26.11.1985
Neðri deild: 20. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 942 í B-deild Alþingistíðinda. (749)

134. mál, álbræðsla við Straumsvík

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég skil vel að forseti hafi áhuga á að geta lokið þessum þingfundi og ekki ætla ég að bregða fæti fyrir það, enda hafa engin tímamörk verið sett um þessa umræðu. Hér hafa hæstv. ráðherrar talað í þessu máli nú við 1. umr. langt mál, sem ég ekki lasta, og hér hefur hv. 2. þm. Reykn. flutt ítarlegt mál við umræðuna sem ég tel heldur ekki óeðlilegt vegna ábyrgðar hans í þessu máli sem samninganefndarmanns. Ég hef vissulega ástæðu til að bæta allmiklu við það sem fram kom hjá mér fyrr við þessa umræðu, en með tilliti til þess að ég á sæti í iðnn. þessarar hv. deildar mun ég leitast við að þjappa saman þeim atriðum helstum sem ég vildi koma að á þessu stigi málsins þannig að mál þetta komist til nefndar. Ég hef enga ástæðu til að standa í vegi fyrir því, en taldi nauðsynlegt fyrr við umræðuna að bera fram ýmsar fyrirspurnir og athugasemdir við málsmeðferð og framlagningu málsins og túlkun málsins eins og fram hefur komið. Ég treysti því að hv. iðnn. taki á þessu máli sem vera ber með vönduðum vinnubrögðum því að það eru sannarlega mörg atriði sem óljós eru á þessu stigi máls. eins og fram hefur komið bæði vegna þeirra fyrirspurna sem ég hef þegar lagt hér fram og eins þrátt fyrir þau svör sem fram hafa komið frá hæstv. ráðh. þar að lútandi.

Ég þakka hæstv. iðnrh. fyrir þau svör sem hann veitti við spurningum mínum þó að ég telji þau í ýmsum tilvikum engan veginn fullnægjandi eða skera úr um ágreiningsefni eða vafaatriði sem geta varðað matið á þessum samningi og einstök samningsákvæði.

Ég vil draga það fram hér í upphafi að þegar hefur komið fram að í þingskjali á bls. 36 kemur fram talnaleg villa, sem varðar mat á þessum samningi miðað við 35% ákvæðið um nettóskatt, og hæstv. iðnrh. hefur þegar beðist velvirðingar á því, beðist afsökunar á því að þetta mál skuli þannig fyrir lagt.

Ég nefndi í ræðu minni að þetta væri byggt á þeim tölum sem stjórnarandstaðan fékk sem trúnaðarmál í júlímánuði frá hæstv. fyrrv. iðnrh. og eru þær óbreyttar í þessari töflu, þannig að menn virðast ekki hafa haft fyrir því að reikna þetta dæmi út síðan, þó að auðvelt sé á grundvelli þeirra ákvæða og forsendna sem liggja til skattlagningar skv. þessu nýja samkomulagi.

Í öðru lagi hefur það komið fram að þær töflur, sem ég kom hér á framfæri við hv. þingdeild á miðvikudaginn var, að ég hygg, og yfirfarnar höfðu verið af Ríkisendurskoðun, hafa ekki verið vefengdar hér hvað útreikninga snertir. Hæstv. ráðh. talar um það með varfærnislegu orðafari, sem eðlilegt er, að um fræðileg tilvik sé að ræða í þessum útreikningum. Það gera menn eðlilega til að bera af sér blak, sem standa fyrir þeim ótvíræðu staðhæfingum í þskj., að skattar skv. þessu nýja kerfi, sem hér er hugmyndin að lögleiða, geti ekki lækkað frá því kerfi sem enn heldur gildi sínu og ekki hefur verið breytt. Það er reynt að draga fjöður yfir þessa staðhæfingu - og ég skil það ofurvel - og halda því fram að í þeim töflum, sem ég lagði hér fyrir, væri aðeins um fræðileg tilvik að ræða sem ólíkleg teljist miðað við rekstrarhorfur hjá fyrirtækinu og verð á áli, sem ég hygg að sé aðallega verið að tala um í þessu tilviki, og þar með hagnaðarvon ÍSALs í því tilliti.

