22.10.1985
Sameinað þing: 5. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 104 í B-deild Alþingistíðinda. (77)

32. mál, Tjarnarskóli

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Á þskj. 32 hef ég leyft mér að bera fram svofellda fsp. til hæstv. menntmrh. um Tjarnarskóla:

„1. Hvaða ástæður lágu til þess að menntmrn. veitti heimild til stofnunar Tjarnarskóla?

2. Telur menntmrh. rétt að ríkið stuðli að því að mismuna nemendum á grunnskólastigi með stofnun skóla af þessu tagi?

3. Hvert er framlag ríkisins, Reykjavíkurborgar og annarra aðila til reksturs Tjarnarskóla?

4. Hversu margar kennarastöður hafa verið heimilaðar af ráðuneytinu vegna Tjarnarskóla?

5. Hver eru launakjör kennara við Tjarnarskóla samanborið við laun grunnskólakennara samkvæmt kjarasamningum?"

Þetta er efni fsp. Eins og alþjóð veit var brugðið á það nýmæli á þessu ári af fyrrv. hæstv. menntmrh. að heimila stofnun svonefnds Tjarnarskóla sem rætt hefur verið um sem einkaskóla en er þó rangnefni vegna þess að þessi skóli er á framfæri ríkisins og aðeins um að ræða að þeim sem senda þangað nemendur er ætlað að bæta við sérstakri ábót til reksturs skólans. Hér er farið inn á braut sem stangast á við anda grunnskólalaga um jafnrétti nemenda til náms óháð efnahag og búsetu, stigið mjög alvarlegt skref í sambandi við félagsleg málefni í okkar landi og starfsemi skóla sérstaklega. Mér þykir fróðlegt að eiga von á að heyra svar frá hæstv. núv. menntmrh. og hvort hann ætlar að afturkalla þá heimild sem þarna var veitt eða fylgja fram þeirri stefnu sem forveri hans í starfi markaði með heimild um rekstur Tjarnarskóla.