03.12.1985
Sameinað þing: 24. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1082 í B-deild Alþingistíðinda. (810)

137. mál, úrsögn Íslands úr alþjóðahvalveiðiráðinu

Fyrirspyrjandi (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Ég hef á þskj. 151 leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. sjútvrh. þess efnis hvort íslenska ríkisstjórnin hafi hugað að þeim möguleika að Ísland segi sig úr Alþjóðahvalveiðiráðinu. Alþjóðahvalveiðiráðíð er eins og allir vita orðið ein allsherjarskrípasamkunda og hefur raunar lengi verið þar sem menn geta næstum því keypt sér aðgöngumiða og atkvæðisrétt eins og inn á hverja aðra leiksýningu.

En tilefni þessarar fsp. er fyrst og fremst það að í norska fiskimálablaðinu Fiskaren birtist þann 12. nóv. s.l. stutt frétt sem í lauslegri og frjálslegri þýðingu hljóðar svo, með leyfi forseta:

"„Af Íslands hálfu erum við afar óánægðir með Alþjóðahvalveiðiráðið. Hingað til höfum við samt haft þá afstöðu að við munum ekki segja okkur úr ráðinu, en ég held að við hér á landi mundum vera ákaflega fúsir til að ræða önnur stjórnunarform," segir ráðuneytisstjórinn í íslenska sjávarútvegsráðuneytinu, Árni Kolbeinsson.

Tilefni þessa er að Norges Fiskarlag hefur beint því til norskra yfirvalda að taka frumkvæði með tilliti til þess að komið yrði á fót slíkri stjórnunarstofnun sem gæti haft hönd í bagga með nýtingu hvalastofna á Norður-Atlantshafi. „Eins og Alþjóðahvalveiðiráðið starfar í dag er það algjörlega ófullnægjandi“, segir ráðuneytisstjóri íslenska sjávarútvegsráðuneytisins.“

Mér leikur því hugur á að vita í framhaldi af þessari frétt hvort verið sé að huga að þeim málum að við segjum okkur úr þessari skrípasamkomu og eigum þátt í því og frumkvæði ásamt öðrum að koma hér á einhvers konar öðru stjórnunarfyrirkomulagi sem a.m.k. gæti þá verið valkostur andspænis Alþjóðahvalveiðiráðinu.