28.11.1985
Sameinað þing: 23. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1044 í B-deild Alþingistíðinda. (789)

148. mál, stefnumörkun í skólamálum

Flm. (Kristín H. Tryggvadóttir):

Hæstv. forseti. Ég hef á þskj. 162 leyft mér ásamt öðrum hv. þm. Alþfl. að flytja till. til þál. um stefnumörkun í skólamálum, en till. er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela menntmrh. að skipa nú þegar níu manna nefnd til að gera tillögur um stefnumörkun í málum grunnskólans og framhaldsskólans fram til aldamóta.

Nefndin verði skipuð þannig: Samtök kennara tilnefni þrjá menn, samtök foreldra tilnefni einn, Kennaraháskóli Íslands tilnefni einn og Alþingi kjósi fjóra. Menntmrh. skipi formann nefndarinnar.

Í störfum sínum fjalli nefndin einkum um eftirtalda þætti:

Innra starf skólans.

Námsgögn og búnað skóla.

Skólasöfn.

Skólatíma.

Námsefni.

Skólahúsnæði og leikvelli.

Menntun kennara.

Réttindi til kennslu.

Tengsl við atvinnulífið.

Samstarf við heimilin.

Félagsstarf nemenda.

Skólaskipan (dreifbýli, þéttbýli).

Tengsl grunnskóla og framhaldsskóla.

Nefndin hafi víðtækt umboð og geti m.a. skipað undirnefndir til að vinna að afmörkuðum þáttum. Kostnaður við störf nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði.“

Tillaga að mestu leyti samhljóða þessari var lögð fram í sameinuðu þingi í apríl 1984, en náði þá eigi fram að ganga. Því er hún nú endurflutt hér með aðeins breyttri nefndarskipun, svo og viðbót við greinargerð.

Ég tel það mál sem hér er á dagskrá ákaflega brýnt því hver vika, hver mánuður, hvað þá hvert ár sem líður með stöðugt auknum kröfum til skólans annars vegar en skorti á menntuðum kennurum hins vegar, án þess að Alþingi fjalli um þessi mál í heild, getur gert svo mikinn skaða að ekki verði bættur í nánustu framtíð. Skólinn er jú fyrir nemendur, alla nemendur.

Nokkur dæmi um kröfur:

Stóraukin fíkniefnafræðsla, stóraukin umferðarfræðsla, stóraukin tölvufræðsla, stóraukin íslenskukennsla, stóraukin sögukennsla. Skólinn á að sjá um jafnréttisfræðslu, hann á að sjá um heimilisfræðslu, hann á að sjá um uppeldi barnanna.

En samt eiga nemendur að standa sig á samræmdum prófum í erlendum tungumálum og stærðfræði og verða við kröfu framhaldsskólans jafnt sem áður. Í engu er látið af fyrri kröfum, bara bætt ofan á.

Hvernig á að bregðast við? Hefur skólatíminn lengst? Hefur kennurum fjölgað eða hafa þeir fengið aukna aðstoð í hlutverki sínu, t.d. frá heimilunum við meira heimanám eða meiri sinningu fjölskyldunnar og yfirleitt því nauðsynlega aukna samstarfi við heimilið? Við munum ætíð þarfnast færni fólks í ákveðnum greinum, ákveðinnar grunnmenntunar og því er ekki spurning að leggja þarf áherslu á lestur, skrift og reikning, svo og að geta tjáð sig í talmáli og myndmáli. En hvaða rúnir þarf að lesa til að sjá hvers konar þjóðfélag verður hér árið 2000? Þurfum við ekki að bregðast við breytingum í skólanum eins og í fyrirtækjunum og efnahagslífi með vel menntuðu fólki og aðlögun að nýjum límum?

Börnin sem nú hefja skólagöngu sex ára gömul verða um tvítugt árið 2000 og koma þá væntanlega á vinnumarkaðinn, eitthvað af þeim a.m.k. Hvers konar þjóðfélag verður þá? Verður tæknin alls ráðandi? Hvers konar fólk viljum við að þau verði? Hvað þurfa þau að kunna? Hvaða hæfileika eða eiginleika þurfum við að rækta til að búa þau undir framtíðina? Allir finna að skólinn þarf að koma meira til móts við nemendur. bæði í menntun og uppeldi. Hann þarf að sinna þeim meira en gert er. Það sýna m.a. þessar kröfur. Nemendur finna það, foreldrar finna það og kennarar finna þetta líka. Kennarar eygja leið til að sinna öllum þessum kröfum og leitast við í samræmi við grunnskólalögin að haga störfum sínum í sem fyllstu samræmi við eðli og þarfir nemenda og stuðla að alhliða þroska, heilbrigði og menntun hvers og eins með svokölluðu sveigjanlegu skólastarfi. Tekið er tillit til einstaklingsins ekkert síður en hópsins að leitast við að haga störfum þannig að alið er á ábyrgð nemandans til að taka ákvarðanir, þar sem honum er einnig veitt hlýja og öryggi. Skólinn þarf nefnilega að keppa við ýmsa dulda uppalendur, sjónvarp, myndbönd, auglýsingar, fíkniefni. En þetta sveigjanlega starf kostar gífurlega vinnu.

