27.11.1985
Neðri deild: 21. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 993 í B-deild Alþingistíðinda. (762)

145. mál, stjórn fiskveiða

Gunnar G. Schram:

Herra forseti. Við höfum hér hlýtt á verulega gagnrýni frá hv. þm. Einari Guðfinnssyni. Það er ekki nema eðlilegt að slíkar raddir heyrist úr þessum ræðustól vegna þess að lengi hefur verið ljóst, allt frá áramótum 1983-1984, að um kvótann var ekki eining. Hins vegar verður að líta svo á - og reynslan rökstyður þá skoðun - að hér höfum við í framkvæmd, og höfum nú haft brátt í tvö ár, það kerfi sem skárst er til að stjórna fiskveiðum. Það var ekki undirbúningslaust sem þessu fyrirkomulagi var komið á, þessari skipan varðandi stóru fiskveiða og það er óhjákvæmilegt að minna á, sérstaklega með gagnrýni þá sem hér hefur heyrst í dag í huga, að mikill meiri hluti hagsmunaaðila í sjávarútvegi, hvort heldur er í veiðum eða vinnslu, hefur léð jáyrði sitt að því er þetta fyrirkomulag varðar. Er þar skemmst að minnast samþykkta og ályktana Landssambands íslenskra útvegsmanna og fiskiþings nú fyrir nokkrum dögum þó svo að önnur niðurstaða yrði á þingi Farmanna- og fiskimannasambandsins.

En þetta fyrirkomulag, þetta kerfi, er vitanlega ekki gallalaust frekar en önnur mannanna verk. Það hefur réttilega verið bent á hverjir eru megingallar þess, m.a. í umræðunum hér í dag. Ekki hefur tekist sem skyldi og eins og vonir stóðu til að samræma veiðar og vinnslu. Það hefur ekki heldur tekist að sníða af aflatoppana þegar allt of mikill afli berst á land. Afleiðingin er að hann er verkaður í ódýrustu umbúðir, það skortir vinnuafl til að vinna hann og hluti hans verður einfaldlega ónýtur og honum verður að fleygja.

Í því formi sem frumvarpið nú liggur fyrir hafa verið gerðar á því nokkrar breytingar sem grein er gerð fyrir í upphafi grg. frv. Það verður að segjast að þær eru til bóta frá upphaflegri gerð frv. M.a. er gildistími styttur úr þremur árum niður í tvö ár. Það var eitt umdeildasta atriðið og að mínu mati var óhjákvæmilegt að sá tími yrði styttur. Margir hafa viljað hafa þann tíma aðeins eitt ár. En vitanlega fylgja því ýmsir kostir, m.a. með yfirfærslu á kvóta, að hafa tímabilið tvö ár og það er viðsættanlegt í ljósi þess að í árslok 1986 skal hafa farið fram ítarleg endurskoðun á lögunum í samráði við sjútvn. Alþingis, þær sem hér sitja í Ed. og Nd., og er kannske ekki vanþörf á í ljósi reynslunnar, og þá ekki síður í nánu samráði við hagsmunaaðila í sjávarútvegi. Þegar á heildina er litið held ég því að ekki fari á milli mála og sé tvímælalaust að hér er um að ræða bestu leiðina til að stjórna fiskveiðum sem við þegar höfum nokkra og alldýrmæta reynslu af.

En ekki verður hjá því komist þegar rætt er um stjórnun fiskveiða að minna á mál sem í rauninni er miklu stærra en það mál sem hér liggur fyrir þessari deild í frumvarpsformi. Það er rekstrargrundvöllur þessarar atvinnugreinar sem er tvímælalaust mikilvægasta atvinnugrein landsins og reyndar máttarstólpinn undir okkar þjóðarbúskap. Það er kunnara en frá þurfi að segja, og ég ætla ekki að rekja það hér í löngu máli, hvernig afkomu sjávarútvegsins er háttað um þessar mundir. Þar hefur á síðustu árum - og reyndar hófst sú þróun alllöngu fyrir feril núverandi ríkisstjórnar–sigið mjög á ógæfuhliðina. En sjaldan hefur útlitið verið jafndökkt fram undan og einmitt um þessar mundir.

Fiskvinnslufyrirtæki um land allt eru rekin með tapi. Bátar og togarar eru komnir í þrot og hverfa hver á fætur öðrum úr byggðarlögunum. Útgerðarmenn, eigendur fiskvinnslustöðva eyða mestum hluta af sínum tíma í að afla lánsfjár til að standa undir afborgunum í næstu viku. Segja má að að mörgu leyti sé stór hluti þessarar atvinnugreinar u.þ.b. að komast á vonarvöl. Það er greinilegt að svona getur ekki öllu lengur fram haldið og ég held að það sé frumskylda Alþingis og ríkisstj. og annarra stjórnvalda, sem hér eiga hlut að máli, að gera hér bragarbót á og þó fyrr hefði verið.

