27.11.1985
Neðri deild: 21. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 951 í B-deild Alþingistíðinda. (757)

145. mál, stjórn fiskveiða

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um stjórn fiskveiða 1986- 1987 og ætla að reyna að gera grein fyrir frv. þessu í ekki allt of löngu máli.

Fyrsta spurningin, sem frv. þetta vekur, er sú hvort almennt sé nauðsynlegt að stjórna okkar fiskveiðum. Þar koma til margvísleg sjónarmið, aðallega að því er varðar fiskistofnana sjálfa, að því er varðar okkar markaði og svo ýmis þjóðfélagsleg rök. Við mótun fiskveiðistefnu í upphafi yfirstandandi árs var tekið mið af tillögum fiskifræðinga Hafrannsóknastofnunar er ákveðin voru hámörk þess afla sem veiða mætti úr einstökum nytjastofnum. Ég hygg að við núverandi skilyrði séu það einkum slík rök sem rétt er að hafa efst í huga vegna þess að almennt eru okkar markaðsaðstæður góðar og segja má að þjóðfélagsaðstæður séu þannig að við þurfum á öllum þeim afla að halda sem við getum með hæfilegu móti tekið úr okkar fiskistofnum.

Í maímánuði var síðan aukið við þorskkvóta skipa um 5% en ljóst varð að vegna betri skilyrða í hafinu varð þyngdaraukning nokkru meiri en gert hafði verið ráð fyrir. Endanlegur þorskkvóti varð því u.þ.b. 267 þús. lestir. Flest bendir nú til þess að þorskveiðin á árinu verði u.þ.b. 315 þús. lestir. Ástæður þess að afli fer yfir áður sett viðmiðunarmörk eru þrjár:

1. Heimild til millifærslu milli tegunda hefur leitt til aukningar þorskveiði og má gera ráð fyrir því að það geti verið u.þ.b. 20 þús. lestir.

2. Bátar undir 10 brúttólestum hafa farið verulega fram yfir viðmiðunarmörk eins og skilmerkilega hefur komið fram.

3. Sóknarmarksskip hafa haft möguleika til aukningar þorskafla. Þó er ekki fullljóst nú hve þungt þetta vegur en það gæti verið milli 15 og 20 þús. tonn.

Í september s.l. sendi Hafrannsóknastofnun frá sér árlega skýrslu sína um ástand nytjastofna og aflahorfur á næstu árum. Skýrsla þessi er óvenju snemma fram komin, sem er til mikilla bóta og þar af leiðandi mögulegt að vinna markvissara að undirbúningi fiskveiðistefnu fyrir næsta ár.

Einnig hefur verið gert verulegt átak í að kynna hugmyndir stofnunarinnar um land allt. Hefur þessi nýjung mælst mjög vel fyrir og er að mínu mati til mikilla bóta vegna þess að venjulega hafa tillögur stofnunarinnar ekki legið fyrir fyrr en um þetta leyti.

Í þessari skýrslu Hafrannsóknastofnunar kemur fram að umhverfisskilyrði í hafinu eru óvenju góð, t.d. hefur útbreiðsla hlýsjávar verið með mesta móti miðað við undangengin 20 ár. Einnig kemur fram að magn plöntusvifs og dýrasvifs virðist hafa verið yfir meðallagi. Þessi atriði ásamt mjög góðum gæftum víðast hvar um landið eru talin hafa stuðlað að nokkru betri aflabrögðum, einkum við þorskveiðar, en gera hefði mátt ráð fyrir í meðalárferði. Stofnunin telur erfitt að spá fyrir um framvindu umhverfisskilyrða í sjó enda hefur reynsla fyrri ára sýnt mjög skyndilegar breytingar þar á.

Af einstökum nytjastofnum hafa þorskinum verið gerð sérstök skil í skýrslu stofnunarinnar - en þessi skýrsla er prentuð með því frv. sem ég hér mæli fyrirbæði vegna mikilvægis hans fyrir landið allt og einnig vegna þess að þorskveiðar hafa gengið öllu betur en á horfðist. Skv. nýjustu úttekt stofnunarinnar hefur sókn togara í þorsk verið áþekk og á árinu 1984. Árið 1985 er þorskafli á sóknareiningu hins vegar um 10% meiri. Nýja stofnmatið bendir til þess að veiðistofninn, þ.e. fiskur sem er fjögurra ára og eldri, hafi í upphafi ársins 1985 verið um 940 þús. tonn, sem er um 10% meira en fram kom í spá í okt. 1984. Þennan mismun má fyrst og fremst rekja til þess að mun meira hefur veiðst af sex ára fiski á þessu ári en búist hafði verið við. Hvað varðar aðra þorskárganga er spáin í okt. 1984 og núverandi mat hins vegar mjög líkt. Vegna þessa árgangs frá 1979 er nú gert ráð fyrir að hrygningarstofn í ársbyrjun 1985 hafi verið 320 þús. tonn miðað við 260 þús. tonn í síðustu skýrslu.