Þú þarft sem kennari fjölbreytt námsgögn. Þú þarft að hafa næg verkefni við allra hæfi, bæði þá duglegu og þá seinfæru. Þú þarft að skipuleggja hvern dag mjög nákvæmlega. Þú þarft að fara yfir ólík verkefni hjá hverjum nemanda - áður voru allir 30 með sömu verkefnin. Þú þarft að skipuleggja samvinnu við aðra kennara sama bekkjar um verkefni, t.d. í listgreinum eða á skólasafni eða verkefni með kennurum í öðrum bekkjum e.t.v. í sama árgangi í stærri skólunum. Til þessa starfs þarf allt aðrar forsendur en voru í skólunum fyrir 10-15 árum. Þá lærðu allir 30 nemendurnir það sama á sama tíma og hlutverk kennarans var nánast að hlýða yfir og tala sjálfur.

Það starf sem fram fer í skólunum í anda sveigjanlegra einstaklingsbundinna vinnubragða er háð því skilyrði að kennarar, hver einstakur kennari og allir sameiginlega í hverjum skóla, séu nægilega starfslega menntaðir sem kennarar til þess að skynja og meta þroska og þarfir hvers nemanda. Þess vegna er kennarinn, kennaraleg starfshæfni hans og nærgætni, úrslitaatriði ef búa skal nemendum og kennurum manneskjulegan vinnustað í skólum. Aðhald og vinnuagi eru ávallt nauðsyn.

Gerðar eru miklar kröfur til kennarans í dag, næmleika hans og skilnings á nemanda, leikni hans við verkstjórn, skipulagningu og uppfærslu námsefnis og loks krefst námsmat og eftirlit mikillar vinnu af kennara. Hæfni hans og þar með menntun hans eru því úrslitaatriði í menntastefnu hverrar þjóðar. Þess vegna skal vanda vel menntun kennarans og gera starfskjör hans góð. Íslensk stjórnvöld hafa á undanförnum áratugum og allt fram á þennan dag vanrækt og vanmetið þátt kennarans við mótun menntastefnu. Nemandinn temur sér ekki sjálfstæði í hugsun og vinnubrögðum nema kennara hans séu þeir starfshættir eðlilegir. Og lítill skilningur á þörf menntunar yfirleitt í þetta starf kemur fram, eins og nýjustu tölur sem hæstv. menntmrh. gaf upp hér fyrir hálfum mánuði sýna, í fjölda „réttindalausra kennara“ sem eru komnir yfir 700 í grunnskólum.

Með þeim breyttu kennsluháttum sem ég hef lýst er skólasafnið grundvallaratriði í starfi grunnskólans. Það þjónar bæði nemendum og kennurum, stuðlar að fjölbreyttara námi og sjálfstæðum vinnubrögðum einstaklingsins, svo og hópvinnu nemenda og möguleikum þeirra til að miðla öðrum af sinni þekkingu. En þegar grunnskólalögin voru sett var enn lítill skilningur á skólasöfnum hér, enda segja þau lítið sem ekkert um starfshætti skólasafna, aðeins að þau eigi að vera eitt af meginhjálpartækjum í skólastarfinu. En skyldi hið daglega líf í skólanum endurspegla þá mynd af skólasafninu að það sé miðstöðin sem leitað er til í kennslunni til að kenna nemendum að afla sér þekkingar, eins og segir í 2. gr. grunnskólalaga? Misskilningur virðist ríkja á milli skólamanna og yfirvalda um það hvað skólasafn sé í raun og veru og er hér um að ræða einn mesta muninn í aðstöðu og búnaði í skólum á landinu. Í könnun, sem gerð var fyrir fjórum árum síðan, kom í ljós að af 168 skólum, sem svöruðu fyrirspurn um bókakost skóla, voru 42 skólar með 0-2 bækur á nemanda. Í Reykjavík og næsta nágrenni er þessu vissulega á allt annan veg farið. En ekki dugar það fyrir landsbyggðina.

