22.10.1985
Sameinað þing: 5. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 107 í B-deild Alþingistíðinda. (81)

33. mál, kennarastöður

Menntmrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Ég tók það fram að þau frumvarpsdrög sem fyrir lægju og bárust mér í hendur í gær gætu ekki orðið til umræðu hér og nú af minni hálfu. Ég var ekki þar með að halda því fram að þau væru eitthvert leyndarmálsplagg.

En hér er svar við fsp. hv. 5. þm. Austurl. á þskj. 33. 1. liðurinn er um fjölda réttindalausra manna sem ráðnir hafa verið í kennarastöður í grunnskólum á nýbyrjuðu skólaári á landinu öllu, sundurliðað eftir fræðsluumdæmum. Svar: Reykjavíkurumdæmi 13 réttindalausir kennarar, Reykjanesumdæmi 61, Vesturlandsumdæmi 55, Vestfjarðaumdæmi 61, Norðurlandsumdæmi vestra 51, Norðurlandsumdæmi eystra 80, Austurlandsumdæmi 71 og Suðurlandsumdæmi 49. Samtals 441 réttindalaus kennari.

2. liður fsp. er um hversu margir réttindalausir starfsmenn hafi verið ráðnir í fyrsta sinn að grunnskólum frá byrjun þessa skólaárs. Svar: Í byrjun þessa skólaárs voru 156 réttindalausir kennarar ráðnir í fyrsta sinn að grunnskólum landsins.

3. liður fsp. hv. þm. er: „Hvaða ráðstafanir hyggst menntmrn. gera til að greiða fyrir því að eingöngu kennarar með full réttindi ráðist til starfa í skólum landsins?" Þetta er viðamikil og vandasöm spurning sem ég er ekki í færum um að svara. En maður gæti látið sér detta í hug að það væri í fyrsta lagi að efla kennaramenntun í landinu, Kennaraháskólann, en einnig og ekki síður skyldi maður halda að efling kjara og kaups kennarastéttarinnar kynni að verða til þess að þetta þættu eftirsóknarverð störf.

Ég ætla ekki að leggja út af þessu nú með öðrum hætti eða telja fram fleiri ástæður sem kynnu að efla það að sem flestir kennarar væru með full réttindi. Það kemur líka við það mál sem kom fyrr til umræðu hér sem svar við fsp. hv. 3. landsk. þm. og ég vísa til vegna 4. liðar þessarar fsp.