Í framreikningum stofnstærða er gert ráð fyrir að þorskaflinn í ár verði 310 þús. tonn, en líklegt er að hann verði lítið eitt meiri. Meðalþyngd og kynþroskaaldur þorsks verði óbreytt næstu árin. Með hliðsjón af þessu m.a. leggur Hafrannsóknastofnun til að þorskveiðar á árunum 1986 og 1987 verði takmarkaðar við 300 þús. tonn. Með því móti muni veiðistofninn vaxa nokkuð á árunum 1986-1988 vegna þess að góðir árgangar frá árunum 1983 og 1984 byrja að koma inn í veiðina.

Fyrstu sex mánuði ársins 1985 var ýsuaflinn um 13% minni en á sama tíma 1984. Eftir lélega byrjun hafa aflabrögð þó heldur glæðst er liðið hefur á árið. Við áframhald núverandi sóknar, þ.e. 45 þús. tonna afla á ári, mun bæði veiðistofn og hrygningarstofn vaxa á næstu árum. Við 55 þús. tonna afla er því spáð að veiðistofninn fari lítið eitt vaxandi en hrygningarstofn minnki enn frekar en orðið er. Hafrannsóknastofnun leggur til að ekki verði veitt meira en 50 þús. tonn af ýsu en þeim afla verður ekki náð í ár.

Hafrannsóknastofnun vekur athygli á minnkandi karfaafla á sóknareiningu og telur flest benda til þess að um 23% minnkun á karfaafla verði að ræða á milli áranna 1984 og 1985, sem er að vísu að hluta til vegna minni sóknar. Hafrannsóknastofnunin varar við að haldið verði áfram að veiða meira úr karfastofninum en Alþjóðahafrannsóknaráðið hefur lagt til. Leggur stofnunin til að ekki verði veitt meira en 85 þús. tonn af karfa 1986 og hvetur til að samkomulag náist um nýtingu karfastofna við þær þjóðir sem úr þeim veiða.

Ástæða er til að hafa áhyggjur af karfastofninum ekki síður en öðrum. Þar er um annað ástand að ræða en var hér fyrir nokkrum árum þegar það stjórnunarform, sem kallað hefur verið „skrapdagakerfi“, var tekið upp. Ég ætla ekki að ræða frekar um ástand botnfisksstofnanna en það kemur allskilmerkilega fram í fskj. við þetta frv.

Um humarstofninn er það að segja að veiðar á þeim fiski hafa verið nokkuð svipaðar undanfarin ár og jafn afli. Nú er áætlað að stofninn sé heldur að vaxa og lagt til að þær veiðar verði lítið eitt auknar.

Að því er varðar loðnu- og síldveiðar þá hafa síldveiðar verið mjög jafnar á undangengnum árum, á bilinu 45-55 þús. lestir, og hefur tekist vel til um nýtingu þess stofns. En segja má að markaðsaðstæður hafi einkum hrætt menn frá því að minnka veiðarnar nokkru frekar. En svo virðist sem nú muni takast að selja við bærilegu verði þær afurðir sem framleiddar eru í ár jafnvel þótt það hafi lækkað frá fyrra ári.

Um loðnuveiðarnar hefur það komið skilmerkilega fram að undanförnu að þar er nú mjög góð veiði og má búast við því að þetta verði ein besta vertíð sem verið hefur í loðnuveiðunum. Hins vegar eru menn alláhyggjufullir vegna næsta árs.

Þegar spurt er um hvaða kostum það stjórnkerfi, sem notað er við fiskveiðarnar, þurfi að vera búið má vissulega telja fram mörg atriði. En þau atriði, sem einkum hafa verið höfð til viðmiðunar að undanförnu, eru eftirfarandi:

1. Aflinn verði innan ákveðinna marka, að stjórnkerfið bjóði upp á það að halda aflanum innan tiltekinna marka.

2. Að réttlát skipting sé milli skipa og byggðarlaga.

3. Að reynt sé að skapa eins tryggt atvinnuástand um land allt og nokkur kostur er.

4. Að það sé hvati í stjórnkerfinu til bættrar meðferðar og aukinnar verðmætasköpunar.

5. Að það sé hvati til lækkunar tilkostnaðar.

6. Að það sé stöðug þjónusta við markaði.

7. Að það sé lágmarksskerðing á athafnafrelsi.

Það hafa einkum verið tvö stjórnunarform sem hafa verið til umræðu að undanförnu þó að mörg önnur séu vissulega hugsanleg, þ.e. núverandi stjórnunarform sem byggir á því að viðmiðun sé við hvert einstakt skip, annars vegar aflamark viðkomandi skipa, að skipin fái úthlutað tilteknum afla, hins vegar sóknarmark þar sem kveðið er á um hámark þorskafla og tiltekinn dagafjölda sem viðkomandi skip má vera á sjó. Einnig einkennist núverandi stjórnunarform af heildarkvótum hjá smábátum og í fjórða lagi er lokun svæða, möskvastærð o.fl. sem lítill ágreiningur er um og allir viðurkenna að um slíka stjórnun þurfi að vera að ræða.

