27.11.1985
Neðri deild: 21. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 997 í B-deild Alþingistíðinda. (763)

145. mál, stjórn fiskveiða

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Í athugasemdum við lagafrv. þetta um stjórn fiskveiða 1986-1987 segir að tilgangur þess sé að færa undirstöðuatriði og meginreglur um stjórn fiskveiða úr reglugerðum í löggjöf. Bent er á að hér sé um svo mikilvægar ákvarðanir að ræða að æskilegt sé að Alþingi taki þær og festi með lögum. Lagt er til og að meginreglur þessar gildi í tvö ár.

Allir viðurkenna að nauðsynlegt sé eins og nú horfir að hafa ákveðna heildarstjórn á fiskveiðum hér við land. Á hinn bóginn greinir menn á um hvernig þeirri stjórn skuli hagað og hvaða meginstefna skuli höfð að leiðarljósi. Er það síst að undra þegar þess er gætt að hér er um mikilvæg og viðkvæm hagsmunamál að ræða fyrir alla þá sem starfa við sjávarútveg og fiskvinnslu og svo þjóðarbúskapinn í heild.

Fyrir nokkrum árum, þegar Íslendingar unnu fullnaðarsigur í landhelgismálinu og fiskveiðilögsagan stækkaði úr 75 þús. km2 í 758 þús. km2, fagnaði öll þjóðin. Hinn mikli fjöldi erlendra fiskiskipa sem árum saman hafði fiskað að vild á hafsvæðinu umhverfis landið varð að víkja og hverfa út fyrir 200 mílna mörkin, út úr efnahagslögsögu landsins. Og hafréttarsáttmálinn er einhver allra stærsti og merkasti áfangi sem náðst hefur nokkru sinni í heiminum í alþjóðasamvinnu með friðsamlegum hætti. Engan skyldi undra þó að íslenska þjóðin fylltist bjartsýni á slíkum tímamótum, við slík aldahvörf, þegar hún sá og fann framtíðardrauma sína rætast að þessu leyti, í raun og veru fyrr en nokkur hafði þorað að vona í alvöru. Nú var sú langþráða stund upp runnin að landsmenn gátu fiskað að vild, óáreittir af þegnum annarra þjóða og setið einir að auðlindum hinna gjöfulu fiskimiða umhverfis landið.

Þessi saga er öllum kunn. En von bráðar kom á daginn hin gamalkunna kalda staðreynd að það er jafnvel enn erfiðara að gæta fengins fjár en afla þess með langri og harðri baráttu. Og nú hafa íslenskir fiskimenn orðið að búa við margháttaðar takmarkanir við sjósókn og aflabrögð hin síðustu ár og eru það næsta mikil viðbrigði og lífsreynsla fyrir menn sem hafa alist upp við þá hörðu kröfu að róa til fiskjar hvern færan dag og draga sem mesta björg í bú sér og sínum til framfæris og í þágu allrar þjóðarinnar.

En auðvitað skilja menn og viðurkenna að engin auðlind er ótæmandi og alla rányrkju ber að varast. Þess vegna eru menn nú reiðubúnir til þess að sætta sig við hóflega og sanngjarna heildaryfirstjórn í þessum málum. En slík stjórnun má ekki hefta athafnafrelsi manna um of né draga úr sjálfsbjargarviðleitni þeirra og framtaki. Stjórn þarf á fiskveiðum en ekki ofstjórn.

Nú segir í athugasemdum við frv. þetta að reynslan sem fengist hafi síðustu tvö árin af kvótakerfinu svonefnda sé undirstaða frv., m.ö.o. að kvótakerfið skuli áfram lagt til grundvallar löggjöf um þessi efni á næstu árum. Vera má að margir landsmenn geti samþykkt kvótakerfið svokallaða áfram og svo er að sjá að það njóti stuðnings eða meirihlutafylgis í heildarsamtökum hagsmunaaðila í sjávarútvegi. En þar er þó um að ræða veigamiklar undantekningar. Á ég þar við m.a. hvassa gagnrýni og raunar eindregna andstöðu margra Breiðfirðinga og Vestfirðinga við kvótakerfið sem hvað eftir annað hefur komið í ljós í fundarsamþykktum og fjölmiðlum og er á allra vitorði.

Það skal sérstaklega tekið fram að hér er ekki um að ræða gaspur óábyrgra hávaðamanna, heldur gagnrýni dugmikilla sjómanna og athafnamanna sem eru þaulkunnugir sjávarútvegsmálum frá blautu barnsbeini og búa yfir mikilli þekkingu og reynslu á þessu sviði sem ekki verður dregin í efa. Það væri því næsta mikið ábyrgðarleysi að skella með öllu skollaeyrum við þeim aðvörunum og ábendingum sem þessir menn hafa sett fram hvað eftir annað af fullri einurð og drengskap.

