27.11.1985
Neðri deild: 21. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 999 í B-deild Alþingistíðinda. (764)

145. mál, stjórn fiskveiða

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Það er held ég við hæfi að rifja upp sögu þessa máls. Það hófst, eins og menn muna, haustið svarta 1983 þegar það gerðist að sjútvrh. tók sér alræðisvald um að úthluta fiski til landsmanna. Þá fór fram algert valdaafsal þingsins. Alþingi samþykkti ramma sem rúmaði eina setningu: Hæstv. sjútvrh. má gera hvað sem hann vill í úthlutun sjávarafla við Ísland. - Það var nefnilega trú manna að Alþingi væri alls ekki treystandi til að fjalla um þessa hluti. Það var farin sú leið að ríkisstj. tók höndum saman við hagsmunaaðila. Málið var rætt víðs vegar úti í samfélaginu og þegar best lét fékk Alþingi nokkurs konar ráðgjafar„status“ sem það hefur náðarsamlegast fengið að halda síðan þannig að í seinni útgáfum frumvarpsins hefur samviskusamlega verið tekið fram að samráð verði haft við sjútvn. Alþingis. Ætli ég mæli ekki fyrir munn allra hv. alþm.: Við þökkum náðarsamlegast að fá á þann hátt að koma nálægt þessu máli.

Það hefur líka verið býsna skemmtilegt pólitískt séð að fylgjast með viðbrögðum sjálfstæðismanna við því þegar þeir hafa ár eftir ár orðið bandingjar ráðherrans. Þetta verður held ég að teljast frábær pólitískur árangur hæstv. sjútvrh. Halldórs Ásgrímssonar. Honum hefur hvað eftir annað tekist að slá á þingflokk sjálfstæðismanna böndum. Þetta hefur farið fram þannig að þeir æmta svolítið og skræmta einhvern tíma meðan hagsmunaaðilarnir eru að fjalla um málið, viðhafa stór orð um frelsisskerðingu og að verið sé að taka fram fyrir hendurnar á mönnum og þess háttar. En þegar á hólminn er komið, þegar búið er að samþykkja málið þar sem það skiptir mestu, þ.e. hjá hagsmunasamtökunum, koma þeir í stólinn og þakka fyrir það sem þeim hefur verið rétt. Nú síðast heyrðum við í kvöld að einn hv. þm. Sjálfstfl. þakkaði náðarsamlegast fyrir að gildistími frv. hafi verið styttur úr þremur árum niður í tvö ár. Litlu verður Vöggur feginn.

Það er líka fróðlegt að rifja upp viðbrögð sömu sjálfstæðismanna haustið 1983 þegar þeir sóru og sárt við lögðu hver um annan þveran að þetta væru nauðungarviðbrögð vegna þess að fiskistofnarnir væru að hrynja og sjórinn væri svo ískaldur að það lifði ekki í honum nokkur fiskur og þetta mundi einungis gilda í ár. Aldrei meir, aldrei meir. Nú höfum við allhlýjan sjó og aldrei hefur litið björgulegar út með allt lífið þar og fiskstofnarnir fara stækkandi. Og hvað blasir við okkur? Það er verið að færa þessi mál í framtíðarbúning kvótakerfis. Við munum aldrei fara úr þessu kvótakerfi. Ég held að það sé alveg ljóst mál. Það er stórkostleg sjálfsblekking hjá Sjálfstfl. að ímynda sér að nokkurn tímann verði losað um þetta. Það verður aldrei losað um þetta vegna þess að nú er þetta einmitt orðið eins og menn eru ánægðastir með. Nú eru allir mjög ánægðir. Útgerðarmenn eru t.d. mjög ánægðir vegna þess að nú eiga þeir fisk undir koddanum sínum. Ég þekki útgerðarmann sem gengur um í janúarmánuði á ári hverju nú orðið með 3-4% heildarafla Íslands í vasanum og honum liggur ekkert á að fara að veiða. Hann á þetta úti í sjó. (OÞÞ: Og vill fá að ala þá í tvö ár núna.) Hann er auðvitað hæstánægður. Hann er laus við samkeppni. Það getur enginn tekið þetta frá honum. Hann getur haft þetta nákvæmlega eins og hann vill. Við getum ímyndað okkur hvort verslunareigendur í Reykjavík yrðu ekki ánægðir ef einn daginn kæmi kvóti, engar fleiri verslanir í Reykjavík. Ég veit um ýmsa sem yrðu býsna ánægðir. Þetta er auðvitað afskaplega þægilegt. Það er lítið sem raskar ró manna þegar þannig er búið að búa um hnútana.