Annað stjórnunarform, sem einkum hefur verið til umræðu, er það sem kallað hefur verið „tegundamark“, „skrapdagakerfi“ eða ýmsum öðrum nöfnum. Aðaleinkenni þess stjórnunarkerfis er það að þar sé engin viðmiðun við einstök skip. Í fyrsta lagi skuli nota skrapdagakerfi sem byggir á því að þorskveiðar eru bannaðar tiltekinn dagafjölda á ári á ákveðnu tímabili og skipunum þá heimilað - venjulega er átt við togarana - að ganga í aðra stofna eins og karfa, ufsa, ýsu og annað sem gefst.

Í öðru lagi einkennist þetta stjórnunarform af því, skv. þeim tillögum sem fram hafa komið, að það séu heildarkvótar fyrir ákveðna flokka skipa. Þegar þessir heildarkvótar hafa verið veiddir skulu veiðar stöðvaðar. Spyrja má margra spurninga um það hvort stjórnunarformið sé hæfara til að ná þeim markmiðum sem ég gat hér um áðan. Því hefur t.d. verið haldið fram að ekki hafi tekist að ná fyrsta markmiðinu, að aflinn verði innan ákveðinna marka, með núverandi stjórnunarformi. Ég tel að það sé rangt. Það hefur alltaf verið ljóst að þetta kerfi mundi bjóða upp á allmikla sveigju þannig að ef þorskafli væri góður gæti hann orðið meiri en kvótarnir gefa tilefni til. Það er það sem hefur gerst í ár að þorskveiðin hefur verið allgóð en veiðar úr öðrum stofnum fremur lakar. Þess vegna hefur þorskveiðin orðið meiri en hins vegar veiðar á öðrum botnfiski tilsvarandi minni og munar þar ekki mjög miklu á að því er varðar tonnafjölda.

Að því er varðar annað atriðið, þ.e. að réttlát skipting sé milli skipa og byggðarlaga og þá einnig tryggara atvinnuástand, þá fer það að sjálfsögðu mjög eftir því hvort menn ætla sér að stöðva veiðarnar þegar heildarkvótar eru ákveðnir, að það sé raunverulega hugmynd manna að veiðarnar verði stöðvaðar þegar þessu tiltekna marki sé náð. Sem dæmi má nefna að það gæti vel komið fyrir að vertíðaraflinn hjá bátunum væri búinn 1. apríl. Þá kæmi í ljós hvort það yrði svipuð umræða hér utan dagskrár á stöðvunardegi og var hér í þinginu í gær. Ég er ekki viss um að menn hefðu nægilega sterk bein til að þola að veiðarnar væru stöðvaðar á vertíðarsvæðinu þegar þessum heildarkvóta væri náð án tillits til þess hvernig aflabrögð hefðu verið í einstökum verstöðvum. Ég er helst á því að það mundu ýmsir rísa upp og spyrja hvort ætti nú að vega sérstaklega að þessu byggðarlaginu eða hinu eða þessu skipinu eða hinu. Þetta er mikill ókostur á stjórnunarkerfi sem byggir á heildarkvóta.

Í þessu sambandi má einnig taka fram að því er varðar hvata til bættrar meðferðar og aukinnar verðmætasköpunar og hvata til lækkunar tilkostnaðar að heildarkvótar leiða til enn meiri samkeppni í veiðunum. T.d. ef fiskur gefst vel á Breiðafirði er mjög líklegt að vertíðarflotinn muni streyma þangað í auknum mæli til að taka þátt í samkeppninni og vera með í því að ljúka við heildaraflann og ná sem mestu til sín. Ef hins vegar hvert og eitt skip hefur sína viðmiðun, annaðhvort heildarkvóta fyrir hvert skip eða svokallaða „þorskbremsu“ í sóknarmarki, eru menn mun rólegri og tilbúnari til að bíða eftir að fiskurinn gangi á þau mið sem eru hefðbundin fyrir viðkomandi skip. Ég er því fullviss um að það stjórnunarform, sem nú er notað, hefur yfirburði í þessum atriðum.