Með leyfi hæstv. forseta ætla ég að hafa yfir tvær glefsur eða svo, sýnishorn úr blaðaviðtölum frá s.l. sumri sem gefa nokkra hugmynd um afstöðu þessara manna:

„Ólafsvík 19. júlí. Sjómenn eru æfir út í kvótakerfið og segja það vera að drepa hér allt niður. Þetta stjórntæki komi afar hart við Breiðfirðinga sem bjuggu við mögur viðmiðunarár og veiddu þá flestir hverjir nær eingöngu þorsk.“

„Grundarfirði 14. september. „Kvótamálin eru að sliga sameiginlega útgerð og fiskvinnslu. Ég mun róa að því öllum árum að kvótinn verði felldur niður, en eitthvað tekið upp í staðinn sem er mannlegt.“"

Þó að hér hafi verið tekin dæmi af ummælum Breiðfirðinga fyrst og fremst er þó hægt að nefna næg dæmi úr öðrum byggðarlögum sem ganga í svipaða átt. Þau sýna ljóslega að um þessi málefni öll eru skiptar skoðanir víða um land og sýnist þar sitt hverjum.

Að sjálfsögðu er mjög erfitt að móta meginreglur í þessum efnum í löggjöf, sem allir geti bærilega við unað, og auðvitað ekki unnt að leggja nein sérstök sjónarmið í einstökum byggðarlögum landsins þeim til grundvallar að öllu leyti. Rétt er þó og óhjákvæmilegt að hlusta á raddir og skoðanir manna og rök með og móti þeim reglum sem ætlað er að gilda um svo viðkvæm hagsmunamál og stefnumörkun í þeim til frambúðar.

Þáttur smábáta undir 10 tonnum í þessu frv. er kapítuli út af fyrir sig. Það var nokkuð rætt um þau mál í gær. Að sönnu er hér sem oftar að erfitt er að draga skarpa markalínu milli báta eftir því hvort þeir eru undir eða yfir 10 tonnum að stærð, en það hefur þó lengi tíðkast að flokka báta nokkuð niður eftir stærð og setja þá sér í hóp sem minnst eiga undir sér og háðastir eru veðri og vindum í sjósókn. Ég hygg að eigendur smábáta, hinir svokölluðu trillukarlar, séu eins og aðrir sjómenn reiðubúnir til þess að lúta ákveðnum veiðireglum og sanngjarnri heildarstjórn á fiskveiðum, en sérstaða þeirra er óneitanlega allmikil og þeir geta ekki sótt sjó í hvaða veðri sem er eins og allir vita - eða hver skyldi hafa trúað því um það leyti sem stærstu sigrar unnust í hafréttarmálum á Íslandsmiðum að ekki mundu líða nema fá ár þar til þessum mönnum væri meinað að róa á trillu sinni með handfæri eða línu í góðviðri eftir langan ógæftakafla á þeim forsendum að þeir væru með því að ganga á stofn nytjafiska um of og jafnframt á rétt annarra fiskimanna og sjósóknara?

Marga fleiri mætti nefna og það mætti spyrja hverjir hafi skaðast á kvótanum eða orðið fyrir barðinu á honum. Hv. 1. þm. Vestf. nefndi hér áðan eigendur báta frá 10 og upp í 20 tonn að stærð. Ég get vel fallist á þessa athugasemd hv. 1. þm. Vestf. og vildi raunar mælast til þess mjög eindregið að allar leiðir væru kannaðar til að rétta hlut þessara manna að nokkru.

Þessar almennu hugleiðingar og athugasemdir hefur mér þótt rétt að láta koma fram við 1. umr. málsins í þessari hv. þingdeild. Mér er fullljóst að mörg einstök atriði mætti nefna í frv. og rekja efni þess í heild, en það mun ég ekki gera að þessu sinni. Ég dreg ekki í efa að mikil vinna hefur verið lögð í undirbúning og samningu þessa frv., enda er hér um vandaverk að ræða. Ég efast heldur ekki um að frv. muni fá vandaða meðferð í sjútvn. þingsins þó að skammur tími sé raunar til stefnu.

Ég gat þess í upphafi og vitnaði þar til athugasemda við frv. að tilgangur þess væri að færa undirstöðuatriði og meginreglur um stjórn fiskveiða úr reglugerðum í löggjöf. Þetta sjónarmið er góðra gjalda vert að vissu marki. Ég tel þó að þessi löggjöf eigi að vera sem viðaminnst. Það verður aldrei hjá því komist að stjórna þessum málum að ýmsu leyti, að miklu leyti verð ég að segja, með reglugerðum og öðrum ákvörðunum og heimildum í lögum og reglugerðum. En það er ekki sama hvenær og hvernig þeim heimildum er beitt. Þar verður að viðhafa mikinn sveigjanleika og sanngirni. Löggjöf þessi á að vera stutt og helst gagnorð, gilda sem skemmst og stefna í frelsisátt. Hún verður að vera í stöðugri endurskoðun meðan hún er í gildi. Ákvæði til bráðabirgða gefur nokkra von um að svo verði, en þar segir m.a. að sjútvrn. skuli fyrir 1. nóvember 1986 láta endurskoða lög þessi og skal hafa samráð við sjútvn. Alþingis og samtök helstu hagsmunaaðila í sjávarútvegi við þá endurskoðun.

Allir landsmenn, sem hafa þekkingu, vit og vilja til þess að marka ásættanlegar heildarreglur í þessum höfuðatvinnuvegi þjóðarinnar, þurfa og verða að vinna saman að þessu marki til frambúðar svo að Íslendingar geti haldið áfram að stunda fiskveiðar af kappi með forsjá og unað glaðir við sitt hér eftir sem hingað til.