Þetta er ekki fræðilegra en svo, eins og hver maður getur séð sem fer ofan í þessar töflur, að þarna er miðað við tilvik, bæði um hagnað og verðlag á áli, sem gengur inn í gildandi kerfi og þá kemur í ljós að í mörgum tilvikum - og þá er ég að tala um töflu 1 sem dreift var til hv. þm. - eru skattarnir skv. gildandi kerfi hærri. Þá eru hærri skattgreiðslur miðað við tiltekinn hagnað og tiltekið verð á áli. Þetta varðar ekki aðeins eitt hagnaðarbil, eina hagnaðartölu. Þetta er á öllu bilinu sem ég hef látið reikna miðað við hagnað frá 5 millj. bandaríkjadala og upp í 17,5 millj. bandaríkjadala hagnað. Þá reynast skattgreiðslur skv. gildandi kerfi hærri en það sem á að innleiða. Þetta gildir um verðbil á áli miðað við 5 millj. dollara hagnað, sem hefði nú þótt dálítið hjá ÍSAL miðað við afkomu síðustu ára, þá gildir þetta um álverðið frá 50 sentum á pund og upp í 200 sent, allan skalann. Eru þetta einhver fræðileg tilvik, hæstv. ráðh.? Eru þetta einhver fræðileg tilvik? Mér þætti fróðlegt að fá betri rökstuðning við slíkum staðhæfingum.

Eru það einhver fræðileg tilvik að hagnaður geti verið 7,5 millj. bandaríkjadalir hjá fyrirtækinu og álverðið nálægt 70 sent á pund, sem gefur 2,7 millj. bandaríkjadala í skatt í staðinn fyrir 2,1 millj. skv. gildandi kerfi? Ég man ekki betur hér í fyrra þegar við vorum að ræða um raforkuverðið og þá viðmiðun við álverð sem þar var innleidd en að álverðið á bilinu 70-80 sent á pund væri ekki ólíklegt tilvik í álverði. Það var svona verð sem menn voru að vænta að héldist a.m.k. og síðan færi það hækkandi upp í 100 sent á pund. Og þau tilvik, 100 sent á pund miðað við 10 millj. dollara hagnað, sýna einnig verulega hærri skatt skv. gildandi kerfi en skv. því sem á hér að lögleiða. 3,5 millj. bandaríkjadala í staðinn fyrir 2,9 millj. Eru þetta einhver fræðileg tilvik?

Hvers konar málflutningur er þetta? Þurfa menn að vera að rökstyðja þennan samning, sem hér á að lögleiða, með því sem ekki er hægt að kalla öðru nafni en falsanir eins og málið var hér fyrir lagt? Með þeim orðum, sem í grg. standa og útreikningum sem þar eru fram bornir, er ekki hægt að kalla þetta öðru nafni.

Síðan koma ábyrgðarmennirnir sem að baki standa. Auðvitað er það ekki hæstv. ráðh., þann skamma tíma sem hann hefur verið í embætti, sem hefur setið með þetta reiknandi á hnjánum. Hann hefur sko haft alveg nóga hjálparmenn, þar með talinn hv. 2. þm. Reykn., sem hefur verið í þessu starfi, sem metið hefur verið til launa á við þingmannsstarf, undanfarin ár. Hann hefur verið að fást við þessi efni og væntanlega verið að reikna - með ekki betri árangri en hér kemur fram.

Þetta eru svo alvarlegir hlutir að það þýðir ekki að reyna að fela þessi efnisatriði hér með því að vísa til fræðilegra tilvika. Ég vil biðja hv. 2. þm. Reykn. að koma hér í ræðustól á eftir og greina frá því hvar þessi rammi sé sem hann er að tala um að sé líklegur. Hvar eru þessi ólíklegu tilvik í verði á áli? Eru þau á bilinu 70-80 sent á pund? Er hann að gera ráð fyrir því að álverðið fari upp í 100-200 sent á pund á næstunni? Ég get vel skilið það á grundvelli þess raforkusamnings, sem hv. þm. stóð að í fyrra, að hann hafi slíka óskhyggju uppi. Ég vil ekki fullyrða að það geti ekki gerst tímabundið að álverð skjótist upp í 100 sent á pund. En ég hef ekki mikla trú á að það verði meðalverð næstu ára, hvað þá þaðan af meira. Ég hef ekki mikla trú á því, því miður, getum við sagt, miðað við þá hagsmuni sem hér er um að ræða og þá afleitu samninga sem gerðir hafa verið í voninni um að álverð margfaldaðist frá því sem nú gildir. En þetta eru alvarlegir hlutir sem hér koma fram og þeir standa óhaggaðir, þó að reynt sé að draga fjöður yfir.