Varðandi síðasta atriðið sem ég nefndi, þ.e. lágmarksskerðingu á athafnafrelsi, er það einkum notað gegn núverandi stjórnunarkerfi að þar sé verið að skerða athafnafrelsi manna um of og skerða möguleika þeirra til að taka þátt í samkeppni um veiðarnar. Um þetta má vissulega deila. En það liggur hins vegar fyrir að um skerðingu á athafnafrelsi er að ræða í öllum tilvikum. Það má hugsa sér að gera það með ýmsum hætti. Það má gera það með því að fækka fiskiskipunum. Það er einnig skerðing á athafnafrelsi. Þegar upp er staðið er spurning hvers virði athafnafrelsið er ef mönnum tekst að eyðileggja eða stórskemma okkar fiskistofna. Það er ekki meginmarkmið okkar heldur að auka afrakstursgetu þeirra sem mest.

Við undirbúning þess frv., sem hér er mælt fyrir, hafa einkum þrjú atriði verið lögð til grundvallar. Það er í fyrsta lagi að byggja á þeirri reynslu sem við höfum öðlast á undanförnum tveimur árum og að mörgu leyti hefur gefist vel og farið betur en margur spáði í upphafi. Þessi reynsla er dýrmæt og þess vegna er rétt að byggja á henni en taka tillit til ýmislegs sem betur má fara eins og ávallt verður í allri stjórnun sem þessari.

Það hefur einnig verið haft til viðmiðunar að taka meginatriði reglugerðar inn í löggjöfina en margar gagnrýnisraddir heyrðust hér á Alþingi um það atriði. Menn töldu óeðlilegt að svo mikilvæg atriði væru ákveðin með reglugerð. En um atriði þeirrar reglugerðar var haft náið samráð við sjávarútvegsnefndir þingsins í upphafi. Það er vissulega mjög eðlilegt að slík gagnrýni komi fram. Með því að setja meginatriði þessarar reglugerðar inn í frv. er beinlínis verið að taka tillit til þess sem hefur komið fram í umræðum á Alþingi þegar þessi mál hafa hér áður verið til meðferðar.

Einnig hefur verið reynt að draga úr ókostum núverandi stjórnunar eftir því sem nokkur kostur er og vildi ég aðeins nefna þau gagnrýnisatriði sem einkum hafa komið fram.

Í fyrsta lagi hefur verið talið að stjórnunin sé ósveigjanleg, erfitt sé að taka tillit til nýrra aðstæðna. Sú sveigja, sem er fyrir hendi, er millifærsluheimild milli skipa. Aðilar geta valið á milli sóknarmarks og aflamarks. Spurningin er með hvaða hætti hægt er að auka þessa sveigju enn frekar. Það hefur verið gert með því m.a. að heimila millifærslu milli ára, þ.e. ef eitthvert skip einhverra hluta vegna telur sér ekki hagstætt að ljúka við aflamagn á árinu 1986 hefur það heimild til að færa 10% af þeim afla yfir á næsta ár. Þetta getur verið á margan hátt mjög hentugt en fram að þessu hefur þó viðkomandi skip þurft að færa aflann yfir á önnur skip. Væntanlega mundi þá draga úr millifærslum milli skipa við þessa heimild.

Einnig er aðilum heimilt að taka 5% af afla ársins á eftir á árinu 1986. Það getur einnig verið mjög hentugt. Ef skip vill fremur afla meira í nóvember og desember en minna í janúar og febrúar getur verið hentugt að geta gert slíkt. Einnig mun það væntanlega draga úr þeirri hættu sem er augljóslega á því að skip fari fram úr í veiðum og mun þá draga úr upptökum.

Eitt atriði hefur verið mjög gagnrýnt, þ.e. millifærslur á milli skipa. Fram kemur í þessu frv. að þar er raunverulega núverandi ástand sett í lög. Áfram er heimilt að færa á milli skipa innan tiltekinna marka. Þetta atriði hefur verið mikið gagnrýnt og verður mikið gagnrýnt áfram, það er mér alveg ljóst. Ef menn hins vegar hætta við það munu menn draga úr verulegri hagkvæmni sem hægt hefur verið að koma á á undanförnum árum.

Það hefur einnig verið gagnrýnt að of mikið magn hafi komið á land á ákveðnum tíma og orsakað slæma nýtingu hráefnis. Þetta er atriði sem hver og einn verður að reyna að ráða við og erfitt að gera það með reglugerðum og ráðuneytisskipunum í meira mæli en orðið er.

