03.12.1985
Sameinað þing: 24. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1079 í B-deild Alþingistíðinda. (804)

112. mál, kennsla í útvegsfræðum við Háskóla Íslands

Fyrirspyrjandi (Guðrún Agnarsdóttir):

Herra forseti. Hinn 19. maí 1981 samþykkti Alþingi þáltill. um að fela menntmrh. að skipa nefnd sem undirbúi og skipuleggi kennslu í útvegsfræðum við Háskóla Íslands. Menntmrh. skipaði nefnd þriggja manna þann 16. apríl 1982 og skilaði hún áliti og grg. um málið í nóvember 1983. Nefndin varð sammála um að óraunhæft væri á þessu stigi málsins að hefja sérnám í sjávarútvegsfræðum sem yrði sameiginlegt fyrir alla. Hins vegar lagði hún til að athuguðu máli að kjörsviði í sjávarútvegsfræðum sem svaraði einu ári verði bætt við þriggja ára grunnnám í viðskiptafræði, vélaverkfræði og rafmagnsverkfræði.

Þörf okkar Íslendinga fyrir samræmt og skipulegt nám á sviði sjávarútvegs og fiskvinnslu er orðin afar brýn. Okkur er það lífsnauðsyn að geta rekið hér útgerðarfyrirtæki sem bera sig og ekki síður að bjóða til sölu úrvalshráefni og unna vöru. Til þess að svo megi verða á tímum harðnandi samkeppni erlendis er okkur nauðsyn að búa þannig að sjávarútvegi okkar og fiskvinnslu, bæði hvað varðar menntun starfsfólks og laun, að þangað leiti áfram úrvalsfólk, en ekki síður að það uni við störf sín.

Til að kanna hug og fyrirætlanir hæstv. menntmrh. í þessum efnum hef ég leyft mér að bera fram svohljóðandi fsp. á þskj. 123:

„Hyggst menntmrh. beita sér fyrir því að kennsla í útvegsfræðum verði hafin við Háskóla Íslands á þessu eða næsta ári?"