Miklum tíma hefur verið eytt í að fjalla um kvótamálið hér innan veggja Alþingis sem utan. Mikilli orku hefur einnig verið eytt í það mál og umræður miklar farið fram. Það fer ekki hjá því að þær miklu umræður hafa að vissu leyti komið niður á því máli sem hér er miklu stærra og ég nefndi áðan, þ.e. afkomugrundvöllur þessarar atvinnugreinar. Það er orðið tímabært að hér fari fram umræða á Alþingi um þau efni. Ég vil taka undir þau orð hv. tveggja síðustu ræðumanna sem þeir létu fjalla í þá átt. En það er fyrst og fremst hlutverk ríkisstj. að gera hér þá bragarbót sem ég nefndi.

Ekki þarf langt að fara til að sjá hvernig ástandið er. Ég nefni Suðurnes sérstaklega í því efni. Þar höfum við á síðustu mánuðum og misserum horft upp á hvern togarann á fætur öðrum hverfa burt úr byggðarlögunum á aðra staði. Atvinnutækin fara og ekkert verður eftir. Þar hefur hvert frystihúsið á fætur öðru lokað dyrum sínum. Þar hafa fyrirtæki í fiskvinnslu nýlega orðið gjaldþrota. Ástandið versnar dag frá degi. Hvergi er meðalaldur fiskiskipa hærri en einmitt á þessu svæði, því svæði sem hingað til hefur verið talið einna vænlegast til útgerðar á öllu Íslandi.

Ég held að það sé óhjákvæmilegt að að lokinni afgreiðslu kvótafrv., þessa frv. um stjórn fiskveiða, taki ríkisstj. sér fyrir hendur sem algert forgangsverkefni - og reyndar þó fyrr hefði verið - að fjalla um vanda útgerðar og fiskvinnslu og koma þar fram með tillögur og úrræði sem betur mega duga en þau sem hingað til hafa sést.

Það vantar ekki að viðvörunarorð hafa mörg verið mælt í þessu efni. Ég hef hér fyrir framan mig ályktun aðalfundar Sambands fiskvinnslustöðvanna árið 1985 sem gerð var 25. október s.l. Ég ætla ekki að lesa hana hér en nefni aðeins eina setningu, með leyfi forseta. Þar stendur:

„Frá árslokum 1980 hefur eigið fé í sjávarútvegi rýrnað svo milljörðum skiptir. Jafnvel er talið að það geti samsvarað andvirði 30 skuttogara. Þetta fé er glatað.“

Hér eru um fullyrðingu að ræða sem hefur verið vefengd, að ég hygg m.a. af hæstv. sjútvrh., og ég hygg að hér sé nokkuð ofmælt. En það er ekki ofmælt þegar sagt er að gífurlegt fé í sjávarútvegi er glatað. Það hefur rýrnað á liðnum árum, skuldirnar hafa vaxið, eigið fé í sjávarútveginum hefur skroppið verulega saman, því er ómótmælt. Þessa þróun verður að stöðva.

Að því er sjálft frv. varðar væri hægt að tala hér langt mál og koma með margar ábendingar um það sem betur mætti fara og sýnist þar ugglaust sitt hverjum. Það var út af fyrir sig ánægjulegt að heyra að sjútvrh. gat um það í framsöguræðu sinni hér í dag að ástæða væri til að auka heimildir til línuveiða utan kvóta. Línuveiðar eru nú að hálfu leyti frjálsar fyrstu tvo mánuði ársins en ég held að full ástæða sé til að auka mjög þær heimildir og að þær veiðar verði að öllu leyti utan kvóta í upphafi árs og þá í árslok einnig þar sem hér er um besta hráefnið að jafnaði að ræða.

Einnig held ég að mikil ástæða sé til þess - að því vék raunar ráðherrann sem möguleika í sinni framsöguræðu - að rýmka allverulega eða allnokkuð um sóknardagafjölda báta. Þá vildi ég segja: Sérstaklega á vertíðinni þannig að þeim væru heimilaðar veiðar alla vega tíu til fimmtán dögum lengur en er skv. núgildandi ákvæðum sem eru fyrst og fremst reglugerðarákvæði. Einnig er ástæða til að líta á það atriði hvort ekki er rétt að heimila þeim, sem hafa sérleyfi til veiða og aflamark og hafa nú í tvö ár í röð orðið að kaupa sér kvóta, á grundvelli þess að vinna sér hærri kvóta á komandi tveimur árum í ljósi þess að þar er um að ræða útgerðir sem hafa orðið nú í tvö ár að afla sér utanaðkomandi kvóta, að taka tillit til þess við hækkun næstu tvö árin.