Einnig hefur verið gagnrýnt mjög að það væri óvissa um framtíðina. Við erum mikið um það spurðir hvað gerist á næsta ári og það er erfitt fyrir aðila sem eru að reyna að skipuleggja sína útgerð til nokkurra ára að vita ekkert um það með hvaða hætti veiðunum verði stjórnað á næstu árum. Ástæðan fyrir því að lagt er til að frv. gildi til tveggja ára, en áður hafði verið gert ráð fyrir þremur árum, er einmitt sú að með því er verið að draga úr óvissu um framtíðina og menn geta þá betur skipulagt sinn rekstur. Önnur ástæða fyrir því að lagt er til að lögin gildi í tvö ár er sú að með því er hægt að vinna sig út úr viðmiðun svokallaðra viðmiðunarára, sem getur ekki gengið til lengdar, en það er engin leið að komast frá þeirri viðmiðun nema lögin gildi til lengri tíma en eins árs. Þessi viðmiðun hefur verið mjög gagnrýnd og þeir sem vilja stuðla að því að komast frá henni hljóta að viðurkenna þá nauðsyn að lögin gildi til lengri tíma en eins árs.

Það atriði sem einnig hefur valdið mikilli gagnrýni eru veiðar smábáta og hefur farið mikill tími í umræður um þau mál. Þar er um marga báta að ræða og ég er helst á því að ef tegundamark svokallað yrði tekið upp gæti það þýtt nýja smábátaumræðu að því er varðaði flesta flokka skipa. Veruleg óþægindi fylgja því að vera með öll skip í einum flokki með tiltekið aflamagn og þess vegna er eðlilegt að nokkur umræða sé að því er varðar þessa báta og skal ég koma að því nánar síðar.

Það má segja að frv. hafi mótast í samspili milli ráðuneytis og svokallaðrar ráðgjafarnefndar þar sem eiga sæti fulltrúar allra hagsmunaaðila. Mikil vinna var lögð í frv. og tók það ýmsum breytingum í meðferðinni. Síðan var það lagt fyrir hina ýmsu fundi, hina ýmsu hagsmunaaðila í landinu, og má segja að almennt séð hafi það hlotið þar góðar viðtökur, ekki endilega vegna þess að allir væru svo hrifnir af því að viðhalda stjórnun sem þessari heldur einkum vegna þess að menn sjá ekki betri leið til þess að gera það sem gera þarf. Hagsmunaaðilarnir hafa séð það fyrir löngu að það eru þeirra hagsmunir að reynt sé að byggja stofnana upp og halda flotanum í skefjum og til þess þurfi að finna góða leið sem sem flestir geta sætt sig við. Eiga hagsmunaaðilar í sjávarútvegi miklar þakkir skilið fyrir það hvað þeir hafa lagt sig fram um að reyna að hjálpa til við að móta stefnu sem sem mestur friður gæti orðið um.

Meginatriði þessa frv. eru að vísu allmörg, en ég ætla rétt að fara yfir þau án þess að fara yfir einstakar greinar.

Í fyrsta lagi er meginatriði frv. það að það gildir til tveggja ára. Í því felst málamiðlun og í ljósi m.a. ályktana hagsmunasamtaka sem flest ályktuðu að lögin giltu ekki lengur en í tvö ár. Það má segja að þessi gildistími sé nægilega langur til að ná öllum meginmarkmiðum og þess vegna dregur hann úr óvissu og skapar möguleika á sveigjanleik.

Í öðru lagi er sveigjanleikinn aukinn almennt eins og ég gat um áðan. Það er fyrst og fremst með nýrri viðmiðun með sóknarmarki, millifærslu milli ára og í þriðja lagi að halda 10% millifærslu milli tegunda.

Þriðja meginatriði þessa frv. er að meginreglur eru nú settar í löggjöf, eins.og ég kom að áðan.

Í fjórða lagi er það áfram meginregla að val er milli aflamarks og sóknarmarks eins og fram kemur í 4. gr. Í fimmta lagi, eins og fram kemur í 3. gr., að fiskiskipastóll landsmanna stækki ekki. Það er almennt álit manna að fiskiskipastóllinn sé nægilega stór og engin þörf sé á að bæta við hann. M.a. telur svokölluð skipastólsnefnd - sérfræðingar, m.a. við Háskólann, hafa reiknað það út - að fiskiskipastóllinn sé 10% of stór jafnvel þótt hámarksafrakstri stofnanna sé náð. Ég skal ekki fullyrða um hvort þetta er talin góð niðurstaða, en hins vegar er ljóst að fiskiskipastóllinn er of stór. Við þyrftum ekki að vera með allar þessar takmarkanir sem nú eru á ef hann væri minni. Hins vegar verðum við Íslendingar að hafa það í huga að við búum fá í stóru landi og það eru mörg byggðarlögin sem þarf að huga að og margar fisktegundir sem einnig þarf að huga að þannig að fiskiskipastóllinn hlýtur alltaf að verða stærri en bestu hagkvæmnisútreikningar benda til með tilliti til okkar aðstæðna.