Útgerðarmennirnir eru ánægðir. Hagfræðingarnir eru líka mjög ánægðir. Það hefur verið allerfitt á undanförnum árum í öllu meðaltalsbaslinu hjá þeim að þessi árans ársafli var nokkuð breytilegur og menn gátu aldrei reiknað þetta alveg út í ysta æsar vegna þess að það var aldrei að vita hvað veiddist. Þess vegna voru meðaltölin alltaf svolítilli óvissu háð. Nú er hægt að gera fín módel. Nú fá menn aflamagnið í ráðuneytinu, menn fá gæðin í Ríkismatinu og menn fá verðmætin í verðlagsráðinu. Það er hægt að reikna þetta alveg til hlítar. Engin óvissa! Þetta er pottþétt! Auðvitað vilja menn hafa það þannig. Hagfræðingarnir eru ánægðir. Þetta hentar mjög vel meðaltalsmaskínunum. Þetta útrýmir óþekktu stærðunum, eins og okkur var kennt í barnaskóla að einangra x-ið. Þetta er upplagt.

Menn höfðu af því svolitlar áhyggjur haustið 1983 að þetta væri kannske skrýtið og umdeilanlegt varðandi eignarréttinn, að einn hæstv. framsóknarráðherra fengi þannig einkaleyfi, „monopoly“ til að útdeila 70-80% af eignum þjóðarinnar á ári. Menn veltu fyrir sér hvort þeir ættu að leita að stjórnarskránni og fletta upp í henni. En menn eru flestir hættir að hafa áhyggjur af því. Þó blakti á einum hv. þm. frá Vestfjörðum um daginn þar sem það rifjaðist upp fyrir honum að kannske gæti verið athugunarefni að fá mönnum þannig vald í hendur. Það er alltaf von þegar þannig blaktir á skarinu.

Menn höfðu af því svolitlar áhyggjur líka haustið 1983 að það gæti tekið á sig einkennilegar myndir þegar eignirnar væru þannig teknar og þeim væri þannig úthlutað, en síðan væri farið að skipta á þeim, það væri farið að selja þær, það væri farið að færa þær til. Fleytur sem kannske voru varla á sjó setjandi voru skyndilega orðnar gífurlega verðmætar vegna þess að þær áttu kvóta. Menn eru hættir að hafa áhyggjur af þessu vegna þess að þetta hentar svo vel meðaltalsbaslinu. M.a.s. sjálfstæðismennirnir, þessir andans frelsingjar, þora ekki út úr þessu kerfi. Í þessum rólegheitum hafa þeir fundið náðina. Í þessu hafa þeir fundið rólegheitin. Það er ekkert sem ógnar. Það er ekkert sem á þá sækir. Nú geta menn spurt: Hvað hefur svo batnað? Menn geta velt fyrir sér, eins og hér hefur reyndar verið gert í kvöld og stutt ýmsum mjög athyglisverðum tölum, gæðum, samstillingu veiða og vinnslu, úthaldskostnaði og því allra mikilvægasta, sem er hámarksaflinn, og menn geta spurt: Hafa þarna náðst þau markmið sem menn settu sér? Það eru verulegar efasemdir um að það hafi gerst. Við höfum nýlega heyrt upplestur varðandi gæðin. Við höfum fengið upplýsingar um hvernig hefur gengið að samstilla veiðar og vinnslu. Við höfum engin gögn í höndunum sem benda til þess að þetta hafi lækkað úthaldskostnað.

Aflahámarkið fer 20-30% fram úr á ári hverju. Hverju er verið að stjórna? Eftir allt reglugerðabaslið, lagasetninguna, skýrsluhöldin og allt, hverju er þá verið að stjórna? Ég held að ástæðan fyrir því að menn hafa þó ekki farið meira en 30% fram úr settum mörkum sé að þeir höfðu ekki tíma til að veiða meira því að þeir voru alltaf að fylla út skýrslur. Það er kannske ágætt að halda sjómönnum landsins uppteknum við að fylla út plögg til ráðuneytisins þannig að þeir komist ekki á sjó.