Varðandi töflu 2, sem dregur fram tilvik sem ég tók fram í ræðu minni um daginn að ekki eru eins líkleg til samanburðar en þó möguleg - og þar get ég notað orðið fræðilega möguleg - að ÍSAL hagnýti sér ekki ákvæði um varasjóð skv. gildandi samningi, til þess hefur ÍSAL ekki séð ástæðu fram að þessu - það er nú ekki fræðilegra tilvik en svo - en hins vegar að þeir geri það skv. nýju samkomulagi, og þá kemur fram að mjög miklu munar á skatttekjum allt frá 5 millj. dollara hagnaðarbili og svo langt sem ég lét reikna, upp í 15 millj, bandaríkjadala, og vil ég ekki fullyrða um það hver þróunin er þar fyrir ofan, en hún er trúlega í sömu átt.

Þetta læt ég nægja í bili um þessi efni því að sjálfsagt er að þau verði athuguð í iðnn. og reynt að leggja þar mat á, þannig að menn fái það kvitt og klárt hvað er rétt í þessu efni, og ég er ekkert hræddur um þá niðurstöðu miðað við þær forsendur og útreikninga, sem ég lagði fram hér fyrr við þessa umræðu, og sem staðfestir hafa verið réttir af Ríkisendurskoðun.

Þá vil ég nefna hér sem þriðja atriði mat á þessum samningum og endurskoðunarákvæði þeirra. Bæði hæstv. ráðh. og hv. 2. þm. Reykn. telja að engu hafi verið breytt sem máli skipti í sambandi við endurskoðunarákvæði þessara samninga, og eru þá að tala um bæði samninginn sem gerður var í fyrra og þann samning sem hér liggur fyrir, því að endurskoðunarákvæði hefur í engu verið breytt þar á milli í sambandi við samninginn í fyrra. En hins vegar eru tekin inn ný ákvæði sem varða verðlagningu í tengslum við skatta á þeim þáttum sem tengjast þessum samningi, aðföngum til ÍSALs og seldum afurðum.

Ég vil spyrja þessa hv. þingbræður, hæstv. ráðh. og hv. 2. þm. Reykn.: Er það engin þrenging á endurskoðunarákvæðum að nú afsala íslensk stjórnvöld sér með öllu að endurskoða ársreikninga ÍSALs aftur í tímann hafi engar athugasemdir komið fram til 1. september árið eftir? (Gripið fram í.) Af hverju er hv. þm. að kalla hér fram í? Ræðustóllinn er opinn. Vill hann ekki skýra sitt mál hér á eftir? - Þá hefur Ísland afsalað sér rétti til þess að fara ofan í saumana á reikningum fyrri ára. Það er verið að útiloka tilvik eins og þau sem við þekkjum úr sögu síðustu ára þar sem íslensk stjórnvöld drógu fram upplýsingar með mikilli fyrirhöfn sem vörðuðu langt árabil aftur í tímann. Farið var ofan í saumana aftur til ársins 1975, og halda menn ekki að þær upplýsingar hafi styrkt samningsstöðu Íslands í sambandi við endurskoðun samninga sem staðið hafa yfir undanfarin ár?

Á hvaða bili liggur endurskoðunarréttur Íslands? Hvaða möguleika hafa menn þar? Jú, það eru fjórir mánuðir, frá 1. júní að telja líklega til 1. október varðandi þau atriði sem hér um ræðir í þessum samningi. Fjórir mánuðir og ekki meira. Ja, það má halda á spöðunum til þess að draga fram þætti sem snerta rekstur þessa fjölþjóðafyrirtækis, til þess að vera viss um að mönnum hafi tekist að fara þar ofan í saumana, á fjögurra mánaða bili frá því að ÍSAL skilar sínum skýrslum um framleiðslugjald og ársreikningar liggja fyrir, aðeins fjórir mánuðir. Síðan geta þeir verið rólegir því að hafi ekki komið fram athugasemdir eftir þann tíma, þá hefur Ísland engan rétt.