Í sjötta lagi geta menn skapað sér nýja viðmiðun með sóknarmarki eins og ég kom að áðan, en um þetta atriði er fjallað í 7. gr.

Í sjöunda lagi er flutningur milli tegunda á milli ára í 8. gr. og í áttunda lagi er í 9. gr. fjallað um reglur smábátanna sem hafa komið til umræðu. Með þessum ákvæðum er reynt að festa í löggjöf alveg ákveðnar reglur um veiðar smábátanna. Þessi bátafloti hefur farið stækkandi og það er alveg ljóst að það þarf að vera á honum einhvers konar stjórnun. Menn gera gjarnan lítið úr því, segja að þessi floti geti ekki aflað mikið. En ég held að fullyrða megi að hann getur tekið um 30 þús. tonn af þorski sem eru 10% af þorskaflanum eins og nú er. Út af fyrir sig má halda því fram að það skipti engu máli. En einnig má halda því fram að veiðar ýmissa annarra báta skipti litlu máli o.s.frv. Aðalatriðið er að takmarkanir þurfa að vera á öllum þeim aðilum sem stunda þessar veiðar svo að t.d. verði ekki óeðlileg aðsókn í þennan flokk skipa. Ef eingöngu eru takmarkanir á öllum öðrum skipum er hætt við að það verði til þess að inn í þennan flokk streymi ýmsir aðilar sem telji sig verða fyrir allt of miklum takmörkunum annars staðar.

Hvort það er ástæðan fyrir því að þessum bátum hefur mjög fjölgað skal ég á engan hátt fullyrða, en það er hins vegar ljóst að það þarf að finna reglur sem þessir aðilar geta bærilega sætt sig við. Það má segja að við í sjútvrn. höfum haft mjög gott samráð og samstarf við flesta hagsmunaaðila í sjávarútvegi. Hins vegar hafa smábátaeigendur ekki átt sér nein samtök sem auðvelt hefur verið að snúa sér til. Við höfum mjög hvatt þá til að stofna slík samtök og þeir hafa reynt það. En það ætlar að reynast erfiðara en ætlað var í fyrstu. Menn heyra gjarnan frá smábátaeigendum víðs vegar um landið að þeir menn sem eru að reyna að brjótast í því að stofna þessi samtök hafi ekkert umboð frá þeim. Það er ljóst að hér er mikill fjöldi manna sem hefur sjálfstæðar skoðanir og þeir eru ekkert fyrir það að hlíta neinum fyrirmælum, hvorki frá ráðuneytum eða einstökum félögum sínum.

Þær reglur sem hér eru settar eru að mínu mati allbærilega ásættanlegar fyrir flesta þessara manna nema að því er varðar stöðvun á tímabilinu 15. nóv. til 9. febr. En það kemur fram í þessu frv. að þrátt fyrir ákvæði a- og c-liðar getur ráðherra heimilað línuveiðar báta undir 10 brúttólestum á tímabilinu frá og með 1. janúar til og með 9. febr. og 16. nóv. til og með 31. des. ár hvert. Þetta ákvæði ætti að geta leyst vanda allmargra þessara aðila. Hins vegar er ljóst að t.d. hér við Faxaflóa stunda þessir minni bátar ýsuveiðar á haustin í net og sú heimild leysir ekki þeirra mál. Hitt er svo annað mál að þessi stærð af bátum ræður ekki mjög vel við netaveiðar á þessum tíma. Það var ekki fallegt í öllum netunum hér úti á flóa eftir vonda veðrið um daginn.

Vilji menn ganga enn frekar til móts við þessa aðila tel ég fyrst og fremst eina leið koma til greina. Hún er sú að hafi menn fulla atvinnu af veiðum sem þessum á minni bátum en 10 tonn hafi þeir möguleika á að velja sér sóknarmark með svipuðum hætti og stærri bátarnir, þ.e. á bilinu 10-20 tonn.

Ljóst er að við munum ekki ráða við það stjórnunarlega séð að hafa alla þessa rúmlega 1000 báta í sóknarmarki. Það er algerlega vonlaust að ráða við það og fylgjast með róðrardagafjölda hvers og eins. Hins vegar er það áreiðanlega vel framkvæmanlegt að ákveðinn fjöldi komist í sóknarmark með venjulegum hætti og hlíti þá þeim reglum sem aðrir verða að gera.

