hægt að benda á eitt einasta atriði í þessum samningi þar sem um er að ræða eitthvað sem nálgast mundi það að vera kallað afsal fullveldis eða sjálfræðis.

Hér má síðan undir lokin, herra forseti, víkja nokkrum orðum að hinum nýja skattstiga. Hér hefur verið samið um breytingu á skattakerfinu. Það má segja að vonbrigðum olli í þessum samningaviðræðum að ekki tókst að fá fram hækkun á hinu svonefnda grunngjaldi. Það skal fúslega játað. Grunngjaldið er eftir sem áður 20 dollarar á tonnið sem tekið er af óskiptu og rennur til ríkisins. Það er alveg rétt, sem fram kom í máli hv. 5. þm. Austurl. hér í gær, að þessir 20 dollarar hafa rýrnað í tímans rás og þess vegna hefði verið mjög æskilegt að hækka það gjald. Það náðist hins vegar ekki fram. Í því sambandi er þó ástæða til að benda á að 20 dollarar á tonn eru í sjálfu sér ekki óveruleg upphæð heldur verulegar tekjur.

Þessi skattur, sem raunverulega er veltiskattur þar sem hann er lagður á hvert framleitt tonn, jafngildir u.þ.b. 1,5% veltuskatts í meðalári og u.þ.b. 1,8% veltuskatts í slæmum árum álbræðslunnar. Þessu til samanburðar má nefna að veltuskattur á Járnblendifélagið er innan við 1%, þ.e. landsútsvarið 0,5% og fasteignaskattur ca. 0,45% af veltu. Hér er því um verulega mikið hærri veltuskatt á álbræðsluna að ræða en Járnblendifélagið. Algengur veltuskattur í grannríkjum okkar er um og innan við 1%, svo að menn hafi þær tölur til samanburðar.

Þar að auki er hér aðeins um fyrsta gjald að ræða, grunngjald. Þessu til viðbótar greiðist nú skattur af hagnaði álversins. Fallið er frá fyrri. skattstiga. Hér er um breyttan skattstiga að ræða, skattstiga sem á að gefa að öllu jöfnu heldur meiri skattatekjur íslenska ríkinu í aðra hönd en hið fyrra skattakerfi þó svo að meginatriði þessarar endurskoðunar hafi fyrst og fremst verið að fá fram skýrari og ljósari reglur til að forðast deilur um þessi mál í framtíðinni.

Hér er m.ö.o. horfið frá breytilegum tonnataxta miðað við álverð, þó með ákvæðum 35% lágmarksskatts og 55% hámarks af hagnaði og í staðinn tekin upp hrein hagnaðarviðmiðun til viðbótar við framleiðslugjaldið. Aðalgalli gamla tonnataxtans var sá að hann hækkaði ekki í beinu hlutfalli við hækkun álverðs heldur fór það hlutfall, þ.e. skatturinn, lækkandi niður í 60% af hækkun álverðs þegar það var orðið 70 sent á pund og þar fyrir ofan. Verðið er að vísu ekki nálægt þeirri upphæð í dag. Hann var því óhagstæður og því hefur nú verið samið um nýjan skattstiga. Lágmarksgjaldið er óbreytt. Skattstiginn byrjar nú í 35% af hagnaði en getur farið allt upp í 55% ef afkoma fyrirtækisins verður mjög góð á einhverju tilteknu ári. Í þessu sambandi er rétt að minna á að fyrirtækið hefur nú ekki heimild til að færa tap milli ára eins og önnur fyrirtæki hér á landi.

Ég sagði að sennilegt væri að hinn nýi skattstigi mundi í vissum tilvikum gefa heldur meiri skattatekjur en sá gamli. Það er rétt að geta þess að á síðustu síðu frv., síðu 36, er birt tafla. En inn í þá töflu hafa slæðst villur í þeim útreikningum og á það var réttilega bent af hv. 5. þm. Austurl. í gær. Sú tafla er í nokkrum atriðum röng. Þess vegna lét hæstv. iðnrh. dreifa leiðréttingu hér í deildinni í gær, þ.e. nýrri töflu um samanburð skattgreiðslna Íslenska álfélagsins hf. við mismunandi hagnað. Hún liggur hér á borðum deildarmanna.

Ef litið er á þá töflu - en þar er um að ræða samanburð á skattgreiðslunum miðað við 20% framlag í varasjóð við mismunandi mikinn hagnað - kemur í ljós að skattlagningin er hin sama, frá 2,5 til 7,5 millj. bandaríkjadala, eftir hinum eldri skala og hinum nýja. Þegar komið er hins vegar að 10 millj. dollara hagnaði álversins og síðan gefur hið nýja samkomulag heldur hærri skattgreiðslur. Ég ætla ekki að fjölyrða um það. Hér er sem sagt um leiðrétta töflu að ræða sem ég hygg að verði ekki vefengd, en væri kannske ekki úr vegi að fá ríkisendurskoðanda til að líta á og staðfesta að rétt sé reiknað.

Ég hef hér gert nokkur atriði þessa nýja samkomulags að umræðuefni og jafnframt vikið að nokkrum þeim atriðum sem hér bar á góma í gær. Það má kannske bæta því við að lokum að nú er ekki aðeins um að ræða heimild eða öllu heldur skyldu til árlegrar endurskoðunar á reikningum ÍSALs og öllum viðskiptum ÍSALs við Alusuisse heldur var sú breyting gerð á aðalsamningnum 4. nóv. 1984 að unnt er að endurskoða öll þessi ákvæði á fimm ára fresti. Þá er sem sagt unnt að óska endurskoðunar á öllum ákvæðum aðalsamnings og viðaukasamninga. Í því felst auðvitað verulegt öryggi ef reynslan leiðir í ljós að það er til hags fyrir Ísland og íslenska aðila sem hér eiga hlut að máli, Landsvirkjun og aðra, að breytingar verði gerðar á þessum samningsákvæðum. Þetta er þess vegna mikilvægt ákvæði en ekki síður það ákvæði, sem kom inn á síðasta ári, um hina árlegu óháðu endurskoðun á ársreikningum ÍSALs af hálfu ríkisstj. En hún var valkvæð fyrir þann tíma eins og ég vék hér að.

Það mætti ugglaust tala miklu lengra mál um þessi efni en ég skal hér láta staðar numið. Ég er ekki í nokkrum vafa um að hér er um framför að ræða frá því sem verið hefur. Hér er um æskilegar breytingar að ræða. Ef til vill er þó kjarni málsins sá að þær breytingar, sem hér hafa verið gerðar, horfa allar í átt til þess að útiloka deilur svipaðar þeim sem staðið hafa í fortíðinni og satt að segja hafa hvorugum aðila verið til mikillar ánægju eða mikils gagns.