02.12.1985
Neðri deild: 22. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1070 í B-deild Alþingistíðinda. (801)

151. mál, geislavarnir

Heilbr.- og trmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Á árinu 1982 var þess farið á leit við Sigurð M. Magnússon, þáv. forstöðumann Geislavarna ríkisins og núv. forstöðumann geislavarnadeildar Hollustuverndar ríkisins, að hann gerði tillögur að nýrri löggjöf um öryggisráðstafanir gegn jónandi geislun frá geislavirkum efnum eða geislatækjum en gildandi lög eru frá árinu 1962. Síðan þá hafa breytingar orðið örar á þessu sviði, ekki síst eftir aukna notkun annars konar geisla en jónandi geisla en þeir geislar hafa verið nefndir, eins og að líkum Iætur, ekki-jónandi geislar. Sem dæmi um slíka geisla má nefna þá er fylgja notkun sólarlampa og örbylgjuofna en notkun þessara tækja hefur stóraukist á undanförnum árum eins og öllum er kunnugt. Enn fremur hefur mjög fjölgað tækjum er framleiða jónandi geisla, ekki síst við ýmiss konar styrktarmælingar á mannvirkjum, en þar er um að ræða svonefnd nifteindatæki sem gefa frá sér miklu meiri geisla en áður þekktust. Er því fyllsta þörf á aukinn aðgát og auknu eftirliti á þessu sviði enda víst að geislavirk tæki eiga í auknum mæli eftir að ryðja sér til rúms hér á landi. Þótt gildandi lög verði varla talin gömul í árum talið fer samt ekki á milli mála að þau eru á margan hátt orðin úrelt ef sérstaklega er litið til þeirra þátta sem þau fjalla um og gera þau frábrugðin öðrum lögum. Því er brýnt að endurskoða þau í heild. Ég sé ekki ástæðu til þess að fara mörgum orðum um sjálft þetta frv. sem hér liggur fyrir, en því fylgja mjög skilmerkilegar athugasemdir, frv. er samið í ráðuneytinu að höfðu samráði við forstöðumann deildarinnar, Sigurð M. Magnússon. Eigi að síður vil ég drepa sérstaklega á eitt atriði en það snertir framkvæmd geislavarnaeftirlitsins.

Með gildistöku laga nr. 50 frá 1981, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, voru Geislavarnir ríkisins lagðar niður sem sérstök stofnun og mengunarvarnadeild Hollustuverndar ríkisins falin verkefni stofnunarinnar. Þetta reyndist misráðið eins og fljótlega kom í ljós. Þetta leiddi til lagabreytinga vorið 1984 þar sem kveðið var á um að stofnunin skyldi falin sérstakri deild, einni af fjórum deildum, en þetta frv. gengur feti lengra. Hér er lagt til að geislavarnir verði í höndum sérstakrar stofnunar enda er starfsemin að verulegu leyti frábrugðin annarri starfsemi Hollustuverndar ríkisins eins og raunar glöggt má sjá í athugasemdum með þessu frv. Það eru annars konar rannsóknir sem þar fara fram og fleira er ólíkt þannig að mjög örðugt er að koma við samnýtingu á ýmiss konar aðstöðu fyrir þessa starfsemi og aðra á vegum Hollustuverndar.

Eitt veigamesta atriðið sem greinir þarna á milli snertir sjálfa eftirlitsstarfsemina. Hollustuvernd ríkisins er að lögum ekki ætlað frumeftirlit, eða það sem kallað hefur verið beint eftirlit, í upphafi starfa nema í undantekningartilvikum. Heilbrigðiseftirlitið er í höndum sveitarfélaganna á þeirra kostnað og ábyrgð undir yfirumsjón og samhæfingu Hollustuverndar ríkisins. Geislavarnaeftirlitið er hins vegar í höndum Geislavarna Hollustuverndar ríkisins og að verulegu leyti kostað af sértekjum, þ.e. eftirlitsgjöldum sem lögð eru á eftirlitsskylda starfsemi. Þetta eftirlit, sem er mjög sérhæft og krefst sérkunnáttu, mun um ófyrirséða framtíð vera í höndum stofnunar sem er aðgreind frá öðrum stofnunum og óraunhæft að ætla að heilbrigðiseftirlit sveitarfélaganna geti annast það eftirlit.

Með vísun til þess sem ég hef sagt tel ég ekki ástæðu til að hafa þessa starfsemi innan Hollustuverndar ríkisins og legg þess vegna til að Geislavarnir ríkisins verði endurvaktar sem sérstök stofnun. Það skiptir nokkru máli ef unnt væri að afgreiða þetta mál fljótlega eða fyrir jólahlé þingsins. Það er vegna þess að líklegt er að fyrir dyrum standi að Hollustuvernd ríkisins fari í nýtt húsnæði. Það er ekki sjálfsagður hlutur að Geislavarnir séu endilega í sama húsnæði. Þess vegna getur verið hagræði að því að hafa lokið við að afgreiða þetta mál áður en að þeim húsnæðisskiptum kemur.

Ég legg til að frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. heilbr.- og trn. og leyfi mér að vonast til þess að það takist að afgreiða þetta mál nú á þessu ári, þannig að starfsemi í sjálfstæðri stofnun geti hafist á nýju fjárlagaári. (Forseti: Ef ekki kveðja sér fleiri hljóðs þá er umræðu lokið - hæstv. ráðherra tekur aftur til máls. ) Ja, ég veit ekki hvort ég á að kveðja mér hljóðs um þingsköp en það er nú eiginlega um efnislegt atriði. Ég veit að ég verð krafin um greinargerð frá Fjárlaga- og hagsýslustofnun sem auðvitað á að fylgja frv. Ég vil taka það fram að hún fylgir og mun verða lögð í hendur nefndarinnar, en kostnaður af frv. er enginn, það er ekki nein ný starfsemi sem upp verður tekin í þessu sambandi. Kostnaðurinn verður ef til vill launaflokkshækkun fyrir einn eða tvo menn sem getur auðvitað gerst alveg að óbreyttu ástandi.

Umr. (atkvgr.) frestað.