03.12.1985
Sameinað þing: 24. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1082 í B-deild Alþingistíðinda. (809)

138. mál, aðgangur skóla að náms- og kennslugögnum

Fyrirspyrjandi (Guðrún Agnarsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. svör hans. Það hefur greinilega lítið skeð í málinu enn meðan beðið er eftir svörum. Ég vil hvetja hæstv. ráðherra að ítreka beiðni um svör frá þeim sem þegar hefur verið skrifað. Málið er mjög brýnt. Þetta er eitt af þeim mörgu atriðum sem vantar til þess að leiðrétta það misrétti sem ríkir milli dreifbýlis og þéttbýlis. Kennaramálin eru önnur hlið þess sama máls.

Ég vil vekja athygli hæstv. ráðherra á samþykktum sem gerðar hafa verið á fulltrúaráðsþingi kennarasamtakanna, a.m.k. árið 1984 og jafnvel fyrr. sömuleiðis áskorunum frá fræðslustjóra Austurlandsumdæmis sem hefur á prjónunum ýmsar tillögur um að koma slíkri kennslugagnamiðstöð í framkvæmd og ég vil skora á ráðherra að láta þetta mál ekki dragast úr hömlu vegna þess að málum er þannig háttað á landsbyggðinni að þau þola enga bið.