22.10.1985
Sameinað þing: 5. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 106 í B-deild Alþingistíðinda. (80)

33. mál, kennarastöður

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Á þskj. 33 ber ég fram svofellda fsp. til hæstv. menntmrh. um ráðningu í kennarastöður og um starfsréttindi kennara:

„1. Hversu margir réttindalausir menn hafa verið ráðnir í kennarastöður í grunnskólum á nýbyrjuðu skólaári á landinu öllu, sundurliðað eftir fræðsluumdæmum?

2. Hversu margir réttindalausir starfsmenn voru ráðnir í fyrsta sinn að grunnskólum frá byrjun þessa skólaárs?

3. Hvaða ráðstafanir hyggst menntmrn. gera til að greiða fyrir því að eingöngu kennarar með full réttindi ráðist til starfa í skólum landsins?

4. Hvað líður undirbúningi á vegum ráðuneytisins að frv. til l. um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum kennara?"

Varðandi 1. og 2. lið þessarar fsp. vil ég bíða eftir svörum frá hæstv. ráðherra, en ég minni á það að fyrir ári lágu fyrir þingflokkum óskir frá kennarasamtökunum um úrbætur í þeirra málum. Það var í fyrsta lagi varðandi endurmat á kennarastarfinu og bætt launakjör, það var í öðru lagi um lögverndun á starfsheiti kennara þannig að tryggt væri að starfsréttindi þeirra væru virt og það var í þriðja lagi um sjálfstæðan samnings- og verkfallsrétt fyrir kennara í Kennarasambandi Íslands.

Ég bar fram fyrir rétt tæpu ári, 24. okt., ásamt tveimur öðrum þm. frv. til l. um lögverndun á starfsheiti kennara. Því frv. var vísað til ríkisstj. s.l. vor og hæstv. ráðh. greindi áðan frá sinni vitneskju um þetta efni. Ég vil bæta við: Næstsíðasti fundur í þeirri nefnd sem menntmrh. skipaði 24. okt. 1984 var haldinn 22. febr. 1985. Síðasti fundur nefndarinnar sem haldinn hefur verið var haldinn 18. júní 1985. Þær tillögur sem ráðherrann nefndi hér áðan í svari við fsp. hv. þm. Guðrúnar Agnarsdóttur og þau drög sem þar voru nefnd lágu fyrir nefndinni á fundi hennar 22. febr. 1985.