Ef maður skoðar kerfi sem þarf að stjórna held ég að rétt sé að velta fyrir sér í fyrsta lagi: Hvernig, hvar og hvenær eru stærstu sveiflurnar, óvissurnar í þessu kerfi? Í öðru lagi: Hverjir eru stærstu áhrifavaldarnir í þessu kerfi? Ef við lítum á þetta þannig sjáum við að stærstu sveiflurnar, þegar mest hættan er á að þetta fari úr böndum, eru toppar á vetrarvertíð og sumri. Ef litið er á áhrifavaldana og borin saman stærð þeirra og áhrif spyr maður: Hvers vegna er verið að elta smábátana sem eru kannske með 9 eða 10% af þessum afla? Eigum við að beina stjórninni að öðru en þessu, beina stjórninni að stærstu áhrifavöldunum og að þeim árstímum þegar hætta er á að eitthvað fari úr skorðum?

Ég vek athygli á hugmyndum Guðjóns Kristjánssonar, forseta Farmanna- og fiskimannasambandsins. Þó þær séu kannske ekki útfærðar í lagaparagröf eru þær býsna athyglisverðar vegna þess að þar er viss tærleiki hugsunar sem ekki er í ráðuneytisplöggunum sem við erum að fjalla um hér.

Mér sýnist þessi smábátaeltingarleikur fiskveiðistjórnunarinnar, svo við tökum hann sem dæmi, líkastur því að menn settu sérstakan skatt á orf og ljá til að minnka offramleiðslu í landbúnaði. Ég get ekki séð að þetta skipti verulegu máli fyrir stofna.

Hins vegar viðurkenni ég þau rök að ef menn á annað borð gefa sér að það eigi að nota kerfi eins og hæstv. ráðh. vill nota þarf kannske að hafa þessa hemla á smábátunum til þess að mönnum finnist „einhvers réttlætis gætt“. (JBH: Það er ráðuneytisréttlæti.) Þannig er líklega þörf á smábátaeltingarleiknum til þess að fullnægja einhvers konar réttlæti innan kerfisins, en það er engin þörf á þessu til að að koma í veg fyrir ofveiði. Ég hafna þeim rökum algerlega.

Eins og ég sagði áður lítum við á útkomuna eftir allt skýrsluhaldið, refsingarnar, sviptingarnar, plöggin í þríriti og allt, og hvað gerist? Við förum verulega fram úr settum mörkum, allt að milli fjórðungs og þriðjungs fram úr settum reglum. Mér sýnist einfaldlega svo mikill breytileiki í þessu kerfi varðandi skipin og alls kyns þætti sem hafa áhrif þar á, varðandi fiskstofnana sjálfa, að þessu verði aldrei almennilega stjórnað. Þessu verður ekki stjórnað af neinni verulegri nákvæmni og þess vegna á ekki að nota kerfi sem eltir menn upp á þriðja aukastaf. Það er út í hött.

Ég get fallist á að það er nauðsynlegt að koma í veg fyrir ofveiði og eins og ég benti á áðan held ég að menn eigi að líta aftur á þetta dæmi, einangra stærstu áhrifavaldana, stærstu sveiflurnar og finna leið til að hafa þar stjórn á án þess að farið sé svo langt að menn hremmi strákana sem sitja á bryggjusporðinum og reyna að fiska á öngul. (Gripið fram í: Það eru ekki heimildir til þess.) Ég fellst þess vegna ekki á notkun þessa kerfis. Mér sýnist það ekki ná þeim markmiðum sem til er stofnað. Það eru t.d. engin merki um að það minnki svo mikið samkeppni að afli batni. Einnig sýnist mér vanta allar gildar tölulegar upplýsingar um að þetta hafi náð markmiðum og að réttlætanlegt sé að setja þetta á til tveggja ára í viðbót. Ég held að slíkar upplýsingar, sundurgreindar eins og óskað hefur verið eftir fyrr í dag, hljóti að verða að koma fram, ekki síst til þess að gera lífið bærara þeim sjálfstæðismönnum sem mér sýnist að eigi býsna erfitt með sig þessa dagana. Ég held að það verði að gefa þeim einhverja betri réttlætingu fyrir því að samþykkja þetta mál en hingað til hefur komið fram. Ég hef aldrei séð menn eiga erfiðara með sig en þingmenn Sjálfstfl. núna. Þeir kyngja hverri kennisetningunni á fætur annarri og koma hér svo eins og prestar í stól og flytja langar ræður og maður veit ekkert hvað þeir meina.