Ég segi þetta í tilefni þeirrar umræðu sem hefur orðið að undanförnu. En sannleikurinn er sá að margar leiðir hafa verið ræddar og menn hafa oft komist að þeirri niðurstöðu að.betra sé að hafa þetta með þessum hætti eða hinum, en sjónarmiðin eru, ég segi ekki eins mörg og mennirnir, en a.m.k. eins mörg og landshlutarnir og einstök byggðarlög. Það sem þykir góð regla fyrir smábáta í ákveðnum landshluta þykir vond regla fyrir smábáta í öðrum. Það fer allt eftir því hvort um er að ræða atvinnumann eða svokallaðan „hobby“-mann, en það má segja að það hafi reynst mjög erfitt að skilja þar í milli. Við gerðum tilraun til þess, að ég tel mjög heiðarlega tilraun. Það komu rúmlega 800 umsóknir og það voru hin ólíklegustu tilvik sem þar hefðu þurft að koma til úrskurðar. Ég er viss um að ef slíkt ætti að gilda mundi mikill styrr geta staðið einnig um slíka úrskurði, hver væri talinn atvinnumaður í smábátaveiðum og hver ekki og hvaða eiginleika menn þyrftu að hafa til að bera til þess að geta fengið það sæmdarheiti.

Ég hef aðeins komið að smábátareglunum. Ég tel nauðsynlegt að menn fari enn betur yfir þær reglur í meðferð þingsins. Það er sjálfsagt að reyna að bæta enn um. En aðalatriðið er þó að þær reglur séu í samræmi við það sem annars staðar gildir og að þessir aðilar þurfi að sæta sambærilegum takmörkunum og aðrir sjómenn. Ef menn geta ekki fallist á það er hætt við að mikill ófriður skapist meðal annarra sjómanna því að þeir eru allmargir sem hafa þurft að hlíta þar miklum takmörkunum, t.d. að því er varðar 11-12 tonna báta, sem margir hafa talið að hafi búið við kannske mestu takmarkanirnar af öllum þeim bátum sem þurfa að sætta sig við þessa stjórnun. Þess eru dæmi að 8 og 9 tonna bátar hafa veitt 300-400 tonn þó að það sé mjög fágætt á sama tíma og bátar við hliðina á þeim máttu sætta sig við að fá ekki að veiða nema rúm 100 tonn. Slíkt ójafnræði er ekki þolanlegt og það er mjög eðlilegt að menn séu óánægðir með það. Sú óánægja kom fyrst og fremst fram á s.l. vetri og vori og hafði við mjög góð rök að styðjast.

Ég hafði ekki hugsað mér, herra forseti, að hafa mjög ítarlegt mál um þetta frv. Það hefur hlotið mikla umræðu að undanförnu og ég tel mikilvægast að koma því til nefndar þannig að það geti hlotið bærilega meðferð í þinginu. Það er slæmt að frv. skuli ekki vera komið fram fyrr. Það er mjög stuttur tími til stefnu og því er mikilvægt að það komist sem fyrst til nefndar. Það er ljóst að enn eru nokkur atriði sem binda þarf í reglugerð sem ekki hefur verið tekin endanleg ákvörðun um. Ég ætla að nefna þau helstu.

Það er í fyrsta lagi varðandi rækjuskipin. Núverandi stjórnunarreglur setja engar takmarkanir á rækjuveiðar á úthafinu. Ákveðið var í upphafi að reyna að hvetja sem flest skip til rækjuveiða. Það voru ekki allir bjartsýnir á að það mundi vel takast. Niðurstaðan er hins vegar sú að þar hefur aflaverðmætið aukist um á að giska 700-800 millj. kr. Ekki er það allt komið til væntanlega vegna breyttrar stjórnunar, en þó tel ég að fullyrða megi að það sé að allverulegu leyti. Mörg skipanna, sem ekki stunduðu rækjuveiðar áður, hefðu ekki farið til þeirra veiða nema vegna þeirra takmarkana sem voru í öðrum veiðum. Nú eru uppi raddir um að skerða beri botnfiskkvóta þessara skipa að einhverju marki vegna aukinnar rækjuveiði. Slíkar hugmyndir voru ræddar á s.l. ári og ég skal segja það í fullri hreinskilni að ég taldi réttlætanlegt að gera það í einhverjum mæli. Hins vegar tel ég að menn eigi að fara varlega í þeim efnum því að hætt er við að með því að skerða botnfiskheimildir skipanna um of verði dregið úr þeirri hagkvæmni sem þegar hefur skapast og einnig dregið úr áhuga þeirra sem vilja stunda þessar veiðar. Enn sem komið er hefur Hafrannsóknastofnunin ekki lagt fram neinar tillögur um takmarkanir á þessum veiðum. Það er því vart tímabært að taka afdrifaríkar ákvarðanir í þessu efni. Rækjuveiðarnar hafa verið mikil. búbót fyrir einstök byggðarlög. Ég nefni sem dæmi að þær hafa aukið atvinnu verulega, t.d. á Norðurlandi og Vestfjörðum, og orðið til þess að bátar sem voru e.t.v. seldir á síldarleysisárunum til annarra byggðarlaga eru nú að hverfa aftur til sinna fyrri heimkynna og taka þar upp rækjuveiðar. Þessar auknu veiðar hafa því orðið til mikillar bjargar mjög víða.