Hér er uppi mismunandi mat á ákvæðum þessa samnings frá 11. nóvember varðandi rafskaut og endurskoðunarákvæði um rafskaut. Ég hef vakið athygli á grein 27.04, þar sem fram kemur að verð á rafskautum skuli ákvarðað af Alusuisse og yfirfarið af endurskoðendum sem Alusuisse velur, yfirfarið og staðfest fyrir ríkisstjórnina. Ég mun í iðnn. fara ofan í það með lögfræðingum hvernig endurskoðunarákvæði skv. 29.04 í þessum samningi tengist þessu og aðrir þættir, sem snúa að endurskoðunarrétti, því að ég fékk ekki betur séð við yfirlestur á þessum samningi en að staða Íslands væri meira en tvísýn í sambandi við endurskoðun á rafskautaverði. En við skulum geyma okkur frekari umræðu um þau efni þar til iðnn. hefur farið vandlega ofan í saumana á þessu mikilsverða ákvæði sem aðstandendur samningsins túlka hér svo að ótvíræð séu, þá þannig að Ísland og gæsluaðilar af Íslands hálfu geti farið ofan í rafskautaverðið eins og hvern annan þátt, tekið það til endurskoðunar þrátt fyrir ákvæði 27.04 c- lið.

Ég vek athygli á því í tengslum við þessi efni jafnframt, að komið hafa fram nokkuð mismunandi framsetningar, svo að ekki sé meira sagt, mismunandi staðhæfingar, annars vegar hjá hæstv. iðnrh. og hins vegar hjá hv. 2. þm. Reykn. í sambandi við samninga um rafskaut, sem lagðir séu til grundvallar. Ég býst við að þeir mörgu hv. þdm. sem hlýða á mál okkar hafi tekið eftir að hæstv. ráðh. sagði að rafskautasamningarnir væru viðskiptaleyndarmál - hann sagði það hér f stólnum áðan - og því gæti hann ekkert sagt um hvaða verð það raunverulega er sem menn eru að tala um nema hann sagði almennt: Jú, það mun hafa lækkað verðið á rafskautum frá árinu 1981 að telja; það mun hafa farið lækkandi. En hvað sagði hv. þm. Gunnar G. Schram? Hann sagði að þetta væru opinber gögn, þessir samningar væru ekkert leyndarmál, þeir væru opinber plögg og lægju á lausu. Hefur hv. þm. Gunnar G. Schram vanrækt að upplýsa hæstv. iðnrh. um það og afhenda honum þessa samninga? Ég er aldeilis hissa á að hæstv. ráðherra skuli ekki betur fóðraður af því liði öllu sem hann hefur á jötu í sambandi við þetta mál. Við í iðnn. munum að sjálfsögðu taka fegins hendi við þeim samningum, sem hv. þm. Gunnar G. Schram lýsti sem galopnum opinberum plöggum sem liggi á lausu, og líta á þá. En þeir varða auðvitað liðinn tíma kannske meira en framtíðina en geta þó haft gildi fram í tímann ef um langtímasamning er að ræða. Og ég fagna því að hv. þm. mun leggja fram væntanlega í þingdeildinni líka þessi opinberu plögg, þessa samninga um rafskaut sem þannig liggja á lausu, því að ég geri ráð fyrir að hæstv. ráðherra hafi í rauninni ekki fengið upplýsingarnar frá þessum samningamanni sínum og því verið að lýsa þessa samninga viðskiptaleyndarmál.