Að því er sérveiðarnar snertir - ég nefni þá sérstaklega rækjuna og skarkolann - er það mikil spurning hvort það er skynsamlegt kerfi, sem við höfum búið við, að veita einstökum vinnslustöðvum einkaleyfi til að vinna sjávarafla sem úr þessum sérveiðum berst í stað þess að hafa þar meira frelsi og meira svigrúm fyrir vinnslustöðvar á stöðunum almennt sem þarna eiga hlut að máli.

Það mætti í sjálfu sér tala langt mál hér um vanda smábátanna. Hann var hér á dagskrá í þinginu það nýlega - utan dagskrár reyndar - að ég ætla ekki að fara að fjölyrða um hann. En ljóst er að það vandamál, þótt á eigendum þeirra brenni, er ekki mestur vandinn sem hér er við að fást. Ugglaust væri besta lausn þess máls sú sem sjútvrh. hefur hér oftar en einu sinni talið óframkvæmanlega og ekki skal ég í sjálfu sér vefengja að hún sé erfið framkvæmdar, en það þarf að gera greinilega mun á þeim sem hafa atvinnu af trillubátaútgerð og þeim sem stunda þetta sem sport.

Fiskifélag Íslands og fulltrúar þess í hverri verstöð eiga að hafa mjög glöggt og gott yfirlit yfir málin að því er trillubátaútgerðina snertir. Ég held að kanna mætti til hlítar þann möguleika að gera greinarmun á mönnum á þennan hátt. Eins og fyrir liggur í frv. er hér að vísu um nokkra rýmkun að ræða en engu að síður verulegar takmarkanir í lok árs og upphafi árs til 9. febrúar. Þar þyrftu menn að hafa meira svigrúm og meira frelsi án þess að það væru lögbundin dagamörk heldur að þeir mættu róa þegar gefur.

Ég vil, herra forseti, ekki láta hjá líða í þessu sambandi að minnast á annað mál sem kvótinn leysir ekki. Kvótinn leysir ekki rekstrarvanda sjávarútvegsins í dag, hann leysir ekki heldur úr öðru máli sem í sjálfu sér er kannske ekki síður mikilvægt og lýtur reyndar að því markmiði sem sett hefur verið efst á blað þegar rætt er um stjórn fiskveiða. Það lýtur að nýtingu fiskistofnanna, skynsamlegri og betri nýtingu. Í því efni verður ekki öllu lengur litið fram hjá því gífurlega smáfiskadrápi sem á sér stað í fiskveiðum Íslendinga. Hér er að vissu leyti um erfitt og viðkvæmt mál að ræða. Hér er um mál að ræða þar sem sannanir eru jafnan erfiðar. Hér er hins vegar einnig um mál að ræða sem hefur komið til tals og verið upp borið af framkvæmdastjóra Landssambands ísl. útvegsmanna ekki fyrir alllöngu, mál sem hefur verið rætt í fjölmiðlum oftar en einu sinni og oftar en tvisvar, mál sem útvegsmenn og sjómenn vitanlega þekkja manna best til.

Því hefur verið haldið fram að kvótakerfið og heimildir til að koma með í afla að landi smáfisk utan kvóta hafi valdið því að mjög hafi dregið úr smáfiskadrápi. Það er mjög til efs. Ég hygg að með sömu rökum megi einnig segja að það hafi haldið áfram og jafnvel frekar aukist ef nokkuð er. En eins og ég sagði áðan er erfitt um allar sannanir í þessu efni. Hins vegar er full ástæða til að láta fara fram rannsókn sem leiði í ljós hvert ástandið er að þessu leyti. Við getum sett okkur aflamark að því er þorskstofninn varðar og aðra fiskistofna og skrifað þau niður á blað. En hvað stoðar það ef ekki er tekið tillit til þeirra fiska sem út um lensportin fara?

Sennilega er engin önnur leið til að fást við þetta vandamál en einfaldlega að auka verulega friðun á uppeldisstöðvum þorsksins fyrir Norðurlandi og Norðausturlandi. Það er augljóst mál að sá fiskur, sem ekki gengur til hrygningar en er drepinn ungur, gagnast þjóðarbúinu lítt og sjávarútveginum. Aukin friðun á uppeldisstöðvunum held ég að sé eitt það mikilvægasta mál í þessum efnum sem nú bíður úrlausnar og væri vissulega full ástæða til að sjútvrh. gæfi því sérstakan gaum ásamt þeim málum sem hér hafa borið á góma í umræðunum í dag og eru þau reyndar æði mörg.