Í öðru lagi þarf að taka ákvörðun um loðnuskipin. Nú hafa loðnuveiðarnar verið auknar allnokkuð frá því sem var í fyrra, en sum þessara skipa hafa nokkurn botnfiskafla og þarf að taka ákvarðanir um það. Sum af þessum skipum hafa einnig farið til rækjuveiða og m.a. hefur verið um það rætt hvort ekki sé rétt að þau loðnuskip sem fari til rækjuveiða fái ekki botnfiskleyfi. Slíkt er mjög hreinleg regla og þarf að taka ákvörðun um hana í reglugerð.

Í þriðja lagi hefur mikið verið rætt um línuveiðar. Í 4. gr. er eftirfarandi heimild: „Ráðherra getur ákveðið að fiskur undir ákveðinni stærð eða fiskur sem veiðist í ákveðin veiðarfæri skuli ekki talinn með í aflamarki eða sóknarmarki fiskiskips.“

Á þessu ári var fiskur veiddur á línu að hálfu utan kvóta í janúar og febrúar. Einnig var þá mjög rætt um að það mundi einnig gilda um nóvember og desember. Þetta eru atriði sem þarf að taka ákvörðun um. Ég tel fullvíst að menn vilji halda áfram því sama sem var, að fiskur veiddur á línu væri að einhverju leyti utan kvóta í janúar og febrúar og mér finnst mjög koma til greina að einhver sambærileg regla gildi að því er varðar nóvember og desember. En þá ákvörðun verður að taka strax í upphafi árs. Það er mjög mikilvægt að reglurnar séu skýrar strax í upphafi þannig að hver og einn megi vita að hverju hann gengur. Hver og einn þarf á því að halda að skipuleggja sínar veiðar og það er engin leið að vera að hlaupa með slíkar ákvarðanir fram og til baka.

Í fjórða lagi þarf að fara betur ofan í sóknardagana. Það má segja að sóknardagar togaranna hafi reynst allvel en komið hafa ábendingar frá hagsmunaaðilum um að það þurfi að rýmka nokkuð sóknardaga báta og er það til athugunar. Hitt er svo annað mál að ég tel að of mikið hafi verið úr því gert að sóknarmark fyrir bátana sé óaðgengilegt. Hins vegar voru menn hræddir við að fara út í það og má vera að þurfi að rýmka það lítillega til þess að gera það aðgengilegra. En um það hafa komið ábendingar frá allmörgum aðilum.

Ég vil einnig geta þess að í 3. gr. er eingöngu reiknað með því að þau skip fái veiðileyfi sem stunduðu veiðar á árinu 1985 og „ekki hafa horfið varanlega úr rekstri, enn fremur ný og nýkeypt skip hverfi önnur sambærileg skip úr rekstri.“ Það er vitað mál að hér hafa verið fiskiskip í smíðum, svokölluð raðsmíðaskip, sem eru orðin afar dýr. Ætli smíðaverð þeirra fjögurra fari ekki að nálgast 600 millj. kr.? Það er enginn aðili hér í landinu sem treystir sér til að gera þau út á því verði, enda ekki eðlilegt, og það er einnig ljóst að ekki er þörf fyrir þessi skip í botnfiskveiðunum. Þau munu eingöngu taka fisk frá öðrum. Þarna er um vandamál að ræða sem með einhverjum hætti þarf að leysa. Til þessara smíða var stofnað með óvenjulegum hætti. Fyrst og fremst var um iðnaðarverkefni að ræða og er það dæmi um hvernig ekki á að standa að endurnýjun fiskiskipaflotans. Vissulega væri gott að geta haft þessar tæplega 600 millj. eða 500-600 millj. í ýmis önnur vandamál sem steðja að sjávarútveginum í dag. Og það er áreiðanlegt að mikið af þeim peningum sem menn hafa notað til ýmissa hluta á undanförnu árum væri betur komið í bankabók í dag eða í minni erlendum skuldum til þess að hafa meira svigrúm til að takast á við þann vanda sem nú er við að etja.

Herra forseti. Ég hef vissulega aðeins farið lauslega yfir þetta stóra mál. Ég legg á það áherslu að þetta mál komist sem fyrst til nefndar og sé ekki ástæðu til við 1. umræðu að fara nánar út í einstakar greinar frv. Ég vænti þess að þar sé mál sett það skýrt fram að einstakir þm. átti sig fljótt á því enda hefur mikið verið um þetta mál fjallað opinberlega að undanförnu. Margir þm. hafa tekið þátt í þeirri umræðu og ætti það að auðvelda að þessi 1. umræða gæti orðið styttri.

Ég vil að lokum leggja til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.