Ég ætla ekki að ræða frekar um rafskaut. Ég ætla aðeins að koma að súrálinu og því sem fram kom um verðhlutfallið þar og upplýsingar sem hér voru uppi hafðar í sambandi við þetta hlutfall og verðlagningu á súráli. Ég tók svo eftir að hæstv. ráðherra teldi að súrálsverð á bilinu 140 dollarar á tonn og upp í svona 200 væri ekki fjarri lagi. (Gripið fram í.) Einmitt, á því verðbili, og í því sambandi vil ég greina frá því að að undanförnu hafa súrálssamningar verið boðnir út. Það er sérstakt fyrirtæki í Egyptalandi sem hefur leitað tilboða til lengri tíma í síuál og það liggur fyrir og hefur m.a. komið fram í Metal Bulletin en ég hef einnig séð það frá forstjóra Austrasuisse í Ástralíu að þessi egypski aðili hafi fengið mjög hagstæð súrálstilboð frá óháðum súrálsframleiðendum, á bilinu frá 129 bandaríkjadölum á tonn og upp í 146 dali á tonn, fob. En síðan er einnig greint frá því af Powell forstjóra Austrasuisse í fréttatilkynningu sem ég hef fengið í hendur frá honum, sem er dags. 17. okt. 1985, að kaupendurnir hafa leitað samninga um lækkun á þessu verði niður í um það bil 85 dollara á tonn, 85-90 dollara á tonn. Og hann segir, þessi ástralski forstjóri, að verðbilið í þessu tilviki sé frá 85 dollurum á tonn upp í a.m.k. 146 dollara á tonn, súrálið, í langtímasamningum skv. útboði sem stór verksmiðja í Egyptalandi, álbræðsla, er að leita tilboða í. Svo eru menn að hæla sér af samningi sem byggir á verðhlutfallinu 12,5% af álverði fyrir tonnið af súráli. Ég held að menn ættu að bíða með að hafa uppi hólið um þau efni þó að ég ætli heldur ekki að vera með neinn stóradóm í sambandi við það hlutfall án þess að kanna þessi mál frekar. En ég mun veita hv. iðnn. aðgang að þessum upplýsingum sem forstjóri Austrasuisse dregur fram í fréttatilkynningu 17. okt. s.l. Til hvers haldið þið? Til að réttlæta lága útflutningsverðið frá Ástralíu frá sínu fyrirtæki þar sem hann hefur verið að draga undan skatti. Þetta er svolítið vandmeðfarið spil að svindla á báðum endum. Og ef menn eru kappsfullir eins og forstjórar dótturfyrirtækja Alusuisse, hvort sem það er í Gove eða Straumsvík, getur þeim orðið fótaskortur af því að báðir vilja sýna fram á réttmætið hjá sér á sínum enda.

Þá vildi ég ræða svolítið um bestukjaraákvæðin sem báðir hv. talsmenn þessa samnings, hæstv. iðnrh. og hv. 2. þm. Reykn., vilja gera lítið úr að Ísland hefur samið af sér þó að fyrir liggi yfirlýsing hæstv. fyrrv. iðnrh. - sem toguð var upp úr honum í iðnn. Nd. í fyrra, fyrir réttu ári - um að brottfall þessa ákvæðis, sem hann var knúinn til á elleftu stundu að fella út úr aðstoðarsamningi um rekstur, hafi verið „veruleg veiking“ á ákvæðum varðandi skattamálin. Því er þarna um að ræða stórkostlega alvarlega forgjöf í þessu máli um það leyti sem pakkanum var skipt og framhald málsins sett í allt aðra stöðu af þeim sökum. - Mér þætti vænt um, virðulegi forseti, ef hv. þm. hefðu fyrir því, ef þeir ekki sitja í þingsal, hæstv. ráðherra og hv. 2. þm. Reykn., að þeir a.m.k. hlýði á mál mitt og trufli ekki ræðuhöld með orðræðum. (Forseti: Ég vil biðja hv. þm. sem sitja þarna í hliðarherbergi að hafa lágt svo að heyrist.) - Og ég vil draga það fram í þessu samhengi að það er einmitt bestukjaraákvæðið í aðstoðarsamningi um rekstur sem gerði stöðu Íslands sterka fyrir dómstóli, fyrir gerðardómsnefndinni í New York, gerði hana verulega sterka og gerði kleift þetta samningsákvæði að knýja Alusuisse til að leggja þar fram skjöl að lokum sem sýndu raunverulegt kostnaðarverð á aðföngunum til ÍSALs og staðfestu yfirverðið á aðföngum sem haldið var fram af íslenskum málafærslumönnum fyrir þessum gerðardómi. Svo leyfa menn sér að koma upp í þennan ræðustól og sá maður sem hældi sér af því eftir þennan gerðardóm í blaðaviðtölum að hafa verið helsti tengiliður iðnrn. við gerðardómshópinn íslenska, sem vann að þessu máli, kemur og segir sem svo: Þessi ákvæði skipta ekki nokkru máli í sambandi við skattlagningu. Það gerir sko ekki nokkurn skapaðan hlut til að þau voru niður felld.

