03.12.1985
Sameinað þing: 24. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1088 í B-deild Alþingistíðinda. (820)

139. mál, ákvarðanir um hollenskt herlið á Keflavíkurflugvelli

Fyrirspyrjandi (Ólafur Ragnar Grímsson):

Ég þakka hæstv. forseta fyrir að fá að gera örstutta athugasemd.

Það er mikill misskilningur hjá hæstv. utanrrh. að hér sé um látalæti að ræða. Alþingi er hins vegar hinn formlega rétti vettvangur til að spyrja um þetta mál og fjalla um það. Fsp. um þetta atriði er lögð fram á þinginu u.þ.b. mánuði eftir að það kemur saman. Þannig er það algjörlega út í hött hjá hæstv. utanrrh. að gera sér mat úr því að í fjölmiðlum eða annars staðar hafi ekki verið fjallað nægilega vel um þetta mál. Hæstv. utanrrh. er ábyrgur fyrir Alþingi. Alþingi er rétti vettvangurinn til að fá fram skýr svör við þessu efnisatriði, einkum og sér í lagi eftir að það kom í ljós við nánari könnun að utanrmn. hafði ekki fjallað um þetta mál á sínum fundum sem ráðherranum hefði þó borið skylda til að láta gera. Væntanlega er ekki mikið um það að ráðherra fjalli um svo veigamikil mál á rölti með nefndinni um svæði sem formlega séð eru á valdi Bandaríkjanna. Það er einnig rétt að undirstrika, eins og kom fram í seinna svari hæstv. ráðherra, að ríkisstj. fjallaði formlega ekki um málið eftir að niðurstöður viðræðna eða formleg beiðni höfðu borist.