28.11.1985
Sameinað þing: 23. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1041 í B-deild Alþingistíðinda. (788)

17. mál, fylkisstjórnir

Flm. (Guðmundur Einarsson):

Herra forseti. Ég þakka þeim sem tekið hafa til máls um þessa þáltill. Hér hafa ýmsar hugmyndir komið fram. Ég nefni t.d. hugmynd Ólafs Þ. Þórðarsonar um að kjósa í almennum kosningum fleiri af þeim embættismönnum sem koma við sögu stjórnsýslunnar á heimavettvangi, hvort sem þar er um að ræða stjóra einhverja, dómara eða aðra. Ég held að það sé mjög athyglisverð hugmynd og hef raunar lýst því einhvers staðar áður að ég telji að svo eigi að vera.

Hv. þm. Gunnar G. Schram, Ólafur Þ. Þórðarson og Hjörleifur Guttormsson tóku svona í það heila tekið undir þær almennu hugmyndir sem þessi tillaga er til kynningar á, og ég tel það gott dæmi um að þessi hugmynd, gömul og ný, á sér mjög víða fylgi, vegna þess að menn eru sem betur fer býsna margir albúnir að velta fyrir sér róttækum hugmyndum til þess að leita lausnar á alvarlegum vanda.

Ég ætla ekki að gera þetta mál mitt langt. Mig langar aðeins að víkja að ýmsu sem kom fram í máli hv. þm. Skúla Alexanderssonar. Ég held raunar að ástæðan fyrir því að sú lausn sem hv. þm. hafði helst á orði, þ.e. sameining sveitarfélaga, hefur alls ekki gengið, sé einmitt sá hrepparígur sem einmitt kemur fram í máli hv. þm. þegar hann ræðir um Hellissand. Hann minntist lítið á Ólsara í þessu sambandi, en ræddi um utanvert Snæfellsnes og Hellissand. Það eru einmitt, eigum við að segja þessi félagslegu vandamál sem hvað eftir annað hefur sýnt sig að standa í vegi fyrir því að sveitarfélögin úti um allt land sameinist í stærri heildir. Eitt af því sem gerir fylkjahugmyndina athyglisverða er að hún stýrir fram hjá þessum vanda og við skulum ekkert gera lítið úr honum. Þetta eru mjög eðlilegar mótbárur sem fólk ber í mörgum tilfellum við þegar rætt er um sameiningu sveitarfélaga. Um er að ræða sveitarfélög sem eiga sér gamla sögu og ýmislegt í sambandi við þau er fólkinu dýrmætt og það er ástæðulaust að hrófla þar við.

Það sem skiptir líka máli, hv. þm. Skúli Alexandersson, er það að sameining sveitarfélaganna leysir ekki þau vandamálin sem víðast eru, vandamál hinna dreifðu byggða, sem eru einfaldlega fjarlægðirnar. Þar sem eru stórir fámennir hreppar, þar sem eru erfiðleikar á þjónustu og slíku, þar eru það fjarlægðirnar sem ekki breytast þó að menn sameini þessi sveitarfélög. Og jafnvel þótt menn sameinuðu sveitarfélögin í stærri einingar þá stæði eftir sú staðreynd að ákveðnir málaflokkar, t.d. atvinnumál, féllu eftir sem áður ofan í milli þar sem til ákvarðana í þeim efnum þarf enn þá stærri einingar en sveitarfélögin gætu nokkurn tíma orðið. Það þarf enn þá stærri einingar þar sem menn geta í fyrsta lagi kosið um hugmyndir, menn geta kosið um fólk, um frambjóðendur, og gert þá ábyrga á lýðræðislegan hátt fyrir þeirri stefnu sem borin er fram og fyrir framkvæmd hennar. Þannig að þó ég sé alveg sammála hv. þm. um það að í mörgum tilfellum sé skynsamlegt, ef það getur orðið, að sameina sveitarfélög, þá standa enn þá eftir málaflokkar þar sem þarf enn þá meiri samstöðu, enn þá stærra stjórnvald. Og einmitt í samtökum sveitarfélaganna, eins og þau hafa verið reynd núna á undanförnum árum, kemur fram að menn gera sér grein fyrir því að það þarf stóra heild til að standa að þessum verkefnum og miklu stærri einingu en sveitarfélögin gætu nokkru sinni orðið.

Hv. þm. vék að ýmsum atriðum. Hann vék t.d. að því á hvern hátt yrði hægt að kjósa til svona fylkisstjórnar. Við getum hugsað okkur að fylkisstjórn sé samsett af sjö eða níu mönnum og það er einfaldlega borinn fram listi. Það er nú alls ekki flóknara en það. Og svo gæti jafnvel farið að hvalveiðimenn eða bændur kæmu þar mönnum að. Það er þá hin lýðræðislega niðurstaða þessarar kosningar. Ef hv. þm. Skúli Alexandersson vill ekki una slíkum niðurstöðum þá á hann náttúrlega við ýmsa mjög djúpstæða erfiðleika að etja í sambandi við skilning sinn á lýðræði.

Málið er einfaldlega þetta að það sem er aðkallandi að gera er að auka og bæta við þær leiðir sem fólk hefur til þess að koma hugmyndum sínum að og til þess að hafa áhrif á aðgerðir stjórnvalda, hvort sem það er á þeirra næsta heimavelli, þ.e. í sveitarfélaginu sjálfu, eða að það er á héraðsgrundvelli eða landsgrundvelli. Það er mjög mikilvægt.

