22.10.1985
Sameinað þing: 5. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 106 í B-deild Alþingistíðinda. (79)

32. mál, Tjarnarskóli

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Það fór svo sem mig vænti að fróðlegar voru þær upplýsingar sem fram komu hjá hæstv. menntmrh. þótt ekki svaraði hann því, sem ég beindi til hans hér, hvort hann hygðist standa að rekstri þessa skóla áfram eins og forveri hans heimilaði. Hér kemur það fram, sem mig raunar grunaði, að um er að ræða algeran forréttindaskóla þar sem Sjálfstfl. í menntmrn. og hjá Reykjavíkurborg skapar algerlega áður óþekkt skilyrði í sambandi við grunnskólahald, ríkið með því að greiða öll föst laun kennara við skólann, þrjár fullar kennarastöður, og Reykjavíkurborg með fríu húsnæði, og síðan spyr ráðherrann: Er verið að innleiða mismunun? Er nokkur vissa fyrir því að þetta verði betri skóli en aðrir skólar?

Sem réttlæting og svar við 1. lið fsp. minnar um ástæður fyrir þessu er vísað til áætlunar skólans um starfsemi hans og sérstaklega að því er varðar virkari tengsl við atvinnulífið. Hvaða grunnskólar ætli það séu ekki sem kysu að koma á virkari tengslum við atvinnulífið en þeim er gert kleift með fjárframlögum og öðrum aðbúnaði af ríkisins hálfu? Og hver er sú ábót sem aðstandendum er ætlað að greiða með barni hverju? Það eru 28 þús. kr. á ári, upplýsti ráðherrann. Ef farið væri með málefni barna almennt á grunnskólastigi með sama hætti, og nemendafjöldinn er um 37 þús., þá er það ekki langt frá því að vera um 1 milljarður kr. sem kæmi inn í skólakerfið sérstaklega í gegnum slík viðbótargjöld, slík framlög af hálfu foreldra.

Nei, hér er verið að innleiða frjálshyggjuna, lögmál markaðarins, inn á undirstöðufræðslu í landinu og það er það alvarlega við þetta mál.

Ég vil, herra forseti, að endingu segja þetta: Þetta er ekki síðasta orð mitt í þessu máli og ég vænti að það verði ekki síðasta orð þingsins gagnvart þessu máli. Ég tel nauðsynlegt að það verði farið vandlega ofan í saumana á því skrefi sem þarna er tekið, hvort það samrýmist grunnskólalögum í raun eins og andi þeirra er og hvernig staðið er að rekstri þessa skóla í einstökum atriðum.