Ég verð að segja að ég tel það mjög sérkennilegan málflutning af hálfu hv. 2. þm. Reykn. sem hann hefur hér uppi, að gera lítið úr stöðu Íslands fyrir þessum gerðardómi, gera lítið úr þeim útlistunum sem fram hafa komið frá forstjóra Austrasuisse í Ástralíu, túlkun sem hann auðvitað hefur uppi að höfðu samráði við móðurfyrirtækið um það að ekki hafi verið hægt að rökstyðja kröfur Íslands. Þess vegna hafi Ísland fallist á dómsátt. Hæstv. ráðherra hafði þó skynsemi til þess að viðhafa ekki ummæli í þá átt sem hv. 2. þm. Reykn. gerði í þessu efni. Hann hafði fyrirvara og sagðist mundu taka þetta efni upp við Alusuisse, við ISAL og Alusuisse. Og ég verð að segja það að mér þótti gott að heyra þó það frá hæstv. ráðherra að hann hygðist ekki hlaupa fram hjá þessu máli eins og hann hefði ekki eftir því tekið, jafnaugljóst brot og hér er um að ræða á sáttargerðarsamningi aðila frá í fyrra. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra, hvort sem hann svarar því við þessa umræðu eða 2. umræðu: Er hann reiðubúinn til þess, í ljósi þeirra ummæla sem starfsmenn Alusuisse hafa haft uppi eða túlkanir á sáttargerðarsamningnum, að leysa gerðardómsmenn Íslands undan þagnarheiti í sambandi við tiltekin atriði fyrir gerðardómi í New York? Er hann að öðrum kosti reiðubúinn sjálfur að upplýsa þau efnislegu atriði sem þar komu fram og snertu stöðu Íslands á þessu þýðingarmikla viðkvæma augnabliki fyrir gerðardómsnefndinni þar?

Ég hefði ástæðu til, herra forseti, að fara út í mörg atriði úr máli hæstv. iðnrh. og ekki síður hv. 2. þm. Reykn. umfram það sem ég hef gert. Ég ætla ekki, með tilliti til aðstæðna í deildinni og vegna þess að ég hef ekki á móti því að mál þetta komist til nefndar, að taka nema eitt atriði til viðbótar sem ég vil leggja áherslu á og gera um leið sterka athugasemd við á þessu stigi máls. Talsmenn þessa samkomulags lýsa því sem sérstökum kosti þess að með því sé verið að girða fyrir deilur, að það dragi mjög úr líkum á deilum í framtíðinni um skattamál. Og hæstv. iðnrh. lauk máli sínu á því að tala um að gott væri að deila væri á lokastigi. Það má kannske segja að endurskoðun á aðalsamningi sé deila. En þegar rætt er um deilur í tengslum við þennan samning hef ég skilið það svo að menn ættu við deilur um uppgjör skatta, skattskil fyrirtækisins. Um það var gert hvað fortíðina snertir samkomulag í fyrra, sáttargerðarsamningur, því miður á því stigi máls, því að það var ekki réttur tími til að létta af Alusuisse þrýstingnum og gera fyrirtækinu kleift að semja um framhald málsins sem hér liggur fyrir án þess að þeir hefðu hitann í haldinu í sambandi við skattadeilu að því er fortíðina snertir. Þar var illa haldið á íslenskum hagsmunum. Þar var rangt staðið að máli. En ég er síður en svo að mæla með því að deiluefni sé eitthvert atriði sem aðilar sem ganga til samstarfs eigi að hafa uppi eða viðhalda, síður en svo. En spurningin er: Hver brýtur á hverjum og hvernig er gengið frá samningsákvæðum? Það þarf ekki út frá íslenskum hagsmunum að vera eitthvað sjálfgefið að þannig sé gengið frá samningum að ekki geti orðið um þá deilur. Ef gagnaðilinn er það ósvífinn og óprúttinn í samskiptum að hann kýs að ganga á rétt gagnaðilans - það er það sem Alusuisse hefur gert hér líkast til allan þann tíma sem fyrirtækið hefur hér starfað, a.m.k. verulegan hluta þess tíma - hvernig bregðast menn þá við? Þá hlaupa íslenskir samningamenn upp til handa og fóta til þess að breyta samningsákvæðum, hvort sem það er varðandi aðföng og skilyrði um bestu kjör og annað þess háttar eða hvort það eru ákvæði um endurskoðun samninga, þeir hlaupa til og breyta þessum ákvæðum út frá óskum Alusuisse eða út frá forsendum sem Alusuisse hlýtur fyrst og fremst að horfa á að líkur minnki á því að deilur verði uppi. Það er réttur Íslands sem er verið að semja af sér með samkomulaginu í fyrra og með þessu samkomulagi. Þannig geta menn vissulega komið upp í ræðustól á Alþingi og haldið því fram að þeir séu að ná mikilvægu markmiði, að draga úr líkum á deilum. Ég vek athygli á þessum mjög sérkennilega málflutningi sem gengur eins og rauður þráður í gegnum ræður talsmanna þessa samkomulags.