Annað sem ég vildi segja í sambandi við sameiningu sveitarfélaga er það að mörg sveitarfélögin eru nú mjög ákjósanlegar þjónustuheildir fyrir ýmsa þá þjónustu sem þar fer fram, m.a. ýmiss konar félagslega aðstoð. Við getum nefnt sorphreinsun o.fl. þar sem sveitarfélögin eru af hentugri stærð og það væri enginn ávinningur að sameiningu. Við vitum t.d. hvað gerðist á Norðurlöndum. Ég hygg að það hafi verið í Svíþjóð. Þar var hér á árunum hafin mjög víðtæk sameining sveitarfélaga. Það sem hefur gerst síðan er að í þessum stóru sveitarfélögum sem upp voru sett er búið að koma upp embætti valddreifingarmálaráðherra. Menn eru aftur farnir að búta sig niður í minni einingar vegna þess að menn sáu að hin dæmigerðu verkefni sveitarstjórnanna eiga að vinnast í litlum einingum. Menn eiga að skipta upp þeim verkefnum sem eðlilegast er að vinna í litlum einingum á heimavelli, taka síðan verkefni millistigsins eins og amtanna eða hvað sem þau eru kölluð, sem geta verið skólamál, heilbrigðismál, samgöngumál, atvinnumál og ýmis slík, og halda þessu vel aðskildu. En það er grundvallaratriði í báðum tilfellum að að þeim sé lýðræðislega staðið, að menn kjósi um stefnur og verkefni í almennum kosningum og að það séu þannig lýðræðislega kjörnir aðilar sem standa að þessu en ekki embættismenn eins og orðið hefur í samtökum sveitarfélaga hjá okkur.

Varðandi það sem hv. þm. sagði um gengisskráningu þá má hann nú ekki láta hugfallast þó hann sjái ekki fyrir sér neina lausn á frj álsari aðferð í þeim efnum. Það eru til hugmyndir. Það er t.d. ágætlega hægt að hugsa sér framkvæmd þessa máls þannig að þeir sem gjaldeyri hafa í höndunum geti selt hann til banka, en þeir sem gjaldeyris njóta, hvort sem það eru einstaklingar eða fyrirtæki, sæki þennan gjaldeyri síðan til bankanna, þ.e. það sé skráð gengi í peningastofnunum, en þessar peningastofnanir kaupi síðan gjaldeyri á frjálsum markaði. Þannig yrði til ákveðin gengisskráning sem menn mundu náttúrlega ákveða að halda innan ákveðinna marka. Menn mundu ákveða að halda þar litlum sveiflum, svipað og gerðist erlendis, svipað og menn eru að hugsa um núna í sambandi við meðferð verðbréfa. Að það sé komið upp kauphöll fyrir verðbréf þar sem er skráð gengi verðbréfa og menn geta gengið þar inn og keypt eða selt eftir því sem þeim hentar. Það er enginn að tala um að fara að selja gjaldeyri á götuhornum. Við erum ekki að tala um að hverfa til þess ástands sem ríkti hér á stríðsárunum. Alls ekki. (Gripið fram í: Hver á gjaldeyrinn? Hver getur þetta?) Ef við hugsum okkur að svona framkvæmd væri nú, þá væru það þeir sem flytja framleiðsluna út sem hefðu gjaldeyrinn og við erum líka að tala um breyttar aðstæður sem gætu orðið í þessu sambandi, t.d. við skipulag verkalýðsfélaga. Við erum að tala um hugsanlega breytingu, sem gæti komið samfara þessu á launasamningum, þar sem frá því væri gengið tryggilega að arður fyrirtækisins kæmi alltaf fram í launum til fólksins. Þetta eru menn farnir að gera líka, hv. þm. Skúli Alexandersson. Um þetta eru til hugmyndir.

En það sem er nú kannske aðalatriðið í þessu máli er það að þessi hugmyndafræði mun aldrei komast til skila nema meiri hluti þjóðarinnar sé fylgjandi hugmyndum um valddreifingu, hugmyndum um það að menn séu ábyrgir gerða sinna, hugmyndum um það að saman fari ákvörðunarvald og fjárhagsleg ábyrgð. Þessu verður ekki komið á nema með meirihlutavilja þjóðarinnar og það þýðir að þessi hugmynd verður einungis framkvæmd í því umhverfi sem vill fá hana. Þessu verður aldrei komið þannig á að það verði rekið þvert ofan í kokið á fólki, hvorki hv. þm. skúla Alexanderssyni né öðrum. En það gæti vel farið svo að þeim sem nú eru fórnarlömb hrepparígsins fari fækkandi þannig að einhvern tíma (Gripið fram í.) við erum að tala um það sem gæti gerst í framtíðinni, að einhvern tíma yrði hérlendis það sama andrúmsloft sem hefur leyft sambærilegar breytingar erlendis, þannig að fólk og embættismenn og stjórnmálamenn taki því sem sjálfsögðum hlut að fólk fái meiru að ráða um sitt nánasta umhverfi. Um það snýst þetta mál. Og um það á þessi umræða hér að snúast, ekki það nákvæmlega um hvaða læk héraðsmörkin verði.

Umr. (atkvgr.) frestað.