Við skulum hafa hugfast að skóli getur haft mikil áhrif á búsetu fólks eins og raunar kom hér fram áðan. Hvernig er komið fyrir bókaþjóðinni? Ætlum við að loka nemendum leiðina að því að verða bókavinir, að bókin verði ómissandi þáttur í námi og tómstundum? Þessi mikilvægi þáttur í skólastarfinu hefur ekki hlotið eðlilegan sess í fjármagni og starfsliði. Á meðan skólar út um allt land tölvuvæðast í stórum stíl eru ekki til peningar til bókakaupa inn á skólasafn. Í mörgum skólum hafa verið keyptar tölvur í tuga tali á meðan ekki er til nokkur fræðibók sem gæti komið að gagni við námið og yngri börn en ellefu ára eiga ekki rétt á aðgangi að skólasafni.

Mörg atriði enn væri vert að benda á, en ég ætla aðeins að koma hér að einu enn. Það er uppeldislegi þátturinn sem ekki er sá sísti í starfi skólans í dag. Samstarf við foreldra og heimili getur haft úrslitaáhrif á nám barnsins. En hvar og hvernig á að hlúa að því samstarfi? Það kom fram á dagskrá um heilsugæslu í skólum í kennslumiðstöð nú nýlega, þ.e. 9. nóvember, að skólinn er eini fasti punkturinn í lífi mjög margra fjölskyldna í þéttbýlinu. Þó er hann aðeins starfandi frá kl. 8-4 fimm daga vikunnar í 8-9 mánuði á ári. Það virðist því brýnt að auka félagsaðstöðu nemenda í skólanum því ná þarf til þeirra nemenda sem eru í mestri hættu að verða fórnarlömb ýmissa slæmra áhrifavalda. Bara öryggi, hlýja og væntumþykja foreldra og kennara, sem verður víst seint bundin í lögum, hjálpar börnum til að öðlast það sjálfstraust sem nægir til að segja nei við slæmum tilboðum, og ef skólinn á að veita og veitir þetta öryggi þarf hann að geta annast unglingana lengri tíma á dag.

Hvernig á góður skóli að vera? Hvernig á góður kennari að vera? Þetta eru spurningar sem oft hefur verið spurt og reynt að leita svara við og verður vonandi enn um langan tíma. Dr. Wolfgang Edelstem sagði í erindi sínu um íslenska skólastefnu þann 31. ágúst s.l. að aldrei í sögunni hafi verið jafnmikil þörf fyrir menntun fólks til að lifa af. Og menntun skilgreinir hann sem undirbúning undir lífið í heimi sem maðurinn hefur að mestu leyti búið sér til sjálfur. Án menntunar sé maðurinn vanbúinn til að lifa af. Góður skóli hlýtur því að vera staður þar sem nemendur menntast. Góður kennari er svo sá sem kemur menntuninni til skila, sem tekst að vekja áhuga nemenda sinna allra á þeim verkefnum sem þeir eru að vinna að, og að sá áhugi vari þótt út úr skólastofnunni sé komið, þannig að barnið afli þekkingarinnar sjálft, læri að læra. Til þess þarf vel menntaðan kennara sem er vel undirbúinn að takast á við dagleg verkefni.

Það er því miður oft mikill misskilningur, ekki síst hjá ráðamönnum fjármagns, að kennarar séu eingöngu að hugsa um sjálfa sig þegar þeir eru að berjast fyrir bættri aðstöðu og bættum kjörum. Það eru nefnilega nemendurnir sem allt snýst um, skólinn er fyrir þá. Það vill gleymast að ef nemendurnir hafa ekki góða skóla, góðan vinnustað og góða kennara geta þeir tæplega orðið góðir, jákvæðir nemendur í sífelldri þekkingarleit.

Sumir spyrja: Hófum við nokkuð til sparað? Sjáið byggingarnar. Hvað um sálfræðiþjónustuna, akstur og heimavistir? En það dugar ekki að veita eingöngu meira fjármagni í skólann. Það þarf líka að marka stefnu. Hún er ekki sjálfvirk.

Ég ætla, hæstv. forseti, ekki að hafa þessi orð fleiri. Ég legg til að að fyrri umræðu lokinni verði þessari tillögu vísað til hv. allshn.