Ég ætla ekki, herra forseti, að fara yfir fjölmörg atriði önnur sem ég hef ekki nefnt hér en sem mikil ástæða er til að taka fyrir síðar við umræðu um þetta mál og líta á í nefnd. Það geri ég fyrst og fremst með tilliti til aðstæðna í hv. þingdeild og þess að æskilegt er að mönnum gefist tími til að skoða þetta mál vel í hv. iðnn. Ég ætla þannig ekki að fara að etja kappi við hv. 2. þm. Reykn. um það samkomulag sem við ræddum um í fyrra varðandi raforkuverð og hann kaus að gera að meginefni í fyrri hluta ræðu sinnar. Hann kastaði þar fram framreiknuðum tölum um hinn gífurlega hagnað af samkomulagi um raforkuverð og hvernig að því öllu saman var staðið og dró þar til vitnis Coopers & Lybrand og bréf sem skrifuð höfðu verið til að sannfæra íslenska samningamenn um að þeir mættu semja á þessum nótum.

Ég nefni hér eitt atriði, sem ekki er stórvægilegt, en af því að ég kallaði fram í fyrir hv. þm. Hann nefndi yfirlýsingar frá Coopers & Lybrand. Þær yfirlýsingar komu fram 28. júlí 1983 í bréfi frá Don Chilvers, starfsmanni Coopers & Lybrand, til Jóhannesar Nordals sem viðbrögð við símtali frá seðlabankastjóranum í sömu viku. Þetta bréf, eins og hálfs árs gamalt þegar samningurinn var gerður í nóvember 1984, var lagt fram sem eitthvert mikilvægt málsgagn í því samhengi. Það er langt seilst í sambandi við þetta mál í fyrra og við eigum eftir að sjá hvort reynt verður að renna álíka stoðum undir málflutning manna hér í framhaldsviðræðum um þetta efni.

Um raforkumálið og þróun þess mun okkur gefast tækifæri til að ræða því að við Alþýðubandalagsmenn í þessari þingdeild höfum óskað eftir skýrslu frá hæstv. iðnrh. um þróun þess. Mun hún væntanlega liggja fyrir áður en langt um líður þannig að þá getum við rætt um þau alvarlegu efni.

En að endingu nefni ég aðeins eitt sem fram kom hér í máli hæstv. ráðherra, þ.e. þróunin á verðgildi þess lágmarksskatts sem var lendingin í þessum samningaviðræðum sem staðið hafa um skattamálin ein í heilt ár. Hver hefur þróunin orðið á raungildi þess verðs skv. upplýsingum hæstv. iðnrh.? Það hefur breyst að raungildi. 20 bandaríkjadalir nú eru að raungildi 11,45 bandaríkjadalir miðað við það þegar þetta lágmarksgjald var upp tekið 1975. Þessi niðurstaða um lágmarksgjaldið segir talsvert um það efni sem hér liggur fyrir í þessum samningi sem reynt er að gylla með þeim hætti sem við höfum gert hér að umtalsefni og fram hefur komið þar sem upplýsingar í frumgögnum reynast rangar og staðhæfingar reynast í mörgum tilvikum vera rangar. Um þau efni gefst okkur væntanlega færi á að ræða síðar við síðari umræðu málsins.