02.12.1985
Efri deild: 20. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1053 í B-deild Alþingistíðinda. (792)

117. mál, stjórnarskipunarlög

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Nokkur tími er nú liðinn síðan frv. þetta var síðast á dagskrá og fyrir því var mælt, en það gerði 1. flm., hv. 3. þm. Norðurl. v. Nú er þetta frv. svo sem ekki nýtt hér á borðum. Ég hygg að það sé býsna langt síðan það var fyrst flutt, kannske komið á annan áratug eða meira. En hér er auðvitað fjallað um stórmál, breytingu á stjórnarskrá íslenska lýðveldisins í þá veru að við bætist þrjár málsgreinar um að öll verðmæti í sjó og á sjávarbotni innan efnahagslögsögu, almenningar, afréttir og önnur óbyggð lönd utan heimalanda teljist sameign þjóðarinnar allrar, einnig námur í jörðu, orka í rennandi vatni og jarðhiti fyrir neðan 100 m dýpi. Þá er ákvæði um að tryggja landsmönnum rétt til eðlilegrar umgengni og útivistar í landinu o. fl.

Þetta mál eða mál svipuð þessu hefur borið á góma á Alþingi í ýmsum öðrum myndum. Ég minni á að fyrir þinginu liggja núna tvö frv. sem þm. Alþfl. hafa flutt, annars vegar um land í þjóðareign og hins vegar um eignarrétt á jarðvarma neðan við ákveðið dýpi, sem taka til sömu hluta, og það eru ekki heldur ný mál vegna þess að þm. Alþfl. hafa flutt þau mál á hinu háa Alþingi árum og ég leyfi mér að setja jafnvel áratugum saman, bæði í formi þáltill. um eignarráð þjóðarinnar á landinu, gögnum þess og gæðum, í formi lagafrv. um eignarráðin á landinu og einnig varðandi jarðhitann.

Því er hins vegar ekki að fagna að þessi frv. okkar Alþýðuflokksmanna hafi notið sérstaks stuðnings annarra flokka nema. þá með undantekningum. Alþýðubandalagsmenn hafa t.d. ekki sýnt þeim málum sérstakan stuðning þegar við höfum flutt þau.

Ég minnist þess að eitt ákvæði þessa frv. hér, um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins, tekur til eignarnáms á landi og segir þar m.a.: „skal almennt ekki taka tillit til verðhækkunar sem stafar af uppbyggingu þéttbýlissvæða í næsta nágrenni, opinberum framkvæmdum og öðrum ytri aðstæðum.“ Við höfum flutt ár eftir ár Alþýðuflokksmenn frv. til laga um breytingu á lögum um framkvæmd eignarnáms. Því hefur jafnan verið vísað til nefndar og það hefur verið sent Sambandi ísl. sveitarfélaga til umsagnar. Það hefur fengið mjög jákvæðar umsagnir, en það hefur aldrei fengist afgreitt. Og við höfum ekki orðið varir við að við hefðum sérstakan stuðning af öðrum flokkum í því máli.

Í öðru lagi hefur hugmyndum okkar um land í þjóðareign, sem falla að mjög mörgu leyti saman við efni þessarar till., verið afar illa tekið hér af fulltrúum landeigenda. Þetta eru nánast frv. hinna landlausu. Hæstv. núverandi iðnrh. hefur kallað frv. í þessa veru ógrímubúinn kommúnisma, hreinan kommúnisma og fleiri afar stór orð hefur hann haft um það. Fulltrúar landeigenda, einkum úr hópi bænda í báðum framsóknarflokkum þessa lands, hafa lagst mjög hatrammlega gegn þessu máli og haldið uppi löngu málþófi um það. Ég minnist þess líka að hv. þm. Alþb. höfðu þau rök uppi hér, sem voru auðvitað hreinn og klár útúrsnúningur en rök sem þeir beittu árum saman, að með þessu ætti að svipta bændur bújörðum sínum. Ekkert slíkt var til umræðu, ekkert slíkt var nefnt, ekkert slíkt kom til tals. Það datt engum heilvita manni í hug. Hins vegar eru til fjölmargir bændur sem telja það ekki skipta sköpum eða neinu höfuðmáli hver eigi þá landareign sem þeir búa á svo lengi sem þeir fái að nýta hana. Þeir bændur eru til sem eru þessarar skoðunar og þá hef ég hitt fleiri en einn og fleiri en tvo.

Hv. 3. þm. Norðurl. v. hefur nú gengið úr salnum. Ég ætlaði að beina til hans nokkrum spurningum. Vonandi kemur hann í salinn aftur.

Það er orðið mjög brýnt að setja reglur um eignarrétt á landinu utan hefðbundinna heimalanda. Það er orðið mjög brýnt og hefði auðvitað átt að vera búið að gera fyrir löngu. Auðvitað gengur það gegn réttlætisvitund allra manna að einstakir jarðeigendur skuli getað helgað sér landsvæði, sem skipta kannske þúsundum ferkílómetra, sem þeir hafa engar beinar eignarheimildir að.

En það eru ákvæði í þessu frv. sem er ástæða til að spyrja um. Það segir hér: „Öll verðmæti í sjó og á sjávarbotni innan efnahagslögsögu, svo og almenningar, afréttir og önnur óbyggð lönd utan heimalanda, teljast sameign þjóðarinnar allrar, einnig námur í jörðu, orka í rennandi vatni og jarðhiti fyrir neðan 100 m dýpi.“

Það kann að orka tvímælis með þær námur sem hér skipta máli, t.d. í sambandi við malarnám og byggingarefni, hvort það er ævinlega á hreinu og skýrt hver eigi og hver megi með fara, og sömuleiðis orku í rennandi vatni. Það er ekkert skilgreint. Eftir orðanna hljóðan í frv. er öll orka í rennandi vatni sameign þjóðarinnar.

Ég geri ekki ráð fyrir, herra forseti, að þetta frv. í formi breytingar á stjórnarskrá verði samþykkt á þessu þingi. Ég held að það sé miklu vænna til árangurs á þessu sviði sem stendur að samþykkja þau frv. sem fyrir liggja frá Alþfl. og fjalla ekki um breytingar á stjórnarskránni. Að þeim frv. samþykktum væri eðlilegt að beita sér fyrir þessari breytingu. Ég held að það sé eðlilegri framgangsmáti að byrja á því að samþykkja þau frv. Ég get tekið undir þann anda og þá meginhugsun sem er í þessu, enda geri ég ekki ráð fyrir að þá tvo flokka, sem einkum hafa flutt þetta mál hér á þingi, greini á í höfuðatriðum. Það væri held ég vel athugandi að leita leiða til þess hvort menn geti ekki orðið sammála um þau meginsjónarmið sem hér eru sett fram í stað þess að þegar við höfum flutt okkar frv. hefur Alþb. ævinlega fundið þeim allt til foráttu. Við höfum líka sett ýmislegt út á þeirra frv. og ekki fengið stuðning við okkar mál úr þeirra herbúðum, því miður, heldur fyrst og fremst útúrsnúninga og ekki mjög háreistan málflutning.

Ég tek undir þau meginatriði sem fram koma í þessu frv. og lýsi stuðningi við þau, en efasemdum um að þetta sé rétta leiðin í upphafi til að vinna þessu máli fylgi og framgang. Ég held að menn ættu að íhuga að reyna að ná samkomulagi um lagafrv. sem liggja hér fyrir og stefna að nákvæmlega sama markmiði.